Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Á hverju bandarísku heimili eru nú að meðaltali fleiri sjónvörp en einstaklingar“ — það er að segja 2,73 sjónvörp á móti 2,55 einstaklingum. „Á helmingi bandarískra heimila eru þrjú eða fleiri sjónvörp.“ — ASSOCIATED PRESS, BANDARÍKJUNUM.

◼ Í réttarsölum í Suður-Afríku eru 82 börn dæmd á hverjum degi fyrir að „nauðga öðrum börnum eða áreita þau á óviðeigandi hátt“. Samkvæmt rannsókn nokkurri segist stór hluti sakborninganna hafa verið að herma eftir einhverju „sem þeir sáu í sjónvarpinu“. — THE STAR, SUÐUR-AFRÍKU.

Ónógur svefn dregur úr afköstum

Svefnvenjur Spánverja gera þá afkastalitla. Læknirinn Eduard Estivill rekur meðferðarheimili í Barcelóna fyrir fólk með svefntruflanir. Hann segir að Spánverjar vakni fyrr en aðrir Evrópubúar, vinni lengri vinnudag, borði kvöldmat seinna og sofi að meðaltali 40 mínútum skemur. En ónógur svefn getur til dæmis valdið pirringi, minnisleysi, áhyggjum og þunglyndi. Estivill segir því að „allt fagfólk sem vinni störf sem krefjist rökhugsunar eða einbeitingar, eigi að sofa milli sjö og átta tíma á hverri nóttu“.

Kynt með hveiti?

Er siðferðilega rétt að kynda með hveiti? Þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung benti á að fyrst hveiti sé að falla í verði og brennsluolía að hækka sé hagkvæmara fyrir bónda að brenna hveitið sitt frekar en að selja það til að kaupa olíu. Það kostar hann um 20 krónur að rækta tvö og hálft kíló af hveiti en ef hann brenndi það myndi það gefa honum sama hita og einn lítri af brennsluolíu sem kostar 60 krónur. En þá vaknar siðferðilega spurningin sem dagblaðið varpaði fram: Getur maður leyft sér að „brenna kornmeti á meðan aðrir svelta“?

Heimsókn páfa notuð í gróðaskyni

Þegar páfinn heimsótti Þýskaland árið 2006 höfðu ferðamannaiðnaðurinn, framleiðendur og kaupmenn búið sig undir að græða á heimsókninni. Kirkjan hafði einnig valið sér viðskiptafélaga sem fékk einkarétt á að markaðssetja trúarlega muni. Seldir voru minjagripir eins og talnabönd, kerti, flöskur með helgu vatni, kaffibollar, derhúfur, bolir, lyklakippur og fáni Vatíkansins. Fréttatímaritið Der Spiegel sagði: „Kaþólska kirkjan er með fingurna í peningabraskinu, rétt eins og Jesús Kristur . . . hefði aldrei rekið kaupmennina úr musterinu.“

Orkuskortur

„Talið er að 1,6 milljarðar manna — um fjórðungur mannkyns — hafi ekki aðgang að rafmagni og 2,4 milljarðar noti aðallega viðarkol, við eða tað til eldunar og upphitunar.“ Þetta kemur fram í tímaritinu Our Planet sem gefið er út af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. „Á hverju ári verður reykurinn af völdum þessa hefðbundna eldsneytis um tveim og hálfri milljón kvenna og barna að bana.“