Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Indíánar í Brasilíu — eru þeir í útrýmingarhættu?

Indíánar í Brasilíu — eru þeir í útrýmingarhættu?

Indíánar í Brasilíu — eru þeir í útrýmingarhættu?

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í BRASILÍU

XINGU-þjóðgarðurinn er staðsettur í Mato Grosso-fylkinu í Brasilíu. Hann nær yfir 27.000 ferkílómetra svæði og samsvarar því næstum einum fjórða af Íslandi. Þar búa um 3.600 indíánar af 14 ættbálkum. Á gervihnattamyndum lítur svæðið í kringum garðinn út eins og „risastórt billjardborð“ því að skógunum í kring hefur annaðhvort verið breytt í beitilönd fyrir nautgripahjarðir eða þeir verið brenndir til að veita skógarhöggsmönnum aðgang að nytjatrjám. Þjóðgarðurinn er því eins og græn og gróskumikil eyja á miðju „billjardborðinu“.

Á sjöunda áratug síðustu aldar byrjaði brasilíska ríkisstjórnin að stofna verndarsvæði fyrir indíánana. Mörg þeirra eru á Amasonsvæðinu og ná nú yfir um 12 prósent af Brasilíu. Eftir að þessu fyrirkomulagi var komið á hefur orðið óvænt breyting — indíánum í Brasilíu fer fjölgandi í fyrsta skipti í 500 ár. Áætlað er að þeir séu nú um 300.000 talsins. Það er hins vegar mjög lítið miðað við 16. öldina, en þá er talið að þeir hafi verið á bilinu tvær til sex milljónir.

Á síðustu 500 árum „hefur hrikalegur harmleikur átt sér stað sem hefur haft áhrif á það hvernig þjóðin er samsett“, eins og rithöfundur nokkur komst að orði. En hvað varð til þess að indíánum í Brasilíu fækkaði svona snögglega? Og eru þeir loks komnir úr útrýmingarhættu fyrst þeim hefur fjölgað á síðustu árum?

Nýlendutímabilið hefst

Á fyrstu 30 árunum eftir að Portúgal gerði tilkall til Brasilíu á 16. öld höfðu landnemarnir sérstakan áhuga á brasilískum rauðviði, en það er harðviður sem gefur af sér rauðan lit. Brasilía er meira að segja nefnd eftir þessu tré. Viðurinn var mjög verðmætur í Evrópu en landnemarnir fengu hann í skiptum fyrir glingur.

Fljótlega uppgötvuðu menn að loftslagið í Brasilíu hentaði mjög vel til að rækta sykurreyr. En það var þó einn hængur á. Mikinn mannafla þurfti til að rækta sykur. Eftirspurn eftir þrælum fór því vaxandi. Og landnemarnir þurftu ekki að leita langt. Nóg var af innfæddum vinnumönnum á svæðinu.

Þrælahald

Indíánarnir voru vanir að stunda eins konar sjálfsþurftarbúskap. Karlmennirnir sáu um að veiða dýr og fisk og unnu erfiðisvinnu eins og að ryðja skóga. En konurnar plöntuðu, uppskáru og matbjuggu. Evrópskir menntamenn lofuðu indíána fyrir að vera lausir við græðgi og hafa lítinn áhuga á auðsöfnun. En mörgum landnemum fannst indíánarnir bara latir.

Vinsamlegir indíánar voru hvattir til að flytja nálægt byggðum portúgalskra landnámsmanna til að vinna fyrir þá og veita þeim vernd. Jesúítar og aðrar trúarreglur ýttu oft undir þessa þróun. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hve skaðlegt þetta yrði fyrir indíánana. Þótt landsvæði indíánanna og frelsi væri tryggt með lögum voru þeir í raun neyddir til að vinna sem þrælar fyrir landnámsmennina. Þeim voru sjaldan eða aldrei greidd laun eða leyft að rækta sitt eigið land.

Tilraunir portúgölsku krúnunnar til að banna þrælahald skiluðu litlum árangri. Landnemunum tókst yfirleitt að fara í kringum lögin. Almennt séð var talið siðferðilega réttlætanlegt að hafa indíána sem þræla eða selja þá sem slíka því að þeir voru álitnir óvinir landnámsmannanna og voru handsamaðir í „réttlátum styrjöldum“. Indíánar, sem voru í haldi hjá öðrum ættflokkum, voru líka keyptir eða leystir úr haldi og hafðir fyrir þræla.

Þegar allt kom til alls var það sykurræktin sem gerði nýlenduna eftirsóknarverða. En sykurræktin var háð þrælavinnu. Portúgalska krúnan neyddist því oft til að þagga niður í samviskunni sökum teknanna sem runnu í ríkisfjárhirsluna.

Nýlendudeilur við Frakka og Hollendinga

Indíánar voru helstu fórnarlömbin í átökum nýlenduveldanna. Frakkar og Hollendingar reyndu að ná Brasilíu af Portúgölum. Allir kepptust þeir við að fá stuðning indíánanna sem gerðu sér ekki grein fyrir því að útlendingarnir höfðu í hyggju að yfirtaka landið þeirra. Þeir litu á þessar deilur sem tækifæri til að hefna sín á óvinum sínum — öðrum indíánaættbálkum — og tóku því fúslega þátt í valdabaráttu útlendu ríkjanna.

Dæmi um það var þegar franskur hefðarmaður að nafni Nicholas de Villegaignon kom að höfn í Guanabara-flóa (núna Rio de Janeiro) 10. nóvember 1555 og reisti þar virki. Hann gerði bandalag við Tamoio-indíána á svæðinu. En Portúgalar mættu á svæðið með Tupinamba-indíána frá Bahia og í mars 1560 réðust þeir loks á þetta virki sem hafði virst ósigrandi. Frakkar flúðu en héldu áfram að versla við Tamoio-indíána og hvetja þá til að ráðast á Portúgala. Eftir fjölmargar árásir voru Tamoio-indíánar loks gjörsigraðir. Sagan segir að í aðeins einni árás hafi um 10.000 verið drepnir og 20.000 hnepptir í þrælkun.

Hræðilegir sjúkdómar frá Evrópu

Frumbyggjarnir, sem Portúgalar komust fyrst í samband við, virtust einstaklega heilsuhraustir. Fyrstu landkönnuðirnir töldu að margir af eldri indíánunum væru um tírætt. En indíánarnir höfðu engar varnir gegn evrópskum og afrískum sjúkdómum. Þetta er sennilega ein helsta ástæðan fyrir því að indíánarnir þurrkuðust næstum út.

Í portúgölskum heimildum er að finna margar hræðilegar lýsingar á farsóttum sem drógu fjölmarga indíána til dauða. Árið 1561 geisaði til dæmis bólusóttarfaraldur í Portúgal sem barst síðan vestur um haf. Afleiðingarnar voru skelfilegar. Jesúítinn Leonardo do Vale skrifaði bréf 12. maí 1563 þar sem hann lýsti því hve hryllileg áhrif faraldurinn hafði í Brasilíu: „Þessi bólusótt var svo ógurleg og svo illa lyktandi að enginn gat þolað þann hrikalega ódaun sem kom af [fórnarlömbunum]. Þess vegna dóu margir án þess að nokkur annaðist þá — þeir voru étnir af ormunum sem uxu í sárunum og mynduðust í þvílíkum mæli og voru svo stórir að hver sem sá þá fylltist ógn og hryllingi.“

Blönduð sambönd hneyksla Jesúíta

Margir ættflokkar hurfu einnig af sjónarsviðinu vegna þess að þeir blönduðust landnemunum. „Hvorki Portúgalar né frumbyggjar Brasilíu höfðu neitt á móti blönduðum samböndum,“ segir í bókinni Red Gold — The Conquest of the Brazilian Indians. Indíánar litu á það sem gestrisni að bjóða ókunnugum mönnum konur, oft sínar eigin dætur. Þegar fyrstu Jesúítarnir komu til Brasilíu árið 1549 voru þeir stórhneykslaðir á því sem þeir sáu. Jesúítinn Manoel da Nóbrega kvartaði undan þessu og sagði: „Þeir [klerkarnir] segja mönnum opinberlega að það sé í lagi að lifa í synd með hörundsdökkum konum.“ Síðan bætti hann við: „Landnámsmennirnir hafa allar indíánakonurnar [þrælana] sem hjákonur.“ Maður nokkur flutti konungi Portúgals fréttir af landnámsmanni einum og sagði: ‚Hann á svo mörg börn, barnabörn, barnabarnabörn og afkomendur að ég þori ekki að segja yðar hátign hvað þeir eru margir.‘

Háslétturnar meðfram strönd Brasilíu höfðu áður verið þéttbyggðar. En um miðja 17. öld höfðu flestir indíánarnir á þessu svæði annaðhvort verið drepnir, hnepptir í þrælkun eða blandast landnámsmönnum. Ættflokkarnir á Amasonsvæðinu hlutu fljótlega sömu örlög.

Eftir að Portúgalar fóru inn á Amasonsvæðið var nánast gefið „opið veiðileyfi“ á indíána sem bjuggu á austurhluta þess. Samkvæmt Manoel Teixeira, aðstoðarmanni biskups í Maranhão, drápu Portúgalar nánast tvær milljónir indíána í Maranhão og Pará á aðeins nokkrum áratugum. Talan var sennilega ýkt en tortímingin og þjáningarnar voru engu að síður raunverulegar. Svipaðar hörmungar gengu síðar yfir vesturhluta Amasonsvæðisins. Um miðja 18. öldina var næstum öll indíánabyggð í Amasonlægðinni horfin, fyrir utan örfá afskekkt svæði.

Undir lok 19. aldar og á þeirri 20. var farið að byggja upp marga af afskekktari hlutum Amasonsvæðisins. Á því tímabili komst hvíti maðurinn smám saman í kynni við þá einangruðu indíánaættflokka sem eftir voru. Árið 1839 fann Charles Goodyear upp aðferð til að herða gúmmí. Í kjölfarið komu gúmmíhjólbarðarnir fram á sjónarsviðið og af stað fór það sem kalla mætti „gúmmíæðið“. Hrágúmmí var aðeins að finna á Amasonsvæðinu og þar af leiðandi streymdu kaupmenn alls staðar að. Á þessu tímabili voru frumbyggjarnir arðrændir grimmilega og það varð til þess að þeim fækkaði enn frekar.

Hvaða áhrif hefur 20. öldin haft?

Árið 1970 gerði stjórn Brasilíu áætlun um að leggja þjóðvegi til að gera afskekkta hluta Amasonsvæðisins aðgengilegri. Margir þessara vega voru lagðir í gegnum lönd indíána og gerðu þá berskjalda fyrir ágengum arðræningjum og banvænum sjúkdómum.

Tökum afdrif Panarás-indíána sem dæmi. Þessum ættbálki var nánast útrýmt vegna styrjalda og þrælahalds á 18. og 19. öld. Þeir fáu, sem eftir voru, flúðu í norðvestur, langt inn í skóginn í norðurhluta Mato Grosso. En síðan var Cuiabá-Santarém-þjóðvegurinn lagður beint í gegnum landið þeirra.

Kynni þeirra af hvíta manninum reyndust örlagarík fyrir marga. Árið 1975 voru aðeins 80 manns eftir af þessum ættflokki sem áður hafði verið svo fjölmennur. Þá var Panarás-indíánunum boðið að flytja í Xingu-þjóðgarðinn. Þeir reyndu án árangurs að finna svæði í skóginum sem minnti á heimaslóðir þeirra. Að lokum ákváðu þeir að snúa aftur heim. Fyrsta nóvember 1996 lýsti dómsmálaráðherra Brasilíu því yfir að landið þeirra, 495.000 hektara svæði, væri „varanleg eign innfæddra“. Svo virðist sem Panarás-indíánum hafi verið bjargað frá útrýmingu.

Verður framtíð þeirra bjartari?

Geta verndarsvæðin bjargað þeim indíánaættflokkum, sem eftir eru, frá útrýmingu? Eins og er virðist ekki líklegt að indíánar í Brasilíu hverfi algerlega af sjónarsviðinu. En á löndum þeirra er oft að finna miklar náttúruauðlindir. Áætlað er að jarðefni á borð við gull, platínu, demanta, járn og blý, að andvirði þúsund milljarða dollara, séu falin í jarðveginum á því svæði sem kallað er Amazônia Legal og nær yfir níu fylki í Norður- og Miðvestur-Brasilíu. Um 98 prósent af löndum indíána eru á þessu svæði. Ólögleg leit að hagnýtum jarðefnum er þegar orðin vandamál á sumum þeirra.

Sagan sýnir að indíánar hafa alltaf beðið lægri hlut í samskiptum við hvíta manninn. Þeir gáfu gull í skiptum fyrir spegla og rauðvið í skiptum fyrir glingur, og þeir þurftu að flýja á afskekkt svæði til að verða ekki hnepptir í þrælkun. Á sagan eftir að endurtaka sig?

Margir indíánar hafa lært að nýta sér nútímatækni eins og flugvélar, vélbáta og farsíma. En tíminn á eftir að leiða í ljós hvort þeir geta tekist á við það sem 21. öldin ber í skauti sér.

[Kort á blaðsíðu23]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

■ Xingu-þjóðgarðurinn

□ Verndarsvæði indíána

BRASILÍA

BRASILÍA

Rio de Jeneiro

FRANSKA GVÆANA

SÚRÍNAM

GVÆANA

VENESÚELA

KÓLUMBÍA

EKVADOR

PERÚ

BÓLIVÍA

PARAGVÆ

ÚRÚGVÆ

[Mynd á blaðsíðu 23]

Kaupmenn gerðu indíána að þrælum á gúmmíekrum.

[Credit line]

© Jacques Jangoux/Peter Arnold, Inc.

[Mynd credit line á blaðsíðu 20]

Teikning og hönnun: Úr bókinni Brazil and the Brazilians, 1857