Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ókeypis lostæti úr skóginum

Ókeypis lostæti úr skóginum

Ókeypis lostæti úr skóginum

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í FINNLANDI

MARGAR fjölskyldur á Norðurlöndum njóta þess að fara til berja í skógunum. Almenningur í Finnlandi á til dæmis rétt á að vera hvar sem er úti í náttúrunni — líka á svæðum í einkaeigu — svo framarlega sem menn skemma ekkert og koma ekki of nærri heimilum fólks. Þetta kemur sér vel fyrir skógarunnendur. Þessi réttur er hvergi skráður í lög en löng hefð er fyrir honum á Norðurlöndum. Menn mega því tína villt blóm, sveppi og ber nánast hvar sem þau er að finna.

Í Finnlandi eru um 50 tegundir skógarberja og meirihluti þeirra er ætur. Þrjár algengustu tegundirnar eru aðalbláber, múltuber og týtuber. * — Sjá næstu opnu.

Ber gera matinn fjölbreyttari með sínum mörgum litum og bragðtegundum. Og þau eru líka bráðholl. „Berin, sem vaxa á norðlægum slóðum þar sem dagsbirtan er löng, eru lit- og bragðsterk og steinefna- og vítamínrík“ segir í bókinni Luonnonmarjaopas (Leiðarvísir um villiber). Þar að auki innihalda þau trefjar sem geta hjálpað til að halda blóðsykrinum í jafnvægi og lækkað kólesteról. Einnig eru í berjum flavonóíð, fenólsambönd sem talið er að stuðli að góðri heilsu.

Er það fyrirhafnarinnar virði að tína skógarberin? „Það hjálpar manni að spara því að ber eru töluvert dýr út úr búð. Og þegar maður tínir berin sjálfur veit maður að þau eru fersk,“ segir Jukka sem er áhugamaður um berjatínslu. Niina, eiginkona hans, bendir á annan kost þess og segir: „Þegar við förum til berja njótum við skógarferðarinnar sem fjölskylda.“

„En ef maður er með börn með sér er mikilvægt að muna eftir að fylgjast vel með þeim svo þau borði ekki ber sem maður þekkir ekki eða ráfi eitthvað í burtu,“ bætir Niina við. Aðgætni er þörf því að sum berin eru eitruð.

Skógurinn er í sérstöku uppáhaldi hjá Jukka og Niinu, eins og flestum Norðurlandabúum. „Ég elska skóginn,“ segir Niina. „Þar er svo notaleg ró og loftið ferskt. Það endurnærir hugann. Og börnin eru ánægð þar.“ Jukka og Niinu finnst kyrrðin í skóginum henta vel fyrir fjölskylduna til að ræða saman.

Berin bragðast best og eru næringarríkust þegar þau eru nýtínd. En þau haldast ekki fersk lengi. Til að njóta þeirra yfir veturinn þarf að útbúa þau til geymslu. Áður fyrr geymdi fólk berin í jarðhúsum en núna eru þau oftast fryst. Og mikið er notað í saft og sultur.

„Það er fátt notalegra í svartasta skammdeginu en að taka fram krukkurnar og rifja upp sumarið sem leið og byrja að hlakka til þess næsta,“ segir höfundur bókarinnar Svenska Bärboken (Sænska berjabókin). Þetta eru orð að sönnu. Það má nota ber í margt. Með morgunmatnum má hafa þau út í jógúrt, múslí eða hafragraut. Frískandi skógarberin eru notuð í ljúffenga eftirrétti og sætabrauð. Og berjamauk eða berjahlaup er litríkt meðlæti sem má bera fram með mörgum réttum.

Margir kaupa berin úti í næstu búð. En hugsaðu þér sjálfan þig anda að þér fersku lofti úti í skógi á heiðskírum degi og njóta þess í friði og ró að skima eftir litríkum og sætum berjum. Það er ekki amaleg aðferð til að ná sér í ókeypis lostæti í matinn. Það minnir á orð sálmaritarans: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.

[Neðanmáls]

^ Í þessari grein notum við heitið „ber“ eins það er almennt skilið, um smá safarík aldin. Samkvæmt grasafræðinni á heitið „ber“ við einfalda, safaríka ávexti sem bera oftast mörg fræ. Samkvæmt þeirri skilgreiningu teljast bananar og tómatar til berja.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 16, 17]

AÐALBLÁBER (Vaccinium myrtillus)

Þetta vinsæla sæta ber er oft notað í sósur, búðinga, saft og sultur. Það er líka notað í margs konar sætabrauð svo sem bláberjabökur. Fersk aðalbláber eru sérstaklega góð með mjólk. Þú ættir samt ekki að reyna að gæða þér á þeim í laumi því að maður getur orðið berjablár, enda er aðalbláberið sums staðar kallað „slúðurber“.

[Credit line]

Reijo Juurinen/Kuvaliiteri

[Rammi/mynir á blaðsíðu 17]

MÚLTUBER (Rubus chamaemorus)

Múltuberið vex á fáförnum stöðum svo sem í mýrum. Í Finnlandi er það algengast norðanlands. Múltuberið er bæði safaríkt og nærandi. Það er stútfullt af A- og C-vítamínum — þrefalt til fjórfalt C-vítamínríkara en appelsína. Múltuberið er mikils metið og er stundum kallað „gullið í mýrinni“. Þetta sæta ber er lostæti með mörgum eftirréttum og það má gera úr því afbragðslíkjör.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 17]

TÝTUBER (Vaccinium vitis-idaea)

Týtuberið er náskylt trönuberi. Það er ákaflega vinsælt í Finnlandi og Svíþjóð. Týtuberjamauk eða -hlaup er skemmtileg viðbót á matarborðið. Þetta skærrauða ber er einnig notað í sósur, búðinga, saft og sætabrauð. Týtuber geymast vel því að í þeim eru sýrur sem virka sem rotvarnarefni. Berin bera sterkan keim af sýrunni og það getur tekið dálítinn tíma að venjast bragðinu.

[Rammagrein á blaðsíðu 17]

Ekki eintóm sæla

Það getur verið ánægjulegt að fara til berja. * En það er ekki alltaf þrautalaust. Pasi og Tuire eru hjón frá Lapplandi sem tína ber bæði til eigin nota og til að selja. Stundum, þegar þau eru að tína, lenda þau í sveimi af hvimleiðum skordýrum, eins og stungumýi og hrossakleggjum. „Það er verulega pirrandi. Flugurnar fara meira að segja upp í munninn á manni og augun,“ segir Tuire og hryllir sig. En sem betur fer er hægt að verja sig fyrir þeim að einhverju marki með því að klæða sig rétt og nota flugnafælur.

Það getur auk þess verið erfitt að ferðast um óbyggðir — sérstaklega þegar farið er um mýrlendi. Þar sem virðist vera fast land undir fótum getur reynst mýrarkelda. Þar að auki getur verið töluvert puð að tína berin, að sögn þeirra Pasi og Tuire. Það er lýjandi fyrir bak og fætur að bogra klukkustundum saman.

Og ekki er alltaf auðvelt að finna berin. „Það er þolinmæðisverk að leita að góðri berjalaut,“ segir Pasi. „Oft reynir það meira á okkur að leita að berjunum en að tína þau,“ bætir Tuire við. Svo er líka vinna að hreinsa berin eftir tínsluna.

Þar sem það er svona kerfjandi að tína berin hafa sumir tilhneigingu til eftirláta fuglum og ferfætlingum að gæða sér á þeim. Margir eru þó enn hrifnir af því að tína ber, eins og þau Pasi og Tuire, og fara á hverju ári í berjamó í skógum og mýrum landsins. Þeim finnst ánægjan af því margfalt meiri en erfiðið.

[Neðanmáls]

^ Ekki eru öll ber ætluð til manneldis. Sumar tegundir eru eitraðar. Lærðu að bera kennsl á þær ætu áður en þú ferð til berja.