Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þeir hafa lagt mikið af mörkum til læknisfræðinnar“

„Þeir hafa lagt mikið af mörkum til læknisfræðinnar“

„Þeir hafa lagt mikið af mörkum til læknisfræðinnar“

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í MEXÍKÓ

Vottar Jehóva eru þekktir um heim allan fyrir að óska eftir læknismeðferð án blóðgjafar. Sumir gagnrýna þá fyrir að taka þessa afstöðu sem er þó byggð á Biblíunni. Dr. Ángel Herrera er yfirskurðlæknir við Krabbameinsstofnunina í Mexíkó. Hann sagði í viðtali við Reforma, útbreitt mexíkóskt dagblað: „Vottarnir eru engir kjánar. Og þeir eru ekki ofstækismenn. . . . Þeir hafa lagt mikið af mörkum til læknisfræðinnar með því að fá lækna til að horfast í augu við nauðsyn þess að spara blóð.“

Fyrir 15 árum setti Herrera saman teymi svæfingalækna og skurðlækna til að gera aðgerðir án blóðgjafar. Dr. Isidro Martínez er svæfingalæknir í teyminu. Hann segir: „Rétt svæfingaraðferð býður upp á að notaðar séu allar blóðsparandi aðferðir þannig að við getum veitt vottum Jehóva læknishjálp og jafnframt virt trúarafstöðu þeirra.“

Dagblaðið Reforma sagði frá því í október 2006 að til væru meira en 30 aðferðir sem nota mætti í stað blóðgjafa. Þær eru meðal annars fólgnar í því að gefa blóðþenslulyf, brenna fyrir æðar og breiða yfir líffæri með sérstakri grisju sem gefur frá sér efni sem stöðva blæðingar. *

Dr. Moisés Calderón gerir að staðaldri aðgerðir án blóðgjafar, en hann er yfirhjartaskurðlæknir við La Raza spítalann í Mexíkóborg. Hann sagði í viðtali við Reforma: „Blóðgjöf er ekki skaðlaus. Það er hætta á sníkla-, veiru- og bakteríusmiti. Einnig geta orðið ónæmisviðbrögð sem breyta starfsemi nýrna og lungna.“ Sökum þessara áhættuþátta segir Calderón: „Við meðhöndlum alla sjúklinga eins og þeir væru vottar Jehóva. Við reynum að takmarka blæðingar eftir fremsta megni, endurvinna blóð sem sjúklingur missir og nota lyf sem draga úr blæðingum.“

Í dagblaðinu var vitnað í Postulasöguna 15:28, 29, einn helsta ritningarstaðinn sem vottar Jehóva byggja afstöðu sína á. Þar gáfu postularnir eftirfarandi tilskipun: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.“

Hjá spítalaupplýsingum á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Mexíkó kemur fram að í öllu landinu séu 75 spítalasamskiptanefndir skipaðar 950 sjálfboðaliðum sem heimsækja lækna og láta þeim í té upplýsingar um læknismeðferð án blóðgjafar. Um 2000 læknar í Mexíkó hafa lýst sig fúsa til að meðhöndla votta Jehóva án þess að gefa þeim blóð. Vottarnir eru þakklátir fyrir samstarfsvilja þessara lækna sem eru fyrir vikið enn færari um að aðstoða sjúklinga sem eru ekki vottar.

[Neðanmáls]

^ Vaknið! mælir ekki með einni blóðsparandi aðferð umfram aðra. Hver og einn verður að ákveða sjálfur hvað hann velur.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Dr. Ángel Herrera

[Mynd á blaðsíðu 19]

Dr. Isidro Martínez

[Mynd á blaðsíðu 19]

Dr. Moisés Calderón