Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bjargað úr ljónagini

Bjargað úr ljónagini

Áttundi kafli

Bjargað úr ljónagini

1, 2. (a) Hvaða stjórnskipan kom Daríus frá Medíu á í hinni nýju viðbót við heimsveldi sitt? (b) Lýstu skyldum og valdi jarlanna.

 BABÝLON var fallin! Aldalangur ljómi þessa heimsveldis var slökktur á fáeinum klukkustundum. Nýtt skeið var að hefjast — valdaskeið Meda og Persa. Daríus frá Medíu settist nú í hásætið í stað Belsasars og átti það erfiða verkefni fyrir höndum að koma skipulagi á þessa viðbót við ríki sitt.

2 Eitt fyrsta verk Daríusar var að skipa 120 jarla eða héraðshöfðingja. Talið er að stundum hafi verið valdir menn úr frændliði konungs í þessi embætti. En hvað sem því leið réði hver jarl yfir stóru héraði eða einhverju smærra svæði. (Daníel 6:2) Meðal verkefna hans var innheimta skatta sem hann þurfti svo að standa konungi skil á. Jarlinn var töluvert valdamikill þótt umboðsmaður konungs kæmi af og til og gerði úttekt á embættisrekstri hans. Persneskur titill hans, satrap, merkti „verndari ríkisins,“ en í stjórnarumdæmi hans var litið á hann sem lénskonung, nánast sem þjóðhöfðingja.

3, 4. Af hverju var Daríus velviljaður Daníel og í hvaða stöðu skipaði hann hann?

3 Hvaða hlutverki átti Daníel, sem kominn var á tíræðisaldur, að gegna undir þessu nýja fyrirkomulagi? Myndi Daríus frá Medíu leysa hinn aldraða gyðingaspámann frá störfum? Ónei. Daríus gerði sér eflaust grein fyrir að Daníel hafði spáð falli Babýlonar nákvæmlega og vissi að til þess hafði þurft ofurmannlega visku. Auk þess hafði Daníel áratugareynslu af samskiptum við hin margvíslegu útlagasamfélög í Babýlon. Daríus var staðráðinn í að eiga friðsamleg samskipti við nýsigraða þegna sína og það var mikils virði fyrir hann að hafa mann með visku og reynslu Daníels til ráðuneytis. En í hvers konar embætti?

4 Það hefði eflaust komið mönnum á óvart ef Daríus hefði gert gyðingaútlagann Daníel að jarli. En þú getur rétt ímyndað þér uppnámið þegar Daríus tilkynnti þá ákvörðun sína að Daníel skyldi vera einn af þrem yfirhöfðingjum jarlanna! Þar við bættist að Daníel ‚bar af‘ hinum og hafði „frábæran anda.“ Daríus hugðist jafnvel skipa hann forsætisráðherra. — Daníel 6:3, 4.

5. Hvernig hljóta hinir yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að hafa brugðist við skipun Daníels og hvers vegna?

5 Reiðin hlýtur að hafa soðið í hinum yfirhöfðingjunum og jörlunum. Sú tilhugsun var óbærileg að Daníel — sem var hvorki Medi né Persi né ættmaður konungs — yrði settur yfir þá! Hvernig gat Daríus hafið útlending til slíkra metorða og sniðgengið landa sína, meira að segja fjölskylduna? Mönnum hlýtur að hafa þótt þessi embættisveiting ósanngjörn. Og jarlarnir hafa greinilega talið ráðvendni Daníels afar óheppilega hömlu á fjármálamisferlið og spillinguna sem þeir vildu viðhafa í embætti. En yfirhöfðingjarnir og jarlarnir voguðu sér ekki að viðra málið við Daríus því að hann virti Daníel mjög mikils.

6. Hvernig reyndu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að gera Daníel tortryggilegan og af hverju tókst þeim það ekki?

6 Hinir öfundsjúku stjórnmálamenn skipulögðu því samsæri og reyndu að „finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni.“ Var ef til vill einhver misfella í stjórnsýslu hans? Var hann óheiðarlegur? Yfirhöfðingjunum og jörlunum tókst ekki að finna neins konar vanrækslu eða spillingu í stjórnsýslu Daníels. „Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans,“ sögðu þeir hver við annan. Þannig bar það til að þessir undirförulu menn gerðu með sér samsæri og hugðust koma Daníel endanlega fyrir kattarnef. — Daníel 6:5, 6.

MANNDRÁPSSAMSÆRI

7. Hvaða tillögu báru yfirhöfðingjarnir og jarlarnir upp við konung og hvernig gerðu þeir það?

7 Þessir yfirhöfðingjar og jarlar hraða sér nú á fund Daríusar. Biblían segir að þeir hafi ‚þust‘ til konungs, og arameíski textinn gefur í skyn gauragang og uppnám. Mennirnir láta greinilega í veðri vaka að þeir þurfi að leggja afar áríðandi mál fyrir Daríus. Kannski hafa þeir hugsað með sér að konungur myndi síður efast um ágæti tillögunnar ef þeir legðu hana fram með sannfæringu og létu sem málið þyldi enga bið. Þeir koma sér því beint að efninu: „Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju.“ * — Daníel 6:7, 8.

8. (a) Af hverju ætli Daríusi hafi líkað lagatillagan vel? (b) Hvað gekk yfirhöfðingjunum og jörlunum raunverulega til?

8 Söguheimildir staðfesta að algengt hafi verið að líta á konunga Mesópótamíu sem guði og dýrka þá. Tillagan hefur því eflaust kitlað hégómagirnd Daríusar. Og hann sá kannski einhverja kosti við hana. Höfum hugfast að í augum Babýlonbúa var Daríus útlendur aðkomumaður. Þessi nýju lög myndu festa hann í sessi sem konung og hvetja allan manngrúann, sem bjó í Babýlon, til að játa nýju stjórninni hollustu og stuðning. En það er ekki velferð konungs sem yfirhöfðingjunum og jörlunum gengur til. Þeir ætla sér að veiða Daníel í gildru því að þeir vita að hann er vanur að biðja til Guðs þrisvar á dag við opna glugga í loftstofu sinni.

9. Af hverju ætli nýju lögin hafi verið fæstum öðrum en Gyðingum til trafala?

9 Ætli þessar hömlur á bænagerð hafi verið öllum trúarsamfélögum Babýlonar til trafala? Það er ekki víst, einkum þegar haft er í huga að bannið var aðeins til eins mánaðar. Og fáum öðrum en Gyðingum hefur þótt það tilslökun að beina tilbeiðslu sinni til manns um tíma. Biblíufræðingur segir: „Konungadýrkun gerði engar óvenjulegar kröfur til mestu skurðgoðaþjóðar heims, þannig að Babýloníumenn gerðu fúslega eins og krafist var og veittu sigurvegaranum — Daríusi frá Medíu — þá lotningu sem guði sæmir. Það var einungis Gyðingum sem gramdist slík krafa.“

10. Hvernig litu Medar og Persar á lög konungs?

10 Hvað sem því leið hvöttu gestir Daríusar hann til að ‚gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því yrði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.‘ (Daníel 6:9) Í Austurlöndum fortíðar var vilji konungs oft álitinn algildur. Það viðhélt þeirri hugmynd að hann væri óskeikull. Lög skyldu standa jafnvel þótt þau gætu kostað saklaust fólk lífið!

11. Hvað þýddi tilskipun Daríusar fyrir Daníel?

11 Konungur undirritar bannskjalið án þess að hugsa til Daníels. (Daníel 6:10) Þar með var hann óafvitandi að undirrita dauðadóm yfir þeim embættismanni sínum sem hann mat mest. Þessi tilskipun hlaut að snerta Daníel.

DARÍUS NEYÐIST TIL AÐ FELLA DAUÐADÓM

12. (a) Hvað gerði Daníel jafnskjótt og hann frétti af nýju lögunum? (b) Hverjir fylgdust með Daníel og hvers vegna?

12 Daníel varð fljótlega áskynja um bænabannlögin. Hann gekk þegar í stað inn í hús sitt og fór upp í loftstofu þar sem opnir gluggar sneru móti Jerúsalem. * Þar tók hann að biðja til Guðs „eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra.“ Kannski hélt hann sig vera einan en samsærismennirnir fylgdust með honum. Skyndilega ‚þustu þeir að,‘ eflaust með sömu látum og þeir höfðu komið til Daríusar. Nú sjá þeir með eigin augum að Daníel er að „biðja og ákalla Guð sinn.“ (Daníel 6:11, 12) Yfirhöfðingjarnir og jarlarnir hafa nú nægar sannanir í höndum til að kæra Daníel fyrir konungi.

13. Hvað tilkynntu óvinir Daníels konungi?

13 Lymskulega koma óvinir Daníels að máli við Daríus og spyrja: „Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?“ Daríus svarar: „Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.“ Nú eru samsærismennirnir fljótir að koma sér að efninu. „Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag.“ — Daníel 6:13, 14.

14. Af hverju ætli yfirhöfðingjarnir og jarlarnir hafi kallað Daníel „einn af hinum herleiddu Gyðingum“?

14 Það er eftirtektarvert að yfirhöfðingjarnir og jarlarnir skuli kalla Daníel „einn af hinum herleiddu Gyðingum.“ Þeir vilja greinilega minna á að þessi Daníel, sem Daríus hafði hafið til slíkra metorða, sé ekkert annað en þræll af þjóð Gyðinga. Varla var hann yfir það hafinn að halda lögin — hvað sem konungi fannst um hann!

15. (a) Hvernig brást Daríus við tíðindunum sem yfirhöfðingjarnir og jarlarnir færðu honum? (b) Hvernig sýndu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir fyrirlitningu sína á Daníel?

15 Vera má að yfirhöfðingjarnir og jarlarnir hafi reiknað með umbun frá konungi fyrir leynilögreglustörfin. En þar skjátlast þeim. Daríus er miður sín yfir tíðindunum. Í stað þess að reiðast Daníel eða senda hann tafarlaust í ljónagryfjuna leitar Daríus ráða allan daginn til að bjarga honum. En allt kemur fyrir ekki. Samsærismennirnir koma aftur til konungs og heimta blygðunarlausir blóð Daníels. — Daníel 6:15, 16.

16. (a) Af hverju bar Daríus virðingu fyrir Guði Daníels? (b) Til hvers vonaðist Daríus?

16 Daríusi finnst hann ekki eiga um neitt að velja. Hvorki er hægt að ógilda lögin né gefa Daníel upp sakir fyrir „brot“ hans. Daríus getur einungis sagt Daníel: „Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!“ Daríus virtist virða Guð Daníels. Það var Jehóva sem hafði gert Daníel færan um að spá falli Babýlonar. Guð hafði einnig gefið honum „frábæran anda“ þannig að hann skaraði fram úr hinum yfirhöfðingjunum. Ef til vill vissi Daríus að þessi sami Guð hafði áratugum áður frelsað þrjá unga Hebrea úr eldsofni. Trúlega vonaðist konungur til að Jehóva myndi frelsa Daníel núna því að ekki gat hann ógilt lögin sem hann hafði undirritað. Daníel var því varpað í ljónagryfjuna. * Því næst var „sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast.“ — Daníel 6:17, 18.

AFDRIFARÍK UMSKIPTI

17, 18. (a) Hvað sýnir að Daríus var miður sín út af Daníel? (b) Hvað gerðist þegar konungur kom til ljónagryfjunnar morguninn eftir?

17 Daríus sneri hnípinn til hallar sinnar. Hann var síst í skapi til að skemmta sér svo að ekki var kallað á hljóðfæraleikara. Hann lá andvaka alla nóttina og fastaði. „Eigi kom honum dúr á auga.“ Í dögun flýtir hann sér til ljónagryfjunnar og hrópar dapurri röddu: „Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?“ (Daníel 6:19-21; sjá Daníel 6:18 í New World Translation.) Honum til undrunar — og mikils léttis — fær hann svar!

18 „Konungurinn lifi eilíflega!“ Með þessari virðingarkveðju lætur Daníel í ljós að hann beri engan kala til konungs. Honum er ljóst að ofsóknirnar eru ekki runnar undan rifjum Daríusar heldur hinna öfundsjúku yfirhöfðingja og jarla. (Samanber Matteus 5:44; Postulasöguna 7:60.) Daníel heldur áfram: „Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!“ — Daníel 6:22, 23.

19. Hvernig höfðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir ráðskast með Daríus og blekkt hann?

19 Þessi orð hljóta að hafa bitið samvisku Daríusar sem vissi frá upphafi að Daníel hafði ekkert gert til að verðskulda ljónagryfjuna. Hann vissi mætavel að yfirhöfðingjarnir og jarlarnir höfðu gert með sér samsæri um að fá Daníel líflátinn og höfðu ráðskast með hann sjálfan til að ná fram eigingjörnu markmiði sínu. Þeir höfðu fullyrt að ‚allir yfirhöfðingjar ríkisins‘ hefðu mælt með tilskipuninni og þar með gefið í skyn að Daníel hefði líka verið með í ráðum. Þessir undirförulu menn skyldu fá á baukinn síðar, en fyrst fyrirskipar hann að Daníel skuli dreginn upp úr ljónagryfjunni. Og Daníel er ekki einu sinni skrámaður! — Daníel 6:24.

20. Hvernig fór fyrir illgjörnum óvinum Daníels?

20 Daníel er nú óhultur svo að Daríus snýr sér að öðru. „Konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra.“ — Daníel 6:25.

21. Hvernig voru ákvæði Móselaganna um ættingja afbrotamanna í samanburði við lög sumra fornþjóða?

21 Það virðist óhemjuharðneskjulegt að lífláta konur og börn samsærismannanna með þeim. Lögmálið, sem Guð gaf fyrir milligöngu spámannsins Móse, sagði: „Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd.“ (5. Mósebók 24:16) En í sumum menningarsamfélögum fornaldar tíðkaðist að lífláta alla fjölskylduna með hinum brotlega, væri um alvarlegan glæp að ræða. Kannski var það gert til að ættingjar gætu ekki komið fram hefndum síðar. En það var ekki Daníel að kenna að fjölskyldum yfirhöfðingjanna og jarlanna var kastað fyrir ljón. Trúlega hefur hann verið miður sín út af þeirri ógæfu sem þessir illu menn kölluðu yfir fjölskyldur sínar.

22. Hverju lýsti Daríus nú yfir?

22 Hinir undirförulu yfirhöfðingjar og jarlar voru horfnir. Daríus gefur nú út eftirfarandi tilskipun: „Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda. Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum.“ — Daníel 6:26-28.

ÞJÓNAÐU GUÐI STAÐFASTLEGA

23. Hvaða fordæmi setti Daníel í sambandi við veraldlega vinnu og hvernig getum við líkt eftir honum?

23 Daníel er öllum nútímaþjónum Guðs afbragðsfordæmi. Hegðun hans var alltaf óaðfinnanleg. Hann var trúr í veraldlegu starfi svo að „ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum.“ (Daníel 6:5) Kristinn maður ætti að vera iðinn starfsmaður. Ekki svo að skilja að hann eigi að vera harðsvíraður í viðskiptum og sækjast áfergjulega eftir peningum, eða traðka á öðrum til að geta klifið virðingarstigann. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Biblían gerir þá kröfu til kristins manns að hann ræki veraldlegar skyldur sínar af trúmennsku og allri sálu „eins og [Jehóva] ætti í hlut.“ — Kólossubréfið 3:22, 23.

24. Hvernig reyndist Daníel óhagganlegur í tilbeiðslu sinni?

24 Daníel var óhagganlegur í tilbeiðslu sinni. Það var almennt vitað að hann væri vanur að biðjast fyrir. Og yfirhöfðingjarnir og jarlarnir vissu mætavel að Daníel tók tilbeiðslu sína alvarlega. Reyndar voru þeir sannfærðir um að hann héldi sínu striki þótt það væri bannað með lögum. Þetta er góð fyrirmynd fyrir kristna menn nú á tímum. Þeir eru líka þekktir fyrir að láta tilbeiðsluna á Guði ganga fyrir öðru í lífinu. (Matteus 6:33) Það ætti að vera öllum augljóst því að Jesús fyrirskipaði fylgjendum sínum: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ — Matteus 5:16.

25, 26. (a) Hvað gæti sumum fundist um hátterni Daníels? (b) Af hverju taldi Daníel það jafngilda tilslökun að breyta daglegri venju sinni?

25 Sumir segja kannski að Daníel hefði getað forðast ofsóknir með því að biðja til Jehóva í leynum þessa 30 daga. Þegar allt kemur til alls er ekki krafist neinnar sérstakrar stellingar eða umhverfis til að fá bænheyrslu hjá Guði. Hann getur jafnvel skynjað hugsanir hjartans. (Sálmur 19:15) En Daníel leit svo á að sérhver breyting á daglegri venju jafngilti tilslökun. Af hverju?

26 Nú var alkunna að Daníel væri vanur að biðjast fyrir. Hvaða skilaboð hefði hann þá gefið ef hann hefði skyndilega hætt því? Menn hefðu kannski haldið að hann væri kjarklítill maður og að tilskipun konungs ógilti lög Jehóva. (Sálmur 118:6) En Daníel sýndi í verki að Jehóva ætti hollustu hans óskipta. (5. Mósebók 6:14, 15; Jesaja 42:8) En hann óvirti hvorki lög konungs né hrökklaðist hræddur undan. Hann hélt hreinlega áfram að biðjast fyrir í loftstofunni ‚eins og hann hafði verið vanur að gera‘ áður en tilskipun konungs var gefin út.

27. Hvernig geta þjónar Guðs nú á tímum líkst Daníel í því (a) að vera yfirvöldum undirgefnir? (b) að hlýða Guði framar mönnum? (c) að leitast við að eiga frið við alla menn?

27 Þjónar Guðs nú á tímum geta tekið sér Daníel til fyrirmyndar. Þeir eru ‚yfirvöldum undirgefnir‘ og hlýða landslögum þar sem þeir búa. (Rómverjabréfið 13:1) En þegar lög manna stangast á við lög Guðs taka þjónar hans sömu afstöðu og postular Jesú sem sögðu djarfmannlega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Með því eru þeir ekki að hvetja til uppreisnar heldur vilja þeir einfaldlega eiga frið við alla menn svo að þeir geti „lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2; Rómverjabréfið 12:18.

28. Hvernig þjónaði Daníel Jehóva „án afláts“?

28 Daríus nefndi tvívegis að Daníel dýrkaði Guð „án afláts.“ (Daníel 6:17, 21) Arameíski orðstofninn, sem er þýddur þannig, merkir að „hreyfa í hring.“ Hugmyndin er stöðug hringrás eða eitthvað varanlegt. Þannig var ráðvendni Daníels. Hún fylgdi fyrirsjáanlegu mynstri. Þegar hann stóð frammi fyrir prófraun, smárri eða stórri, lék enginn vafi á hvað hann myndi gera. Hann myndi halda áfram á sömu braut og hann hafði komist á áratugum áður — að vera Jehóva hollur og trúr.

29. Hvernig geta þjónar Jehóva nú á tímum haft gagn af trúfesti Daníels?

29 Nútímaþjónar Guðs vilja fylgja fordæmi Daníels. Páll postuli hvatti reyndar alla kristna menn til að hugleiða fordæmi guðhræddra manna fortíðar. Þeir „iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit“ og „byrgðu gin ljóna“ með trú sinni, og þar á hann greinilega við Daníel. Við sem erum þjónar Jehóva skulum sýna sömu trú og staðfestu og Daníel og ‚þreyta þolgóðir skeið það sem við eigum framundan.‘ — Hebreabréfið 11:32, 33; 12:1.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Fornar áletranir sýna að valdhafar Austurlanda áttu oft villidýragarða og styðja þannig tilvist ‚ljónagryfjunnar‘ í Babýlon.

^ gr. 12 Loftstofan var einkaherbergi manns þar sem hann gat verið þegar hann vildi ekki láta ónáða sig.

^ gr. 16 Ljónagryfjan var hugsanlega neðanjarðarklefi með opi á þakinu. Sennilega voru einnig dyr á klefanum til að hleypa inn dýrum, og lokað fyrir með hurð eða grind.

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

• Hvers vegna ákvað Daríus frá Medíu að skipa Daníel í háa stöðu?

• Hvaða samsæri gerðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir með sér? Hvernig bjargaði Jehóva Daníel?

• Hvað lærðir þú af trúfesti Daníels?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 114]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 121]

[Mynd á blaðsíðu 127]

Daníel þjónaði Jehóva „án afláts.“ Hvað um þig?