Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna hafði Jesús ekki afskipti af stjórnmálum?

Hvers vegna hafði Jesús ekki afskipti af stjórnmálum?

Hvers vegna hafði Jesús ekki afskipti af stjórnmálum?

ÞETTA er árið 32. Sjáðu fyrir þér sögusviðið. Það er áliðið dags. Jesús, hinn fyrirheitni Messías, hefur þegar getið sér góðan orðstír fyrir að lækna sjúka. Hann hefur meira að segja reist fólk upp frá dauðum. Í dag hefur hann hrifið þúsundir manna með því að framkvæma stórkostleg tákn og fræða fólkið um Guð. Nú skiptir hann svöngum mannfjöldanum í minni hópa. Hann ber fram bæn til Jehóva og fyrir kraftaverk mettar hann allan mannfjöldann. Og til að ekkert fari til spillis safnar hann saman matarleifunum. Hvaða áhrif hefur þetta á viðstadda? — Jóhannes 6:1-13.

Fólkið telur Jesú vera tilvalið konungsefni eftir að hafa fylgst með kraftaverkum hans og forystuhæfileikum þegar hann stjórnaði mannfjöldanum og annaðist þarfir fólksins. (Jóhannes 6:14) Viðbrögð þess koma ekki á óvart. Gleymum ekki að þjóðin þráði heitt að fá góðan og dugmikinn þjóðhöfðingja. Ættjörð hennar var undir harðri stjórn erlends ríkis. Fólkið lagði þess vegna hart að Jesú að taka þátt í stjórnmálum. Með þessa forsögu í huga skulum við nú íhuga viðbrögð hans.

Í Jóhannesi 6:15 segir: „Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ Afstaða Jesú hefði varla getað verið skýrari. Hann þverneitaði að taka þátt í stjórnmálum þjóðar sinnar og hvikaði aldrei frá afstöðu sinni. Hann sagði að fylgjendur sínir ættu að hafa sömu afstöðu. (Jóhannes 17:16) Hvers vegna hafði Jesús þetta viðhorf?

Hvers vegna kaus Jesús að vera hlutlaus?

Hlutleysi Jesú í stjórnmálum þessa heims byggðist á frumreglum Biblíunnar. Lítum á tvær þeirra.

„Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Þetta er saga mennskra stjórna í hnotskurn samkvæmt Biblíunni. Höfum í huga að Jesús var andavera á himnum löngu áður en hann kom til jarðar sem maður. (Jóhannes 17:5) Hann vissi þess vegna að hversu velviljaðir sem menn kunna að vera eru þeir ófærir um að annast þarfir milljarða manna svo að vel fari, enda áskapaði Guð mönnum ekki slíka hæfileika. (Jeremía 10:23) Jesús vissi að lausnina á vandamálum manna var að finna annars staðar — ekki hjá ríkisstjórnum manna.

Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Er þér brugðið að heyra þessa staðhæfingu? Mörgum bregður því að þeir hugsa til einlægs fólks sem tekur þátt í stjórnmálum til að gera heiminn að betri og öruggari stað. Þrátt fyrir einlæga viðleitni geta meira að segja heiðarlegustu valdhafar ekki spornað gegn áhrifum þess sem Jesús kallaði „höfðingja þessa heims“. (Jóhannes 12:31; 14:30) Þar af leiðandi sagði Jesús við stjórnmálamann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ (Jóhannes 18:36) Jesús var væntanlegur konungur himneskrar stjórnar Guðs. Ef hann hefði blandað sér í stjórnmál hefði hann ekki sýnt stjórn föður síns hollustu.

Kenndi Jesús þá fylgjendum sínum að þeir hefðu engum skyldum að gegna gagnvart jarðneskum stjórnvöldum? Nei, alls ekki. Hann kenndi þeim að finna rétta jafnvægið á milli ábyrgðar sinnar gagnvart Guði og skyldu sinnar gagnvart veraldlegum stjórnvöldum.

Jesús sýndi stjórnvöldum virðingu

Þegar Jesús var að kenna í musterinu reyndu andstæðingar hans að koma honum í klípu með því að spyrja hann hvort fólk ætti að borga skatta. Hefði Jesús sagt nei hefði verið litið á svar hans sem andspyrnu, og það hefði getað kynt undir uppreisn undirokaðs lýðsins sem lagði allt kapp á að losna undan kúgun og oki rómverska ríkisins. En hefði Jesús sagt já, þá hefðu margir litið svo á að hann væri að leggja blessun sína yfir ranglætið sem þeir bjuggu við. Svar Jesú bar vott um fullkomið jafnvægi. Hann sagði: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ (Lúkas 20:21-25) Fylgjendur hans hafa því skyldum að gegna gagnvart Guði og gagnvart keisaranum — það er að segja veraldlegum stjórnvöldum.

Stjórnvöld halda uppi ákveðinni röð og reglu. Þau krefjast þess réttilega að þegnarnir séu heiðarlegir, borgi skatta og fari að lögum. Hvaða fordæmi gaf Jesús í sambandi við að „gjalda keisaranum það sem keisarans er“? Jesús ólst upp hjá foreldrum sem fóru að lögum jafnvel þótt það kæmi þeim illa. Til dæmis ferðaðist Jósef ásamt Maríu, barnshafandi eiginkonu sinni, til Betlehem um 150 km leið til að hlýða tilskipun rómverska ríkisins varðandi manntal. (Lúkas 2:1-5) Jesús var löghlýðinn eins og þau og borgaði jafnvel skatta sem honum bar í raun ekki að greiða. (Matteus 17:24-27) Hann gætti þess einnig að ganga ekki lengra en vald hans leyfði í veraldlegum málum. (Lúkas 12:13, 14) Segja má að Jesús hafi sýnt stjórnarfyrirkomulaginu virðingu þótt hann hafi neitað að taka þátt í því. En hvað átti Jesús við með orðunum að „gjalda Guði það sem Guðs er“?

Jesús gaf „Guði það sem Guðs er“

Eitt sinn var Jesús spurður að því hvert væri æðsta boðorðið sem Guð hefði gefið mönnum. Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:37-39) Jesús útskýrði hvernig við gjöldum „Guði það sem Guðs er“ og benti á að við skuldum Jehóva Guði fyrst og fremst kærleika — sem felur í sér heilshugar og algera hollustu.

Er hægt að deila slíkum kærleika? Getum við skipt hollustu okkar þannig að hún beinist að hluta til að Jehóva Guði og himneskri stjórn hans, og að hluta til að jarðneskum stjórnvöldum? Jesús setti sjálfur fram frumregluna: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn.“ (Matteus 6:24) Jesús var að tala um það að deila hollustu milli Guðs og mammóns, það er að segja jarðneskra auðæfa. Honum fannst greinilega að sama frumregla ætti við um þátttöku í stjórnmálum. Fylgjendur hans á fyrstu öld voru á sama máli.

Elstu heimildir sýna að fylgjendur Jesú til forna tóku alls ekki þátt í stjórnmálum vegna þess að þeir tilbáðu eingöngu sama Guð og Kristur. Þeir neituðu að sverja rómverska ríkinu og keisaranum hollustueið og að gegna herþjónustu og opinberum embættum. Þar af leiðandi máttu þeir þola fjandskap af ýmsum toga. Óvinir þeirra sökuðu þá stundum um mannhatur. Var sú ásökun á rökum reist?

Sannkristnir menn láta sér annt um fólk

Rifjum upp tilvitnun Jesú í næstæðsta boðorð Guðs: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Það er alveg ljóst að enginn sannur fylgjandi Krists getur leyft sér að vera mannhatari. Jesú þótti afar vænt um fólk, hann lagði hart að sér í þágu þess og aðstoðaði það við að leysa venjuleg, hversdagsleg vandamál. — Markús 5:25-34; Jóhannes 2:1-10.

En fyrir hvað var Jesús fyrst og fremst þekktur? Hann var ekki titlaður læknir, ekki sá er mettar þúsundir og heldur ekki sá sem reisir fólk upp frá dauðum enda þótt hann gegndi öllum þessum undraverðu hlutverkum. Fólk kallaði hann hins vegar meistara, það er að segja kennara, og það með réttu. (Jóhannes 1:38; 13:13) Jesús benti á að ein helsta ástæða þess að hann kom til jarðar hafi verið að fræða fólk um Guðsríki. — Lúkas 4:43.

Þetta er ástæðan fyrir því að sannir fylgjendur Krists helga sig sama starfi og meistari þeirra sinnti þegar hann var á jörðinni — að fræða fólk um fagnaðarerindið um ríki Guðs. Jesús Kristur bauð öllum sannkristnum mönnum að flytja fólki víðsvegar um heiminn þennan boðskap. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þessi óforgengilega himneska stjórn mun ríkja yfir öllu sköpunarverki Guðs og hafa lögmál kærleikans að leiðarljósi. Hún mun láta vilja Guðs ná fram að ganga og útrýma þjáningum og dauða. (Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:3, 4) Það er því engin furða að í Biblíunni skuli boðskapur Krists vera kallaður „fagnaðarerindið“. — Lúkas 8:1.

Ef þú ert að leita að sönnum fylgjendum Jesú Krists á okkar tímum, hvernig geturðu borið kennsl á þá? Eru þeir viðriðnir stjórnmál þessa heims eða helga þeir sig sama starfi og Jesús — að prédika ríki Guðs og fræða fólk um það?

Langar þig til að fræðast meira um ríki Guðs og þau áhrif sem það getur haft á líf þitt núna? Við hvetjum þig til að hafa samband við Votta Jehóva í þínu byggðarlagi eða skoða opinbera vefsíðu þeirra, www.watchtower.org.

[Rammi/​myndir á bls. 24, 25]

Láta vottar Jehóva gott af sér leiða í samfélaginu?

Vottar Jehóva eru hlutlausir í stjórnmálum. Hins vegar láta þeir gott af sér leiða í samfélaginu og taka virkan þátt í að hjálpa fólki af öllum kynþáttum með ýmiss konar bakgrunn. Lítum á nokkur atriði:

◼ Vottar Jehóva eru rúmlega sjö milljónir talsins og samtals verja þeir meira en einum og hálfum miljarði klukkustunda árlega í sjálfboðavinnu við að fræða fólk um Biblíuna. Sú þekking getur hjálpað fólki að sigrast á skaðlegri fíkn og slæmum venjum, öðlast hamingjuríkt fjölskyldulíf og bæta líf sitt að öðru leyti.

◼ Þeir prenta og dreifa ókeypis ritum á rúmlega 500 tungumálum, þar á meðal á tungumálum sem ekkert annað prentað lesefni er fáanlegt á.

◼ Þeir halda ræðunámskeið sem hafa hjálpað milljónum manna að tjá sig skýrt og háttvíslega.

◼ Þeir standa fyrir lestrar- og skriftarkennslu sem hefur hjálpað tugþúsundum manna um heim allan að læra að lesa og skrifa.

◼ Þeir hafa skipulagt fleiri en 400 svæðisbygginganefndir víða um heim, sem þjálfa sjálfboðaliða í byggingarvinnu til að þeir geti síðan byggt biblíufræðslumiðstöðvar. Á síðasta áratug voru byggð rösklega 20.000 tilbeiðsluhús sem kallast ríkissalir.

◼ Þeir taka þátt í hjálparstarfi út um allan heim og veita vottum sem og öðrum neyðaraðstoð. Eftir að röð fellibylja dundi yfir Bandaríkin fyrir nokkrum árum endurreistu þeir yfir 90 ríkissali og 5.500 íbúðarhús í sjálfboðavinnu á tveggja ára tímabili.

[Mynd á bls. 23]

Þegar fólk lagði hart að Jesú að taka þátt í stjórnmálum vék hann „upp til fjallsins einn síns liðs“.