Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hjálpa sjúkum vini

Að hjálpa sjúkum vini

Að hjálpa sjúkum vini

HEFUR þér nokkurn tíma orðið orðavant þegar þú ræddir við alvarlega sjúkan vin? Vertu alveg rólegur, þú getur orðið vini þínum að liði. Hvernig þá? Það er auðvitað ekki hægt að setja neinar ákveðnar reglur. Menningarmunur getur haft sitt að segja. Fólk er misjafnt að eðlisfari. Það sem hefur góð áhrif á líðan eins hjálpar kannski ekki öðrum. Og kringumstæður og tilfinningar geta verið talsvert breytilegar frá degi til dags.

Það er því mikilvægt að reyna að setja sig í spor einstaklingsins og komast að því hvað hann vilji helst að þú gerir og hvers hann þarfnist. Hvernig geturðu gert það? Hér eru nokkrar tillögur sem eru byggðar á meginreglum Biblíunnar.

Vertu góður hlustandi

MEGINREGLUR Í BIBLÍUNNI:

„Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:19.

„Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ — PRÉDIKARINN 3:1, 7.

◼ Þegar þú heimsækir sjúkan vin skaltu hlusta á hann með athygli og samúð. Flýttu þér ekki um of að gefa ráð eða koma með einhverjar lausnir. Ef þér liggur of mikið á að tala gæti óvart hrotið af vörum þér eitthvað sem væri særandi. Hinn sjúki er ekki endilega að leita svara heldur að vini sem vill hlusta á hann af heilum huga.

Leyfðu vini þínum að tjá sig opinskátt. Gríptu ekki fram í fyrir honum og gerðu ekki lítið úr ástandi hans með margþvældum tuggum. Emílio * segir: „Ég fékk heilahimnubólgu af völdum sveppa sem varð til þess að ég missti sjónina. Stundum er ég mjög niðurdreginn og vinirnir reyna að hugga mig með því að segja: ,Þú ert ekki sá eini sem átt við vandamál að stríða. Til er fólk sem hefur það miklu verra en þú.‘ Þeir átta sig ekki á því að mér er engin hjálp í því að gert sé lítið úr veikindum mínum. Þvert á móti hefur það gagnstæð áhrif og gerir mig dapran.“

Leyfðu vininum að létta á hjarta sínu án þess að óttast aðfinnslur. Ef hann segir að hann sé hræddur ættirðu að virða tilfinningar hans frekar en segja honum að hann skuli ekki vera óttasleginn. „Þegar ég er áhyggjufull út af líðan minni og fer að gráta merkir það ekki að ég treysti ekki lengur Guði,“ segir Eliana sem berst við krabbamein. Reyndu að taka vin þinn eins og hann er en ekki eins og þú vilt að hann sé. Gerðu ráð fyrir að hann geti verið auðsærður á þessari stundu og sé ekki eins og hann eigi að sér. Vertu þolinmóður. Hlustaðu, jafnvel þótt þú hafir heyrt sömu söguna margsinnis áður. (1. Konungabók 19:9, 10, 13, 14) Vinur þinn hefur kannski þörf fyrir að segja þér hvernig sér líði.

Vertu hluttekningarsamur og nærgætinn

MEGINREGLUR Í BIBLÍUNNI:

„Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.“ — RÓMVERJABRÉFIР12:15.

„Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ — MATTEUS 7:12.

◼ Settu þig í spor vinarins. Ef hann er á leið í uppskurð eða meðferð, eða bíður eftir rannsóknarniðurstöðum er hann ef til vill taugaspenntur og viðkvæmur. Reyndu að hafa það hugfast og vera viðbúinn snöggum skapsveiflum. Þetta er ef til vill ekki rétti tíminn að spyrja margra spurninga, sérstaklega ef þær eru persónulegar.

Ana Katalifós er sálfræðingur. Hún segir: „Leyfið sjúklingum að tala um veikindi sín þegar þeir vilja og á sínum hraða. Þegar þá langar til að tala skuluð þið láta þá ráða umræðuefninu. En þegar þeir eru ekki í skapi til að tala er bara hægt að sitja þögull. Og hlýlegt handtak getur haft ótrúlega góð áhrif. Kannski finnurðu að þeim kæmi best að fá að halla sér að þér og gráta.“

Vertu þagmælskur. Rosanne Kalick, rithöfundur sem hefur fengið tvisvar krabbamein, skrifar: „Gerðu ráð fyrir að allt sem sjúklingurinn segir þér um hagi sína sé trúnaðarmál. Gefðu ekki öðrum upplýsingar nema þú hafir verið beðinn um að vera talsmaður fjölskyldunnar. Spyrðu sjúklinginn hvaða upplýsingar þú megir gefa.“ Edson læknaðist af krabbameini. Hann segir: „Vinur minn lét fréttast að ég væri með krabbamein og mér væri ekki hugað líf. Ég var svo sem nýbúinn að gangast undir uppskurð. Ég vissi að ég væri með krabbamein en var að bíða eftir niðurstöðum úr vefjasýnistöku. Það fundust engin meinvörp. En skaðinn var skeður. Eiginkona mín var eyðilögð yfir hugsunarlausum athugasemdum og spurningum annarra.“

Ef vinur þinn er að velta fyrir sér meðferðarmöguleikum vertu þá ekki of fljótur að segja honum hvað þú myndir gera í hans sporum. Lori Hope, rithöfundur sem læknaðist af krabbameini, segir: „Áður en maður sendir krabbameinssjúklingi eða þeim sem hafa læknast af krabbameini greinar eða fréttir af ýmsum toga er best að spyrja hvort þeir vilji fá slíkar fréttir. Annars gætu velviljaðar ábendingar þínar sært vininn án þess að þú fengir nokkurn tíma að vita það.“ Það vilja ekki allir láta kaffæra sig í upplýsingum um hinar og þessar læknismeðferðir.

Vertu ekki þaulsætinn þótt þú sért náinn vinur. Nærvera þín er mikils virði en ef til vill er vinurinn ekki nógu hress til að blanda geði við þig. Kannski er hann þreyttur og hefur lítið úthald til að tala mjög lengi eða hlusta. En gefðu ekki í skyn að þú sért á hraðferð. Vinurinn á skilið að finna hve annt þér sé um hann.

Nærgætni felur í sér að sýna góða dómgreind og jafnvægi. Áður en þú undirbýrð máltíð eða færir sjúkum vini blóm ættirðu til dæmis að spyrjast fyrir um hvort hann sé með ofnæmi fyrir einhverju. Sértu veikur, kannski kvefaður, væri tillitsamt að bíða með heimsóknina þangað til þér er batnað.

Vertu uppbyggilegur

MEGINREGLUR Í BIBÍUNNI:

„Tunga hins vitra græðir.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 12:18.

„Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:6.

◼ Ef þú ert jákvæður gagnvart sjúkum vini er líklegt að það komi fram í því sem þú segir og gerir. Líttu á vininn sem sömu persónuna með sömu eiginleikana og löðuðu þig að honum í byrjun. Beindu athyglinni að honum en ekki sjúkdómnum. Ef þú talar við hann eins og þú værir að tala við hjálparvana fórnarlamb gæti hann sjálfur farið að líta þannig á sig. Roberta, sem er með sjaldgæfan arfgengan beinasjúkdóm, segir: „Komið fram við mig eins og eðlilega manneskju. Þó að ég sé fötluð hef ég mínar skoðanir og langanir. Horfið ekki á mig með vorkunnaraugum. Talið ekki við mig eins og ég sé bjáni.“

Hafðu í huga að það skiptir ekki bara máli hvað er sagt heldur einnig hvernig það er sagt. Tónninn í röddinni getur jafnvel haft áhrif. Ernesto fékk símtal frá vini í útlöndum stuttu eftir að hann var greindur með krabbamein. Vinurinn sagði: „Ég trúi því ekki að þú sért með krabbamein!“ Ernesto minnist þess að áherslan, sem vinur hans lagði á orðin „þú“ og „krabbamein“, hafi vakið hjá honum kuldahroll.

Lori Hope, sem er rithöfundur, nefnir annað dæmi: „Sjúklingur getur skilið það á marga mismunandi vegu þegar spurt er: ,Hvernig hefurðu það?‘ Tónfall spyrjandans, líkamstjáning, gagnkvæmur skilningur, hve náinn hann er og auðvitað staður og stund ræður miklu um það hvort spurningin veitir hughreystingu, veldur sársauka eða vekur dulinn ótta.“

Sjúkan vin langar trúlega til að finna að einhverjum sé annt um hann, að einhver skilji hann og virði. Fullvissaðu hann um að hann sé þér mikils virði og að þú sért tiltækur til að veita honum hjálp. Rosemary var með heilaæxli og hún segir: „Það uppörvaði mig mest að heyra vini mína segja að þeim þætti vænt um mig og að þeir myndu standa með mér hvað sem á dyndi.“ — Orðskviðirnir 15:23; 25:11.

Vertu hjálpsamur

MEGINREGLA Í BIBLÍUNNI:

„Elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 3:18.

◼ Þarfirnar breytast þegar vinurinn fer í meðferð eftir greiningu. En allan tímann gæti hann þurft á hjálp að halda. Í stað þess að bjóða fram eitthvað almennt eins og: „Hringdu í mig ef þig vanhagar um eitthvað,“ reyndu þá frekar að nefna eitthvað ákveðið. Margt kemur til greina. Þú gætir boðist til að hjálpa við dagleg störf svo sem að matbúa, ræsta, þvo, strauja, fara í sendiferðir eða kaupa inn. Þú gætir ekið með vininn á heilsugæslustöð eða spítala þegar hann þarf á meðferð að halda og svo heim aftur. Vertu áreiðanlegur og stundvís. Stattu við orð þín og skuldbindingar. — Matteus 5:37.

„Hvað sem við gerum til að brúa bilið milli veikinda og heilbrigðis sjúklingsins kemur að gagni, hvort sem það er stórt eða smátt,“ segir rithöfundurinn Rosanne Kalick. Sílvia hefur tvisvar fengið krabbamein. Hún tekur undir þetta og segir: „Það var svo notalegt og hressandi þegar vinir mínir skiptust á að aka daglega með mig til annarrar borgar í geislameðferð. Á leiðinni töluðum við saman um daginn og veginn og eftir meðferðina fórum við alltaf á kaffihús og fengum okkur kaffisopa. Mér fannst ég verða aftur eins og ég átti að mér að vera.“

En þú skalt ekki ætla að þú vitir nákvæmlega hvers vinurinn þarfnast. „Spyrðu, spyrðu og spyrðu,“ segir Kalick og bætir við: „Láttu ekki löngunina til að hjálpa verða allsráðandi. Það getur haft þveröfug áhrif. Ef þú leyfir mér ekki að gera neitt geta skilaboðin verið þau að ég sé ófær um að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég þarf að finna að ég sé einhvers megnug. Ég þarf að finna að sjúkdómurinn hafi ekki riðið mér að fullu. Hjálpaðu mér að gera það sem ég get.“

Að öllum líkindum þarf vinurinn að finna að hann sé hæfur til einhvers. Adilson, sem er alnæmissjúklingur, segir: „Þegar maður er veikur langar mann ekki til að vera settur til hliðar eins og maður sé til einskis nýtur eða algerlega ósjálfbjarga. Mann langar til að geta orðið að einhverju liði jafnvel þó í litlu sé. Það er svo góð tilfinning að geta enn þá gert eitthvað að gagni. Þá langar mann til að halda áfram að lifa. Mér þykir mjög vænt um það þegar fólk lofar mér að taka ákvörðun og virðir hana. Þótt maður sé veikur þýðir það ekki að maður geti ekki haldið áfram að rækja hlutverk sitt sem faðir, móðir eða hvað sem er.“

Haltu sambandi

MEGINREGLA Í BIBLÍUNNI:

„Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 17:17.

◼ Ef þú getur ekki heimsótt vin þinn vegna fjarlægðar eða annarra ástæðna geturðu hringt í hann og rabbað við hann í rólegheitum, skrifað stutt bréf eða sent honum tölvupóst. Um hvað geturðu skrifað? Alan D. Wolfelt, sem er sálfræðingur, stingur upp á eftirfarandi: „Rifjaðu upp skemmtilegar endurminningar sem þið eigið sameiginlegar. Lofaðu að skrifa . . . aftur innan skamms og efndu síðan loforðið.“

Þú þarft ekki að veigra þér við að uppörva þann sjúka af ótta við að segja eitthvað sem á ekki við eða gera einhver mistök. Í mörgum tilfellum er það návist þín sem skiptir mestu máli. Lori Hope skrifar í bók sinni: „Við segjum og gerum öll eitthvað sem hægt er að misskilja eða getur óviljandi sært á einhvern hátt. Vandinn felst ekki í því. Vandamálið kemur upp þegar fólk er svo hrætt við að gera mistök að það heldur sig fjarri þeim sem þarfnast stuðnings.“

Vinur, sem er alvarlega sjúkur, þarfnaðist þín líklega meira en nokkru sinni fyrr. Vertu þá vinur sem „lætur aldrei af vináttu sinni“. Sársaukinn hverfur trúlega ekki þó að þú sért nálægur en viðleitni þín gæti gert erfitt ástand þolanlegra fyrir þann sem þér þykir vænt um.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sumum nöfnum er breytt.