Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samkundan — þar sem Jesús og lærisveinar hans prédikuðu

Samkundan — þar sem Jesús og lærisveinar hans prédikuðu

Samkundan — þar sem Jesús og lærisveinar hans prédikuðu

„Jesús fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið.“ — MATTEUS 4:23.

ÞEGAR við lesum guðspjöllin rekumst við iðulega á Jesú í samkunduhúsum. Hann fór oft í samkunduna til að prédika og fræða fólk um Guðsríki. Þá gilti einu hvort hann var staddur í Nasaret, heimabæ sínum, í Kapernaúm, borginni þar sem hann hafði starfsbækistöð, eða í einhverjum þeim bæ eða þorpi sem hann heimsótti þau þrjú og hálft ár sem annasöm þjónusta hans stóð yfir. Þegar Jesús leit yfir farinn veg sagði hann: „Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum þar sem allir Gyðingar safnast saman.“ — Jóhannes 18:20.

Postular Jesú og aðrir frumkristnir menn kenndu líka oft í samkundum Gyðinga. En hvernig kom það til að Gyðingar stunduðu tilbeiðslu sína í samkunduhúsum? Og hvernig voru þessi samkunduhús á dögum Jesú? Við skulum líta nánar á málið.

Stór þáttur í lífi Gyðinga Þrisvar á ári ferðuðust allir karlmenn til Jerúsalem til að vera viðstaddir hátíðirnar sem haldnar voru í musterinu helga þar í borg. Þess á milli gátu þeir sinnt daglegri guðsdýrkun í samkunduhúsi í heimabæ sínum, hvort sem þeir bjuggu í Palestínu eða í einhverri af nýlendum Gyðinga sem voru stofnaðar víða um lönd.

Hvenær var byrjað að nota samkunduhús? Sumir telja að það hafi verið meðan Gyðingar voru í útlegð í Babýlon (607-537 f.Kr.) en þá hafði musteri Jehóva verið lagt í rúst. Það gæti líka hafa verið skömmu eftir að Gyðingar sneru heim úr útlegðinni, þegar Esra prestur hvatti samlanda sína til að öðlast dýpri þekkingu og skilning á lögum Guðs. — Esrabók 7:10; 8:1-8; 10:3.

Í upphafi merkti orðið, sem þýtt er „samkunda“, einfaldlega „samkoma“ eða „söfnuður“. Þannig var það notað í Sjötíumannaþýðingunni sem er grísk þýðing á Hebresku ritningunum. Með tímanum fór orðið að vísa til hússins þar sem fólkið kom saman til að tilbiðja. Á fyrstu öld var samkunduhús í nánast öllum bæjum sem Jesús kom til, í borgum voru nokkur samkunduhús og í Jerúsalem mörg. Hvernig voru þessi samkunduhús?

Íburðarlaust tilbeiðsluhús Þegar ákveðið var að reisa samkunduhús reyndu Gyðingarnir yfirleitt að láta það standa hærra en byggðina í kring og hanna húsið þannig að inngangurinn (1) sneri að Jerúsalem. Þessar kröfur virðast þó hafa verið mjög sveigjanlegar þar sem ekki var alltaf hægt að uppfylla þær.

Samkunduhúsin voru oftast nær íburðarlaus og innanstokksmunir frekar fábrotnir. Í öllum samkunduhúsum var þó örk (2) eða kista sem í var geymd verðmætasta eign samfélagsins — bókrollur hinnar helgu ritningar. Þegar samkomur voru haldnar var kistan borin inn í salinn og eftir á var henni skilað í örugga geymslu (3).

,Æðsti bekkur‘ (4) var nálægt kistunni og sneri að söfnuðinum. Þar sátu samkundustjórarnir og virtir gestir. (Matteus 23:5, 6) Nærri miðju salarins var pallur með púlti og sæti fyrir ræðumann (5). Safnaðarmenn gátu svo setið á bekkjum sem sneru að púltinu á þrjá vegu (6).

Yfirleitt sá söfnuðurinn á hverjum stað um að reka samkunduhús bæjarins. Allir, bæði ríkir og fátækir, stóðu straum af viðhaldskostnaði með frjálsum framlögum. En hvernig var samkomuhaldi háttað í samkunduhúsunum?

Guðsdýrkun í samkundunni Á dagskrá í samkunduhúsinu var meðal annars lofsöngur, bæn, ritningarlestur og kennsla og prédikun. Söfnuðurinn byrjaði á því að fara með shema, sem var eins konar trúarjátning Gyðinga. Þetta heiti var dregið af fyrsta orðinu í fyrsta versinu sem farið var með: „Heyr [shema], Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn.“ — 5. Mósebók 6:4.

Næst á dagskrá var upplestur og útskýring á Tórunni, það er að segja fyrstu fimm bókum Biblíunnar sem Móse ritaði. (Postulasagan 15:21) Annar upplestur fylgdi í kjölfarið og var þá notast við útdrátt úr ritum spámannanna (haftarah) og efnið útskýrt og heimfært. Oft var þessi dagskrárliður í höndum gestaræðumanna líkt og lýst er í Lúkasi 4:16-21 þar sem sagt er frá því að Jesús hafi staðið upp og lesið.

Bókrollunni, sem Jesú var fengin í hendur á þessari samkomu, var ekki skipt niður í kafla og vers eins og gert er í biblíum nú á dögum. Við getum því séð Jesú fyrir okkur þar sem hann vefur ofan af bókrollunni með vinstri hendi og vefur hana upp með hægri uns hann finnur versið sem hann hafði í huga. Að lestrinum loknum var bókrollan vafin upp á nýjan leik.

Oftast nær var textinn lesinn á frummálinu, hebresku, og síðan þýddur yfir á arameísku. Notast var við Sjötíumannaþýðinguna í grískumælandi söfnuðum.

Nátengd daglegu lífi Samkunduhúsin voru nátengd daglegu lífi Gyðinga. Þau ásamt tengdum byggingum þjónuðu margvíslegum tilgangi. Oft voru þau notuð sem eins konar ráðhús og dómshús og meira að segja til samkomuhalds þar sem boðið var upp á máltíðir í nærliggjandi matsölum. Ferðalöngum var stundum leyft að gista í gestaherbergjum í viðbyggingum.

Í nær öllum bæjum var einnig starfræktur skóli á vegum samkundunnar, oft í sömu byggingu. Við getum séð fyrir okkur herbergi þar sem ungir nemendur sitja þétt saman og læra að lesa það sem kennarinn skrifar stórum stöfum á vaxtöflu. Skólar sem þessir áttu stóran þátt í því að allir Gyðingar til forna kunnu að lesa og skrifa og að almenningur þekkti ritningarnar.

Samkunduhúsin voru þó fyrst og fremst vettvangur til guðsdýrkunar. Því er ekki að undra að samkomur frumkristinna manna hafi líkst samkomunum sem haldnar voru í samkundum Gyðinga. Kristnir menn héldu líka samkomur í þeim tilgangi að tilbiðja Jehóva með bæn, lofsöngvum og upplestri úr orði hans og umræðum um það. En fleira var sambærilegt. Greitt var fyrir hin ýmsu útgjöld með frjálsum framlögum, lestur og umræður um orð Guðs voru ekki bundnar við prestastétt og öldungar báru ábyrgð á því að skipuleggja og halda samkomurnar.

Vottar Jehóva leitast við að líkja eftir fyrirmyndinni sem Jesús og fylgjendur hans á fyrstu öldinni létu í té. Samkomum þeirra í ríkissalnum svipar að einhverju leyti til samkomanna sem haldnar voru í samkunduhúsunum til forna. Umfram allt safnast vottar Jehóva saman af því að þá langar, líkt og sannleiksunnendur á öllum tímum, til að styrkja samband sitt við Guð. — Jakobsbréfið 4:8.

[Mynd á bls. 16, 17]

Samkundan í bænum Gamla á fyrstu öld eins og talið er að hún hafi litið út.

[Mynd á bls. 18]

Drengir á aldrinum 6 til 13 ára gengu í skóla í samkunduhúsunum.