Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Segir Biblían alla söguna um Jesú?

Segir Biblían alla söguna um Jesú?

Getur hugsast að Jesús hafi ekki dáið á Golgata eins og sagt er í Biblíunni heldur komist lífs af? Er hugsanlegt að hann hafi kvænst Maríu Magdalenu og eignast börn með henni? Eða var hann kannski dulspekingur og meinlætamaður sem neitaði sér um allar jarðneskar nautnir? Kenndi hann ef til vill eitthvað annað en lesa má í Biblíunni?

GETGÁTUR sem þessar hafa fengið byr undir báða vængi á síðustu árum, sumpart sprottnar af vinsælum kvikmyndum og skáldsögum. Auk skáldskaparins hefur í fjölda bóka og greina verið vakin athygli á apókrýfuritum frá annarri og þriðju öld sem fullyrt er að geymi upplýsingar um Jesú sem sleppt er í guðspjöllunum. Er eitthvað hæft í því? Er hægt að treysta að Biblían segi sannleikann og segi alla söguna um Jesú?

Til að svara þessum spurningum er gott að kanna þrennt. Í fyrsta lagi þurfum við að hafa áreiðanlegar upplýsingar um mennina sem skrifuðu guðspjöllin og hvenær þau voru skrifuð. Í öðru lagi þurfum við að kanna hverjir ákváðu hvaða rit ættu að tilheyra Biblíunni og hvernig það var gert. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að kynna sér tilurð apókrýfuritanna og kanna að hvaða leyti þau eru ólík þeim ritum sem tilheyra helgiritasafni Biblíunnar. *

Hverjir skrifuðu Grísku ritningarnar og hvenær?

Samkvæmt sumum heimildum var Matteusarguðspjall skrifað aðeins átta árum eftir dauða Jesú, það er að segja árið 41. Margir fræðimenn telja það skrifað eitthvað síðar, en almennt er þó talið að allar bækur Grísku ritninganna, það er að segja Nýja testamentisins, hafi verið skrifaðar á fyrstu öld.

Sjónarvottar að starfi Jesú, dauða og upprisu voru enn á lífi á þeim tíma og gátu staðfest frásagnir guðspjallanna. Það var líka hægur vandi fyrir þá að afhjúpa ónákvæmni og villur. Prófessor Frederick F. Bruce segir: „Einn af sterku þáttunum í upprunalegri boðun postulanna er sá að þeir höfða óhikað til vitneskju áheyrenda. Þeir segja ekki aðeins: ,Við erum vottar þessa‘ heldur einnig: ,Eins og þið vitið sjálfir‘ (Postulasagan 2:22).“

Páll postuli vann ýmis kraftaverk. Hann reisti jafnvel fólk upp frá dauðum sem vitnar sterklega um að andi Guðs hafi stutt hann og það sem hann skrifaði.

Hverjir skrifuðu Grísku ritningarnar? Sumir hinna 12 postula Jesú voru meðal ritaranna. Þeir og fleiri ritarar, svo sem Jakob, Júdas og sennilega Markús, voru viðstaddir á hvítasunnu árið 33 þegar kristni söfnuðurinn var stofnaður. Allir ritararnir, þeirra á meðal Páll, voru í nánu sambandi við hið upphaflega stjórnandi ráð frumkristna safnaðarins en í því sátu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem. – Postulasagan 15:2, 6, 12-14, 22; Galatabréfið 2:7-10.

Jesús fékk fylgjendum sínum það verkefni að halda áfram þeirri boðun og kennslu sem hann hafði byrjað. (Matteus 28:19, 20) Hann sagði jafnvel: „Sá sem á yður hlýðir hlýðir á mig.“ (Lúkas 10:16) Hann lofaði þeim enn fremur að heilagur andi Guðs, starfskraftur hans, myndi gefa þeim kraft til að vinna þetta verk. Frumkristnir menn voru eðlilega þeirrar skoðunar að hægt væri að treysta ritum sem bárust frá postulunum og nánum samstarfsmönnum þeirra, mönnum sem báru skýr merki þess að hafa fengið heilagan anda Guðs.

Sumir biblíuritarar vitnuðu um að félagar þeirra hefðu fengið umboð og innblástur frá Guði. Til dæmis minnist Pétur postuli á bréf Páls og leggur þau að jöfnu við „aðrar ritningar“. (2. Pétursbréf 3:15, 16) Páll talar um að postularnir og aðrir kristnir spámenn hafi verið innblásnir af Guði. – Efesusbréfið 3:5.

Það eru þess vegna góð rök fyrir því að guðspjöllin séu áreiðanleg og ósvikin. Þau eru engin munnmæli eða ævintýri. Þau eru vandaðar sagnaheimildir byggðar á frásögum sjónarvotta og ritaðar af mönnum sem hlutu innblástur heilags anda Guðs.

Hverjir völdu rit Biblíunnar?

Sumir hafa haldið því fram að ritin, sem er að finna í grískum hluta Biblíunnar, hafi verið valin öldum eftir að þau voru skrifuð. Þar hafi verið að verki kirkja sem var orðin valdastofnun undir stjórn Konstantínusar keisara. Staðreyndirnar tala öðru máli.

Lítum á dæmi. Oskar Skarsaune, prófessor í kirkjusögu, segir: „Það voru hvorki kirkjuþing né einstakir menn sem ákváðu hvaða rit áttu að tilheyra Nýja testamentinu og hver ekki ... Viðmiðið var gagnsætt og ákaflega skynsamlegt: Rit frá fyrstu öld, sem talið var að postularnir eða samstarfsmenn þeirra hefðu skrifað, voru talin áreiðanleg. Önnur rit, bréf eða ,guðspjöll‘, sem voru skrifuð síðar, voru ekki meðtalin ... Í meginatriðum var búið að velja ritin löngu fyrir daga Konstantínusar og löngu áður en kirkja hans og valdastofnun varð til. Það var kirkja píslarvottanna, ekki kirkja valdsins, sem gaf okkur Nýja testamentið.“

Ken Berding, dósent sem fæst við rannsóknir á grískum ritningum kristinna manna, segir eftirfarandi um helgiritasafn Biblíunnar: „Kirkjan ákvað ekki hvaða bækur skyldu tilheyra Biblíunni. Það er réttara að orða það þannig að kirkjan hafi viðurkennt þær bækur sem kristnir menn höfðu alltaf litið á sem áreiðanlegt orð Guðs.“

En voru það bara óbrotnir kristnir menn á fyrstu öld sem völdu rit Biblíunnar? Nei, samkvæmt Biblíunni var mikilvægara og öflugra afl að verki.

Að sögn Biblíunnar fengu kristnir menn ýmsar náðargáfur andans á fyrstu áratugum kristninnar, meðal annars „hæfileika að sannreyna anda“, það er að segja hvað væri innblásið. (1. Korintubréf 12:4, 10) Sumir hinna frumkristnu fengu sem sagt ofurmannlegan hæfileika til að greina milli boðskapar sem var í alvöru innblásinn af Guði og orða sem voru það ekki. Kristnir menn nú á tímum geta því treyst að þau rit, sem er að finna í Biblíunni, hafi notið viðurkenningar sem innblásin rit.

Það er því ljóst að helgiritasafn Biblíunnar var valið snemma undir leiðsögn heilags anda. Á síðari hluta annarrar aldar tóku einstaka rithöfundar að tjá sig um helgiritasafn Biblíunnar. Þeir ákváðu hins vegar ekki hvaða rit ættu að tilheyra Biblíunni heldur vitnuðu þeir einungis um það sem Guð hafði þegar viðurkennt fyrir atbeina fulltrúa sinna sem hann leiðbeindi með anda sínum.

Forn handrit eru líka sterk rök fyrir því að þau biblíurit, sem eru almennt viðurkennd núna, hafi verið valin snemma. Til eru rösklega 5.000 handrit af grísku ritningunum á frummálinu, sum hver frá annarri og þriðju öld. Það voru þessi rit, ekki apókrýfuritin, sem voru viðurkennd á fyrstu öldum okkar tímatals, og því voru þau afrituð og þeim dreift víða.

Sterkustu rökin fyrir áreiðanleika Biblíunnar eru þó innri vitnisburður. Hin viðteknu rit eru í samræmi við ,heilnæmu orðin‘ sem er að finna annars staðar í Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Þau hvetja lesendur til að elska Jehóva, tilbiðja hann og þjóna honum, og þau vara við hjátrú, djöflatrú og dýrkun á mönnum. Þau eru sögulega nákvæm og innihalda sanna spádóma. Þau hvetja lesendur til að elska náungann. Þetta er áberandi einkenni á bókum Grísku ritninganna. En hvað er hægt að segja um apókrýfuritin?

Að hvaða leyti eru apókrýfuritin ólík?

Apókrýfuritin eru býsna ólík hinum viðteknu ritum Biblíunnar. Apókrýfuritin eru skrifuð frá því um miðbik annarrar aldar, miklu síðar en helgirit Biblíunnar. Þau draga upp aðra mynd af Jesú og kristninni en hin innblásnu rit.

Lítum til dæmis á Tómasarguðspjall sem er apókrýfurit. Þar eru Jesú eignuð ýmis kynleg ummæli, svo sem að hann ætli að breyta Maríu í karlmann svo að hún geti komist í himnaríki. Í Bernskuguðspjalli Tómasar er Jesú lýst sem illgjörnu barni sem verður þess valdandi að önnur börn týna lífi. Saga Páls og Saga Péturs, sem eru báðar apókrýfurit, leggja áherslu á algert kynlífsbindindi og segja postulana jafnvel hafa hvatt konur til að slíta samvistum við menn sína. Í Júdasarguðspjalli er Jesús sagður hafa hlegið að lærisveinunum fyrir að fara með borðbæn. Þessar lýsingar stinga mjög í stúf við efni hinna viðteknu biblíubóka. — Markús 14:22; 1. Korintubréf 7:3-5; Galatabréfið 3:28; Hebreabréfið 7:26.

Mörg af apókrýfuritunum endurspegla trúarskoðanir gnostíka en þeir héldu því fram að skaparinn, Jehóva, væri ekki góður Guð. Þeir trúðu að upprisan væri ekki bókstafleg, að allt efni væri af hinu illa og að Satan væri höfundur hjónabands og barneigna.

Mörg apókrýfuritin eru ranglega eignuð biblíupersónum. Var eitthvert allsherjarsamsæri um það að útiloka þessar bækur frá Biblíunni? Sérfræðingur í apókrýfuritunum, M. R. James að nafni, segir: „Ekki er um það að ræða að einhver hafi útilokað þau frá Nýja testamentinu. Þau hafa sjálf útilokað sig.“

Biblíuritarar vöruðu við að fráhvarf myndi eiga sér stað

Í viðurkenndum ritum Biblíunnar er margsinnis varað við fráhvarfi sem myndi spilla kristna söfnuðinum. Þetta fráhvarf var meira að segja byrjað á fyrstu öldinni en aðhald postulanna hélt því í skefjum. (Postulasagan 20:30; 2. Þessaloníkubréf 2:3, 6, 7; 1. Tímóteusarbréf 4:1-3; 2. Pétursbréf 2:1; 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19; 4:1-3) Þessar viðvaranir varpa ákveðnu ljósi á rit sem farið var að skrifa eftir dauða postulanna, rit sem stangast á við kenningar Jesú.

Vissulega eru rit þessi ævaforn og vekja kannski virðingu sumra fræðimanna og sagnfræðinga. En hugsum okkur eftirfarandi: Segjum að fræðimenn tækju saman dágóðan stafla af nýlegum en vafasömum ritsmíðum, kannski úr slúðurtímaritum eða ritum róttækra trúarreglna, og kæmu þeim fyrir í öryggisgeymslu. Yrðu þessar ritsmíðar sannar og áreiðanlegar með tímanum? Yrðu lygar og þvæla þessara pappíra orðinn sannleikur eftir 1700 ár af þeirri einu ástæðu að plöggin væru ævaforn?

Að sjálfsögðu ekki. Hið sama má segja um fullyrðingar þess efnis að Jesús hafi kvænst Maríu Magdalenu og aðrar fráleitar staðhæfingar apókrýfubókanna. Er einhver ástæða til að taka mark á þessum óáreiðanlegu heimildum þegar öruggar heimildir liggja fyrir? Allt sem Guð vill að við vitum um son sinn er að finna í Biblíunni, og hún er heimild sem við getum treyst.

^ gr. 4 Með „helgiritasafni“ er átt við það safn biblíubóka sem bera þess skýr merki að vera innblásnar af Guði. Almennt er viðurkennt að 66 bækur tilheyri helgiritasafninu og eru þær óaðskiljanlegur hluti orðs Guðs.