Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Jesús höfuðengillinn Míkael?

Er Jesús höfuðengillinn Míkael?

Lesendur Spyrja . . .

Er Jesús höfuðengillinn Míkael?

▪ Einfalt svar við þessu er já. Sá siður að vera nefndur fleiri en einu nafni er algengur í mörgum menningarsamfélögum. Það sama á við um nöfn í Biblíunni. Til dæmis er ættfaðirinn Jakob einnig nefndur Ísrael. (1. Mósebók 35:10) Pétur postuli er nefndur á fjóra mismunandi vegu í íslensku Biblíunni — Símon, Símon Pétur, Kefas og Pétur. (Matteus 10:2; 16:16; Jóhannes 1:42; Postulasagan 15:7, 14) Hvernig getum við verið viss um að Míkael sé annað nafn á Jesú? Skoðum nokkra ritningarstaði þessu til staðfestingar.

Í Biblíunni er fimm sinnum minnst á hina voldugu andaveru Míkael. Nafnið kemur þrisvar sinnum fyrir í Daníelsbók. Í Daníel 10:13, 21, lesum við að Míkael hafi bjargað engli sem sendur var til að sinna ákveðnu verkefni og þar er Míkael sagður „fremstur höfðingjanna“ og „leiðtogi“. Í Daníel 12:1 segir síðan um endalokatímann: „Míkael, leiðtoginn mikli, sem verndar syni þjóðar þinnar, mun þá birtast.“

Aftur er minnst á Míkael í Opinberunarbókinni 12:7, þar sem segir að „Mikael og englar hans“ heyi stríð sem endi með því að Satan djöflinum og illum englum hans verði varpað niður frá himnum.

Það er athyglisvert að í öllum fyrrgreindum ritningarstöðum er Míkael lýst sem stríðsengli sem berst fyrir og verndar fólk Guðs og tekst jafnvel á við Satan sem er erkióvinur Jehóva.

Í Júdasarbréfinu versi 9 er Míkael kallaður „höfuðengillinn“. Tökum eftir að titillinn er með ákveðnum greini sem bendir til þess að aðeins sé til einn höfuðengill, reyndar stendur orðið eingöngu í eintölu í Biblíunni. Aðeins á einum öðrum stað er notað orðið höfuðengill eða erkiengill í Biblíunni og það er í 1. Þessaloníkubréfi 4:16, en þar lýsir Páll hinum upprisna Jesú og segir: „Þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar, mun sjálfur Drottinn [Jesús] stíga niður af himni.“ Af þessu versi má ráða að Jesús Kristur sé sjálfur höfuðengillinn eða erkiengillinn.

Hvaða ályktun getum við dregið af þessum upplýsingum? Jesús Kristur er höfuðengillinn Míkael. Bæði nöfnin — Míkael (sem merkir „Hver er Guði líkur?“) og Jesús (sem merkir „Jehóva er hjálpræði mitt“) — beina sjónum okkar að hlutverki hans sem helsta málsvara drottinvalds Guðs. Filippíbréfið 2:9 segir: „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann [hinn dýrlega Jesú] og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.“

Það er mikilvægt að veita því athygli að Jesús var til áður en hann fæddist sem mannsbarn. María, móðir hans, fékk vitrun frá engli sem sagði að hún myndi verða þunguð fyrir tilstuðlan heilags anda og að hún ætti að láta barnið heita Jesú. (Lúkas 1:31) Þegar Jesús þjónaði hér á jörðinni talaði hann oft um fortilveru sína á himnum. — Jóhannes 3:13; 8:23, 58.

Við getum því verið viss um að Míkael höfuðengill er Jesús áður en hann kom til jarðar. Eftir að Jesús var upprisinn og hafinn upp til himna tók hann á ný við stöðu sinni sem höfuðengillinn Míkael, „Guði föður til dýrðar“. — Filippíbréfið 2:11.