Fyrsta Mósebók 35:1–29

  • Jakob losar sig við útlend goð (1–4)

  • Jakob kemur aftur til Betel (5–15)

  • Benjamín fæðist; Rakel deyr (16–20)

  • 12 synir Ísraels (21–26)

  • Ísak deyr (27–29)

35  Eftir þetta sagði Guð við Jakob: „Leggðu af stað og farðu til Betel. Þú skalt dvelja þar og reisa þar altari handa hinum sanna Guði sem birtist þér þegar þú varst á flótta undan Esaú bróður þínum.“  Jakob sagði þá við heimilisfólk sitt og alla sem voru með honum: „Losið ykkur við útlendu goðin sem þið hafið hjá ykkur, hreinsið ykkur og skiptið um föt.  Leggjum síðan af stað og förum til Betel. Þar ætla ég að reisa altari handa hinum sanna Guði sem bænheyrði mig á neyðardegi mínum og hefur verið með mér hvert* sem ég hef farið.“  Fólkið lét þá Jakob fá öll útlendu goðin sem það hafði hjá sér og lokkana sem það hafði í eyrunum, og Jakob gróf* það undir stóra trénu við Síkem.  Þegar þau voru lögð af stað lét Guð mikinn ótta koma yfir nágrannaborgirnar þannig að enginn þorði að veita sonum Jakobs eftirför.  Að lokum kom Jakob til Lús, það er Betel, í Kanaanslandi ásamt öllum sem voru með honum.  Þar reisti hann altari og nefndi staðinn El Betel* því að þar hafði hinn sanni Guð birst honum þegar hann var á flótta undan bróður sínum.  Þá dó Debóra fóstra Rebekku og var grafin skammt frá Betel, undir eik sem hann nefndi Gráteik.  Þegar Jakob var á leiðinni frá Paddan Aram birtist Guð honum aftur og blessaði hann. 10  Guð sagði við hann: „Nafn þitt er Jakob en þú skalt ekki lengur heita Jakob heldur Ísrael.“ Og hann kallaði hann Ísrael. 11  Guð sagði líka við hann: „Ég er almáttugur Guð. Vertu frjósamur og eignastu marga afkomendur. Þú verður ættfaðir þjóða, já, fjölda þjóða, og konungar munu koma af þér.* 12  Landið sem ég gaf Abraham og Ísak gef ég þér og afkomendum þínum eftir þig.“ 13  Síðan steig Guð upp frá honum þaðan sem hann talaði við hann. 14  Jakob reisti stein sem minnisvarða þar sem Guð hafði talað við hann og hellti yfir hann drykkjarfórn og einnig olíu. 15  Enn sem fyrr kallaði Jakob staðinn þar sem Guð hafði talað við hann Betel. 16  Þau héldu nú frá Betel og þegar þau voru enn dágóðan spöl frá Efrata fékk Rakel fæðingarhríðir. Fæðingin reyndist mjög erfið 17  en þegar verkirnir voru sem verstir sagði ljósmóðirin við hana: „Vertu ekki hrædd því að þú munt eignast annan son.“ 18  Rétt áður en líf hennar fjaraði út (en hún var að dauða komin) nefndi hún hann Benóní* en faðir hans nefndi hann Benjamín.* 19  Eftir að Rakel dó var hún grafin við veginn til Efrata, það er að segja Betlehem. 20  Jakob reisti minningarstein á gröf Rakelar. Steinninn stendur þar enn þann dag í dag. 21  Ísrael hélt síðan ferð sinni áfram og sló upp tjaldi sínu hinum megin við Edersturn. 22  Eitt sinn meðan Ísrael dvaldist í landinu lagðist Rúben með Bílu, hjákonu föður síns, og Ísrael frétti af því. Jakob átti 12 syni. 23  Synir Leu voru Rúben frumburður Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon. 24  Synir Rakelar voru Jósef og Benjamín. 25  Synir Bílu þjónustustúlku Rakelar voru Dan og Naftalí. 26  Synir Silpu þjónustustúlku Leu voru Gað og Asser. Þetta voru synir Jakobs sem fæddust í Paddan Aram. 27  Loks kom Jakob til Ísaks föður síns í Mamre, til Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu báðir búið sem útlendingar. 28  Ísak náði 180 ára aldri. 29  Þá gaf hann upp andann. Hann dó og safnaðist til fólks síns* eftir langa og góða ævi.* Esaú og Jakob synir hans jörðuðu hann.

Neðanmáls

Eða „á þeim vegi“.
Eða „faldi“.
Sem þýðir ‚Guð Betel‘.
Orðrétt „lendum þínum“.
Sem þýðir ‚hryggðarsonur minn‘.
Sem þýðir ‚hægrihandarsonur‘.
Ljóðræn lýsing á dauðanum.
Orðrétt „gamall og saddur daga“.