Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlar þú að viðhalda ráðvendni þinni?

Ætlar þú að viðhalda ráðvendni þinni?

Ætlar þú að viðhalda ráðvendni þinni?

„Þangað til ég gef upp andann læt ég ekki af ráðvendni minni.“ — JOB. 27:5, NW.

1, 2. Hvaða eiginleika þurfum við að byggja upp og hvaða spurningum ætlum við að leita svara við?

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að skoða teikningar af húsi. Það er vel hannað. Þú hugsar til þess með ánægju hve gott það verði að búa í húsinu með fjölskyldu þinni. En ertu ekki sammála því að það sé til lítils að skoða teikningarnar og hugsa um þær nema þú byggir húsið, flytjir inn og haldir því síðan við?

2 Að sama skapi hugsum við kannski til þess að það sé ákaflega gott og mikilvægt fyrir okkur og ástvini okkar að vera ráðvönd. En það gerir okkur lítið gagn að hugsa með velþóknun um ráðvendnina nema við byggjum upp þennan eiginleika og höldum honum síðan við. Það getur verið dýrt að byggja hús. (Lúk. 14:28, 29) Það kostar líka tíma og vinnu að byggja upp ráðvendni en það er erfiðisins virði. Við skulum því líta á þrjár spurningar: Hvernig er hægt að vera ráðvandur? Hvað er hægt að gera til að viðhalda þessum eiginleika? Og hvað er til ráða ef einhver er ekki ráðvandur um tíma?

Hvernig getum við verið ráðvönd?

3, 4. (a) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að byggja upp ráðvendni? (b) Hvernig getum við byggt upp ráðvendni eins og Jesús er gott dæmi um?

3 Í námsgreininni á undan kom fram að Jehóva sýnir okkur þann heiður að leyfa okkur að ákveða sjálf hvort við viljum vera ráðvönd. En sem betur fer þurfum við ekki að gera það ein og óstudd. Jehóva kennir okkur að byggja upp þennan verðmæta eiginleika og gefur okkur óspart af heilögum anda sem hjálpar okkur að fara eftir boðorðum hans. (Lúk. 11:13) Hann verndar líka trú þeirra sem leggja sig fram um að vera ráðvandir. — Orðskv. 2:7.

4 Hvernig hefur Jehóva kennt okkur að vera ráðvönd? Fyrst og fremst með því að senda son sinn Jesú til jarðar. Jesús var fullkomlega hlýðinn alla ævi. Hann „varð hlýðinn allt til dauða“. (Fil. 2:8) Jesús hlýddi himneskum föður sínum í einu og öllu, jafnvel þegar það var óhemjuerfitt. „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji,“ sagði hann við Jehóva. (Lúk. 22:42) Við ættum öll að spyrja okkur hvort við séum hlýðin eins og Jesús. Við erum ráðvönd ef við erum hlýðin af réttu tilefni. Lítum á nokkur svið í lífinu þar sem er sérstaklega mikilvægt að vera hlýðin.

5, 6. (a) Hvernig lagði Davíð áherslu á að það væri mikilvægt að vera ráðvandur, jafnvel þegar aðrir menn sjá ekki til? (b) Hvernig getur reynt á ráðvendni þjóna Guðs þegar þeir eru einir?

5 Við þurfum að hlýða Jehóva jafnvel þegar við virðumst vera ein með sjálfum okkur. Sálmaskáldið Davíð vissi að það var mikilvægt að vera ráðvandur þegar hann var einn. (Lestu Sálm 101:2.) Davíð var konungur og var því alltaf með fólk í kringum sig. Eflaust hafa oft hvílt á honum augu hundruða eða jafnvel þúsunda manna. (Samanber Sálm 26:12.) Konungurinn þurfti að vera þjóðinni góð fyrirmynd þannig að það var mikilvægt að Davíð væri ráðvandur við slík tækifæri. (5. Mós. 17:18, 19) En Davíð komst að raun um að hann þurfti líka að vera ráðvandur ‚í húsi sínu‘, hugsanlega þegar hann var einn. Hvað um okkur?

6 Davíð sagði í Sálmi 101:3: „Ég vil ekki hafa illvirki fyrir augum.“ Það gefast ótal tækifæri til að „hafa illvirki fyrir augum“, ekki síst þegar við erum ein. Aðgangur að Netinu hefur verið mörgum freisting til þess. Það er hægðarleikur að láta tælast til að horfa á óviðeigandi efni á Netinu, jafnvel klám. En væri það hlýðni við Guð sem innblés Davíð að skrifa orðin hér á undan? Klám er skaðlegt því að það getur vakið upp rangar langanir og ágirnd, skaðað samviskuna, spillt milli hjóna og auvirt alla sem hlut eiga að máli. — Orðskv. 4:23; 2. Kor. 7:1; 1. Þess. 4:3-5.

7. Hvað getur hjálpað okkur að vera ráðvönd þegar við erum ein?

7 Auðvitað er enginn þjónn Jehóva nokkurn tíma aleinn. Faðirinn á himnum gætir okkar í kærleika sínum. (Lestu Sálm 11:4.) Það hlýtur að gleðja Jehóva ósegjanlega að sjá þig standast freistingar. Með því að gera það hlýðirðu viðvöruninni sem er fólgin í orðum Jesú í Matteusi 5:28. Vertu staðráðinn í að horfa ekki á myndir sem gætu freistað þín til að gera eitthvað rangt. Fórnaðu ekki dýrmætri ráðvendni þinni með því að gera þig sekan um það skammarlega athæfi að horfa á eða lesa klám.

8, 9. (a) Hvernig reyndi á ráðvendni Daníels og félaga hans? (b) Hvernig geta kristnir unglingar glatt Jehóva og trúsystkini sín?

8 Við getum líka verið ráðvönd með því að hlýða Jehóva þegar við erum meðal vantrúaðra. Daníel og félagar hans þrír eru dæmi um það. Þeir voru fluttir sem útlagar til Babýlonar meðan þeir voru enn unglingar. Þar voru þeir umkringdir vantrúuðum sem vissu lítið eða ekkert um Jehóva, og þrýst var á þá að borða kræsingar sem þeim var bannað samkvæmt lögum Guðs. Drengirnir hefðu hæglega getað réttlætt fyrir sér að fara á svig við lög Guðs. Hvorki foreldrarnir, öldungarnir né prestarnir sáu til þeirra né vissu hvað þeir gerðu. Hver myndi komast að því? Jehóva, auðvitað. Þeir tóku því einbeitta afstöðu og hlýddu honum þrátt fyrir þrýstinginn og áhættuna sem fylgdi því. — Dan. 1:3-9.

9 Ungir vottar Jehóva um heim allan taka svipaða afstöðu. Þeir fylgja þeim meginreglum sem Jehóva setur kristnum mönnum og láta ekki undan skaðlegum hópþrýstingi. Þegar þið unglingarnir viljið ekki koma nálægt fíkniefnum, ofbeldi, ljótum munnsöfnuði, siðleysi eða öðrum syndum hlýðið þið Jehóva. Og þannig varðveitið þið ráðvendni ykkar. Það er sjálfum ykkur til góðs og þið gleðjið Jehóva og trúsystkini ykkar. — Sálm. 110:3.

10. (a) Hvaða ranghugmyndir um saurlifnað hafa fengið suma unglinga til að láta af ráðvendni sinni? (b) Hvernig metum við hættuna á saurlifnaði ef við erum ráðvönd?

10 Við þurfum líka að vera hlýðin að því er varðar samskipti við hitt kynið. Við vitum að saurlifnaður er bannaður samkvæmt orði Guðs. En það er eitt að vera hlýðinn og annað að þykjast vera það. Sumir unglingar hafa til dæmis tekið þátt í munnmökum, endaþarmsmökum eða fróað hver öðrum og talið sér trú um að það sé ekki svo slæmt af því að tæknilega séð séu þetta ekki „kynmök“. Þessir unglingar gleyma — eða þykjast ekki vita — að biblíuorðið, sem er þýtt saurlifnaður, felur í sér þetta sem nefnt er hér á undan og lýsir rangri breytni sem getur haft í för með sér að fólki sé vikið úr söfnuðinum. * Og það sem verra er, þeir láta ráðvendni sína lönd og leið. Þar sem við viljum vera ráðvönd reynum við ekki að fara kringum lög Guðs. Við reynum ekki að fara eins nærri því að syndga og hægt er án þess að fá refsingu. Við einblínum ekki á ögunina sem það myndi hafa í för með sér að brjóta boð Biblíunnar. Við einbeitum okkur öllu heldur að því að gera það sem Jehóva hefur velþóknun á og forðast það sem myndi særa hann. Í stað þess að sjá hve langt við getum gengið án þess að teljast brotleg höldum við okkur sem lengst frá syndinni og ‚forðumst saurlifnaðinn‘. (1. Kor. 6:18) Þannig sýnum við að við erum ráðvönd í alvöru.

Hvernig getum við viðhaldið ráðvendni okkar?

11. Af hverju skiptir það máli að vera alltaf hlýðin? Lýstu með dæmi.

11 Við byggjum upp ráðvendni með því að temja okkur hlýðni og viðhöldum henni með því að vera hlýðin dag frá degi. Að hlýða einu sinni virðist kannski ekki þungt á metunum. En með því að vera hlýðin til langs tíma litið sýnum við að við erum ráðvönd. Lýsum þessu með dæmi: Einn múrsteinn lætur ekki mikið yfir sér en ef við röðum mörgum múrsteinum saman getum við byggt úr þeim fallegt hús. Að sama skapi viðhöldum við ráðvendni okkar með því að vera hlýðin. — Lúk. 16:10.

12. Hvernig sýndi Davíð ráðvendni andspænis óréttlæti og erfiðleikum?

12 Ráðvendni okkar kemur skýrt í ljós þegar við erum þolgóð í þrengingum, erfiðleikum eða óréttlæti. Lítum aftur á frásögn Biblíunnar af Davíð. Sem ungur maður mátti hann þola ofsóknir af hendi konungs sem átti að vera fulltrúi Jehóva. Sál konungur hafði hins vegar glatað velþóknun Jehóva og var ákaflega öfundsjúkur út í Davíð sem Jehóva hafði velþóknun á. Sál hélt þó völdum enn um sinn og beitti her Ísraels til að hundelta Davíð. Jehóva leyfði að þetta óréttlæti viðgengist í nokkur ár. Varð Davíð bitur út í Guð? Komst hann að þeirri niðurstöðu að það þjónaði engum tilgangi að þrauka? Nei, hann virti það að Sál konungur var útvalinn af Guði og þvertók fyrir að ná sér niðri á honum þegar hann fékk tækifæri til. — 1. Sam. 24:2-7.

13. Hvernig getum við viðhaldið ráðvendni okkar ef við erum særð eða móðguð?

13 Dæmi Davíðs á mikið erindi til okkar. Við tilheyrum alþjóðlegum söfnuði ófullkominna manna og einhver þeirra getur gert eitthvað á hlut okkar eða orðið Guði ótrúr. Við lifum sem betur fer þá tíma að söfnuður Jehóva í heild getur ekki spillst. (Jes. 54:17) En hver eru viðbrögð okkar ef einhver í söfnuðinum veldur okkur vonbrigðum eða særir tilfinningar okkar? Ef við létum gremju í garð trúsystkinis eitra huga okkar gæti ráðvendni okkar við Guð verið í hættu. Við megum aldrei nota framgöngu annarra sem afsökun fyrir því að verða bitur út í Guð eða hætta að vera honum trú. (Sálm. 119:165) Ef við erum þolgóð í prófraunum hjálpar það okkur að vera ráðvönd.

14. Hvernig bregðast ráðvandir þjónar Guðs við skipulagsbreytingum og nýjum skýringum?

14 Við getum líka viðhaldið ráðvendni okkar með því að vera ekki gagnrýnin eða aðfinnslusöm. Það merkir auðvitað að við séum Jehóva trú. Hann blessar þjóna sína meira en nokkru sinni fyrr. Hrein tilbeiðsla hefur aldrei í sögunni verið svona hátt upp hafin. (Jes. 2:2-4) Þegar breytingar eru gerðar eða við fáum nýjar skýringar á biblíutextum viljum við laga okkur að þeim. Það gleður okkur að sjá merki um að andlega ljósið verði æ bjartara. (Orðskv. 4:18) Ef okkur finnst erfitt að skilja breytinguna biðjum við Jehóva að hjálpa okkur og erum honum hlýðin og þar með ráðvönd.

Hvað ef einhver viðheldur ekki ráðvendninni?

15. Hver einn getur tekið ráðvendnina frá þér?

15 Þetta er umhugsunarverð spurning. Eins og fram kom í námsgreininni á undan er ákaflega mikilvægt að vera ráðvandur. Ef við erum það ekki eigum við ekkert samband við Jehóva og höfum enga sanna von. Höfum eftirfarandi hugfast: Það er aðeins ein manneskja í öllum heiminum sem getur tekið ráðvendnina frá þér. Það ert þú sjálfur. Job skildi það mætavel og sagði: „Þangað til ég gef upp andann læt ég ekki af ráðvendni minni.“ (Job. 27:5, NW ) Ef þú ert jafn ákveðinn og hann og varðveitir sterkt samband við Jehóva verður þú alltaf ráðvandur. — Jak. 4:8.

16, 17. (a) Hvað á sá maður ekki að gera sem fremur alvarlega synd? (b) Hvað á hann að gera?

16 Það tekst þó ekki öllum að viðhalda ráðvendninni. Sumir gera sig seka um alvarlega synd rétt eins og gerðist á dögum postulanna. Er öll von úti ef það gerist hjá þér? Svo þarf ekki að vera. Hvað er þá til ráða? Skoðum fyrst hvað á ekki að gera. Menn hafa tilhneigingu til að fela syndir fyrir foreldrum, trúsystkinum og öldungum. Í Biblíunni segir hins vegar: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ (Orðskv. 28:13) Þeir sem reyna að fela syndir sínar gera alvarleg mistök vegna þess að það er ekki hægt að fela neitt fyrir Guði. (Lestu Hebreabréfið 4:13.) Sumir reyna jafnvel að lifa tvöföldu lífi og þykjast þjóna Jehóva en halda áfram að syndga í laumi. Sá sem gerir það er ekki ráðvandur heldur hið gagnstæða. Jehóva hefur enga ánægju af þjónustu þeirra sem leyna alvarlegum syndum heldur reiðist slíkri hræsni. — Orðskv. 21:27; Jes. 1:11-16.

17 Þegar kristinn maður gerir sig sekan um alvarlega synd er ljóst samkvæmt Biblíunni hvað hann á að gera. Hann á að leita hjálpar safnaðaröldunganna. Jehóva hefur ákveðið fyrirkomulag til að hjálpa þeim sem eru ‚sjúkir‘ í þeim skilningi að þeir hafa skemmt samband sitt við hann. (Lestu Jakobsbréfið 5:14.) Láttu ekki óttann við hugsanlega ögun eða leiðréttingu aftra þér frá því að leita hjálpar. Enginn skynsamur maður lætur óttann við sprautunál eða jafnvel skurðaðgerð koma í veg fyrir að hann leiti sér lækningar við lífshættulegum sjúkdómi. — Hebr. 12:11.

18, 19. (a) Hvernig má sjá af sögu Davíðs að það er hægt að endurheimta ráðvendni ef hún hefur glatast? (b) Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

18 Er einhver von um fullan bata? Er hægt að endurheimta ráðvendni ef hún hefur glatast? Hugsum aftur til Davíðs. Hann drýgði alvarlega synd. Hann horfði með ágirnd á konu annars manns, drýgði hór og bjó síðan þannig um hnútana að eiginmaður hennar, sem hafði ekkert til saka unnið, týndi lífi. Varla getum við litið svo á að Davíð hafi verið ráðvandur meðan þessu fór fram. Var þá öll von úti fyrir hann? Davíð þurfti að fá harða ögun og fékk hana. En Jehóva sýndi honum miskunn vegna þess að hann iðraðist í fullri einlægni. Davíð lærði af öguninni og varð aftur ráðvandur af því að hann hlýddi Guði og hélt því áfram hvað sem það kostaði. Ævi Davíðs er gott dæmi um það sem lesa má í Orðskviðunum 24:16: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ Tökum eftir hvað Jehóva sagði við Salómon eftir að Davíð var dáinn. (Lestu 1. Konungabók 9:4.) Jehóva leit á Davíð sem ráðvandan mann. Hann getur greinilega hreinsað iðrandi syndara af alvarlegustu syndum. — Jes. 1:18.

19 Já, þú verður ráðvandur ef þú elskar Guð og hlýðir honum. Vertu honum trúr og tryggur og iðrastu í einlægni ef þér verður á að syndga alvarlega. Ráðvendni er óneitanlega dýrmætur eiginleiki. Við skulum öll vera ákveðin í að vera ráðvönd líkt og Davíð en hann sagði: „Ég geng fram í ráðvendni.“ — Sálm. 26:11.

[Neðanmáls]

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við verið ráðvönd?

• Hvernig getum við viðhaldið ráðvendni okkar?

• Hvernig er hægt að endurheimta ráðvendni ef hún hefur glatast?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 8]

„Óskaplega fallega gert“

Kona, sem var komin fimm mánuði á leið, sagði orðin hér að ofan um ókunnuga konu sem hafði sýnt af sér einstaka gæsku og ráðvendni. Hún hafði komið við á kaffihúsi og uppgötvaði nokkrum klukkustundum síðar að hún hafði gleymt veskinu sínu þar. Í veskinu var jafnvirði 160.000 króna sem var miklu meira en hún var vön að bera á sér. „Ég var miður mín,“ sagði hún síðar í viðtali við dagblað. En ung kona fann veskið og reyndi þegar í stað að leita eigandann uppi. Þegar það tókst ekki fór hún með veskið á lögreglustöðina og lögreglan hafði uppi á ófrísku konunni. „Þetta var óskaplega fallega gert,“ sagði konan full þakklætis. Af hverju lagði unga konan svona mikið á sig til að skila peningunum? Í dagblaðinu sagði að hún væri vottur Jehóva og „trúin, sem hún hefði alist upp í, hefði kennt henni að vera ráðvönd“.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Unglingar geta verið ráðvandir í prófraunum.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Davíð var ekki ráðvandur um tíma en náði sér aftur.