Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geturðu horft fram hjá ytra útliti?

Geturðu horft fram hjá ytra útliti?

DON er vottur Jehóva í Kanada sem leggur sig sérstaklega fram við að tala við fólk sem býr á götunni. Hann segir: „Einn óþrifalegasti maður, sem ég hef nokkurn tíma séð í húsasundunum, var heimilislaus maður að nafni Peter. Hann var óviðkunnanlegur og hafði lag á að fæla fólk frá sér. Hann afþakkaði hvað eftir annað góðverk annarra.“ Don lagði sig þó þolinmóður fram við að vera góður við þennan heimilislausa mann í meira en 14 ár.

Dag einn spurði Peter Don: „Hvers vegna hefurðu ekki gefist upp á mér? Allir aðrir láta mig í friði. Af hverju er þér ekki sama?“ Don sýndi Peter þrjú vers til að ná til hjarta hans. Fyrst spurði hann Peter hvort hann vissi að Guð ætti sér nafn, og bað hann síðan að lesa Sálm 83:18 beint upp úr Biblíunni. (NW) Síðan lét hann Peter lesa Rómverjabréfið 10:13, 14 til að sýna honum hvers vegna honum stæði ekki á sama. Þar segir meðal annars: „Hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn.“ Að lokum las Don Matteus 9:36 og bað Peter síðan að lesa það sjálfur, en þar segir: „Er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa.“ „Er ég einn þessara sauða?“ spurði Peter þá með tárin í augunum.

Peter fór að gera breytingar. Hann þreif sig, snyrti skeggið og fór að klæðast snyrtilegum fötum sem Don hafði gefið honum. Þaðan í frá hugsaði hann vel um útlitið.

Peter hélt dagbók. Fyrri hluti bókarinnar einkenndist af depurð og vonleysi en síðan fóru skrifin að breytast. Í einni færslunni segir: „Í dag komst ég að því hvað Guð heitir. Nú get ég beðið til Jehóva þegar ég fer með bæn. Það er dásamlegt að vita hvað hann heitir. Don segir að Jehóva geti verið vinur minn og að hann hafi alltaf tíma til að hlusta á mig, sama hvað á dynur.“

Það síðasta sem Peter skrifaði var til systkina sinna. Í dagbókinni segir:

„Mér líður ekki vel í dag. Ég held að aldurinn sé farinn að segja til sín. En þó svo að þetta verði minn síðasti dagur veit ég að ég á eftir að hitta vin minn [Don] á ný í paradís. Ef þið eruð að lesa þetta er ég ekki lengur á meðal ykkar. En ef þið sjáið mann við jarðarförina mína sem lítur út fyrir að vera á röngum stað skuluð þið tala við hann. Og gerið það fyrir mig að lesa þessa litlu bláu bók [biblíunámsbókina ,Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs‘ sem hann hafði fengið nokkrum árum áður]. * Í henni segir að ég muni sjá vin minn aftur í paradís. Ég trúi því af öllu hjarta. Bróðir ykkar, Peter.“

Eftir jarðarförina sagði Ummi, systir Peters: „Peter hafði samband við mig fyrir um tveim árum. Í fyrsta sinn í mörg ár virtist hann vera glaður. Hann brosti meira að segja.“ Hún sagði við Don: „Ég ætla að lesa bókina því að hún hlýtur að vera mjög sérstök fyrst hún hefur náð til hjarta bróður míns.“ Ummi féllst á að ræða við einn af vottum Jehóva og fara yfir nýlegri bók sem heitir Hvað kennir Biblían?

Við getum líka litið fram hjá ytra útliti, sýnt ósvikinn kærleika og verið þolinmóð við alls konar fólk. (1. Tím. 2:3, 4) Ef við gerum það getum við hreyft við fólki eins og Peter, sem er kannski ekki aðlaðandi í augum manna en hefur gott hjartalag. Við getum verið viss um að Guð, sem „horfir á hjartað“, láti sannleikann festa rætur í hjörtum auðmjúkra manna. – 1. Sam. 16:7; Jóh. 6:44.

^ gr. 7 Gefin út af Vottum Jehóva en er ekki lengur fáanleg.