Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styðjum drottinvald Jehóva

Styðjum drottinvald Jehóva

„Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti.“ – OPINB. 4:11.

SÖNGVAR: 12, 150

1, 2. Um hvað þurfum við öll að vera sannfærð? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

EINS og rætt var í greininni á undan fullyrðir Satan að Jehóva verðskuldi ekki að vera drottinn alheims og að mannkynið væri betur sett ef það réði sér sjálft. Hefur hann rétt fyrir sér? Setjum sem svo að mennirnir gætu ráðið sér sjálfir og lifað að eilífu. Væru þeir betur settir undir eigin stjórn en Guðs? Myndi þér vegna betur ef þú gætir lifað að eilífu og verið algerlega óháður Guði?

2 Enginn getur svarað þessum spurningum fyrir þig. Hver og einn þarf að hugleiða málið vel og vandlega. Öllum ætti þá að vera ljóst að stjórnarfar Jehóva er það besta sem völ er á og að hann verðskuldar að við styðjum hann af heilum hug. Í Biblíunni finnum við skýr rök fyrir því að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims.

JEHÓVA HEFUR RÉTTINN TIL AÐ STJÓRNA

3. Hvers vegna er Jehóva sá eini sem hefur þann rétt að vera drottinn alheims?

3 Jehóva er réttmætur drottinn alheims vegna þess að hann er alvaldur Guð og skapari alls. (1. Kron. 29:11; Post.  4:24) Í Opinberunarbókinni 4:11 er sagt frá sýn þar sem 144.000 meðkonungar Krists á himnum ávarpa Jehóva og segja: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva hefur fullan rétt til að ráða yfir mönnum og andaverum vegna þess að hann skapaði alla hluti.

4. Hvers vegna er það misbeiting á frjálsum vilja að snúast gegn drottinvaldi Guðs?

4 Satan hefur aldrei skapað neitt. Þar af leiðandi á hann engan rétt á að ráða yfir alheimi. Hann og fyrstu hjónin sýndu af sér hroka þegar þau gerðu uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva. (Jer. 10:23) Þau voru auðvitað sköpuð með frjálsan vilja og gátu valið að vera óháð Guði. En gaf það þeim réttinn til þess? Nei, frjáls vilji gerir fólki kleift að taka margs konar ákvarðanir dagsdaglega. En það gefur því ekki þann rétt að gera uppreisn gegn skapara sínum og lífgjafa. Það er misbeiting á frjálsum vilja að snúast gegn Jehóva. Við mennirnir erum háðir stjórn Jehóva og leiðsögn.

5. Hvers vegna getum við treyst að ákvarðanir Guðs séu réttlátar?

5 Það er önnur ástæða fyrir því að Jehóva hefur rétt til að ráða yfir alheimi. Hann beitir valdi sínu á fullkomlega réttlátan hátt. Hann segir: „Ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun.“ (Jer. 9:23) Hann notar ekki lagabókstaf ófullkominna manna til að ákvarða hvað er rétt og sanngjarnt. Hann ákveður sjálfur hvað er rétt og réttlátt, og það er á þeim grundvelli sem hann setti mönnunum lög. „Réttlæti og réttvísi eru stoðir hásætis [hans]“ þannig að við getum treyst að öll lög hans, meginreglur og ákvarðanir séu réttlát. (Sálm. 89:15; 19:10) Satan fullyrðir að Jehóva sé ósanngjarn og óréttlátur en sjálfum hefur honum ekki tekist að tryggja réttlæti í þessum heimi.

6. Nefndu eina ástæðu fyrir því að Jehóva hefur réttinn til að stjórna heiminum?

6 Þriðja ástæðan fyrir því að Jehóva er réttmætur drottinn alheims er sú að hann býr yfir þekkingu og visku til að annast alheiminn. Sem dæmi má nefna að hann gaf syni sínum kraft til að lækna fólk af sjúkdómum sem læknar réðu ekki við. (Matt. 4:23, 24; Mark. 5:25-29) Frá sjónarhóli Jehóva voru þetta engin kraftaverk. Hann skilur hvernig mannslíkaminn starfar og er fær um að laga allar skemmdir sem verða á honum. Hann getur líka reist fólk upp frá dauðum og komið í veg fyrir náttúruhamfarir.

7. Að hvaða leyti er Jehóva langtum vitrari en heimurinn undir stjórn Satans?

7 Undir stjórn Satans er heimurinn enn að reyna að finna leiðir til að útkljá deilur innan þjóða og milli þjóða. En enginn nema Jehóva býr yfir þeirri visku sem þarf til að koma á friði í heiminum. (Jes. 2:3, 4; 54:13) Þegar við kynnumst þekkingu og visku Jehóva er okkur innanbrjósts eins og Páli postula sem var innblásið að skrifa: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ – Rómv. 11:33.

STJÓRN JEHÓVA ER BEST

8. Hvað finnst þér um stjórnarfar Jehóva?

8 Í Biblíunni er ekki aðeins sýnt fram á að Jehóva hafi réttinn til að stjórna. Þar kemur einnig fram hvers vegna hann er besti stjórnandinn. Ein af ástæðunum er sú að hann stjórnar á kærleiksríkan  hátt. Okkur hlýnar um hjartarætur að hugsa til þess hvernig hann kýs að beita drottinvaldi sínu. Hann er „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur“. (2. Mós. 34:6) Guð sýnir okkur mönnunum virðingu. Hann annast okkur betur en við erum sjálf fær um. Jehóva neitar trúum þjónum sínum ekki um nein gæði ólíkt því sem Satan heldur fram. Hann gaf meira að segja ástkæran son sinn til að við gætum átt von um eilíft líf. – Lestu Sálm 84:12; Rómverjabréfið 8:32.

9. Hvernig vitum við að Guð ber umhyggju fyrir einstaklingum?

9 Jehóva lætur sér ekki bara annt um þjóna sína sem heild. Hann ber líka umhyggju fyrir okkur sem einstaklingum. Um þriggja alda skeið vakti hann upp dómara til að leiðbeina þjóð sinni og frelsa hana undan óvinum hennar. En á þessum ólgutímum gaf hann líka gaum að konu sem hét Rut. Hún var ekki ísraelsk en gerðist þjónn Jehóva þótt hún þyrfti að færa töluverðar fórnir til þess. Jehóva blessaði Rut með því að gefa henni eiginmann og son. En þá er ekki öll sagan sögð. Þegar Rut rís upp frá dauðum uppgötvar hún að sonur hennar var einn af ættfeðrum Messíasar. Og hugsaðu þér hvernig henni verður innanbrjósts þegar hún kemst að raun um að ævisaga hennar varðveittist í biblíubók sem nefnd er eftir henni. – Rut. 4:13; Matt. 1:5, 16.

10. Hvers vegna getum við sagt að Jehóva sé ekki strangur stjórnandi?

10 Stjórnarfar Jehóva er hvorki strangt né harðneskjulegt. Það býður upp á frelsi og stuðlar að gleði. (2. Kor. 3:17) Davíð lýsti því þannig: „Dýrð og hátign eru frammi fyrir honum [Guði], máttur og gleði á helgistað hans.“ (1. Kron. 16:7, 27) Sálmaskáldið Etan tók í sama streng: „Sæl er sú þjóð sem kann að hylla þig, Drottinn, sem gengur í ljóma auglitis þíns, fagnar yfir nafni þínu hvern dag og gleðst yfir réttlæti þínu.“ – Sálm. 89:16, 17.

11. Hvernig getum við verið sannfærð um að stjórnarfar Jehóva sé best?

11 Við getum verið sannfærð um að stjórnarfar Jehóva sé best ef við hugsum oft um gæsku hans. Okkur er þá innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem orti: „Einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir.“ (Sálm. 84:11) Öðruvísi getur það ekki verið. Jehóva er hönnuður okkar og skapari. Hann veit upp á hár hvað þarf til að gera okkur hamingjusöm og hann fullnægir þessari þörf ríkulega. Allt sem hann biður okkur að gera er okkur til gæfu og gleði til langs tíma litið, jafnvel þó að við þurfum að færa einhverjar fórnir. – Lestu Jesaja 48:17.

12. Hver er meginástæðan fyrir því að við styðjum drottinvald Jehóva?

12 Biblían gefur til kynna að sumir geri uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva eftir að Kristur hefur ríkt í þúsund ár. (Opinb. 20:7, 8) Hvað verður til þess? Satan er ákveðinn í að leiða mennina afvega þegar hann er leystur úr haldi og reynir eflaust að höfða til eigingirni þeirra. Það hefur hann alltaf gert. Hann reynir kannski að telja fólki trú um að það sé hægt að lifa að eilífu án þess að hlýða Jehóva. Það er auðvitað kolrangt. En það er gott að spyrja sig hvort maður myndi trúa þessari lygi. Ef við elskum Jehóva og erum sannfærð um að hann sé góður og réttmætur drottinn alheims höfum við andstyggð á þessari lygi. Við getum ekki hugsað okkur  að lifa öðruvísi en undir kærleiksríkri stjórn Jehóva.

STYÐJUM DROTTINVALD GUÐS DYGGILEGA

13. Hvernig styðjum við drottinvald Jehóva með því að líkja eftir honum?

13 Jehóva verðskuldar að við styðjum drottinvald hans af heilum hug. Eins og fram hefur komið hefur hann réttinn til að stjórna og stjórnarfar hans er það besta sem völ er á. Við getum stutt drottinvald hans með því að vera ráðvönd og þjóna honum í trúfesti. Við getum sömuleiðis sýnt stuðning okkar með því að gera hlutina á sama hátt og Jehóva myndi gera. Þannig sýnum við að við elskum hann og styðjum stjórn hans. – Lestu Efesusbréfið 5:1, 2.

14. Hvernig geta öldungar og þeir sem veita fjölskyldu forstöðu líkt eftir Jehóva?

14 Við höfum lært af biblíunámi okkar að Jehóva beitir drottinvaldi sínu á kærleiksríkan hátt. Þeir sem elska Jehóva og veita fjölskyldu forstöðu líkja eftir honum og eru hvorki kröfuharðir né ráðríkir. Hið sama er að segja um safnaðaröldunga. Páll postuli lagði sig fram um að líkja eftir Jehóva og syni hans. (1. Kor. 11:1) Hann gerði ekki lítið úr öðrum né reyndi að þvinga þá til að gera rétt heldur höfðaði til þeirra. (Rómv. 12:1; Ef. 4:1; Fílem. 8-10) Þannig fer Jehóva að og þannig ættu allir að gera sem elska hann og styðja stjórn hans.

15. Hvernig sýnum við að við styðjum stjórnarfar Jehóva?

15 Við styðjum líka drottinvald Jehóva með því að vera samvinnuþýð við þá sem hann hefur valið til að fara með forystu. Við viljum styðja fyrirkomulag hans jafnvel þó að við séum ekki fyllilega sammála einhverri ákvörðun eða skiljum hana ekki að öllu leyti. Það er harla ólíkt því sem heimurinn gerir en svona gerum við þegar við lútum  Jehóva sem stjórnanda. (Ef. 5:22, 23; 6:1-3; Hebr. 13:17) Og það er okkur til góðs því að hann ber hag okkar fyrir brjósti.

16. Hvernig sýnum við með ákvörðunum okkar að við styðjum drottinvald Guðs?

16 Við getum líka sýnt með ákvörðunum okkar í persónulegum málum að við elskum Jehóva og styðjum hann sem drottin alheims. Jehóva gefur ekki nákvæm fyrirmæli um alla hluti heldur lætur okkur vita hvernig hann hugsar svo að við getum tekið ákvarðanir í samræmi við það. Hann hefur til dæmis ekki sett ítarlegar reglur um það hvernig kristnir menn eiga að klæðast. Hann lætur hins vegar í ljós að hann vilji að við séum látlaus í klæðaburði og útliti eins og sæmir þjónum hans. (1. Tím. 2:9, 10) Honum er líka umhugað um að við hneykslum ekki aðra eða völdum þeim óróa með ákvörðunum okkar. (1. Kor. 10:31-33) Við sýnum að við styðjum drottinvald Jehóva þegar við látum ákvarðanir okkar stjórnast af viðhorfum hans.

Styðjum drottinvald Guðs sem fjölskylda og með ákvörðunum okkar. (Sjá 16.-18. grein.)

17, 18. Hvernig geta hjón sýnt að þau styðji drottinvald Jehóva?

17 Við skulum líta á eitt svið þar sem kristin hjón geta líkt eftir Jehóva og stutt drottinvald hans. Hvað er til ráða ef hjónabandið reynir meira á en þið bjuggust við? Hafið þið kannski orðið fyrir vonbrigðum hvort með annað? Þá væri ráð að velta fyrir sér samskiptum Jehóva við Ísraelsþjóðina forðum daga. Hann líkti sér við eiginmann þessarar þjóðar. (Jes. 54:5; 62:4) Þetta „hjónaband“ reyndist þó ekki þrautalaust! En Jehóva gafst ekki auðveldlega upp á þjóðinni. Hann sýndi henni miskunn æ ofan í æ og var trúr sáttmála sínum við hana. (Lestu Sálm 106:43-45.) Löðumst við ekki að Jehóva þegar við hugleiðum kærleika hans og trúfesti?

18 Hjón, sem elska Jehóva, líkja eftir honum. Þó að hjónabandið sé erfitt reyna þau ekki að slíta því með óbiblíulegum hætti. Þau vita að Jehóva hefur tengt þau saman og vill að þau haldi saman. Framhjáhald er eina gilda ástæðan sem Biblían gefur til að mega skilja og giftast á ný. (Matt. 19:5, 6, 9) Hjón styðja drottinvald Jehóva með því að leggja sig fram um að styrkja og bæta hjónabandið.

19. Hvað ættum við að gera ef okkur verður eitthvað á?

19 Við erum ófullkomin og þess vegna völdum við Jehóva stundum vonbrigðum með því sem við gerum. Hann veit það og þess vegna lét hann Krist færa lausnarfórnina. Við ættum því að biðja Jehóva fyrirgefningar þegar okkur verður eitthvað á. (1. Jóh. 2:1, 2) Við skulum reyna að læra af mistökum okkar en ekki refsa sjálfum okkur fyrir þau í sífellu. Jehóva fyrirgefur okkur ef við höldum nánu sambandi við hann, og hann hjálpar okkur svo að við náum okkur aftur á strik og erum betur í stakk búin til að takast á við eitthvað svipað ef það kemur upp aftur. – Sálm. 103:3.

20. Hvers vegna eigum við að styðja drottinvald Jehóva núna?

20 Í nýja heiminum verða allir undir stjórn Jehóva og læra að gera rétt. (Jes. 11:9) En við lærum líka margt núna um viðhorf og hugsunarhátt Jehóva. Þess er skammt að bíða að deilan um drottinvald hans sé endanlega útkljáð. Við skulum því gera allt sem við getum til að styðja drottinvald hans með því að hlýða honum, þjóna honum dyggilega og leggja okkur fram um að líkja eftir honum í öllu sem við gerum.