Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einbeitum okkur að andlegum fjársjóðum

Einbeitum okkur að andlegum fjársjóðum

„Hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.“ – LÚK. 12:34.

SÖNGVAR: 76, 59

1, 2. (a) Nefndu þrennt sem er fólgið í andlegu fjársjóðunum sem Jehóva hefur gefið okkur. (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

JEHÓVA er ríkastur í öllum alheiminum. (1. Kron. 29:11, 12) Hann er gjafmildur faðir sem deilir örlátlega andlegum auðæfum sínum með öllum sem kunna að meta þau. Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa gefið okkur andlega fjársjóði. Í þeim felst meðal annars (1) ríki Guðs, (2) boðunin sem bjargar mannslífum og (3) dýrmætu sannindin í orði hans. Ef við gætum okkar ekki er þó hætta á að við gleymum því hve dýrmætir þessir fjársjóðir eru og köstum þeim á glæ. Til að varðveita þá verðum við að nota þá vel og glæða sífellt þakklæti okkar fyrir þá. Jesús sagði: „Hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.“ – Lúk. 12:34.

2 Skoðum hvernig við getum glætt með okkur og viðhaldið þakklæti fyrir ríki Guðs, boðunina og sannleikann. Þegar við gerum það skaltu velta fyrir þér hvað þú getur sjálfur gert til að fá enn meiri mætur á þessum andlegu fjársjóðum.

 RÍKI GUÐS ER EINS OG ÓMETANLEG PERLA

3. Hvað var kaupmaðurinn í dæmisögu Jesú tilbúinn að gera til að eignast eina perlu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Lestu Matteus 13:45, 46. Jesús sagði dæmisögu um kaupmann sem leitaði að perlum. Kaupmaðurinn hafði eflaust keypt og selt hundruð perlna um ævina. En nú hafði hann fundið perlu sem var svo undurfögur að það eitt að sjá hana fyllti hjarta hans gleði. Til að geta keypt hana þurfti hann þó að selja allt sem hann átti. Geturðu ímyndað þér hversu dýrmæt þessi perla var honum?

4. Hvað gerum við ef okkur þykir jafn vænt um ríki Guðs og kaupmanninum um perluna?

4 Hvað getum við lært af dæmisögu Jesú? Sannleikurinn um ríki Guðs er eins og þessi ómetanlega perla. Ef okkur þykir jafn vænt um þennan sannleika og kaupmanninum þótti um perluna erum við fús til að afsala okkur öllu til að geta orðið þegnar Guðsríkis og verið það áfram. (Lestu Markús 10:28-30.) Lítum á tvö dæmi um fólk sem gerði einmitt það.

5. Hvað var Sakkeus tilbúinn að gera fyrir ríki Guðs?

5 Sakkeus var yfirtollheimtumaður sem hafði orðið ríkur á því að kúga fé út úr öðrum. (Lúk. 19:1-9) En þegar þessi rangláti maður heyrði Jesú boða ríki Guðs varð honum ljóst hve dýrmætt það var sem hann heyrði og brást strax við því. Hann sagði: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Hann afsalaði sér fúslega illa fengnum auði sínum og lét af græðginni.

6. Hvaða breytingar gerði Rose til að geta orðið þegn Guðsríkis og af hverju gerði hún þær?

6 Kona, sem við skulum kalla Rose, átti í ástarsambandi við aðra konu þegar hún heyrði boðskapinn um ríki Guðs fyrir nokkrum árum. Hún var formaður samtaka sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra. Í biblíunámi sínu áttaði hún sig á hve verðmætur sannleikurinn um ríki Guðs er. Það rann upp fyrir henni að hún þyrfti að gera stórar breytingar á lífi sínu. (1. Kor. 6:9, 10) Vegna þess hve heitt hún elskaði Jehóva ákvað hún að segja sig úr samtökunum og binda enda á sambandið við konuna. Rose lét skírast árið 2009 og ári síðar varð hún brautryðjandi. Kærleikurinn til Jehóva og ríkis hans var holdlegum löngunum yfirsterkari. – Mark. 12:29, 30.

7. Hvernig getum við viðhaldið áhuga okkar á ríki Guðs og þakklæti fyrir það?

7 Mörg okkar hafa vissulega þurft að gera stórar breytingar á lífi sínu til að geta orðið þegnar Guðsríkis. (Rómv. 12:2) En baráttan er ekki þar með á enda. Við þurfum að varast allt sem getur kæft áhuga okkar á ríki Guðs og þakklæti fyrir það, svo sem siðlausar kynferðislegar langanir og löngunina í efnislega hluti. (Orðskv. 4:23; Matt. 5:27-29) Til að hjálpa okkur að meta ríki sitt að verðleikum hefur Jehóva líka gefið okkur annan ómetanlegan fjársjóð.

BOÐUNIN SEM BJARGAR MANNSLÍFUM

8. (a) Hvers vegna lýsti Páll postuli boðuninni sem ,fjársjóði í leirkerum‘? (b) Hvernig sýndi Páll að boðunin skipti hann miklu máli?

8 Munum að Jesús hefur falið okkur að boða og kenna fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Matt. 28:19, 20) Páll postuli gerði sér grein fyrir hve dýrmæt boðunin var. Hann lýsti boðuninni undir nýja sáttmálanum sem ,fjársjóði í leirkerum‘. (2. Kor. 4:7; 1. Tím. 1:12) Þó svo að við séum aðeins ófullkomin leirker getur boðskapurinn, sem við boðum, fært okkur og þeim  sem hlusta á okkur eilíft líf. Páll vissi þetta og sagði því: „Allt geri ég vegna fagnaðarerindisins til þess að ég fái hlutdeild í blessun þess.“ (1. Kor. 9:23) Já, Páll hafði brennandi áhuga á boðuninni og lagði sig því allan fram við að gera fólk að lærisveinum. (Lestu Rómverjabréfið 1:14, 15; 2. Tímóteusarbréf 4:2.) Það hjálpaði honum að halda út þrátt fyrir harða andstöðu. (1. Þess. 2:2) Hvernig getum við sýnt slíkan brennandi áhuga á boðuninni?

9. Nefndu dæmi um hvað við gætum gert til að sýna að við kunnum að meta boðunina.

9 Páll sýndi að hann kunni að meta boðunina meðal annars með því að vera vakandi fyrir tækifærum til að tala við aðra. Rétt eins og postularnir og aðrir frumkristnir menn boðum við trúna óformlega, á opinberum vettvangi og hús úr húsi. (Post. 5:42; 20:20) Við leitum leiða til að gera meira í boðuninni eftir því sem aðstæður okkar leyfa, til dæmis með því að gerast aðstoðarbrautryðjendur eða brautryðjendur. Við gætum líka lært annað tungumál, flutt innanlands eða jafnvel til annars lands. – Post. 16:9, 10.

10. Hvaða blessun hlaut Irene fyrir viðleitni sína til að boða fagnaðarerindið?

10 Irene, einhleyp systir í Bandaríkjunum, vildi gjarnan boða rússneskumælandi innflytjendum trúna. Árið 1993 flutti hún því yfir í rússneskan hóp í New York-borg, en í honum voru aðeins 20 boðberar. Irene hefur lagt hart að sér á þessu málsvæði í um 20 ár. „Ég er enn ekki reiprennandi í rússnesku,“ viðurkennir hún. En Jehóva hefur blessað viðleitni hennar og annarra sem hafa gert eitthvað svipað. Nú eru sex rússneskir söfnuðir í New York-borg. Fimmtán af biblíunemendum Irene hafa látið skírast. Sumir þeirra eru Betelítar, brautryðjendur og öldungar. Irene segir: „Þegar ég hugsa um önnur markmið sem ég hefði getað sóst eftir get ég ekki ímyndað mér neitt sem hefði veitt mér meiri gleði.“ Hún kann virkilega að meta boðunina.

Líturðu á boðunina sem fjársjóð og tekurðu frá tíma fyrir hana í hverri viku? (Sjá 11. og 12. grein.)

11. Hvað hlýst af því að við höldum áfram að boða trúna þrátt fyrir ofsóknir?

11 Ef við metum boðunina að verðleikum líkjum við eftir Páli postula og höldum áfram að boða trúna þrátt fyrir ofsóknir. (Post. 14:19-22) Trúsystkini okkar í Bandaríkjunum urðu fyrir harðri andstöðu á fjórða áratug síðustu aldar og í byrjun þess fimmta. En þau voru staðföst eins og Páll og héldu boðuninni áfram. Bræður og systur fóru oft fyrir dómstóla til að verja þann rétt okkar. Bróðir Nathan H. Knorr sagði árið 1943 um einn sigranna fyrir hæstarétti Bandaríkjanna: „Sigrarnir, sem hafa náðst, eru baráttu ykkar að  þakka. Hefðu boðberarnir ekki haldið áfram að boða trúna hefðu engin mál farið fyrir hæstarétt. En það er vegna þess að þið, boðberarnir, bræður og systur um heim allan, haldið áfram og hættið ekki, að við náum fram sigrum gegn þeim sem ofsækja okkur. Þessi dómsúrskurður er staðfestu þjóna Drottins að þakka.“ Þessi sama staðfesta trúsystkina í öðrum löndum hefur leitt til sams konar sigra. Já, við getum sigrast á ofsóknum með því að hafa miklar mætur á boðuninni.

12. Hvað ætlar þú að gera?

12 Þegar við lítum á boðunina sem ómetanlegan fjársjóð frá Jehóva látum við okkur ekki nægja að starfa bara til að „telja tímann“. Við gerum allt sem við getum til að „bera vitni fagnaðarerindinu“. (Post. 20:24; 2. Tím. 4:5) En hvað kennum við fólki? Lítum á annað sem er fólgið í þeim fjársjóðum sem Guð hefur gefið okkur.

OPINBERUÐ SANNINDI Í FORÐABÚRI OKKAR

13, 14. Hvað er ,forðabúrið‘ sem Jesús talar um í Matteusi 13:52 og hvernig fyllum við það?

13 Enn eitt sem er fólgið í andlegum fjársjóðum okkar eru öll þau sannindi sem Jehóva hefur opinberað okkur. Jehóva er Guð sannleikans. (2. Sam. 7:28, Biblían 1981, Jóh. 17:17) Hann er örlátur faðir sem deilir andlegum sannindum með þeim sem óttast hann. Frá því að við heyrðum sannleikann fyrst höfum við haft tækifæri til að viða að okkur sannindum úr orði hans, Biblíunni, úr ritunum okkar og á mótum og vikulegum samkomum. Með tímanum komum við upp því sem Jesús lýsti sem „forðabúri“ með gömlum og nýjum sannindum. (Lestu Matteus 13:52.) Jehóva hjálpar okkur að safna dýrmætum nýjum sannindum í ,forðabúr‘ okkar ef við leitum að þeim eins og földum fjársjóðum. (Lestu Orðskviðina 2:4-7.) Hvernig förum við að því?

14 Við verðum að temja okkur góðar námsvenjur og kafa djúpt í orð Guðs og ritin okkar. Þannig getum við uppgötvað sannindi sem geta verið „ný“ í þeim skilningi að við þekktum þau ekki áður. (Jós. 1:8, 9; Sálm. 1:2, 3) Í allra fyrsta tölublaði Varðturnsins, sem kom út á ensku í júlí 1879, stóð: „Líkt og látlaust, lítið blóm í eyðimörk lífsins er sannleikurinn umkringdur gróskumiklu illgresi villunnar sem næstum kæfir hann. Ef þú vilt finna hann verður þú að vera sívökull ... Ef þú vilt eignast hann verður þú að beygja þig niður til að ná honum. Gerðu þig ekki ánægðan með eitt sannleiksblóm ... Haltu áfram að safna þeim og leitaðu að fleirum.“ Já, við þurfum að keppast að því að bæta andlegum sannindum í forðabúr okkar.

15. Hvers vegna getum við sagt að sum sannindi séu „gömul“ og hver þeirra kannt þú sérstaklega að meta?

15 Við uppgötvuðum ómetanleg sannindi þegar við byrjuðum að kynna okkur Biblíuna. Við getum sagt að þau séu „gömul“ vegna þess að við höfum þekkt þau og kunnað að meta frá því að við byrjuðum að þjóna Jehóva. Hver eru sum þessara dýrmætu sanninda? Við lærðum að Jehóva er skapari okkar og lífgjafi og að hann hefur ákveðna fyrirætlun með mannkynið. Við lærðum líka að Guð færði son sinn sem lausnarfórn til að við gætum hlotið frelsun undan synd og dauða. Við komumst einnig að því að ríki hans ætlar að binda enda á allar þjáningar og að við getum átt þá von að lifa að eilífu við frið og hamingju undir stjórn Guðsríkis. – Jóh. 3:16; Opinb. 4:11; 21:3, 4.

16. Hvað þurfum við að gera þegar við fáum nýjan skilning á ákveðnum sannindum?

 16 Af og til fáum við nýjan skilning á biblíuspádómum eða versum í Biblíunni. Þegar það gerist ættum við að taka okkur tíma til að fara vandlega yfir efnið og hugleiða það. (Post. 17:11; 1. Tím. 4:15) Við reynum ekki aðeins að skilja meginbreytinguna heldur reynum við líka að greina í smáatriðum muninn á gamla skilningnum og þeim nýja. Þannig komum við nýjum sannindum tryggilega fyrir í okkar eigin forðabúri. Hvers vegna er það erfiðisins virði?

17, 18. Hvernig getur heilagur andi hjálpað okkur?

17 Jesús kenndi að andi Guðs geti kallað fram í huga okkar það sem við höfum áður lært. (Jóh. 14:25, 26) Hvernig getur það hjálpað okkur þegar við boðum fagnaðarerindið? Tökum sem dæmi bróður að nafni Peter. Árið 1970 var hann 19 ára og var nýbyrjaður að starfa á Betel í Bretlandi. Hann var að boða trúna hús úr húsi þegar hann hitti skeggjaðan mann á miðjum aldri. Peter spurði manninn hvort hann vildi geta skilið Biblíuna. Spurningin kom manninum nokkuð á óvart og hann svaraði því til að hann væri rabbíni Gyðinga. Til að reyna Peter spurði rabbíninn: „Jæja, drengur, á hvaða tungumáli var Daníelsbók skrifuð?“ Peter svaraði: „Að hluta til var hún skrifuð á arameísku.“ „Rabbíninn var hissa að ég skyldi vita svarið,“ segir Peter, „en ekki eins hissa og ég! Hvernig gat ég vitað það? Þegar ég kom heim skoðaði ég Varðturninn og Vaknið! frá síðustu mánuðum og fann þá grein sem útskýrði að Daníelsbók hafi að hluta til verið skrifuð á arameísku.“ * Það er ljóst að heilagur andi getur kallað fram í huga okkar það sem við höfum lesið áður og komið tryggilega fyrir í forðabúri okkar. – Lúk. 12:11, 12; 21:13-15.

18 Ef við metum að verðleikum viskuna frá Jehóva langar okkur til að fylla forðabúr okkar af sannindum – nýjum jafnt sem gömlum. Því þakklátari sem við verðum fyrir visku Jehóva þeim mun betur verðum við í stakk búin til að kenna öðrum.

VARÐVEITUM FJÁRSJÓÐI OKKAR

19. Af hverju þurfum við að varðveita andlega fjársjóði okkar?

19 Satan og heimur hans reyna stöðugt að grafa undan þakklæti okkar fyrir andlegu fjársjóðina sem við höfum rætt um í þessari grein. Við erum ekki ónæm fyrir brögðum hans. Við gætum auðveldlega látið tælast af loforðum um glæstan frama, draumum um að lifa munaðarlífi eða lönguninni til að geta flíkað eigum okkar. Jóhannes postuli minnir okkur á að þessi heimur og fýsn hans á skammt eftir. (1. Jóh. 2:15-17) Við þurfum því að gera okkar ýtrasta til að viðhalda þakklæti okkar fyrir andlegu verðmætin og meta þau mikils.

20. Hvað ætlar þú að gera til að varðveita andleg auðæfi þín?

20 Vertu fús til að segja skilið við hvaðeina sem gæti komið í veg fyrir að þú styðjir ríki Guðs af heilum hug. Haltu áfram að boða trúna af kappi og hættu aldrei að vera þakklátur fyrir að eiga þátt í þessu björgunarstarfi. Haltu einlægur áfram að leita að andlegum sannindum. Þannig safnarðu þér ,fjársjóði á himnum þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.‘ – Lúk. 12:33, 34.

^ gr. 17 Daníel 2:4b til 7:28 var upphaflega skrifað á arameísku.