Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Misstu ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir

Misstu ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir

„Að þeir játi að þú, sem berð nafnið Drottinn, þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ – SÁLM. 83:19.

SÖNGVAR: 9, 22

1, 2. (a) Hvert er stærsta málið sem blasir við mannkyni? (b) Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að skilja þetta mál?

Í HUGUM margra eru peningar það sem mestu máli skiptir. Þeir hugsa fyrst og fremst um það að eignast peninga eða halda í það sem þeir eiga. Hjá öðrum er það fjölskyldan eða heilsan sem skiptir mestu máli, eða þá að afreka eitthvað í lífinu.

2 En afar mikilvægt mál, sem blasir við mannkyni, er þó að sýnt sé fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims. Við megum ekki missa sjónar á þessu mikilvæga máli. Hvernig gæti það gerst? Við gætum orðið svo upptekin af daglegu amstri að við gleymdum hreinlega hve mikilvægt mál þetta er. Eins gæti það gerst að eigin erfiðleikar skyggðu á þetta stóra mál. Ef við hins vegar styðjum drottinvald Jehóva með ráðum og dáð erum við vel í stakk búin til að takast á við erfiðleika lífsins og þá styrkjum við tengslin við Jehóva.

HVERS VEGNA ER ÞAÐ SVONA MIKILVÆGT?

3. Hvað fullyrðir Satan varðandi stjórnarfar Guðs?

3 Satan djöfullinn hefur dregið í efa að Jehóva sé réttmætur stjórnandi alheims. Hann fullyrðir að Jehóva sé spilltur  og beri ekki hag sköpunarvera sinna fyrir brjósti. Að hans sögn eru mennirnir ánægðari og miklu betur settir ef þeir ráða sér sjálfir. (1. Mós. 3:1-5) Satan hefur einnig gefið í skyn að innst inni sé enginn maður Guði trúr. Hann heldur því fram að allir hafni Guði sem stjórnanda ef þeir lenda í miklum erfiðleikum. (Job. 2:4, 5) Jehóva ákvað að láta tímann leiða í ljós hve skelfilegar afleiðingar það hefur fyrir mennina að lúta honum ekki sem réttlátum stjórnanda.

4. Hvers vegna þarf að útkljá deiluna um drottinvald Jehóva?

4 Jehóva veit auðvitað að ásakanir Satans eru kolrangar. Hvers vegna ákvað hann þá að gefa Satan svona langan tíma til að reyna að sanna mál sitt? Svarið við því snertir allar vitibornar sköpunarverur Guðs. (Lestu Sálm 83:19.) Fyrstu hjónin höfnuðu Jehóva sem stjórnanda og margir aðrir hafa fetað í fótspor þeirra. Það gæti vakið þá spurningu í hugum sumra hvort Satan hafi eitthvað til síns máls. Menn og englar þurfa að fá svar við því áður en friður kemst á milli þjóða, kynþátta, ættflokka, fjölskyldna og einstaklinga. En eftir að sýnt hefur verið fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims munu allir lúta stjórn hans að eilífu. Þá verður loksins friður um allan alheim. – Ef. 1:9, 10.

5. Hvaða hlutverki gegnum við í deilunni um drottinvald Jehóva?

5 Reynslan mun leiða í ljós að Guð er réttmætur drottinn alheims. Stjórn Satans og manna er hins vegar algerlega misheppnuð og verður afnumin. Við vitum að ríki Guðs í höndum Messíasar mun sanna sig og þjónar Guðs munu sýna fram á að menn geta verið ráðvandir og trúir þegnar hans. (Jes. 45:23, 24) Langar þig til að vera í hópi þeirra sem styðja drottinvald Jehóva yfir alheimi? Auðvitað. En til að vera ráðvönd þurfum við að sjá heildarmyndina og gera okkur grein fyrir hvað mestu máli skiptir.

MIKILVÆGARA EN HJÁLPRÆÐI OKKAR

6. Hve mikilvægt er að sýna fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims?

6 Eins og fram hefur komið blasir það mikilvæga mál við mannkyni að sýnt sé fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims. Það er mikilvægara en heill og hamingja okkar hvers og eins. Ber að skilja það svo að það skipti ekki máli hvort við björgumst og að Jehóva sé alls ekki annt um okkur? Engan veginn. Hvernig vitum við það?

7, 8. Hvernig njótum við góðs af þegar Jehóva staðfestir að hann sé réttmætur drottinn alheims?

7 Jehóva þykir ákaflega vænt um mannkynið. Hann var fús til að úthella blóði sonar síns svo að við gætum hlotið eilíft líf. (Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:9) Ef Jehóva héldi ekki loforð sín myndi Satan hafa tilefni til að kalla hann lygara og ranglátan stjórnanda sem léti sér ekki annt um þegna sína. Þá gætu menn líka hæðst að Jehóva og sagt með réttu: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.“ (2. Pét. 3:3, 4) Jehóva sér því til þess að þeir sem hlýða honum bjargist þegar hann sýnir fram á að hann sé réttmætur drottinn alheims. (Lestu Jesaja 55:10, 11.) Drottinvald Jehóva byggist á kærleika. Við getum því treyst að hann muni alltaf elska og meta trúa þjóna sína. – 2. Mós. 34:6.

 8 Þó að drottinvald Jehóva sé afar mikilvægt þýðir það ekki að honum sé sama hvort við björgumst eða ekki. Jehóva er ákaflega annt um okkur. En við þurfum að hafa hugfast að það skiptir afar miklu máli að styðja drottinvald hans af heilum hug.

AÐ SJÁ HLUTINA Í RÉTTU LJÓSI

9. Hvað fullyrti Satan um Job? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Það er mikilvægt að sjá drottinvald Jehóva í réttu ljósi. Það er greinilegt af Jobsbók sem er ein elsta bók Biblíunnar. Þar kemur fram að Satan fullyrti að Job myndi afneita Guði ef hann þjáðist nógu mikið. Satan lagði til að Jehóva myndi sjálfur kvelja Job. Hann gerði það ekki en leyfði Satan að reyna hann. „Allar eigur hans eru á þínu valdi,“ sagði hann. (Lestu Jobsbók 1:7-12.) Áður en langt um leið var Job búinn að missa þjóna sína, lífsviðurværi og börnin sín tíu. Satan bjó svo um hnútana að það leit út fyrir að Guð væri valdur að þessum harmleik. (Job. 1:13-19) Þessu næst lagði Satan kvalafullan og andstyggilegan sjúkdóm á Job. (Job. 2:7) Til að bæta gráu ofan á svart voru konan hans og þrír falsvinir bæði særandi og letjandi í tali. – Job. 2:9; 3:11; 16:2.

10. (a) Hvernig sýndi Job ráðvendni við Guð? (b) Í hverju var honum áfátt?

10 Reyndist Satan sannspár? Nei, hann hafði alrangt fyrir sér. Job afneitaði ekki Guði þrátt fyrir raunir sínar. (Job. 27:5) Hins vegar sá hann ekki hlutina í réttu ljósi um tíma. Hann hélt því statt og stöðugt fram að hann væri réttlátur og fannst hann eiga rétt á að vita hvers vegna hann þjáðist. (Job. 7:20; 13:24) Okkur þykir það kannski skiljanlegt miðað við það sem hann þurfti að ganga í gegnum en Jehóva taldi fulla ástæðu til að leiðrétta hugsunarhátt hans. Hvað sagði hann við Job?

11, 12. Hvað sýndi Jehóva Job fram á og hvernig brást Job við?

11 Við getum lesið það sem Guð sagði við Job í 38. til 41. kafla bókarinnar. Þetta eru heilir fjórir kaflar en Guð segir Job hvergi berum orðum hvers vegna hann þurfti að þjást svona mikið. Guð þurfti ekki að réttlæta sig. Hann sýndi Job hins vegar fram á hve smár hann væri í samanburði við sig, hinn mikla Guð. Og hann vakti athygli hans á að til væru mál sem væru miklu mikilvægari en hans eigin erfiðleikar. (Lestu Jobsbók 38:18-21.) Þetta hjálpaði Job að sjá hlutina í réttu ljósi.

 12 Var það harðneskjulegt af Jehóva að gefa Job beinskeyttar leiðbeiningar rétt eftir að hann hafði þolað þessar miklu þrengingar? Nei, og Job fannst það ekki heldur. Þrátt fyrir eldraunina var hann þakklátur. Hann sagðist jafnvel ,taka orð sín aftur og iðrast í dufti og ösku‘. Hnitmiðuð orð Jehóva voru uppörvandi fyrir hann. (Job. 42:1-6) Ungur maður, sem hét Elíhú, hafði einnig hjálpað Job að leiðrétta hugsunarhátt sinn. (Job. 32:5-10) Job tók áminningum Guðs og sá nú hlutina í réttu ljósi, og Guð lét þá í ljós að hann væri ánægður með Job og trúfesti hans í prófraunum. – Job. 42:7, 8.

13. Hvernig naut Job góðs af leiðbeiningum Jehóva löngu eftir að þrengingar hans voru afstaðnar?

13 Leiðbeiningar Jehóva komu Job að góðu gagni löngu eftir að þrengingar hans voru afstaðnar. Hvernig? Þó að Jehóva „blessaði síðari æviár Jobs meira en hin fyrri“ hlýtur það að hafa tekið nokkurn tíma fyrir hann að ná sér. Síðar eignaðist hann „sjö syni og þrjár dætur“. (Job. 42:12-14) Job saknaði auðvitað barnanna sem hann hafði misst. Líklega hafa þjáningar hans verið honum í fersku minni um tíma. Jafnvel þótt hann hafi ef til vill áttað sig betur á því síðar hvers vegna hann varð fyrir þessum prófraunum velti hann kannski stundum fyrir sér af hverju hann þurfti að þjást svona mikið. En hvað sem því líður gat hann hugleitt það sem Guð hafði sagt honum. Það hefur hjálpað honum að sjá hlutina í réttu ljósi og verið honum til hughreystingar. – Sálm. 94:19.

Getum við horft fram hjá erfiðleikum okkar og séð það sem mestu máli skiptir? (Sjá 14. grein.)

14. Hvað getum við lært af Job?

14 Frásagan af Job getur líka verið okkur til hughreystingar og hjálpað okkur að sjá hlutina í réttu ljósi. Jehóva lét varðveita hana „okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa“. (Rómv. 15:4) Hvaða lærdóm drögum við af frásögunni? Fyrst og fremst þann að við megum ekki vera svo upptekin af okkar eigin vandamálum að við missum sjónar á því mikilvæga máli að Jehóva er réttmætur drottinn alheims. Og höfum hugfast að það er hlutverk okkar í þessu stóra máli að vera Jehóva trú eins og Job, jafnvel þegar erfiðleikar verða á vegi okkar.

15. Hvaða gildi hefur það að vera trúr í prófraunum?

15 Hvers vegna er hughreystandi að hugleiða gildi þess að vera trúr?  Vegna þess að það merkir að prófraunir okkar þjóna ákveðnum tilgangi. Þær eru alls ekki merki um vanþóknun Jehóva heldur gefa okkur tækifæri til að sýna að við styðjum drottinvald hans. (Orðskv. 27:11) Með því að vera trú og þolgóð styrkjum við vonina og þóknumst Jehóva. (Lestu Rómverjabréfið 5:3-5.) Frásagan af Job ber með sér að Jehóva er „mjög miskunnsamur og líknsamur“. (Jak. 5:11) Við getum verið viss um að hann umbunar okkur og öllum öðrum sem styðja drottinvald hans. Þessi vitneskja hjálpar okkur að vera þolgóð og varðveita gleðina. – Kól. 1:11.

EINBEITUM OKKUR AÐ ÞVÍ SEM MESTU MÁLI SKIPTIR

16. Hvers vegna þurfum við að minna okkur á mikilvægi þess að styðja drottinvald Jehóva?

16 Það getur auðvitað verið erfitt að hafa hugann við drottinvald Jehóva þegar við eigum við vandamál að glíma sem virðist yfirþyrmandi. Smávægilegir erfiðleikar geta jafnvel skyggt á allt annað ef við hugsum of mikið um þá. Við ættum því að minna okkur oft á hve mikilvægt sé að styðja drottinvald Jehóva þegar erfiðleikar verða á vegi okkar.

17. Hvernig auðveldum við okkur að sjá hlutina í réttu ljósi ef við erum ötul í þjónustu Jehóva?

17 Ef við erum önnum kafin í þjónustu Jehóva getur það hjálpað okkur að hafa hugann við það sem mestu máli skiptir. Systir, sem hét Renee, fékk heilablóðfall og krabbamein og þjáðist af stöðugum verkjum. Hún vitnaði fyrir starfsfólki, sjúklingum og gestum meðan hún var á spítala. Eitt sinn lá hún á spítala í tvær og hálfa viku og notaði þá 80 klukkustundir til að boða fagnaðarerindið. Renee hætti aldrei að hugsa um drottinvald Jehóva, ekki einu sinni þegar hún vissi að hún átti skammt eftir. Það gaf henni hugarró.

18. Hvað lærum við af Jennifer um það að styðja drottinvald Jehóva?

18 Við viljum auðvitað líka einbeita okkur að drottinvaldi Jehóva við daglegar annir og óþægindi. Jennifer beið í þrjá daga á flugvelli eftir að komast heim. Hverju fluginu á fætur öðru var aflýst. Hún var einmana og úrvinda og hefði hæglega getað sökkt sér niður í sjálfsvorkunn. En hún bað Jehóva að benda sér á hvernig hún gæti liðsinnt öðrum sem voru í svipuðum sporum og hún. Henni tókst að vitna fyrir mörgum og dreifa fjölda rita. „Mér fannst Jehóva blessa mig þrátt fyrir þessar lýjandi aðstæður,“ segir hún. „Hann gaf mér styrk til að bera nafn sitt með sóma.“ Já, hún einbeitti sér að því að gera vilja Jehóva.

19. Hvaða afstöðu taka þjónar Jehóva til drottinvalds hans?

19 Engir nema þjónar Jehóva skilja í raun hve drottinvald hans er mikilvægt mál. Þar skilur á milli sannrar trúar og falskrar. Við þurfum því hvert og eitt að leggja okkur fram um að styðja drottinvald Jehóva öllum stundum.

20. Hvernig lítur Jehóva á það sem þú gerir til að styðja hann sem drottin alheims?

20 Þú mátt treysta að Jehóva kann að meta að þú skulir styðja hann sem drottin alheims með því að vera trúr þjónn hans og vera þolgóður í prófraunum. (Sálm. 18:26) Í næstu grein er rætt nánar hvers vegna Jehóva verðskuldar að þú styðjir hann af heilum hug sem drottin alheims og hvernig þú getur gert það.