Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notarðu ímyndunaraflið skynsamlega?

Notarðu ímyndunaraflið skynsamlega?

HVAÐ vegur aðeins 1,4 kílógrömm en er kallað „það flóknasta sem við höfum fundið í alheiminum hingað til“? Það er mannsheilinn. Hann er mikil undrasmíð. Því meira sem við lærum um hann því þakklátari verðum við fyrir „undursamleg“ verk Jehóva. (Sálm. 139:14) Við skulum líta á einn af mörgum hæfileikum mannsheilans – ímyndunaraflið.

Hvað er ímyndunarafl? Það hefur verið skilgreint sem „sá hæfileiki að sjá fyrir sér myndir eða gera sér hugmyndir um nýja og spennandi hluti eða hluti sem maður hefur ekki upplifað sjálfur“. Miðað við þessa skilgreiningu má ætla að þú notir ímyndunaraflið býsna oft. Hefurðu til dæmis lesið eða heyrt um stað sem þú hefur ekki komið til? Gastu ekki samt séð hann fyrir þér í huganum? Í hvert sinn sem við hugsum um eitthvað sem við getum ekki séð, heyrt, snert, fundið lykt af eða bragðað á er ímyndunaraflið að verki.

Biblían segir að við mennirnir séum skapaðir í mynd Guðs. (1. Mós. 1:26, 27) Getum við þá ekki ályktað að Jehóva hafi í vissum skilningi ímyndunarafl? Þar sem hann áskapaði okkur þennan hæfileika hlýtur hann að ætlast til þess að við notum hann til að fá skilning á vilja hans. (Préd. 3:11) Hvernig getum við notað ímyndunaraflið skynsamlega og hvernig ættum við ekki að nota það?

AÐ NOTA ÍMYNDUNARAFLIÐ ÓSKYNSAMLEGA

(1) Dagdraumar um ranga hluti eða á röngum tíma.

Dagdraumar eru ekki rangir í sjálfu sér. Bent hefur verið á rök fyrir því að þeir geti meira að segja verið gagnlegir. En í Prédikaranum 3:1 segir að ,sérhver hlutur undir himninum hafi sinn tíma‘ svo að það er hægt að gera hluti á röngum tíma. Segjum til dæmis að við leyfum huganum að reika á samkomu eða í sjálfsnámi okkar. Er ímyndunaraflið þá til gagns eða ógagns? Jesús varaði eindregið við því að leyfa huganum að gæla við rangar hugsanir, eins og siðlausa hugaróra. (Matt. 5:28) Sumt af því sem við gætum leyft okkur að hugsa um er Jehóva mjög á móti skapi. Siðlausir hugarórar geta verið undanfari siðlausra verka. Vertu ákveðinn í að leyfa ekki ímyndunaraflinu að skemma samband þitt við Jehóva.

(2) Að ímynda sér að peningar veiti varanlegt öryggi.

Efnislegir hlutir eru bæði nauðsynlegir og gagnlegir. En það er ávísun á vonbrigði ef við förum að ímynda okkur að þeir veiti sanna hamingju og öryggi. Salómon konungur skrifaði: „Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur í sjálfs hans ímyndun.“ (Orðskv. 18:11, Biblían 1981) Tökum dæmi: Úrhellisrigningar ollu miklum flóðum á Filippseyjum í september 2009. Yfir 80 prósent borgarinnar Maníla voru undir vatni þegar verst lét. Sluppu hinir ríku við afleiðingar flóðanna? Auðugur maður, sem varð fyrir miklu tjóni, sagði: „Flóðið gerði sér engan mannamun. Það hafði erfiðleika og þjáningar í för með sér jafnt fyrir ríka sem fátæka.“ Það getur verið auðvelt að ímynda sér að efnislegir hlutir veiti vernd og öryggi. En veruleikinn er allt annar.

(3) Óþarfa áhyggjur af hlutum sem eiga kannski aldrei eftir að gerast.

Jesús ráðlagði okkur að hafa ekki of miklar „áhyggjur“. (Matt. 6:34) Það þarf mjög auðugt ímyndunarafl til að hafa sífelldar áhyggjur. Það er enginn vandi að sóa kröftum sínum í að hafa áhyggjur af ímynduðum vandamálum, það er að segja vandamálum sem eru ekki til staðar eða verða kannski aldrei. Biblían gefur í skyn að slíkar áhyggjur geti verið mjög íþyngjandi og andlega niðurdrepandi. (Orðskv. 12:25) Það er því mikilvægt að fylgja ráðum Jesú og hafa ekki óþarfa áhyggjur heldur takast á við erfiðleika hvers dags þegar þá ber að garði.

AÐ NOTA ÍMYNDUNARAFLIÐ SKYNSAMLEGA

(1) Að sjá hættur fyrir og forðast þær.

Biblían hvetur okkur til að vera vitur og sýna fyrirhyggju. (Orðskv. 22:3) Með því að nota ímyndunaraflið getum við séð fyrir hugsanlegar afleiðingar ákvarðana okkar áður en við tökum þær. Segjum til dæmis að þér sé boðið í partí. Hvernig getur ímyndunaraflið hjálpað þér að ákveða hvort þú eigir að fara eða ekki? Þú færð að vita hverjum er boðið, hve mörgum og hvar og hvenær partíið verður haldið. Þá geturðu velt fyrir þér hvað eigi eftir að gerast þar. Ef þú ert raunsær sérðu þá fyrir þér heilnæma skemmtun sem samræmist meginreglum Biblíunnar? Með þessum hætti geturðu séð viðburðinn fyrir þér í huganum. Þannig getur ímyndunaraflið hjálpað þér að taka viturlegar ákvarðanir og forðast aðstæður sem gætu skaðað samband þitt við Jehóva.

(2) Æfðu þig í huganum að taka á erfiðum vandamálum.

Ímyndunaraflið gerir okkur kleift að takast á við vandamál. Segjum að það hafi hlaupið snurða á þráðinn í samskiptum þínum við einhvern í söfnuðinum. Hvernig ætlarðu að koma að máli við hann til að sættast? Það er að mörgu að hyggja. Hvernig er hann vanur að tjá sig um hlutina? Hvenær væri best að ræða málin við hann? Hvað væri best að segja og hvernig? Þú getur notað ímyndunaraflið til að máta ýmsar leiðir í huganum og velja svo þá aðferð sem þú heldur að virki best og nái til bróður þíns eða systur. (Orðskv. 15:28) Að nálgast erfið mál af slíkri tillitssemi stuðlar að friði í söfnuðinum. Þetta er tvímælalaust góð leið til að nota ímyndunaraflið.

(3) Auðgaðu sjálfsnám og biblíulestur.

Það er mjög mikilvægt að lesa í Biblíunni á hverjum degi. En það er ekki nóg að lesa bara. Við þurfum að koma auga á notagildi efnisins og láta það sem við lærum hreyfa við okkur. Biblíulesturinn þarf að hafa þau áhrif að við fáum meiri mætur á verkum Jehóva. Ímyndunaraflið getur hjálpað okkur til þess. Hvernig? Tökum sem dæmi greinaflokkinn „Líkjum eftir trú þeirra“. Þessar greinar í Varðturninum geta örvað ímyndunaraflið. Við getum séð fyrir okkur umhverfi mismunandi biblíupersóna og fengið innsýn í aðstæður þeirra og uppruna. Við sjáum það sem þær sáu, heyrum það sem þær heyrðu, finnum ilminn sem þær fundu og lifum okkur inn í tilfinningar þeirra. Þannig komum við auga á góða lærdóma og hvetjandi hugmyndir í frásögum í Biblíunni sem við töldum okkur þekkja frekar vel. Biblíulestur og sjálfsnám verður mjög auðgandi ef við notum ímyndunaraflið með þessum hætti.

(4) Þroskaðu með þér samkennd.

Samkennd er mjög verðmætur eiginleiki. Henni hefur verið lýst þannig að við finnum fyrir sársauka annarra í hjarta okkar. Bæði Jehóva og Jesús sýna öðrum samkennd og við ættum því að gera það líka. (2. Mós. 3:7; Sálm. 72:13) Hvernig getum við lært að sýna samkennd? Ímyndunaraflið er ein besta leiðin til þess. Við höfum kannski aldrei lent í því sem bróðir okkar eða systir eru að takast á við. En við getum velt fyrir okkur hvernig okkur liði ef við værum í þeirra sporum. Hvers myndum við þarfnast? Við verðum næmari á tilfinningar annarra ef við notum ímyndunaraflið til að setja okkur í spor þeirra. Í rauninni hefur samkennd jákvæð áhrif á líf okkar í heild, þar á meðal boðunina og samband okkar við trúsystkini.

(5) Sjáðu fyrir þér lífið í nýja heiminum.

Í Biblíunni er fagurlega lýst hvernig lífið verður í nýja heiminum sem Guð hefur lofað. (Jes. 35:5-7; 65:21-25; Opinb. 21:3, 4) Og í ritunum okkar er fullt af fallegum paradísarmyndum sem kallast á við lýsingarnar í Biblíunni. Hvaða tilgangi þjóna þær? Þær örva ímyndunaraflið og hjálpa okkur að gera okkur í hugarlund hvernig við eigum eftir að njóta þeirra gæða sem okkur er lofað. Jehóva hefur skapað ímyndunaraflið og veit betur en nokkur annar hve öflugt það er. Ef við notum það til að ígrunda fyrirheit Guðs treystum við enn betur að þau eigi eftir að rætast. Það hjálpar okkur að vera trúföst og standast álag og erfiðleika lífsins.

Ímyndunaraflið er undraverður eiginleiki sem Jehóva hefur gefið okkur. Það getur auðveldað okkur að þjóna honum vel dagsdaglega. Sýnum Jehóva að við séum þakklát fyrir þessa dásamlegu gjöf með því að nota hana skynsamlega dag hvern.