Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gættu hlutleysis í sundruðum heimi

Gættu hlutleysis í sundruðum heimi

„Gjaldið ... Guði það sem Guðs er.“ – MATT. 22:21.

SÖNGVAR: 33, 137

1. Hvernig getum við hlýtt bæði Guði og yfirvöldum?

Í ORÐI GUÐS er okkur sagt að vera hlýðin yfirvöldum. En þar segir líka að við eigum að hlýða Guði framar en mönnum. (Post. 5:29; Tít. 3:1) Er mótsögn í þessu? Engan veginn. Meginreglan um undirgefni með skilyrðum varpar ljósi á þetta þannig að við getum fylgt þessum fyrirmælum. Jesús orðaði þessa meginreglu þannig: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ [1] (Matt. 22:21) Hvernig förum við eftir leiðbeiningum Jesú? Við erum undirgefin yfirvöldum þar sem við búum með því að fylgja lögum þeirra, virða ráðamenn þeirra og embættismenn og borga þá skatta sem þau leggja á okkur. (Rómv. 13:7) En ef yfirvöld vilja að við óhlýðnumst Guði neitum við því en sýnum þeim samt tilhlýðilega virðingu.

2. Hvernig sýnum við að við erum hlutlaus í stjórnmálum?

2 Við gjöldum Guði það sem honum ber, meðal annars með því að vera hlutlaus í stjórnmálum heimsins. (Jes. 2:4) Við beitum okkur því ekki gegn yfirvöldum sem Jehóva hefur leyft að starfa né tökum þátt í athöfnum sem ýta undir  þjóðernishyggju og ættjarðarást. (Rómv. 13:1, 2) Við beitum yfirvöld ekki þrýstingi, reynum ekki að steypa þeim af stóli og tökum hvorki þátt í kosningum né bjóðum okkur fram í kosningum.

3. Hvers vegna verðum við að vera hlutlaus?

3 Í Biblíunni eru nefndar nokkrar ástæður fyrir því að Guð vill að við séum hlutlaus. Í fyrsta lagi fylgjum við kenningum og fordæmi Jesú Krists, sonar hans, með því að vera ekki „af heiminum“. Við tökum því ekki þátt í stjórnmálum og stríði. (Jóh. 6:15; 17:16) Í öðru lagi verðum við að vera hlutlaus til að vera hollir þegnar Guðsríkis. Annars gætum við varla haft hreina samvisku þegar við boðum þær gleðifréttir að aðeins ríki Guðs geti leyst vandamál mannkyns. Fölsk trúarbrögð hafa sundrað sóknarbörnum sínum með því að blanda sér í stjórnmál. En þeir sem iðka sanna trú eru sameinaðir í alþjóðlegu bræðralagi af því að þeir eru hlutlausir. – 1. Pét. 2:17.

4. (a) Hvernig vitum við að það verður erfiðara að vera hlutlaus eftir því sem á líður? (b) Hvers vegna er mikilvægt að undirbúa sig núna?

4 Vera má að við búum í landi þar sem stjórnvöld virðast umburðarlynd gagnvart sannri tilbeiðslu. En því nær sem dregur að endalokum þessa heims því meiri líkur eru á að það reyni á hlutleysi okkar. Heimurinn er fullur af þrjósku og þveru fólki svo að sundrungin á bara eftir að aukast. (2. Tím. 3:3, 4) Í sumum löndum hafa orðið örar breytingar á vettvangi stjórnmála með þeim afleiðingum að það hefur reynt óvænt á hlutleysi trúsystkina okkar. Skilurðu af hverju það er mikilvægt að undirbúa sig núna svo að við getum varðveitt hlutleysi okkar? Ef við bíðum með það er hætta á að við látum undan og glötum hlutleysi okkar þegar á reynir. En hvernig getum við verið hlutlaus í sundruðum heimi? Skoðum fjögur atriði sem geta hjálpað okkur.

SJÁÐU STJÓRNIR MANNA SÖMU AUGUM OG JEHÓVA GERIR

5. Hvernig lítur Jehóva á stjórnir manna?

5 Það fyrsta sem við getum gert til að vera hlutlaus er að sjá stjórnvöld sömu augum og Jehóva gerir. Enda þótt sum stjórnvöld virðist réttlát var það aldrei ætlun Jehóva að menn ríktu hver yfir öðrum. (Jer. 10:23) Stjórnir manna ýta undir þjóðernishyggju sem sundrar mannkyninu. Og jafnvel bestu leiðtogar geta ekki leyst öll vandamál mannkyns. Frá 1914 hafa stjórnir manna auk þess sett sig upp á móti ríki Guðs en það mun bráðum fullnægja dómi yfir þjóðunum og eyða þeim. – Lestu Sálm 2:2, 7-9.

6. Hvernig eigum við að koma fram við valdamenn?

6 Guð leyfir stjórnmálakerfi heimsins að standa af því að það veitir ákveðinn stöðugleika sem auðveldar okkur að boða ríki Guðs. (Rómv. 13:3, 4) Guð segir okkur jafnvel að biðja fyrir valdamönnum, ekki síst þegar ákvarðanir þeirra geta haft áhrif á tilbeiðslu okkar. (1. Tím. 2:1, 2) Við biðjum yfirvöld að sýna okkur sanngirni eins og Páll postuli gerði. (Post. 25:11) Biblían segir að vísu að andstæðingur Guðs, Satan djöfullinn, ráði yfir stjórnkerfi heims en hún segir ekki að hann stjórni beinlínis hverjum einasta leiðtoga eða valdamanni. (Lúk. 4:5, 6) Við ættum því ekki að gefa í skyn að ákveðinn valdamaður láti stjórnast af Satan. Við gætum þess að „lastmæla engum“ í samskiptum okkar við ,höfðingja og yfirvöld‘. – Tít. 3:1, 2.

7. Hvaða hugsunarhátt verðum við að forðast?

7 Við hlýðum Guði með því að aðhyllast ekki ákveðinn frambjóðanda eða stjórnmálaflokk, óháð því hvort hann virðist  hliðhollur okkur eða ekki. Hvernig gæti reynt á hlutleysi okkar að þessu leyti? Segjum að hreyfing rísi upp sem reynir að hrekja frá völdum ríkisstjórn sem hefur kúgað þegna sína og valdið þjónum Guðs miklum þjáningum. Að sjálfsögðu myndum við ekki fara í mótmælagöngu en er hugsanlegt að við séum hlynnt mótmælendunum í huganum? (Ef. 2:2) Ef við viljum vera hlutlaus verðum við að vera það í hjarta okkar en ekki aðeins í orðum og verkum.

VERTU VARKÁR OG VARÐVEITTU SAKLEYSI ÞITT

8. Hvernig getum við verið varkár og varðveitt sakleysi okkar þegar reynir á hlutleysi okkar?

8 Annað sem allir þjónar Guðs þurfa að gera þegar reynir á hlutleysi þeirra er að vera „varkárir eins og höggormar en saklausir eins og dúfur“. (Lestu Matteus 10:16, 17. [2]) Við erum varkár með því að koma auga á hættumerki snemma og við varðveitum sakleysi okkar með því að gera engar málamiðlanir. Lítum á nokkrar aðstæður sem gætu komið upp og það sem við getum gert til að vera hlutlaus.

9. Hvað þurfum við að varast þegar við ræðum við fólk?

9 Samræður. Við þurfum að vera varkár þegar pólitísk mál ber á góma. Segjum að við séum að boða fagnaðarerindið. Þá megum við hvorki hrósa stjórnmálaflokki eða leiðtoga fyrir stefnumál hans né gagnrýna hann. Reyndu að finna sameiginlegan grundvöll með húsráðandanum með því að beina athyglinni að undirrót vandans í stað þess að ræða um hugsanlegar pólitískrar lausnir. Notaðu síðan Biblíuna til að sýna fram á hvernig stjórn Guðs á eftir að leysa vandann endanlega. Ef umdeild mál eins og fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra ber á góma skaltu vekja athygli á mælikvarða Guðs og útskýra að við fylgjum honum. Gættu þess að vera fullkomlega hlutlaus ef farið er inn á pólitískar hliðar slíkra mála. Við tökum ekki afstöðu til þess hvaða lög eigi að setja, afnema eða breyta, og við reynum ekki að þvinga aðra til að taka undir sjónarmið okkar.

10. Hvernig getum við verið hlutlaus þegar við fylgjumst með fréttum fjölmiðla?

10 Fjölmiðlar. Algengt er að upplýsingar, sem birtast í formi „fréttar“, séu bornar fram á hlutdrægan hátt til að styðja ákveðnar skoðanir. Fjölmiðlar eru stundum eins og verkfæri stjórnmálaaflanna. Í löndum, þar sem ríkið stjórnar fjölmiðlunum, er algengt að fréttir séu litaðar af skoðunum yfirvalda. En jafnvel í löndum, þar sem fjölmiðlar teljast frjálsir og óháðir, þurfa þjónar Guðs að gæta þess að láta ekki einhliða sjónarmið fréttamanns eða fréttaskýranda hafa áhrif á sig. Hefurðu gaman af að hlusta á ákveðinn fréttaskýranda? Spyrðu þig þá hvort það sé vegna þess að þú hallist að stjórnmálaskoðunum hans. Ef svo er ættirðu kannski að leita á önnur mið. Það er að minnsta kosti skynsamlegt að fylgjast ekki allt of mikið með fjölmiðlum sem halda á lofti ákveðnum stjórnmálaskoðunum. Notaðu ,heilnæmu orðin‘ í Biblíunni sem prófstein á það sem þú sérð og heyrir. – 2. Tím. 1:13.

11. Hvers vegna gætum við átt erfitt með að vera hlutlaus ef okkur þykir mjög vænt um eigur okkar?

11 Efnishyggja. Ef okkur þykir of vænt um eigur okkar getur verið erfitt fyrir okkur að vera hlutlaus í prófraunum. Ruth býr í Malaví. Hún horfði upp á nokkra votta víkja frá hlutleysi sínu þegar þeir voru ofsóttir upp úr 1970. Hún segir: „Þeir gátu ekki hugsað sér að segja skilið við lífsþægindin. Sumir flúðu land með okkur en gengu síðar í stjórnmálaflokkinn og sneru aftur  heim af því að þeir gátu ekki sætt sig við óþægindin í flóttamannabúðunum.“ Langflestir þjónar Guðs hafa þó varðveitt hlutleysi sitt þrátt fyrir að það hafi haft í för með sér skert lífskjör eða eignamissi. – Hebr. 10:34.

12, 13. (a) Hvernig lítur Jehóva á mennina? (b) Hvað gæti gefið til kynna að við værum einum of stolt af landi okkar og þjóð?

12 Óviðeigandi stolt. Oft gera menn mikið úr ágæti síns eigin kynþáttar, ættflokks, menningar, borgar eða þjóðar. Ef við erum of stolt af uppruna okkar er hins vegar ljóst að við höfum ekki tileinkað okkur skoðun Jehóva á mannkyninu og stjórn manna. Jehóva ætlast auðvitað ekki til þess að við afneitum menningu okkar. Ólík menning er einmitt til marks um hve fjölbreytt og litríkt mannlífið er. Við verðum samt að hafa hugfast að allir menn eru jafnir fyrir Guði. – Rómv. 10:12.

13 Ef við erum einum of stolt af uppruna okkar er stutt í þjóðernishyggjuna, og þá er hætta á að við varðveitum ekki hlutleysi okkar. Þjónar Guðs eru ekki ónæmir fyrir stolti af þessu tagi, enda gerðist það í frumkristna söfnuðinum að sumum var mismunað vegna þjóðernis. (Post. 6:1) Hvernig getum við merkt að óviðeigandi stolt sé að festa rætur hjá okkur? Segjum að bróðir eða systir frá öðru landi komi með tillögu. Myndirðu hafna henni umbúðalaust og hugsa með þér: ,Við vitum miklu betur hvernig á að gera þetta.‘ Við ættum frekar að fara eftir innblásnu ráði Biblíunnar: „Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ – Fil. 2:3.

BIDDU JEHÓVA AÐ STYRKJA ÞIG

14. Hvers vegna er mikilvægt að biðja? Nefndu dæmi í Biblíunni sem styður það.

14 Það þriðja, sem við getum gert til að varðveita hlutleysi okkar, er að sækja styrk til Jehóva. Biddu um heilagan anda. Hann getur hjálpað þér að vera þolinmóður og sýna sjálfstjórn. Hvort tveggja er nauðsynlegt ef yfirvöldin eru spillt eða ranglát. Biddu Jehóva að gefa þér visku til að koma auga á aðstæður sem gætu stefnt hlutleysi þínu í hættu og bregðast rétt við þeim. (Jak. 1:5) Ef þú ert hnepptur í fangelsi eða þér er refsað á annan hátt fyrir að vilja ekki hvika frá sannri tilbeiðslu skaltu biðja um styrk og hugrekki til að verja trú þína og þola þær ofsóknir sem yfir þig ganga. – Lestu Postulasöguna 4:27-31.

15. Hvernig getur Biblían hjálpað okkur að vera hlutlaus? (Sjá einnig rammann „Biblían hjálpaði þeim að vera hlutlausir“.)

15 Jehóva getur styrkt þig með aðstoð Biblíunnar. Hugleiddu vers sem hjálpa þér að vera hlutlaus í prófraunum. Leggðu þau á minnið núna. Þá er auðvelt að rifja þau upp ef þú hefur ekki aðgang að Biblíunni seinna. Biblían getur líka hjálpað þér að treysta því sem Jehóva lofar um framtíðina. Slík von er nauðsynleg til að standast ofsóknir. (Rómv. 8:25) Veldu vers sem draga upp mynd af því sem þú hlakkar sérstaklega til að upplifa í framtíðinni. Sjáðu síðan fyrir þér hvernig þú nýtur þess í paradís.

LÆRÐU AF ÖÐRUM SEM HAFA VERIÐ RÁÐVANDIR

16, 17. Hvað getum við lært af öðrum þjónum Guðs sem varðveittu hlutleysi sitt? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

16 Það fjórða, sem hjálpar okkur að vera hlutlaus, er að hugleiða fordæmi annarra þjóna Jehóva sem hafa verið honum trúir. Biblían segir frá mörgum sem sýndu hugrekki og tóku viturlegar ákvarðanir sem hjálpuðu þeim að vera hlutlausir. Sadrak, Mesak og Abed-Negó neituðu til dæmis að tilbiðja líkneski  sem var táknmynd babýlonska ríkisins. (Lestu Daníel 3:16-18.) Hugrekki þeirra hefur verið vottum nú á dögum innblástur til að neita að dýrka fána þjóðarinnar sem þeir tilheyra. Jesús kom ekki heldur nálægt stjórnmála- og þjóðfélagsdeilum heimsins. Hann vissi að dæmi hans yrði öðrum til hvatningar og sagði við lærisveina sína: „Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ – Jóh. 16:33.

17 Fjölmargir vottar á okkar dögum hafa varðveitt hlutleysi sitt. Sumir hafa mátt þola misþyrmingar, verið fangelsaðir og jafnvel dáið fyrir trú sína. Fordæmi þeirra getur verið þér til hvatningar eins og það var fyrir Barış sem er bróðir í Tyrklandi. Hann segir: „Franz Reiter var ungur bróðir sem var tekinn af lífi af því að hann neitaði að ganga í herinn á valdatíma Hitlers. Hann skrifaði móður sinni kvöldið áður en hann dó. Bréfið lýsir óhagganlegri trú og trausti til Jehóva. Mig langaði til að líkja eftir honum ef ég yrði fyrir sambærilegri prófraun.“ [3]

18, 19. (a) Hvernig geta aðrir í söfnuðinum hjálpað þér að vera hlutlaus? (b) Hvað er mikilvægt að gera núna?

18 Bræður og systur í söfnuðinum þínum geta líka hjálpað þér að varðveita hlutleysi þitt. Segðu öldungunum frá prófraunum þínum. Þeir geta gefið þér góð ráð byggð á Biblíunni. Aðrir í söfnuðinum geta verið þér til hvatningar ef þeir vita hvað þú ert að ganga í gegnum. Biddu þá að biðja fyrir þér. En við ættum auðvitað líka að styrkja trúsystkini okkar með bænum okkar. (Matt. 7:12) Á vefsetri okkar, jw.org, geturðu fundið skrá með nöfnum bræðra og systra sem sitja í fangelsi vegna trúar sinnar. Veldu NEWSROOM > LEGAL DEVELOPMENTS og finndu greinina „Jehovah’s Witnesses Imprisoned for Their Faith – By Location“. Veldu fáein nöfn og biddu Jehóva að hjálpa þessum bræðrum og systrum að vera hugrökk og ráðvönd. – Ef. 6:19, 20.

19 Eftir því sem endirinn nálgast má búast við að stjórnvöld þrýsti meira á okkur að taka afstöðu til ýmissa mála. Gerum því allt sem við getum til að sýna Jehóva og ríki hans hollustu og vera hlutlaus í sundruðum heimi.

^ [1] (1. grein.) Jesús notar hér keisarann, æðsta valdamann þess tíma, sem tákn um borgaraleg yfirvöld eða ríkisvaldið.

^ [2] (8. grein.) Matteus 10:16 (NW): „Ég sendi ykkur út eins og sauði meðal úlfa. Verið því varkárir eins og höggormar en saklausir eins og dúfur.“

^ [3] (17. grein.) Sjá bókina Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 662, og rammann „Hann dó Guði til heiðurs“ kafli 14 í bókinni Ríki Guðs stjórnar.