Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er ég með átröskun?

Er ég með átröskun?

Ungt fólk spyr . . .

Er ég með átröskun?

„Stundum verð ég kvíðin og byrja að skjálfa þegar ég sest niður við matarborðið. Ég er hrædd um að fitna. Ég segi við sjálfa mig að ég verði að missa [tvö kíló] í viðbót.“ — Melissa. *

„Mig langar til að líta vel út og mig hryllir við tilhugsuninni um að verða feit. En ég vil ekki að neinn viti að ég kasta upp þegar ég er búin að borða. Ég skammast mín fyrir það.“ — Amber.

„Ég segi við sjálfa mig: . . . Í dag ætla ég að gera betur . . . En síðan kemur alltaf að því seinna um daginn að ég fæ átkast. Sektarkennd fylgir í kjölfarið og mig langar til að deyja.“ — Jennifer.

ÞIG langar til að líta vel út og það er eðlilegt. Þú vilt fá huggun þegar þú ert kvíðin eða niðurdregin og það er heldur ekkert rangt við það. En ef þú ert eins og einhver af stelpunum sem vitnað er í hér til hliðar gæti verið að þú eigir við vandamál að stríða. Ef svo er ertu ekki ein um það. Staðreyndin er sú að milljónir unglinga, aðallega stelpur, eru með átröskun. *

Skoðum nánar lystarstol, lotugræðgi og lotuofát. Þessir sjúkdómar hafa ólík einkenni en allir fela þeir í sér óeðlilegt viðhorf til matar. Ef þú telur að einhver af eftirfarandi lýsingum eigi við um þig geturðu verið viss um að það er hægt að fá hjálp. Þú getur náð bata!

Yfirlit

LYSTARSTOL. Þegar stelpa með lystarstol lítur í spegil finnst henni hún vera allt of feit óháð því hversu grönn hún er. Hún grípur til öfgakenndra aðgerða til að léttast. „Það var orðið að áráttu hjá mér að telja hitaeiningar,“ segir ein stelpa með lystarstol. „Ég skipulagði vandlega hvað ég myndi borða yfir vikuna, sleppti máltíðum og stundaði líkamsrækt af áfergju þegar mér fannst ég hafa neytt of margra hitaeininga. Ég tók allt að sex töflur af hægðalyfjum á dag.“

Innan tíðar fara einkenni lystarstolsins að sjást. Þyngdartap er algengt merki en einnig má nefna hárlos, þurra húð og þreytu og auk þess dregur úr beinþéttni. Tíðir geta orðið óreglulegar eða jafnvel stöðvast í marga mánuði í röð.

Þessi einkenni hljóma ef til vill fremur skaðlaus en láttu ekki blekkjast — lystarstol er lífshættulegt. Rannsókn sýndi fram á að allt að 10 prósent lystarstolssjúklinga deyja fyrr eða síðar af völdum sjúkdómsins, yfirleitt vegna líffærabilunar eða einhvers annars sem tengist vannæringu.

LOTUGRÆÐGI. Í stað þess að forðast mat fær stelpa með lotugræðgi átköst og getur innbyrt allt að 15.000 hitaeiningar á tveim klukkutímum! Síðan losar hún sig við matinn, oftast með því að framkalla uppköst eða taka hægðarlyf eða þvagræsilyf.

Átköstin fara yfirleitt fram fyrir luktum dyrum. „Ef enginn var heima þegar ég kom úr skólanum byrjaði ég yfirleitt að háma í mig,“ segir ein stelpa. „Ég passaði að fela öll sönnunargögnin.“ En eftir átkastið kom samviskubitið. „Ég varð mjög óánægð með sjálfa mig en ég vissi að ég gæti mjög auðveldlega tekið þetta allt til baka,“ segir hún. „Ég fór upp á efri hæðina, kastaði upp og við það létti mér ekki aðeins heldur fannst mér ég líka sterkari.“

Þótt það geti virst sniðugt að losa sig við matinn á þennan hátt er það hættulegt. Misnotkun á hægðalyfjum veikir meltingarveginn og getur leitt til sýkinga og bólgu. Endurtekin uppköst geta leitt til vökvataps, tannskemmda, skemmda á vélinda og jafnvel hjartabilunar.

LOTUOFÁT. Stelpa, sem er með lotuofát, borðar mikið magn af mat líkt og lotugræðgisjúklingur. Munurinn er sá að hún losar sig ekki við matinn. Stelpa með lotuofát gæti því verið of þung. En sumar svelta sig hins vegar eftir átköstin eða stunda líkamsrækt af miklu kappi. Þegar þyngdinni er þannig haldið óbreyttri eiga fjölskyldur og vinir stundum erfitt með að koma auga á ástandið.

Stelpur með lotuofát hafa óheilbrigt viðhorf til matar eins og þær sem eru með lystarstol og lotugræðgi. Ein stelpa segir um sjálfa sig og aðra með sama vandamál: „Matur er okkar persónulegi leynivinur — kannski eini vinurinn okkar.“ Önnur segir: „Meðan á átkasti stendur virðist ekkert annað skipta máli. Maturinn er það eina sem kemst að — hann veitir huggun — og síðan kemur samviskubitið og depurðin.“

Lotuofát er hættulegt þó að einstaklingurinn losi sig ekki við matinn. Það getur orsakað sykursýki, of háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma og önnur veikindi. Það hefur líka mjög skaðleg áhrif á tilfinningalífið.

Gæti þetta komið fyrir þig?

Auðvitað er ekki sjálfgefið að allir sem vilja léttast eða komast í gott form séu með átröskun. En eftir að hafa hugleitt það sem talað var um hér á undan gætirðu velt fyrir þér hvort þú stefnir í þessa átt. Spyrðu sjálfa þig:

◼ Skammast ég mín fyrir matarvenjur mínar eða einkennilega hegðun í tengslum við mat?

◼ Leyni ég matarvenjum mínum fyrir öðrum?

◼ Er matur orðinn það mikilvægasta í lífi mínu?

◼ Vigta ég mig oftar en einu sinni á dag?

◼ Er ég tilbúin til að taka áhættu til að léttast?

◼ Hef ég prófað að framkalla uppköst eða taka hægðalyf eða þvagræsilyf?

◼ Hafa matarvenjur mínar truflað félagslíf mitt? Vil ég til dæmis frekar vera ein heldur en með öðrum, þannig að ég geti hámað í mig eða losað mig við matinn á laun?

Ef svör þín við þessum spurningum gefa til kynna að þú eigir við vandamál að stríða skaltu spyrja þig:

◼ Er ég í raun og veru ánægð með að lifa svona lífi?

Hvað geturðu gert í málinu?

Gríptu strax til aðgerða!

Fyrsta skrefið er að viðurkenna fyrir sjálfri þér að þú eigir við vandamál að stríða. „Eftir að hafa hugsað málið sá ég að ég hegðaði mér eins og stelpur með lystarstol og mér leið eins þær,“ segir Danielle. „Það var mjög erfitt að horfast í augu við það að ég gerði alveg eins og þær gerðu.“

Næsta skref er að biðja til Jehóva og tala um þetta við hann. * Biddu hann um visku til að skilja hvað liggur að baki vandamálinu þannig að þú getir sigrast á því. Þú getur beðið eins og Davíð gerði: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ — Sálmur 139:23, 24.

En kannski ertu treg til að segja skilið við átröskunina. Þú ert ef til vill orðin háð henni, hún er eins og fíkn. En þú getur lagt þetta fyrir Jehóva í bæn. Danielle þurfti að gera það. „Fyrst um sinn vildi ég eiginlega ekki ná bata,“ viðurkennir hún. „Þannig að ég varð að biðja um löngun til að láta mér batna.“

Þriðja skrefið er að tala við foreldri eða einhvern annan fullorðinn sem getur hjálpað þér. Umhyggjusamir einstaklingar munu ekki skamma þig. Þeir munu miklu fremur leggja sig fram um að líkja eftir Jehóva sem er lýst svona í Biblíunni: „Hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.“ — Sálmur 22:25.

En leiðin að bata er ekki auðveld. Stundum þarf að leita aðstoðar fagfólks. * Mikilvægast er að þú grípir til aðgerða. Stelpa með lotugræðgi ákvað að gera það. Hún segir: „Dag einn áttaði ég mig á því að uppköstin voru í raun farin að stjórna mér. En ég var samt ekki viss um að ég gæti hætt. Að lokum gerði ég það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíma þurft að gera. Ég bað um hjálp.“

Þú getur gert það líka!

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ Greinin er skrifuð til kvenna þar sem meirihluti þeirra sem eru með átröskun eru konur. En flest sem rætt verður um á líka við um karlmenn.

^ Þó að þér líði mjög illa geturðu verið viss um að Jehóva er annt um þig, eins og sést vel þegar þú hugleiðir ritningastaði eins og þessa: 2. Mósebók 3:7; Sálmur 9:10; 34:19; 51:19; 55:23; Jesaja 57:15; 2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:6, 7; 1. Pétursbréf 5:7; 1. Jóhannesarbréf 5:14.

^ Kristnir menn ættu að fullvissa sig um að sú meðferð sem þeir velja stangist ekki á við meginreglur Biblíunnar.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Heldurðu að þú sért kannski með átröskun? Ef svo er, hvar geturðu fengið hjálp?

◼ Hvernig geturðu hjálpað vini sem er með átröskun?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 27]

„Getur verið að þú eigir við vandamál að stríða?“

Ef einhver úr fjölskyldunni eða vinur segir þetta við þig skaltu reyna að fara ekki í vörn. Segjum sem svo að vinkona taki eftir því að faldurinn á kjólnum þínum sé að losna að aftan. Þætti þér ekki vænt um að hún benti þér á það áður en hann losnaði meira? Biblían segir: „Til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.“ (Orðskviðirnir 18:24) Þegar einhver kemur til þín og segist hafa áhyggjur af þér er sá hinn sami einmitt þess konar vinur.

[Rammi á blaðsíðu 27]

„Ég varð að vera grönn“

„Fyrst byrjaði ég að létta mig. Síðan voru endajaxlarnir dregnir úr mér og ég gat ekki borðað. Það ýtti mér út í lystarstol. Ég hugsaði ekki um annað en útlit mitt og líkamslögun. Ég var aldrei nógu grönn. Ég var óhugnanlega létt þegar ástandið var sem verst. Ég skemmdi líkama minn svo mikið. Núna vaxa neglurnar mínar ekki. Ég skemmdi líkamsklukkuna og ég hef misst fóstur fjórum sinnum. Ég er komin á breytingarskeiðið löngu fyrir tímann og efnaskipti líkamans eru í lágmarki. Ég er líka með ristilbólgu. Allt er þetta vegna þess að ég varð að vera grönn.“ — Nicole.

[Rammi á blaðsíðu 28]

Ef þú fellur

Þú ert kannski búin að sigrast á átröskuninni en svo fellurðu eftir einhverjar vikur eða mánuði. Ef það gerist skaltu ekki gefast upp. Biblían viðurkennir að „sjö sinnum fellur hinn réttláti“. (Orðskviðirnir 24:16) Bakslag þýðir ekki að þú getir þetta ekki. Það sýnir bara að þú þarft að styrkja ásetning þinn, þekkja hættumerkin og tala opinskátt við einstaklinga sem styðja þig og geta hjálpað þér.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 28]

Aflaðu þér meiri upplýsinga

Ef þú ert með átröskun er gagnlegt fyrir þig að lesa þér til um efnið. Því meir sem þú veist um vandamálið þeim mun auðveldara verður að takast á við það. Þú munt örugglega hafa gagn af því að fara yfir upplýsingarnar sem komu fram í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. janúar 1999, bls. 3-12 og Vaknið! júlí-september 1999, bls. 13-15.

[Rammi á blaðsíðu 29]

TIL FORELDRA

Hvað geturðu gert ef dóttir þín glímir við átröskun? Fyrst skaltu fara vel yfir það sem kemur fram í þessari grein og öðrum sem vísað er til í rammanum á bls. 28. Reyndu að skilja hvers vegna hún hefur tekið upp þessa hegðun.

Bent hefur verið á að margir með átröskun hafa lélega sjálfsmynd, eru með fullkomnunaráráttu og gera óraunhæfar kröfur til sjálfra sín. Þú verður að passa þig að ýta ekki undir slíkan hugsunarhátt. Hjálpaðu dóttur þinni að byggja upp aukið sjálfstraust. (Jesaja 50:4) Og til að vinna á móti fullkomnunaráráttunni skaltu leggja þig fram um að vera sanngjarn. — Títusarbréfið 3:2.

Þú þarft líka að gefa gaum að því hvernig þú hugsar um mat og þyngd. Hefurðu óafvitandi lagt of mikla áherslu á þessa hluti, annaðhvort með orðum eða verkum? Við verðum að muna að unglingar eru einstaklega meðvitaðir um útlit sitt. Bara það að gera grín að „barnafitunni“ eða eðlilegum vaxtakippum á unglingsárunum getur haft slæm áhrif á áhrifagjarnan ungling.

Þegar þú hefur hugleitt málið vandlega í bænarhug skaltu tala við dóttur þína af einlægni.

Vertu búinn að ákveða fyrir fram hvað þú ætlar að segja og hvenær.

◼ Láttu í ljós áhyggjur þínar og að þú viljir hjálpa.

◼ Vertu ekki hissa þótt hún fari í vörn fyrst um sinn.

◼ Hlustaðu af þolinmæði.

Það sem er mikilvægast er að þú takir þátt í baráttu dóttur þinnar og hjálpir henni að ná bata. Gerðu þetta að fjölskylduátaki.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Þú þarft kannski að biðja um löngun til að ná bata.