Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haustið — ægifögur árstíð

Haustið — ægifögur árstíð

Haustið — ægifögur árstíð

HAUSTIÐ er sérstakur árstími í löndum með temprað loftslag. Heiðblár himinn, sólríkir dagar og svalar nætur kalla smám saman fram hundruð af gulum, appelsínugulum og rauðum litbrigðum í skógi vöxnum hlíðum. Sígrænar furur og sedrusviðir mynda dökkleitan bakgrunn fyrir skærrauða og gula liti sumargrænna lauftrjáa.

Austurlandabúum, svo sem Japönum og Kóreumönnum, þykir mjög mikið til haustsins koma. Í Japan fara menn oft á „haustlitaveiðar,“ eins og þeir orða það, og leggja land undir fót til að dást að listaverkum náttúrunnar.

Margir þjóðgarðar Kóreu skarta sínu fegursta á þessum árstíma. Dagblöðin upplýsa almenning um hvenær best sé að horfa á haustlitina. Soraksan, einn frægasti þjóðgarður Kóreu, er vinsæll áfangastaður og dæmigerður fyrir landslag Austurlanda fjær, skrýddur furutrjám sem liggja utan í granítklettum og gnæfandi bergmyndunum. Á haustin liggja hlynir og beykitré eins og eldrautt hálsmen utan um granítdranga þjóðgarðsins. Og þegar tindarnir gægjast upp úr morgunmistrinu blasir við sjón sem árrisulir ferðamenn gleyma seint.

„Ég nýt þess alltaf að ganga um holt og hæðir, en þó sérstaklega á haustin,“ segir Park Ii-kyun, líflegur Kóreumaður á áttræðisaldri. „Á haustin er eins og Guð hafi skrýtt hæðirnar fjölmörgum litum — litum sem breytast dag frá degi, litum sem ljóma undir tærum hausthimninum.“ Kông-young, eiginkona hans, hefur yndi af að horfa á haustlaufin flögra af himni ofan eins gullin fiðrildi.

Hvers vegna breyta lauf um lit?

Þessi litríka umbreyting vekur forvitni og eðlilegt að spyrja hvað ráði því að eitt laufblað verður gult en annað rautt.

Haustlitirnir eru liður í vetrarundirbúningi trjáa. Þegar dagarnir styttast á haustin fer innri klukka trjánna að loka fyrir flutning vatns og næringarefna til laufblaðanna. Hvert lauf bregst við með því að mynda aðskilnaðarlag við rætur blaðstilksins úr eins konar korkefni sem stöðvar alla hringrás milli laufblaðsins og annarra trjáhluta og veldur því um síðir að laufið fellur af.

Meðan þetta er að gerast byrja karótínlitarefni að gefa laufunum gulan og appelsínugulan lit. Litarefnin eru yfirleitt til staðar allt sumarið en það ber ekki á þeim vegna þess að blaðgrænan er ráðandi í laufunum. Rauði liturinn kemur aðallega frá antósýaníni (jurtabláma), litarefni sem lauf mynda ekki fyrr en á haustin. Blaðgrænan leysist upp þegar hausta tekur og gulu og rauðu litarefnin ná yfirhöndinni. Þegar blaðgrænan er horfin verða asparlauf skærgul og hlynslauf fá á sig fagurrauðan blæ.

Í leit að ægifögru hausti

Flestir náttúruunnendur hafa tekið eftir því að haustskrúðið er mismikið milli ára og staða. Það fer oft eftir því hvaða lauftré eru á hverjum stað. Ýmsar hlynstegundir skarta til dæmis sérlega fögrum rauðum litum. Margar þeirra vaxa villtar í Austurlöndum fjær og eru oft gróðursettar í almenningsgörðum og einkagörðum.

Veðráttan hefur líka sitt að segja — antósýanínmagn laufa fer mjög eftir veðurfari. Laufblöð framleiða mest af litarefninu þegar bjart er í veðri, sólríkt og svalt um nætur. Þannig er jafnan haustveðrið í Austurlöndum fjær. Bæði Japan og Kórea eru hálend. Þar eru víða skógi vaxnar hæðir og hlíðar með margs konar sumargrænum trjám, og því er ákjósanlegt fyrir aðkomufólk að skoða þar haustlitina.

Háþróaður endurvinnsluferill

Að tré skuli fella lauf þjónar nytsömum tilgangi, auk þess að vera augnayndi. Með því spara trén bæði vatn og orku yfir veturinn og losa sig líka við eiturefni sem safnast fyrir í laufunum um sumarið.

Hvað verður um þá milljarða laufblaða sem falla til jarðar? Svo er skordýrum, sveppum, möðkum og öðrum jarðvegsbúum fyrir að þakka að allt þetta lífræna efni breytist fljótlega í moltu sem er ómissandi hráefni í frjósömum jarðvegi. Eftir ægifagra litasýningu breytast laufin sem sagt í áburð fyrir gróðurvöxt næsta vors. Það er varla hægt að hugsa sér ánægjulegra endurvinnsluferli en þetta! Þegar við stöldrum við og dáumst að þessu handaverki má vera að okkur finnist „öll tré merkurinnar klappa lof í lófa“ er þau vegsama skapara sinn í hljóði. — Jesaja 55:12; Sálmur 148:7-9.