Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Víðtækur vandi

Víðtækur vandi

Víðtækur vandi

„Sjálfsvíg eru alvarlegur heilbrigðisvandi.“ — David Satcher, landlæknir Bandaríkjanna, árið 1999.

ÞETTA var í fyrsta sinn sem bandarískur landlæknir tjáði sig opinberlega um það að sjálfsvíg væru alvarlegur heilbrigðisvandi. Nú er svo komið að fleiri falla fyrir eigin hendi í Bandaríkjunum en fyrir hendi annarra, þannig að það kom ekki á óvart að öldungadeild Bandaríkjaþings skyldi lýsa yfir að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum ættu að fá forgang um land allt.

Árið 1997 var tíðni sjálfsvíga í Bandaríkjunum 11,4 fyrir hverja 100.000 íbúa. Það er þó undir heimsmeðaltalinu árið 2000 sem var 16 fyrir hverja 100.000 íbúa samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Tíðni sjálfsvíga hefur aukist um 60 prósent í heiminum á síðastliðnum 45 árum. Um ein milljón manna sviptir sig lífi í heiminum á ári hverju. Það svarar til þess að einn maður falli fyrir eigin hendi á 40 sekúndna fresti!

En opinberar tölur segja ekki alla söguna því að í mörgum tilfellum neitar fjölskylda hins látna að hann hafi fyrirfarið sér. Auk þess er talið að fyrir hvert sjálfsvíg, sem tekst, séu gerðar á bilinu 10 til 25 sjálfsvígstilraunir. Í könnun, sem gerð var í unglingaskóla vestanhafs, sögðust 27 prósent nemendanna hafa hugsað alvarlega um það á liðnu ári að svipta sig lífi, og 8 prósent þeirra, sem tóku þátt í könnuninni, sögðust hafa reynt það. Í öðrum könnunum hefur komið fram að á bilinu 5 til 15 prósent fullorðinna hafi einhvern tíma hugleitt að fyrirfara sér.

Breytileg afstaða eftir menningu

Afstaða fólks til sjálfsvíga er afar breytileg. Sumir líta á sjálfsvíg sem glæp og sumir kalla það heigulsskap en aðrir sjá það sem heiðvirða aðferð til að biðjast afsökunar á afglöpum sínum. Sumir telja sjálfsvíg jafnvel vera göfuga leið til að styrkja einhvern málstað. Hvers vegna er afstaða manna svona ólík? Að stórum hluta má rekja það til menningarlegra viðhorfa. Reyndar kemur fram í fréttabréfinu The Harvard Mental Health Letter að menningarleg viðhorf geti jafnvel „haft áhrif á líkurnar á sjálfsvígi.“

Tökum Ungverjaland sem dæmi. Geðlæknirinn Zoltán Rihmer kallar hina háu tíðni sjálfsvíga þar í landi „dapurlega ‚hefð.‘“ Béla Buda, sem er forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Ungverjalands, bendir á að Ungverjum sé allt of gjarnt að fyrirfara sér nánast að tilefnislausu. Hann segir að viðbrögð manna séu oft í þessum dúr: „Hann er með krabbamein — hann veit hvernig hann á að binda enda á það.“

Á Indlandi tíðkaðist það hér áður fyrr að ekkja fórnaði sér á útfararbálkesti eiginmanns síns. Þessi trúarsiður hefur verið bannaður lengi en hefur þó ekki lagst af með öllu. Þegar fréttist að kona nokkur hefði fyrirfarið sér með þessum hætti báru margir heimamenn lof á hana. Að sögn tímaritsins India Today „hafa næstum 25 konur brennt sig til bana á bálkesti eiginmanna sinna á jafnmörgum árum“ á umræddu svæði í landinu.

Svo ótrúlegt sem það kann að virðast falla þrefalt fleiri fyrir eigin hendi í Japan en látast af völdum umferðarslysa! Í bókinni Japan — An Illustrated Encyclopedia kemur fram að „hin rótgróna menning Japana hafi aldrei fordæmt sjálfsvíg og sé þekkt fyrir mjög svo formfasta og hefðbundna kviðristu (nefnd seppuku eða harakiri).“

Inazo Nitobe, sem seinna varð aðstoðarframkvæmdastjóri Þjóðabandalagsins, skrifaði bók sem nefnist Bushido — The Soul of Japan og gefur þar skýringu á þessari hrifningu af dauðanum sem virðist samgróin japanskri menningu. Hann segir: „[Kviðrista] var fundin upp á miðöldum sem leið fyrir hermenn til að bæta fyrir glæpi sína, biðjast afsökunar á yfirsjónum sínum, umflýja skömm, bæta fyrir óþægindi sem þeir höfðu valdið vinum sínum eða til að sanna einlægni sína.“ Þessi formfasta sjálfsvígsaðferð heyrir nú að mestu leyti fortíðinni til en þó grípa einstaka menn til hennar enn þá sökum þeirra félagslegu áhrifa sem hún hefur.

Í kristna heiminum voru sjálfsvíg hins vegar lengi álitin glæpur. Á sjöttu og sjöundu öld var rómversk-kaþólska kirkjan farin að bannfæra menn ef þeir fyrirfóru sér og neita þeim um kirkjulega greftrun. Sums staðar hefur trúarhitinn skapað undarlega siði gagnvart þeim sem fyrirfara sér, svo sem það að hengja lík hins látna í gálga og jafnvel að reka hæl gegnum hjarta hans.

Svo þverstæðukennt sem það nú er gat sá sem reyndi að fyrirfara sér kallað yfir sig dauðarefsingu. Enskur maður reyndi að skera sig á háls á 19. öld og var hengdur fyrir. Þannig luku yfirvöld því sem honum mistókst. Refsingar fyrir sjálfsvígstilraunir breyttust með tímanum en það var þó ekki fyrr en árið 1961 að breska þingið lýsti yfir að sjálfsvíg og sjálfsvígstilraun teldist ekki lengur glæpur. Á Írlandi voru slík ákvæði í gildi allt fram til ársins 1993.

Í einstaka bókum er hvatt til þess að menn líti á sjálfsvíg sem valkost. Árið 1991 kom út bók þar sem bent var á hvernig fólk með banvæna sjúkdóma gæti fyrirfarið sér með aðstoð annarra. Síðar kom á daginn að margir, sem voru ekki haldnir banvænum sjúkdómi, gripu til einnar af þeim aðferðum sem mælt var með í bókinni.

Er sjálfsvíg leiðin til að leysa vandamál sín eða er ærin ástæða til að halda áfram að lifa? Við lítum nánar á það síðar í blaðinu en fyrst skulum við kanna hvað leiðir fólk út í sjálfsvíg.

[Innskot á blaðsíðu 4]

Um ein milljón manna sviptir sig lífi á ári hverju. Það svarar til þess að einn maður falli fyrir eigin hendi á 40 sekúndna fresti!