Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna gefst fólk upp á lífinu?

Hvers vegna gefst fólk upp á lífinu?

Hvers vegna gefst fólk upp á lífinu?

„Sérhvert sjálfsvíg á sér einstaklingsbundnar rætur sem eru ákaflega persónulegar, óskiljanlegar og átakanlegar.“ — Kay Redfield Jamison, geðlæknir.

„ÞAÐ er kvalræði að lifa,“ skrifaði hann skömmu áður en hann fyrirfór sér. Hann hét Ryunosuke Akutagawa og var vinsæll rithöfundur í Japan snemma á tuttugustu öld. Hann hafði þennan formála að orðum sínum: „Mig langar auðvitað ekki til að deyja en . . .“

Þeir sem fyrirfara sér hugsa flestir líkt og Akutagawa — þá langar ekki til að deyja heldur til að „binda enda á það sem er að gerast,“ að sögn prófessors í sálfræði. Í kveðjubréfum fólks, sem sviptir sig lífi, stendur oft eitthvað í líkingu við: ‚Ég get ekki lifað svona lengur‘ eða ‚Ég get ekki meir.‘ Orð sem þessi vitna um sterka löngun til að leita undankomu frá harðneskjulegum veruleikanum. En svo notuð séu orð sérfræðings má segja að sjálfsvíg sé sambærilegt við það að „lækna kvef með kjarnorkusprengju.“

Þó að ástæðurnar fyrir sjálfsvígi séu ákaflega breytilegar geta vissir atburðir oft verið kveikja þess.

Kveikjan

Þegar unglingur fyllist örvæntingu og sviptir sig lífi má oft rekja það til atburða eða mála sem öðrum kunna að þykja smávægileg. Unglingurinn er særður og getur engu um það breytt, og finnst þá að hann geti náð sér niðri á þeim sem særðu hann með því að fyrirfara sér. Japaninn Hiroshi Inamura hefur sérhæft sig í meðferð á fólki í sjálfsvígshugleiðingum. Hann skrifar: „Börn ala innra með sér þá löngun að refsa þeim, sem hafa kvalið þau, með því að deyja.“

Gerð var könnun í Bretlandi ekki alls fyrir löngu sem leiddi í ljós að alvarleg áreitni eða einelti næstum sjöfaldar hættuna á því að börn reyni að fyrirfara sér. Tilfinningakvöl þessara barna er raunveruleg. Þrettán ára drengur, sem hengdi sig, skildi eftir miða með nöfnum fimm unglinga sem höfðu kvalið hann og jafnvel kúgað fé út úr honum. Hann skrifaði: „Bjargið öðrum börnum.“

Sumir reyna að svipta sig lífi ef þeir lenda í vandræðum í skólanum eða komast í kast við lögin, verða fyrir ástarsorg, fá slæmar einkunnir, kvíða prófunum eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Bakslag eða mistök — ýmist raunveruleg eða ímynduð — geta verið kveikja sjálfsvígstilrauna hjá táningum sem standa sig vel í skóla eða eru haldnir fullkomnunaráráttu á einhverju stigi.

Hjá fullorðnum eru fjárhagserfiðleikar og vandamál tengd vinnunni algengur hvati sjálfsvígs. Eftir áralangan samdrátt í efnahagslífi Japans fóru sjálfsvíg þar í landi yfir 30.000 á ári ekki alls fyrir löngu. Að sögn dagblaðsins Mainichi Daily News mátti rekja næstum þrjú af hverjum fjórum sjálfsvígum miðaldra karlmanna til „skuldavanda, gjaldþrota fyrirtækja, fátæktar og atvinnuleysis.“ Erfiðleikar í fjölskyldunni leiða einnig margan manninn út í sjálfsvíg. Finnskt dagblað segir að „nýskildir miðaldra karlmenn“ séu einn af áhættuhópunum. Í Ungverjalandi var gerð rannsókn sem leiddi í ljós að flestar stúlkur, sem sviptu sig lífi, ólust upp á sundruðum heimilum.

Þá er og algengt að starfslok og líkamlegir sjúkdómar séu kveikjan að sjálfsvígi, einkum meðal aldraðra. Oft er sjálfsvíg valið sem undankomuleið, ekki aðeins þegar banvænn sjúkdómur á í hlut heldur einnig þegar sjúklingnum finnst þjáningarnar óbærilegar.

Því fer þó fjarri að fjöldinn bregðist við slíkum atburðum og aðstæðum með því að svipta sig lífi. Fæstir fyrirfara sér þegar eitthvað af því, sem hér er nefnt, ber að garði. Hver er ástæðan fyrir því að sumir líta á sjálfsvíg sem lausn?

Undirrótin

„Ákvörðunin um að deyja er að miklu leyti byggð á því hvernig menn túlka atburði,“ segir Kay Redfield Jamison, prófessor í sálfræði við læknadeild Johns Hopkins háskóla. „Fæstir túlka nokkurn atburð sem svo niðurdrepandi að hann réttlæti sjálfsvíg, ef þeir eru andlega heilbrigðir,“ bætir hún við. Eve K. Mościcki hjá Bandarísku geðverndarstofnuninni bendir á að margir samverkandi þættir geti leitt til sjálfsvígshegðunar. Undirrótin getur meðal annars verið geðraskanir, fíknir, arfgerð og raskanir á boðefnaflæði heilans. Lítum á nokkra af þessum þáttum.

Veigamestu þættirnir, sem geta leitt til sjálfsvíga, eru geðraskanir svo sem þunglyndi, geðhvarfasýki og geðklofi, og svo einnig fíkniefnaneysla og misnotkun áfengis. Rannsóknir vestanhafs og austan leiða í ljós að rekja megi rösklega 90 af hundraði sjálfsvíga til slíkra raskana. Sænskir vísindamenn hafa reyndar uppgötvað að meðal karlmanna, sem greindust ekki með raskanir af þessu tagi, var tíðni sjálfsvíga 8,3 miðað við 100.000 manns en meðal þunglyndra rauk hún upp í 650 af hverjum 100.000! Og sérfræðingar segja að orsakaþættir sjálfsvíga í Austurálfu séu svipaðs eðlis. En sjálfsvíg er ekki óumflýjanlegt þó að saman fari þunglyndi og atvik eða aðstæður sem eru algengar kveikjur sjálfsvígs.

Jamison prófessor, sem reyndi einu sinni að fyrirfara sér, segir: „Fólk virðist geta þolað eða umborið þunglyndi, svo framarlega sem það hefur trú á því að ástandið lagist.“ Hún hefur hins vegar komist að raun um að þegar örvæntingin smámagnast svo að hún verður loks óbærileg dregur úr getu hugans til að sporna gegn sjálfseyðingarhvöt. Hún líkir þessu ástandi við það hvernig hemlar bifreiðar slitna smám saman við stöðugt álag.

Það er ákaflega mikilvægt að átta sig á slíkri framvindu vegna þess að það er hægt að meðhöndla þunglyndi og sigrast á úrræðaleysis- og vanmáttarkennd. Ef ráðist er gegn sjálfri undirrótinni er von til þess að fólk bregðist öðruvísi en ella við sorg og álagi sem eru oft kveikjan að sjálfsvígi.

Sumir telja að oft megi rekja sjálfsvíg til arfgerðar fólks. Erfðir ráða vissulega miklu um skapgerð manna, og rannsóknir hafa sýnt að sjálfsvíg eru yfir meðaltíðni í sumum ættum. En „tilhneiging til sjálfsvígs merkir þó engan veginn að sjálfsvíg sé óhjákvæmilegt,“ segir Jamison.

Raskanir á boðefnaflæði heilans geta líka verið undirrót sjálfsvígs. Taugungar heilans, sem teljast í milljörðum, „tala saman“ með rafefnaboðum. Greinóttir endar taugaþráðanna snertast ekki alveg en senda næsta taugungi boð yfir taugamótin með ákveðnum boðefnum. Eitt þeirra er kallað serótónín og talið er að magn þess geti haft áhrif á það hve hætt einstaklingum er við sjálfsvígi. Bókin Inside the Brain segir: „Lágt serótónínstig . . . getur tæmt uppsprettur lífshamingjunnar, drepið niður áhuga manns á tilverunni og aukið hættuna á þunglyndi og sjálfsvígi.“

En mergur málsins er sá að það er ekki óhjákvæmilegt hlutskipti neins að svipta sig lífi. Milljónir manna ráða við sorgir og álag lífsins. Það eru viðbrögð hugans og hjartans við álagi sem koma sumum til að grípa til þess óyndisúrræðis að fyrirfara sér. Forvarnir felast ekki aðeins í því að bregðast við kveikjunni að sjálfsvígi heldur einnig því að ráðast gegn sjálfri undirrót þess.

Hvað er þá hægt að gera til að skapa jákvæð viðhorf til tilverunnar og blása lífi í bjartsýni og lífslöngun?

[Rammi á blaðsíðu 6]

Sjálfsvíg og kynferði

Samkvæmt bandarískri könnun eru konur tvöfalt til þrefalt líklegri en karlar til að reyna að fyrirfara sér en hins vegar er fjórfalt líklegra að körlunum takist það en konunum. Konum er að minnsta kosti tvöfalt hættara við þunglyndi en körlum og það kann að vera skýringin á því að þær reyna oftar að svipta sig lífi. Hins vegar er talið að þunglyndi kvenna kunni að vera heldur mildara en þunglyndi karla og þess vegna grípi þær ekki til eins áhrifaríkra aðferða og karlar. Karlar eru taldir líklegri til að beita kröftugri aðferðum til að tryggja að þeim takist það sem þeir ætla sér.

Í Kína heppnast konum hins vegar oftar en körlum að fyrirfara sér. Rannsókn leiðir í ljós að 56 prósent af sjálfsvígum kvenna í heiminum eigi sér stað í Kína, einkum til sveita. Talið er að greiður aðgangur að banvænum plágueyðandi efnum sé ein af ástæðunum fyrir því að kínverskum konum tekst svo oft að fyrirfara sér sem raun ber vitni.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

Einmanaleiki og sjálfsvíg

Einsemd getur verið kveikja þunglyndis og leitt fólk út í sjálfsvíg. Jouko Lönnqvist gekkst fyrir rannsókn á sjálfsvígum í Finnlandi fyrir rúmum áratug. Hann sagði: „Mjög margir [þeirra sem sviptu sig lífi] voru einmana. Þeir höfðu mikinn frítíma en áttu lítil samskipti við aðra.“ Kenshiro Ohara er geðlæknir við læknaháskólann í Hamamatsu í Japan. Hann segir að kenna megi „einsemd“ um nýlega aukningu sjálfsvíga meðal miðaldra karla þar í landi.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Fjárhagserfiðleikar og atvinnutengd vandamál eru oft kveikja sjálfsvíga hjá fullorðnum.