Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Fornleifasvikari

Einn helsti fornleifafræðingur Japans hefur verið staðinn að því að svindla. Hann var stundum kallaður ‚grafari af guðs náð‘ vegna ótrúlegra fornleifafunda hans. Japanska dagblaðið Mainichi Shimbun setti upp myndatökuvél og á upptökunum sást til fornleifafræðingsins koma fyrir fornmunum áður en hópur fornleifafræðinga mætti til að grafa á svæði sem verið var að rannsaka. Þar sem ekki var hægt að hrekja sönnunargögnin játaði fornleifafræðingurinn að hafa grafið niður muni úr sínu eigin safni. Þrjátíu ára starfsferill hans er nú undir smásjánni. Í kjölfar atburðanna vænta bókaútgefendur þess að þurfa að endurskoða fornleifafræðibækur og kennslubækur.

Sjúkraskrár og sjónvarpsáhorf

Hópur barnalækna á Spáni mælir með því að í sjúkraskrám barna sé að finna upplýsingar um sjónvarpsáhorf þeirra. Samkvæmt spænska dagblaðinu Diario Médico telja læknar sig þurfa að vita hve mörgum klukkustundum barnið ver fyrir framan sjónvarpið, hvað það horfir á og með hverjum. Af hverju? Af því að könnun á vegum þessara barnalækna leiddi í ljós að sjónvarpsáhorf leiðir til kyrrsetulífsstíls, aukinnar árásargirni, kaupalöngunar, lakari frammistöðu í skóla og hugsanlega til sjónvarpsfíknar. Í fréttinni segir að „barnalæknarnir mæli gegn því að foreldrar hafi sjónvörp í herbergjum barnanna eða á stað þar sem [börnin] geta sjálf valið stöðvarnar. Það ætti enn fremur að forðast að horfa á sjónvarpið á matmálstímum og foreldrar ættu að takmarka sjónvarpsáhorf barnanna við tvo tíma á dag þó að minna en klukkustund væri æskilegra.“

„Deyjandi kunnátta“

„Vasaþjófnaður er deyjandi kunnátta í Oskaka“ í Japan því að „ungt fólk hefur ekki lengur áhuga á að þjálfa með sér færnina,“ segir í dagblaðinu Asahi Evening News. Að sögn lögreglumanns á svæðinu tekur það nokkur ár að verða fær vasaþjófur. Ungir afbrotamenn virðast frekar velja auðveldari leiðir til að stela. Handtöskuþjófnaður hefur til dæmis færst mjög í aukana. Þriðjungur allra þeirra, sem handteknir voru á Oskakasvæðinu á síðasta ári vegna gruns um vasaþjófnað, voru 60 ára eða eldri. Sá elsti var 78 ára og var hann handtekin í 12. sinn þegar hann var að stela gleraugnahulstri úr handtösku eldri konu. „Sjónin hans er orðin svo léleg að hann hélt að gleraugnahulstrið væri veski,“ sagði rannsóknarlögreglumaður.

Fyrirmyndarakstur

„Foreldrar verða að gera sér ljóst að þeir geta verið fyrirmynd barnanna bæði áður en þau fá bílpróf og á meðan þau eru að læra að keyra,“ segir Susan Ferguson hjá öryggismálastofnuninni Insurance Institute for Highway Safety. Í tímaritinu New Scientist kemur fram að hún og samstarfsmenn hennar hafi farið yfir skýrslur um umferðaróhöpp hjá 140.000 bandarískum fjölskyldum og borið saman foreldra og börn þeirra á aldrinum 18 til 21 árs. Börn foreldra, sem lent höfðu í þremur eða fleiri umferðaróhöppum á fimm árum, voru 22 prósentum líklegri til að keyra á en börn foreldra sem ekki höfðu lent í neinum umferðaróhöppum. Sömu sögu var að segja um umferðarlagabrot eins og hraðakstur og akstur gegn rauðu ljósi. Þá voru börnin 38 prósentum líklegri til að gera eins og foreldrarnir. „Foreldrar ættu að gefa gott fordæmi,“ segir Jane Eason hjá Konunglega breska slysavarnafélaginu. „Það er aldrei of snemmt að kenna fólki öruggan akstur.“

Geimrusl

Allt frá því að maðurinn hætti sér út í geiminn fyrir um 40 árum hefur hann verið að breyta næsta nágrenni jarðar í ruslahaug. Samkvæmt dagblaðinu The News  í Mexíkóborg hefur næstum 4000 eldflaugum verið skotið á loft með þeim afleiðingum að nú eru „meira en 23.000 ‚sýnilegir‘ hlutir í geimnum, hver um sig stærri en krikketbolti.“ Um 6000 þeirra eru „rusl“ og vega samanlagt um 1800 tonn að því er talið er. Við árekstra í geimnum hafa hlutir og brak splundrast í um 100.000 minni mola. Þótt þetta rusl hafi ekki neina hættu í för með sér fyrir jörðina getur það verið hættulegt geimförum vegna hraðans. Pínulítil málmögn á 50.000 kílómetra hraða á klukkustund getur gert sprungu í glugga geimstöðvar og gat á sólfangara eða eyðilagt búning geimfara við geimgöngu. „Bandaríska geimferðastofnunin NASA vinnur að því að þróa ‚geimkúst‘ til að sópa rusli úr geimnum,“ segir dagblaðið The News enn fremur. „Hugmyndin er að skjóta á ruslið með leysigeisla, . . . og ýta því þannig inn í heiðhvolf jarðar þar sem það myndi brenna upp á skaðlausan hátt.“