Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Menntun fyrir lífið

Menntun fyrir lífið

Menntun fyrir lífið

„Biblían er besta handbókin um listina að lifa.“ — Thomas Tiplady, 1924.

ÞAÐ eru engar ýkjur að halda því fram að biblíutengd menntun geti gerbreytt lífi fólks. Hún hefur gefið þeim tilgang og von sem þekktu aðeins tómleika og örvæntingu. Einstæð móðir í Namibíu skrifaði útibúi votta Jehóva í Suður-Afríku:

„Ég er 29 ára og ég las bókina Spurningar unga fólksins  svör sem duga,  á aðeins tveim dögum. Hún snart mig djúpt af því að ég er virkilega einmana. Kærastinn minn fórst í bílslysi og ég er ein eftir með tvö börn. Við höfum þjáðst mikið. Stundum hugsaði ég með mér að það væri best að fyrirfara þeim og síðan sjálfri mér. En þegar ég eignaðist þessa bók skipti ég um skoðun. Vinsamlegast hjálpið mér og gefið mér kost á ókeypis biblíunámskeiði.“

Biblían gefur leiðbeiningar sem geta hjálpað fólki á öllum sviðum lífsins — í samskiptum við fjölskylduna, vinnufélagana og fólk almennt í samfélaginu. (Sálmur 19:8; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Hún gefur góð ráð um það hvernig hægt sé að ástunda það sem gott er og forðast hið illa. Hún fjallar af raunsæi um lífið og tilveruna. Hún segir sannar sögur af raunverulegu fólki. Þegar þú lest hana uppgötvar þú af hverju líf sumra var hamingjuríkt og gefandi en líf annarra erfitt og ömurlegt. Þú áttar þig á því hvað er tilvinnandi og hvað ekki.

Menntun fyrir nútímann

Biblían leggur áherslu á visku og hyggindi. Hún segir: „Upphaf viskunnar er: afla þér visku!“ (Orðskviðirnir 4:⁠7) Hún viðurkennir jafnframt að menn skortir oft visku og hvetur þess vegna: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega.“ — Jakobsbréfið 1:⁠5.

Skaparinn, Jehóva Guð, hvetur okkur til að lesa Biblíuna því að hún hefur að geyma þá visku sem hann vill gjarnan miðla okkur. „Son minn,“ segir hann, „ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, . . . þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði. Því að [Jehóva] veitir speki.“ (Orðskviðirnir 2:​1, 2, 5, 6) Þegar við förum eftir þeim ráðum, sem Biblían gefur, og uppgötvum hve raunhæf þau eru áttum við okkur á því að hún inniheldur visku Guðs.

Lítum til dæmis á ráðleggingar Biblíunnar um baráttuna gegn fátækt. Hún hvetur til iðjusemi og varar við því að menn sólundi takmörkuðum fjármunum. Lestir eins og tóbaksnotkun og óhófleg drykkja ganga því greinilega í berhögg við meginreglur hennar. — Orðskviðirnir 6:​6-11; 10:26; 23:​19-21; 2. Korintubréf 7:⁠1.

Biblían fjallar einnig um þau áhrif sem félagsskapur getur haft á okkur. „Haf umgengni við vitra menn,“ segir hún, „þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Hefurðu tekið eftir því hvernig hópþrýstingur hefur stundum leitt unga jafnt sem aldna út í drykkjuskap, fíkniefnaneyslu og siðleysi? Ef við leggjum lag okkar við þá sem stunda slíkt verðum við eins og þeir, rétt eins og Biblían segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Korintubréf 15:⁠33.

Allir vilja vera hamingjusamir. En hver er uppskrift hamingjunnar? Biblían bendir á að það séu ekki endilega hlutir sem geri okkur hamingjusöm heldur séu það frekar rétt viðhorf og samskipti við aðra, ekki síst gott samband við Guð. (1. Tímóteusarbréf 6:​6-10) Jesús Kristur sagði í hinni frægu fjallræðu að sönn hamingja væri fólgin í því að vera sér meðvita um andlega þörf sína, þyrsta eftir réttlætinu og vera hógvær, miskunnsamur, hjartahreinn og friðflytjandi. — Matteus 5:​1-9, samanber Nýheimsþýðinguna.

Þegar þú ígrundar kenningar Biblíunnar áttarðu þig á því hvernig þær geta verið leiðarvísir í lífinu. Biblían er einstæður ráðgjafi. Ráðleggingar hennar eru alltaf góðar. Þær eru aldrei fræðilegar eingöngu og það er aldrei til tjóns að fara eftir þeim. Það er hverjum manni til góðs að taka til sín það sem hún ráðleggur.

Menntun fyrir framtíðina

Biblían er ekki aðeins gagnleg fyrir nútíð heldur gefur hún einnig von um bjarta framtíð. Hún segir frá því að jörðin verði hreinsuð og henni breytt í unaðslegt heimili handa þeim sem þjóna Guði. Líttu á þessa fögru framtíðarlýsingu: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:​3, 4; Orðskviðirnir 2:​21, 22.

Hugsaðu þér — engin heilsuveil börn, ekkert hungur, engin nístandi kvöl og engir hræðilegir sjúkdómar sem lama lífsþróttinn! Brostnar vonir og beiskur harmur verða liðin tíð því að allt sem veldur slíku verður horfið eða breytt. Englasveitir Guðs afmá öll illmenni svo að þjófar, morðingjar, lygarar og aðrir, sem spilla öryggi fólks, verða horfnir af sjónarsviðinu. Allir geta átt eigið heimili og búið þar óhultir. — Jesaja 25:​8, 9; 33:24; 65:​17-25.

Hvernig hljómar þetta í þínum eyrum? Langar þig til að fræðast meira um meginreglur Biblíunnar svo að þú getir notið góðs af þeim, bæði núna og í framtíðinni? Settu þig þá í samband við votta Jehóva sem munu fúslega veita þér og fjölskyldu þinni „menntun til lífs,“ menntun sem nú er verið að veita um allan heim.