Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Jehóva ,halda sér frá ranglæti‘

Þjónar Jehóva ,halda sér frá ranglæti‘

„Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti.“ – 2. TÍM. 2:19.

1. Hvað skipar sérstakan sess í tilbeiðslu okkar?

 HEFURÐU einhvern tíma séð nafnið Jehóva á byggingu eða á sýningargrip á safni? Þér þótti það ábyggilega áhugavert og spennandi. Nafn Guðs skipar nefnilega sérstakan sess í tilbeiðslu okkar. Við erum vottar Jehóva. Enginn alþjóðlegur hópur fólks er eins nátengdur nafni Guðs og við. En við vitum að það fylgir því ábyrgð að fá að bera nafn Guðs.

2. Hvaða ábyrgð fylgir því að fá að bera nafn Guðs?

2 Það er ekki sjálfgefið að við höfum velþóknun Jehóva þó að við notum nafn hans. Við þurfum líka að lifa í samræmi við siðferðisreglur hans. Þess vegna eru þjónar hans minntir á það í Biblíunni að þeir verði að ,forðast illt‘. (Sálm. 34:15) Páll postuli tók það skýrt fram þegar hann skrifaði: „Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti.“ (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:19.) Við sem erum vottar Jehóva erum þekkt fyrir að nefna og ákalla nafn hans. En hvernig eigum við að halda okkur frá ranglæti?

„FARIÐ NÚ FRÁ“ HINU ILLA

3, 4. Hvaða vers hefur lengi vakið áhuga og forvitni biblíufræðinga og hvers vegna?

3 Við skulum líta á biblíulegan bakgrunn þess sem Páll sagði í 2. Tímóteusarbréfi 2:19. Í versinu er talað um ,Guðs styrka grundvöll‘ og síðan tvær áletranir sem standa á honum. Sú fyrri, „Drottinn þekkir sína,“ virðist vera tilvitnun í 4. Mósebók 16:5. (Sjá greinina á undan.) Síðari yfirlýsingin, „Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti,“ hefur lengi vakið áhuga og forvitni biblíufræðinga. Hvers vegna?

4 Orðalag Páls bendir til þess að hann sé að vitna í einhverja heimild. Enginn texti í Hebresku ritningunum virðist þó samsvara síðari yfirlýsingunni. Hvað vísar Páll þá í þegar hann segir: „Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti“? Á undan þessum orðum vitnar Páll í 16. kafla 5. Mósebókar þar sem sagt er frá uppreisn Kóra. Getur verið að síðari yfirlýsingin tengist þessum sama atburði?

5-7. Hvaða atburðir á dögum Móse búa að baki orðum Páls í 2. Tímóteusarbréfi 2:19? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Í Biblíunni segir að Datan og Abíram, synir Elíabs, hafi ásamt Kóra verið hvatamenn uppreisnarinnar gegn þeim Móse og Aroni. (4. Mós. 16:1-5) Þeir sýndu Móse hreina óvirðingu og neituðu að viðurkenna það umboð sem hann hafði fengið frá Guði. Þjónum Jehóva stafaði hætta af þessum uppreisnarmönnum sem bjuggu á meðal þeirra. Jehóva gaf skýr fyrirmæli daginn eftir þegar kom að því að greina á milli dyggra dýrkenda hans og uppreisnarmannanna.

6 Í frásögunni segir: „Þá sagði Drottinn við Móse: ,Ávarpaðu söfnuðinn og segðu: Yfirgefið svæðið umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams.‘ Móse reis þá á fætur og gekk til Datans og Abírams en öldungar Ísraels fylgdu honum. Hann ávarpaði söfnuðinn og sagði: ,Farið nú frá tjöldum þessara guðlausu manna og snertið ekkert af því sem þeir eiga svo að ykkur verði ekki tortímt vegna allra synda þeirra.‘ Þá fóru þeir burt frá svæðinu umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams.“ (4. Mós. 16:23-27) Jehóva tók síðan alla uppreisnarmennina af lífi. Þeir sem voru Jehóva trúir lifðu hins vegar. Þeir héldu sér frá ranglæti og yfirgáfu svæðið.

7 Jehóva sér hvað býr í hjörtum fólks. Hann sér hollustu þeirra sem tilheyra honum. Trúir þjónar hans þurftu samt að láta verkin tala og yfirgefa svæðið þar sem hinir ranglátu voru. Það má því vera að Páll hafi verið að vísa í frásöguna í 4. Mósebók 16:5, 23-27 þegar hann skrifaði: „Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti.“ Það er rökrétt ályktun miðað við tilvitnunina: „Drottinn þekkir sína“. – 2. Tím. 2:19.

„HAFNA ÞÚ HEIMSKULEGUM OG EINSKIS NÝTUM ÞRÆTUM“

8. Hvers vegna er ekki nóg að nefna nafn Jehóva eða tilheyra kristna söfnuðinum?

8 Með því að nefna þessa atburði á dögum Móse minnir Páll Tímóteus á að hann þurfi að vera ákveðinn til að varðveita hið dýrmæta samband sitt við Jehóva. Það var ekki nóg eitt og sér að tilheyra kristna söfnuðnum. Það var ekki heldur nóg á dögum Móse að nefna nafn Jehóva. Trúir þjónar Guðs verða að vera ákveðnir í að halda sér frá ranglæti. Hvað þýddi það fyrir Tímóteus? Og hvaða lærdóm geta þjónar Jehóva nú á tímum dregið af innblásnum leiðbeiningum Páls?

9. Hvaða áhrif höfðu ,heimskulegar og einskis nýtar þrætur‘ á söfnuðinn á fyrstu öld?

9 Í Biblíunni er varað við ranglæti af ákveðnu tagi sem kristnir menn þurfa að halda sér frá. Í versunum í kringum 2. Tímóteusarbréf 2:19 segir Páll Tímóteusi að „eiga ekki í orðastælum“ og forðast „vanheilagt hégómatal“. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:14, 16, 23.) Sumir í söfnuðinum héldu fram fráhvarfskenningum. Sumir virðast líka hafa haldið fram umdeildum kenningum. Þær stefndu einingu safnaðarins í hættu þó að þær væru ekki beinlínis óbiblíulegar. Þær ollu deilum og orðastælum og spilltu andrúmsloftinu í söfnuðinum. Þess vegna lagði Páll áherslu á að Tímóteus þyrfti að „hafna ... heimskulegum og einskis nýtum þrætum“.

10. Hvernig ættum við að bregðast við fráhvarfshugmyndum ef þær verða á vegi okkar?

10 Fráhvarf er ekki algengt í söfnuði þjóna Jehóva nú á dögum. Við verðum samt að hafna óbiblíulegum kenningum afdráttarlaust ef þær verða á vegi okkar, frá hverjum sem þær koma. Það væri óskynsamlegt að standa í deilum við fráhvarfsmenn, bæði augliti til auglitis, á bloggsíðum og á öðrum vettvangi. Það væri í andstöðu við leiðbeiningar Biblíunnar sem við vorum að ræða, jafnvel þó að við ætlum okkur einungis að hjálpa viðkomandi. Við komum ekki nærri fráhvarfshugmyndum heldur höfnum þeim með öllu.

Tökum ekki þátt í deilum við fráhvarfsmenn. (Sjá 10. grein.)

11. Hvað gæti kveikt ,heimskulegar þrætur‘ og hvernig geta öldungar safnaðarins verið góð fyrirmynd?

11 Fráhvarf er ekki það eina sem getur spillt friði safnaðarins. Ólíkar skoðanir á afþreyingu og skemmtiefni geta valdið „heimskulegum og einskis nýtum þrætum“. En þó að öldungar safnaðarins vilji forðast deilur ættu þeir auðvitað ekki að líða það ef einhverjir hvetja til afþreyingar sem stríðir gegn siðferðisreglum Jehóva. (Sálm. 11:5; Ef. 5:3-5) Öldungarnir varast þó að halda fram sínum eigin hugmyndum. Þeir fylgja dyggilega þeim leiðbeiningum sem kristnum umsjónarmönnum eru gefnar: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur ... Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.“ – 1. Pét. 5:2, 3; lestu 2. Korintubréf 1:24.

12, 13. (a) Hver er afstaða Votta Jehóva varðandi val á afþreyingarefni og hvaða meginreglur eiga þar við? (b) Hvernig eiga meginreglurnar, sem eru ræddar í 12. grein, við um ýmis persónuleg mál?

12 Söfnuðurinn skoðar ekki kvikmyndir, tölvuleiki, bækur eða tónlist til að úrskurða hvaða afþreyingarefni við eigum að forðast. Hvers vegna? Biblían hvetur hvern og einn til að ,aga hugann til að greina gott frá illu‘. (Hebr. 5:14) Í Biblíunni er að finna meginreglur sem kristinn maður getur haft að leiðarljósi þegar hann velur sér afþreyingarefni. Það ætti að vera markmið okkar á öllum sviðum lífsins að ,meta rétt hvað Drottni þóknast‘. (Ef. 5:10) Samkvæmt Biblíunni hafa þeir sem veita fjölskyldu forstöðu visst vald þannig að þeir geta ákveðið að leyfa ekki skemmti- og afþreyingarefni af vissu tagi á heimilinu. * – 1. Kor. 11:3; Ef. 6:1-4.

13 Þær meginreglur Biblíunnar, sem ræddar eru hér á undan, eiga ekki aðeins við um val á afþreyingu. Skoðanir á klæðnaði og útliti, heilsuvernd og mataræði geta hæglega orðið að deiluefni. Það er viturlegt af þjónum Jehóva að deila ekki um slík mál, svo framarlega sem ekki er verið að brjóta neinar biblíulegar meginreglur. „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ – 2. Tím. 2:24.

FORÐUMST VONDAN FÉLAGSSKAP

14. Hvaða líkingu bregður Páll upp til að benda á nauðsyn þess að forðast vondan félagsskap?

14 Á hvaða fleiri vegu geta þeir sem ,nefna nafn Jehóva haldið sér frá ranglæti‘? Með því að forðast vondan félagsskap. Það er athyglisvert að Páll bregður upp annarri líkingu eftir að hafa rætt um ,Guðs styrka grundvöll‘. Hann talar um ,stórt heimili‘ þar sem eru „ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.“ (2. Tím. 2:20, 21, Biblían 1981) Hann hvetur síðan kristna menn til að forðast ,kerin‘ sem eru til „óþriflegri nota“.

15, 16. Hvað má læra af líkingunni um ,stórt heimili‘?

15 Hvað merkir þessi líking? Páll líkir kristna söfnuðnum við ,stórt heimili‘ og einstökum safnaðarmönnum við „ker“. Sum ker á heimilinu geta mengast af hættulegum efnum eða óhreinkast. Húsráðandinn heldur þessum kerum aðskildum frá hreinu kerunum, til dæmis þeim sem eru notuð undir mat.

16 Þjónar Jehóva nú á dögum reyna að lifa hreinu lífi, og þeir ættu líka að forðast náin samskipti við einstaklinga í söfnuðinum sem hafa ítrekað sýnt að þeir virða ekki meginreglur Jehóva. (Lestu 1. Korintubréf 15:33.) Fyrst svo er innan safnaðarins ættum við sannarlega að forðast náinn félagsskap við fólk utan safnaðarins en þar eru margir ,fégjarnir, óhlýðnir foreldrum, guðlausir, rógberandi, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir og elska munaðarlífið meira en Guð‘. – 2. Tím. 3:1-5.

JEHÓVA BLESSAR EINBEITTA HOLLUSTU OKKAR

17. Hve einbeitta afstöðu tóku trúfastir Ísraelsmenn gegn ranglætinu?

17 Í Biblíunni er minnst sérstaklega á hve einbeittir Ísraelsmenn voru þegar þeim var sagt að ,yfirgefa svæðið umhverfis bústað Kóra, Datans og Abírams‘. Í frásögunni segir að þeir hafi farið burt „þegar í stað“. (4. Mós. 16:24, 27, NW) Þeir hvorki hikuðu né frestuðu því að fara. Í Biblíunni er einnig tekið fram að þeir hafi ,farið burt frá svæðinu umhverfis‘ bústað uppreisnarmannanna. Þeir sem voru trúfastir tóku enga áhættu. Þeir hlýddu ekki með tregðu og það var engin hálfvelgja í fari þeirra. Þeir tóku eindregna afstöðu með Jehóva og gegn ranglætinu. Hvaða lærdóm má draga af þeim?

18. Hvaða hugsun bjó að baki þegar Páll hvatti Tímóteus til að ,flýja æskunnar girndir‘?

18 Við verðum að vera einbeitt og ganga skjótt til verks til að varðveita samband okkar við Jehóva. Þetta var hugsunin hjá Páli þegar hann hvatti Tímóteus til að ,flýja æskunnar girndir‘. (2. Tím. 2:22) Tímóteus var fullorðinn maður þegar þetta var skrifað, hugsanlega kominn yfir þrítugt. Heimskulegar ,girndir æskunnar‘ eru hins vegar ekki alltaf háðar aldri fólks. Þegar slíkar langanir sóttu á Tímóteus átti hann að flýja þær. Hann átti með öðrum orðum að ,halda sér frá ranglæti‘. Jesús var sama sinnis og sagði: „Ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matt. 18:9) Þjónar Guðs, sem taka þessar ráðleggingar alvarlega, bregðast hiklaust og tafarlaust við þegar eitthvað ógnar sambandi þeirra við Jehóva.

19. Hvað hafa sumir gert til að verjast því sem gæti ógnað andlegri velferð þeirra?

19 Sumir sem áttu við áfengisvanda að stríða áður en þeir urðu vottar hafa ákveðið með sjálfum sér að bragða alls ekki áfengi. Aðrir forðast ákveðnar tegundir afþreyingar sem eru ekki rangar í sjálfu sér en gætu endurvakið ákveðna siðferðilega veikleika sem þeir hafa átt við að stríða. (Sálm. 101:3) Sem dæmi má nefna að bróðir nokkur hafði stundað dansleiki áður fyrr og notið sín í siðlausu andrúmsloftinu þar. En eftir að hann kynntist sannleikanum hefur hann forðast með öllu að dansa, jafnvel þegar bræður og systur gera sér glaðan dag, af ótta við að vekja að nýju langanir eða hugsanir úr fortíðinni. Kristnir menn þurfa auðvitað ekki að halda sig alfarið frá áfengi, dansi eða öðru sem er ekki rangt í sjálfu sér. Við ættum hins vegar öll að vera einbeitt og ákveðin að verjast öllu sem gæti ógnað andlegri velferð okkar.

20. Hvað er hughreystandi fyrir okkur þó að það sé ekki alltaf auðvelt að ,halda sér frá ranglæti‘?

20 Það er heiður að mega bera nafn Guðs en það fylgir því ábyrgð. Við verðum að ,halda okkur frá ranglæti‘ og ,forðast illt‘. (Sálm. 34:15) Það er ekki alltaf auðvelt. En það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva elskar alltaf þá sem tilheyra honum og fylgja réttlátum vegum hans. – 2. Tím. 2:19; lestu 2. Kroníkubók 16:9a.

^ Sjá greinina „Bannið þið ákveðnar bíómyndir, bækur eða tónlist?“ á jw.org/is undir „UM OKKUR > SPURNINGAR OG SVÖR“.