Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér eruð vottar mínir“

„Þér eruð vottar mínir“

„Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn.“ – JES. 43:10.

1, 2. (a) Hvað merkir það að vera vottur og að hvaða leyti hafa fjölmiðlar heims brugðist? (b) Hvers vegna er Jehóva ekki háður fjölmiðlum heims?

HVAÐ merkir það að vera vottur? Vottur er maður sem er vitni að atburði og skýrir frá honum. Í Pietermaritzburg í Suður-Afríku hefur verið gefið út dagblað í meira en 160 ár. Það nefnist núna The Witness (Votturinn). Nafnið er vel við hæfi því að það er hlutverk dagblaða að segja satt og rétt frá atburðum sem eiga sér stað í heiminum. Stofnandi og fyrsti ritstjóri The Witness strengdi þess heit að blaðið myndi „segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann“.

2 Því miður hafa fjölmiðlar heims þó að mestu leyti þagað um mikilvægustu staðreyndir mannkynssögunnar eða jafnvel rangfært þær. Þeir hafa sannarlega ekki farið rétt með þá staðreynd sem alvaldur Guð tjáði fyrir munn Esekíels spámanns: „Þjóðirnar [munu] skilja að ég er Drottinn“, það er að segja Jehóva. (Esek. 39:7) En alvaldur Drottinn alheims er ekki háður fjölmiðlum heims. Hann á sér um átta milljónir votta sem segja fólki af öllum þjóðum frá honum og frá samskiptum hans við mennina í fortíð og nútíð. Þessi vottaher boðar einnig það sem Guð lofar að gera til blessunar fyrir mannkynið. Með því að boða fagnaðarerindið af kappi stöndum við undir nafninu sem Guð gaf okkur eins og segir  í Jesaja 43:10: „Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn [„Jehóva“, NW], þjónn minn sem ég hef útvalið.“

3, 4. (a) Hvenær tóku Biblíunemendurnir upp nýtt nafn og hvað fannst þeim um það? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvaða spurningar ræðum við núna?

3 Það er mikill heiður að bera nafn Jehóva því að hann er ,konungur eilífðar‘ og segir: „Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.“ (1. Tím. 1:17; 2. Mós. 3:15; samanber Prédikarann 2:16.) Árið 1931 tóku Biblíunemendurnir sér nafnið Vottar Jehóva. Í kjölfarið voru birt mörg þakkarbréf í þessu tímariti. „Þær gleðifréttir að við skulum vera ,vottar Jehóva‘ hafa gert okkur enn ákveðnari í að vera verðug þess að bera nýja nafnið,“ sagði í bréfi frá söfnuði í Kanada.

4 Hvernig geturðu sýnt að þú álítir það heiður að bera nafn Guðs? Og geturðu útskýrt hvers vegna Jehóva kallar okkur votta sína eins og lesa má í Jesajabók?

VOTTAR GUÐS TIL FORNA

5, 6. (a) Á hvaða hátt áttu ísraelskir foreldrar að vera vottar Jehóva? (b) Hvað annað áttu ísraelskir foreldrar að gera og hvers vegna þurfa foreldrar nú á dögum að gera slíkt hið sama?

5 Ísraelsmenn á dögum Jesaja voru „vottar“ Jehóva, hver og einn, og þjóðin í heild var „þjónn“ hans. (Jes. 43:10) Ísraelskir foreldrar gátu meðal annars vitnað um Guð með því að fræða börnin sín um samskipti hans við forfeðurna. Þegar þjóðinni var sagt að halda páska ár hvert fylgdu eftirfarandi fyrirmæli: „Þegar börn ykkar spyrja: Hvaða merkingu hefur þessi siður í augum ykkar? skuluð þið svara: Þetta er páskafórn handa Drottni sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi þegar hann laust Egypta banahögg en þyrmdi húsum okkar.“ (2. Mós. 12:26, 27) Foreldrar hafa líklega sagt  börnum sínum frá því hvernig faraó brást við þegar Móse kom fram fyrir hann í fyrsta sinn og bað hann að leyfa Ísraelsmönnum að tilbiðja Jehóva í eyðimörkinni. Þá svaraði faraó: „Hver er Drottinn [„Jehóva“, NW] sem ég á að hlýða með því að leyfa Ísrael að fara?“ (2. Mós. 5:2) Svarið við spurningu faraós var öllum ljóst eftir að plágurnar tíu eyddu landið og Ísraelsmenn komust undan egypska hernum við Rauðahaf. Jehóva var og er alvaldur Guð. Ísraelsmenn voru lifandi vottar þess að Jehóva sé hinn sanni Guð og standi standi alltaf við það sem hann lofar.

6 Ísraelsmenn, sem álitu það heiður að vera kenndir við nafn Jehóva, hafa vafalaust sagt börnum sínum frá þessum stórfenglegu atburðum. Og útlendingum, sem urðu þrælar á heimilinu, hefur sömuleiðis verið sagt frá þeim. Jehóva gerði þá kröfu til Ísraelsmanna að vera heilagir. Foreldrar áttu að kenna börnunum að virða þessa kröfu. Jehóva sagði: „Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.“ (3. Mós. 19:2; 5. Mós. 6:6, 7) Þetta er góð fyrirmynd fyrir kristna foreldra nú á tímum því að þeir þurfa líka að kenna börnunum að virða kröfur Jehóva og hjálpa þeim að vera háleitu nafni hans til heiðurs. – Lestu Orðskviðina 1:8; Efesusbréfið 6:4.

Við heiðrum nafn Jehóva með því að fræða börnin um hann. (Sjá 5. og 6. grein.)

7. (a) Hvaða áhrif höfðu Ísraelsmenn á þjóðirnar umhverfis þegar þeir voru trúir Guði? (b) Hvaða ábyrgð hvílir á öllum sem bera nafn Guðs?

7 Þegar Ísraelsmenn voru trúir Guði voru þeir nafni hans til sóma. Þeim hafði verið sagt: „Þá munu allar þjóðir jarðar skilja að þú ert kennd við nafn Drottins [„Jehóva“, NW] og þær munu óttast þig.“ (5. Mós. 28:10) Því miður einkenndist saga þeirra aðallega af því að þeir voru ótrúir Guði. Æ ofan í æ tóku þeir að dýrka skurðgoð. Og þegar þeir tilbáðu kanversku guðina urðu þeir grimmir eins og guðirnir, fórnuðu börnum sínum og kúguðu fátæka. Þetta er alvarleg áminning fyrir okkur. Við þurfum að líkja eftir Jehóva og vera heilög vegna þess að hann er heilagur og við berum nafn hans.

„NÚ HEF ÉG NÝTT FYRIR STAFNI“

8. Hvaða verkefni fékk Jesaja frá Jehóva og hvernig varð honum við?

8 Jehóva hafði boðað að Ísraelsmenn yrðu leystir úr ánauð með undraverðum hætti. (Jes. 43:19) Fyrstu sex kaflar Jesajabókar hafa aðallega að geyma viðvaranir um ógæfu sem átti að koma yfir Jerúsalem og borgirnar umhverfis. Jehóva sér hvað býr í hjörtum manna, og hann sagði Jesaja að halda áfram að vara þjóðina við, jafnvel þó að hann fengi neikvæð og versnandi viðbrögð. Jesaja var brugðið og spurði hve lengi þjóð Guðs yrði iðrunarlaus. Svarið var: „Þar til borgirnar verða eyddar og enginn býr í þeim og þar til húsin verða mannlaus og akurlendið eyðimörk.“ – Lestu Jesaja 6:8-11.

9. (a) Hvenær rættist spádómur Jesaja um Jerúsalem? (b) Fyrir hvaða viðvörun þurfum við að vera vakandi?

9 Jesaja fékk þetta verkefni á síðasta stjórnarári Ússía konungs, það er að segja árið 778 f.Kr. eða þar um bil. Hann var spámaður í ein 46 ár eða fram yfir árið 732 f.Kr. en þá var Hiskía konungur við völd. Þetta var 125 árum áður en Jerúsalem var eytt, árið 607 f.Kr. Þjóð Guðs var því vöruð rækilega við því sem hún átti í vændum í framtíðinni. Jehóva hefur líka látið þjóna sína á síðari tímum vara rækilega við því sem fram undan er. Í 135 ár, allt frá fyrsta  tölublaðinu, hefur Varðturninn hvatt lesendur sína til að vera vakandi fyrir því að ill stjórn Satans taki brátt enda og þúsundáraríki Jesú Krists taki við. – Opinb. 20:1-3, 6.

10, 11. Hvaða spádóm Jesaja sáu Ísraelsmenn í Babýlon rætast?

10 Margir Gyðingar voru hlýðnir Guði, gáfust upp fyrir Babýloníumönnum, komust lífs af þegar Jerúsalem var eytt og voru fluttir sem fangar til Babýlonar. (Jer. 27:11, 12) Sjötíu árum síðar urðu þjónar Guðs vitni að því hvernig eftirfarandi spádómur uppfylltist með undraverðum hætti: „Svo segir Drottinn, lausnari yðar, Hinn heilagi Ísraels: Yðar vegna sendi ég til Babýlonar, ríf niður alla slagbranda.“ – Jes. 43:14.

11 Jehóva uppfyllti þennan spádóm nótt eina snemma í október árið 539 f.Kr. Konungur Babýlonar og höfðingjar hans sátu og drukku úr heilögum kerum sem tekin höfðu verið úr musterinu í Jerúsalem og lofuðu guði sína. Meðan því fór fram tóku herir Meda og Persa borgina undir forystu Kýrusar. Árið 538 eða 537 f.Kr. skipaði Kýrus Gyðingum að snúa heim og endurreisa musteri Guðs í Jerúsalem. Jesaja hafði sagt allt þetta fyrir og skráð loforð Jehóva um að hann myndi vernda iðrandi þjóna sína þegar þeir sneru heim og sjá fyrir þeim. Guð kallaði þá ,þjóðina sem hann myndaði handa sér‘ og sagði að hún myndi „flytja lofgjörð“ um hann. (Jes. 43:21; 44:26-28) Eftir að útlagarnir höfðu snúið heim og endurreist musterið í Jerúsalem urðu þeir vottar þess að Jehóva, hinn eini sanni Guð, stendur alltaf við orð sín.

12, 13. (a) Hverjir tóku þátt í endurreisn tilbeiðslunnar á Jehóva? (b) Hvers er vænst af ,öðrum sauðum‘ Jesú og hvaða von bera þeir í brjósti?

12 Þúsundir útlendinga tilheyrðu þessari endurfæddu þjóð og síðar snerust enn fleiri til gyðingatrúar. (Esra. 2:58, 64, 65; Est. 8:17) Andasmurðir kristnir menn mynda „Ísrael Guðs“ nú á dögum, og „mikill múgur“ af ,öðrum sauðum‘ Jesú styður þá með ráðum og dáð. (Opinb. 7:9, 10; Jóh. 10:16; Gal. 6:16) Auk þeirra hefur múgurinn mikli hlotið þann heiður að bera nafnið vottar Jehóva.

13 Það verður ákaflega ánægjulegt fyrir múginn mikla að lýsa fyrir hinum upprisnu í þúsundáraríkinu hvernig það hafi verið að vera vottur Jehóva á síðustu dögum þessa heims. Við fáum þó aðeins tækifæri til að gera þetta ef við lifum núna í samræmi við nafnið  sem við berum og gerum okkar ýtrasta til að vera heilög. En þótt við leggjum okkur fram þurfum við daglega að biðjast fyrirgefningar fyrir að vera ekki heilög á allan hátt. Við þurfum að viðurkenna að við erum syndarar og að það er ólýsanlegur heiður að fá að bera heilagt nafn Guðs. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:8, 9.

HVAÐ MERKIR NAFN GUÐS?

14. Hvað merkir nafnið Jehóva?

14 Það er gott fyrir okkur að hugleiða hvað nafn Guðs merkir. Þá skiljum við betur hvílíkur heiður það er að fá að bera það. Nafn Guðs, sem er almennt þýtt „Jehóva“, er myndað af hebresku sagnorði sem getur lýst verknaði og má þýða „að verða“. Nafnið Jehóva er því talið merkja „hann lætur verða“. Þessi skilgreining lýsir vel hlutverki Jehóva, bæði sem skapara alheimsins og viti borinna vera, og eins því hlutverki hans að koma til leiðar því sem hann ætlar. Hann lætur vilja sinn ná fram að ganga jafnt og þétt, hvernig sem andstæðingar á borð við Satan reyna að koma í veg fyrir það.

15. Hvernig opinberaði Jehóva einn þátt í persónuleika sínum sem endurspeglast líka í nafni hans? (Sjá rammann „ Merkingarríkt nafn“.)

15 Þegar Jehóva fól Móse það verkefni að leiða þjóð sína út úr Egyptalandi opinberaði hann einn þátt í persónuleika sínum með því að nota skylt sagnorð til að lýsa nafni sínu, í þetta sinn í fyrstu persónu. Í Biblíunni stendur: „Þá sagði Guð við Móse: ,Ég verð sá sem ég kýs að verða‘ [eða „ég verð sá sem ég verð“]. Og hann sagði: ,Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: „Ég verð“ sendi mig til ykkar.‘“ (2. Mós. 3:14, NW, neðanmáls) Jehóva verður því hvaðeina sem þarf til að hrinda vilja sínum i framkvæmd, óháð aðstæðum. Hann varð frelsari og verndari Ísraelsmanna, og hann leiðbeindi þeim og sá fyrir öllum efnislegum og andlegum þörfum þeirra.

SÝNUM ÞAKKLÆTI OKKAR

16, 17. (a) Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir að mega bera nafn Guðs? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

16 Jehóva hefur ekki breyst. Hann er samkvæmur nafni sínu með því að fullnægja öllum andlegum og efnislegum þörfum okkar. En merking nafnsins er ekki einskorðuð við það sem hann kýs sjálfur að verða. Hún nær einnig yfir það sem hann lætur gerast í starfi votta sinna til að fyrirætlun hans nái fram að ganga. Þessi hugsun ætti að vera okkur hvatning til að halda áfram að lifa í samræmi við nafn hans og merkingu þess. Kåre er 84 ára og hefur verið dyggur vottur í Noregi síðastliðin 70 ár. Hann segir: „Mér finnst það mikill heiður að mega þjóna Jehóva, konungi eilífðar, og tilheyra söfnuðinum sem er nefndur eftir heilögu nafni hans. Það er alltaf mjög gefandi að fá að útskýra sannleika Biblíunnar og sjá gleðina skína úr augum fólks þegar það skilur hann. Ég hef til dæmis mikla ánægju af því að kenna fólki hvaða áhrif lausnarfórn Krists hefur og hvernig það getur hlotið eilíft lif í friðsælum og réttlátum nýjum heimi vegna hennar.“

17 Á sumum svæðum er vissulega æ erfiðara að finna fólk sem langar til að kynnast Guði. Finnst þér samt ekki ánægjulegt, líkt og Kåre, að finna fólk sem vill hlusta og geta frætt það um nafnið Jehóva? En hvernig er hægt að vera bæði vottur Jehóva og vottur Jesú? Þeirri spurningu er svarað í greininni á eftir.