Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðjumst yfir Jehóva

Gleðjumst yfir Jehóva

Gleðjumst yfir Jehóva

„Þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — SÁLMUR 37:4.

1, 2. Hver er uppspretta sannrar hamingju og hvernig vakti Davíð konungur athygli á því?

„SÆLIR eru fátækir í anda, . . . sælir eru miskunnsamir, . . . sælir eru friðflytjendur.“ Þessar lýsingar á hamingjusömu fólki, ásamt sex öðrum, mynda eftirminnileg inngangsorð hinnar frægu fjallræðu Jesú eins og hún er skráð í Matteusarguðspjalli. (Matteus 5:3-11) Orð Jesú fullvissa okkur um að við getum verið hamingjusöm.

2 Davíð konungur í Forn-Ísrael orti sálm sem beinir athyglinni að Jehóva Guði, uppsprettu sannrar hamingju. Hann talar um að gleðjast yfir Jehóva og segir að hann muni veita okkur það sem hjarta okkar girnist. (Sálmur 37:4) En hvernig getum við ‚glaðst‘ yfir því að kynnast Jehóva og hinum margbrotnu eiginleikum hans? Og hvernig getum við fengið ‚það sem hjarta okkar girnist‘ með því að hugleiða það sem hann hefur gert og á eftir að gera til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga? Við skulum skoða nánar fyrstu 11 versin í 37. sálminum til að fá svör við því.

„Öfunda eigi“

3, 4. Hvaða ráðleggingar gefur Davíð í Sálmi 37:1 og hvernig eiga þær við nú á tímum?

3 Við lifum á erfiðum tímum og illskan er allt í kringum okkur. Við höfum séð orð Páls postula rætast: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Það getur auðveldlega haft áhrif á okkur þegar við sjáum að óguðlegum virðist ganga allt í haginn. Það getur truflað okkur og gert andlega sjón okkar óskýra. Við erum vöruð við þessari hættu í inngangsorðum 37. sálmsins: „Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja.“

4 Daglega færa fjölmiðlar okkur fregnir af alls konar óréttlæti í heiminum. Óheiðarlegir kaupsýslumenn komast upp með fjársvik, glæpamenn níðast á þeim sem eru berskjalda og morðingjar komast undan eða sleppa við refsingu. Þegar við sjáum slík dæmi um að réttlætinu sé rangsnúið getur það vakið reiði okkar og rænt okkur hugarfriði. Við gætum jafnvel farið að öfunda óguðlega þegar þeim virðist ganga vel. En græðum við eitthvað á því að láta þetta ergja okkur? Breytir það einhverju fyrir hina óguðlegu þótt við öfundum þá af velgengni þeirra? Nei, auðvitað ekki. Og í rauninni höfum við enga ástæðu til að vera gröm. Af hverju ekki?

5. Af hverju er illvirkjum líkt við gras og grænar jurtir?

5 Sálmaritarinn svarar: „Því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.“ (Sálmur 37:2) Grænar jurtir geta verið fallegar en þær visna fljótt og deyja. Það er eins með illvirkja. Þó að þeim virðist ganga vel er velgengnin ekki varanleg. Rangfenginn gróði þeirra getur ekki hjálpað þeim eftir dauðann. Réttlætið verður ekki umflúið. „Laun syndarinnar er dauði,“ skrifaði Páll. (Rómverjabréfið 6:23) Illvirkjar og ranglátir fá „laun“ sín að lokum. Lífsstefna þeirra reynist svo sannarlega „óarðbær“. — Sálmur 37:35, 36; 49:17, 18.

6. Hvaða lærdóm getum við dregið af Sálmi 37:1, 2?

6 Ættum við þá að láta skammvinna velgengni illvirkja trufla okkur? Lærdómurinn, sem við getum dregið af fyrstu tveim versunum í 37. sálminum, er þessi: Láttu aldrei velgengni þeirra fá þig til að víkja frá þeirri ákvörðun að þjóna Jehóva. Einbeittu þér frekar að andlegum blessunum og markmiðum. — Orðskviðirnir 23:17.

„Treyst Drottni og gjör gott“

7. Af hverju ættum við að reiða okkur á Jehóva?

7 Sálmaritarinn hvetur okkur til að treysta á Jehóva og gera gott. (Sálmur 37:3a) Við þurfum að leggja allt okkar traust á Jehóva þegar áhyggjur eða efasemdir þjaka okkur. Hann einn veitir fullkomið andlegt öryggi. „Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,“ skrifaði Móse, „sá er gistir í skugga Hins almáttka.“ (Sálmur 91:1) Það er sérstaklega mikilvægt að reiða sig á Jehóva þegar við höfum áhyggjur af auknu lögleysi í heiminum. Ef við tognum á fæti er gott að hafa vin hjá sér til að geta stutt sig við. Eins þurfum við á stuðningi Jehóva að halda þegar við leggjum okkur fram um að vera trúföst. — Jesaja 50:10.

8. Hvernig getur þátttaka í boðunarstarfinu komið í veg fyrir að við látum velgengni óguðlegra trufla okkur?

8 Ein leið til að koma í veg fyrir að velgengni óguðlegra trufli okkur er að vera upptekin af því að leita að sauðumlíkum mönnum og hjálpa þeim að fá nákvæma þekkingu á fyrirætlun Jehóva. Núna þegar illskan er að aukast verðum við að vera enn uppteknari við að hjálpa öðrum. „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar,“ sagði Páll postuli. Það besta sem við getum gert til að hjálpa öðrum er að segja þeim frá fagnaðarerindinu um Guðsríki. Þannig berum við fram „lofgjörðarfórn fyrir Guð“. — Hebreabréfið 13:15, 16; Galatabréfið 6:10.

9. Við hvað átti Davíð með orðunum „bú þú í landinu“?

9 „Bú þú í landinu og iðka ráðvendni,“ segir Davíð næst. (Sálmur 37:3b) ‚Landið‘ á dögum Davíðs var landsvæðið sem Jehóva hafði gefið Ísrael, fyrirheitna landið. Á dögum Salómons náðu landamörkin frá Dan í norðri til Beerseba í suðri. Þetta var heimili Ísraelsmanna. (1. Konungabók 4:25) Núna horfum við öll, hvar sem við búum, fram til þess tíma þegar jörðin verður að paradís í nýjum réttlátum heimi. En þangað til búum við við andlegt öryggi. — Jesaja 65:13, 14.

10. Hvað hefur það í för með sér að „iðka ráðvendni“?

10 Hvað hefur það í för með sér að „iðka ráðvendni“? Innblásinn orðskviður segir: „Ráðvandur maður verður ríkur að blessan.“ (Orðskviðirnir 28:20, Biblían 1859) Jehóva mun sannarlega blessa okkur ef við höldum trúfastlega áfram að prédika fagnaðarerindið hvar sem við búum og fyrir hverjum sem við getum. Fyrir 40 árum fengu hjónin Frank og Rosa það verkefni að þjóna sem brautryðjendur í bæ í Norður-Skotlandi. Þeir fáu bæjarbúar, sem höfðu áður sýnt sannleikanum áhuga, höfðu snúið sér að öðru. En brautryðjendahjónin létu það ekki á sig fá heldur hófu að prédika og gera menn að lærisveinum. Núna starfar þar blómlegur söfnuður. Jehóva hefur sannarlega blessað trúfesti hjónanna. „Mesta blessunin,“ segir Frank auðmjúklega, „er einfaldlega sú að við erum enn þá í sannleikanum og komum Jehóva að gagni.“ Já, við hljótum mikla blessun með því að „iðka ráðvendni“.

„Þá munt þú gleðjast yfir Drottni“

11, 12. (a) Hvernig getum við glaðst yfir Jehóva? (b) Hvaða markmið geturðu sett þér í sambandi við einkanám og hverju getur það skilað?

11 Ef við viljum styrkja samband okkar við Jehóva og varðveita traust á hann verðum við að gleðjast yfir honum. (Sálmur 37:4a) Hvernig gerum við það? Í stað þess að vera upptekin af eigin vandamálum, þótt þau séu erfið, látum við Jehóva ganga fyrir. Ein leið til að gera þetta er að taka frá tíma til að lesa í orði hans. (Sálmur 1:1, 2) Færir biblíulestur þér gleði? Hann mun gera það ef þú lest með það að markmiði að kynnast Jehóva betur. Af hverju ekki að stoppa aðeins eftir að hafa lesið ákveðinn hluta og spyrja þig: Hvað lærði ég um Jehóva af þessu? Þér gæti fundist gagnlegt að hafa stílabók eða blað við höndina þegar þú lest í Biblíunni. Í hvert skipti sem þú stoppar til að hugleiða það sem þú varst að lesa geturðu skrifað niður nokkur orð sem minna þig á aðlaðandi eiginleika hans. Í einum sálmi söng Davíð: „Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!“ (Sálmur 19:15) Það er Jehóva ‚þóknanlegt‘ að við beinum athygli að Biblíunni og það gefur okkur líka gleði.

12 Hvernig getur það gefið okkur gleði að nema og hugleiða? Við getum haft það að markmiði að læra eins mikið um Jehóva og vegi hans og við getum. Í ritum eins og Mesta mikilmenni sem lifað hefur og Nálægðu þig Jehóva * er margt sem við getum hugleitt og verið þakklát fyrir. Davíð fullvissar okkur um að ef við gerum það muni Jehóva ‚veita okkur það sem hjarta okkar girnist‘. (Sálmur 37:4b) Jóhannes postuli hlýtur að hafa haft svipað traust til Jehóva þegar hann skrifaði: „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.

13. Hvaða nýr starfsvettvangur hefur opnast í mörgum löndum á undanförnum árum?

13 Ráðvandir menn gleðjast mest yfir því að sjá drottinvald Jehóva varið. (Orðskviðirnir 27:11) Fyllast hjörtu okkar ekki gleði þegar við fáum fregnir af því hve mikið prédikunarstarf bræður okkar vinna í fyrrverandi einræðisríkjum? Við hlökkum ákaft til að sjá hvaða fleiri hömlum verður aflétt áður en líður að lokum þessa heimskerfis. Margir þjónar Jehóva í vestrænum löndum prédika kostgæfilega fyrir námsmönnum, flóttamönnum og öðrum sem búa þar um stundar sakir og njóta trúfrelsis. Það er einlæg ósk okkar að þessir einstaklingar haldi áfram að láta sannleiksljósið lýsa þegar þeir snúa til heimalands síns jafnvel þótt þar virðist nú ríkja varanlegt myrkur. — Matteus 5:14-16.

„Fel Drottni vegu þína“

14. Hvaða sannanir eru fyrir því að við getum reitt okkur á Jehóva?

14 Það er mikill léttir að vita til þess að við getum losnað við áhyggjur og þungar byrðar. En hvernig getum við það? „Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá,“ segir Davíð. (Sálmur 37:5) Í söfnuðunum finnum við nægar sannanir fyrir því að við getum reitt okkur á stuðning Jehóva. (Sálmur 55:23) Þeir sem þjóna í fullu starfi, hvort sem þeir eru brautryðjendur, farandhirðar, trúboðar eða sjálfboðaliðar á Betel, geta staðfest að hægt sé að treysta á umhyggju Jehóva. Væri ekki tilvalið að tala við þjóna í fullu starfi sem þú þekkir og spyrja þá hvernig Jehóva hefur hjálpað þeim? Þú færð örugglega að heyra margar frásögur sem sýna að Jehóva er alltaf fús til að hjálpa okkur, líka á erfiðum tímum. Hann sér okkur alltaf fyrir lífsnauðsynjum. — Sálmur 37:25; Matteus 6:25-34.

15. Hvernig skín réttlæti þjóna Guðs?

15 Ef við gerum Jehóva að hæli okkar og leggjum allt traust okkar á hann getum við fengið að reyna það sem sálmaritarinn nefnir næst: „Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.“ (Sálmur 37:6) Oft er gefin röng mynd af Vottum Jehóva. En Jehóva opnar augu hjartahreinna manna og hjálpar þeim að gera sér grein fyrir því að við prédikum af því að við elskum Jehóva og náungann. Auk þess er góð hegðun okkar alltaf augljós þó að margir mistúlki hana. Jehóva veitir okkur styrk í hvers kyns andstöðu og ofsóknum. Það verður til þess að réttlæti þjóna Guðs skín eins og sólin um hádegi. — 1. Pétursbréf 2:12.

„Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann“

16, 17. Hvað er mikilvægt að gera núna í ljósi þess sem fram kemur í Sálmi 37:7 og hvers vegna?

16 Næst segir sálmaritarinn: „Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.“ (Sálmur 37:7) Hér leggur Davíð áherslu á að við þurfum að bíða þolinmóð eftir að Jehóva taki í taumana. Við ættum ekki að kvarta þótt endir þessa heimskerfis sé enn ekki kominn. Höfum við ekki komist að raun um að miskunn Jehóva og þolinmæði er mun meiri en við héldum í fyrstu? Getum við ekki sýnt að við bíðum líka þolinmóð og erum upptekin af því að prédika fagnaðarerindið áður en endirinn kemur? (Markús 13:10) Núna er mikilvægt að forðast skyndiákvarðanir sem geta rænt okkur gleði og andlegu öryggi. Við ættum að vera ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að standast spillandi áhrif frá heimi Satans, viðhalda siðferðilegum hreinleika og gera ekkert sem gæti grafið undan ráðvendni okkar við Jehóva. Höldum áfram að hrinda frá okkur siðlausum hugsunum og forðumst óviðeigandi framkomu gagnvart einhverjum af hinu kyninu eða jafnvel af sama kyni. — Kólossubréfið 3:5.

17 „Lát af reiði og slepp heiftinni,“ hvetur Davíð. „Ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins. Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.“ (Sálmur 37:8, 9) Já, við getum litið örugg fram til þess tíma, sem nú er svo nálægur, þegar Jehóva mun losa jörðina við alla spillingu og þá sem henni valda.

„Innan stundar“

18, 19. Hvaða hughreystingu er að finna í Sálmi 37:10?

18 „Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.“ (Sálmur 37:10) Þessi orð eru sérstaklega hughreystandi núna þegar við nálgumst endi þessa heimskerfis og hámark þess tíma sem við höfum verið óháð Jehóva. Allar þær stjórnir og þau stjórnkerfi, sem mennirnir hafa reynt, hafa brugðist hrapallega. Og nú nálgumst við þann tíma þegar Guð mun stjórna á ný fyrir milligöngu ríkis síns í höndum Jesú Krists. Þetta ríki mun fara með yfirráð yfir jörðinni og fjarlægja alla þá sem eru andsnúnir því. — Daníel 2:44.

19 Í nýja heiminum undir stjórn Guðsríkis gætirðu ekki fundið ‚guðlausan mann‘ þótt þú reyndir. Já, hver sá sem gerir uppreisn gegn Jehóva verður fjarlægður um leið. Þar verður enginn sem ræðst á drottinvald hans eða neitar að lúta yfirráðum hans. Allir munu vilja þóknast Jehóva. Þá verður raunverulegt öryggi og engin þörf á lásum eða slám — ekkert mun spilla algeru trausti okkar og hamingju. — Jesaja 65:20; Míka 4:4; 2. Pétursbréf 3:13.

20, 21. (a) Hverjir eru „hinir hógværu“ í Sálmi 37:11 og hvar finna þeir frið? (b) Hvaða blessanir bíða okkar ef við líkjum eftir hinum meiri Davíð?

20 Þá munu „hinir hógværu fá landið til eignar“. (Sálmur 37:11a) En hverjir eru „hinir hógværu“? Orðið, sem hér er þýtt ‚hógvær‘, er dregið af sagnorði sem þýðir að „þjaka, auðmýkja, lítillækka“. Já, „hinir hógværu“ eru þeir sem bíða auðmjúkir eftir að Jehóva leiðrétti ranglætið sem þeir hafa þurft að þola. Þeir munu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu [„friði“, Biblían 1859]“. (Sálmur 37:11b) Jafnvel núna ríkir friður í andlegu paradísinni í sannkristna söfnuðinum.

21 Við erum ekki enn laus við erfiðleika en við styðjum hvert annað og hughreystum þá sem eru niðurdregnir. Þannig stuðlum við að sannri gleði meðal þjóna Jehóva. Útnefndir hirðar safnaðarins sinna andlegum og jafnvel líkamlegum þörfum okkar og það gerir okkur kleift að þola erfiðleika fyrir réttlætis sakir. (1. Þessaloníkubréf 2:7, 11; 1. Pétursbréf 5:2, 3) Þessi friður er svo sannarlega dýrmætur. Við eigum líka þá von fyrir höndum að lifa að eilífu í friðsælli paradís. Við skulum því líkja eftir hinum meiri Davíð, Jesú Kristi, sem var kostgæfinn og þjónaði Jehóva trúfastur allt til enda. (1. Pétursbréf 2:21) Þannig varðveitum við gleði okkar og lofum Jehóva Guð sem við gleðjumst yfir.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Gefin út af Vottum Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvað lærðir þú af Sálmi 37:1, 2?

• Hvernig getur þú glaðst yfir Jehóva?

• Hvaða sannanir höfum við fyrir því að við getum reitt okkur á Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Kristnir menn „öfunda eigi þá er ranglæti fremja“.

[Mynd á blaðsíðu 10]

„Treyst Drottni og gjör gott.“

[Mynd á blaðsíðu 11]

Gleðstu yfir Jehóva með því að kynnast honum eins vel og þú getur.

[Mynd á blaðsíðu 12]

„Hinir hógværu fá landið til eignar.“