Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir Guði sannleikans

Líkjum eftir Guði sannleikans

Líkjum eftir Guði sannleikans

,Verðið eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.‘ — EFESUSBRÉFIÐ 5:1.

1. Hvaða skoðun hafa sumir á sannleikanum og hvers vegna er órökrétt að hugsa þannig?

„HVAÐ er sannleikur.“ (Jóhannes 18:38) Þannig spurði Pontíus Pílatus með vantrú fyrir um 2000 árum. Spurningin gefur í skyn að það sé of erfitt að henda reiður á sannleikanum til að það sé þess virði að leita hans. Margir nú á dögum eru á sama máli. Menn deila jafnvel um eðli sannleikans. Ef til vill hefurðu heyrt einhvern segja að hver búi til sinn eigin sannleika eða að sannleikur sé afstæður eða síbreytilegur. En það er órökrétt að hugsa þannig. Markmið rannsókna og menntunar er einmitt að uppgötva staðreyndir, sannleikann, um heiminn sem við lifum í. Sannleikur hefur ekkert með skoðun hvers og eins að gera. Til dæmis er mannsálin annaðhvort ódauðleg eða ekki. Annaðhvort er Satan til eða ekki. Annaðhvort er tilgangur með lífinu eða ekki. Það er aðeins til eitt rétt svar í öllum tilvikunum. Annað er rétt en hitt rangt, hvort tveggja getur ekki verið rétt.

2. Hvernig er Jehóva Guð sannleikans og hvaða spurningar ætlum við að skoða?

2 Í greininni á undan var fjallað um að Jehóva sé Guð sannleikans. Hann veit sannleikann um allt. Jehóva er alltaf sannorður og er þannig alger andstæða hins svikula óvinar síns, Satans djöfulsins. Og Jehóva opinberar öðrum sannleikann örlátlega. Páll postuli hvatti trúsystkini sín: „Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Hvernig getum við sem vottar Jehóva talað og lifað í samræmi við sannleikann líkt og hann? Hvers vegna er það mikilvægt? Og hvaða vissu höfum við fyrir því að Jehóva hafi velþóknun á þeim sem leitast við að vera sannorðir? Skoðum málið.

3, 4. Hvernig lýstu postularnir Páll og Pétur því sem átti að eiga sér stað á „síðustu dögum“?

3 Við lifum á tímum þegar allt er morandi í trúarlegum ósannindum. Páli postula var innblásið að skrifa að á „síðustu dögum“ myndu margir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar. Sumir „hugspilltir“ menn standa gegn sannleikanum. Og „vondir menn og svikarar . . . magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir“. Þessir menn eru sífellt að læra en komast samt ekki til nákvæmrar „þekkingar á sannleikanum“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 5, 7, 8, 13.

4 Pétri postula var einnig blásið í brjóst að skrifa um hina síðustu daga. Rétt eins og hann spáði hafnar fólk ekki aðeins sannleikanum heldur hæðist líka að orði Guðs og þeim sem boða sannleikann sem þar er að finna. Slíkir spottarar hunsa „viljandi“ þá staðreynd að heiminum á dögum Nóa var eytt í flóði og að það var fyrirmynd að dómsdegi framtíðarinnar. Óskhyggjan reynist þeim dýrkeypt þegar tíminn rennur upp að Guð eyði óguðlegum mönnum. — 2. Pétursbréf 3:3-7.

Þjónar Jehóva þekkja sannleikann

5. Hvað sagði Daníel fyrir að ætti að gerast á ‚tíma endalokanna‘ og hvernig hefur spádómurinn uppfyllst?

5 Daníel spámaður sagði fyrir nokkuð aðra þróun hjá fólki Guðs er hann lýsti tíma endalokanna. Hann boðaði að trúarleg sannindi yrðu endurvakin og skrifaði: „Margir munu rannsaka [Ritninguna], og þekkingin mun vaxa.“ (Daníel 12:4) Fólk Jehóva er hvorki afvegaleitt né blindað af hinum mikla blekkingarmeistara. Það hefur öðlast sanna þekkingu með því að rannsaka Biblíuna gaumgæfilega. Jesús upplýsti lærisveinana á fyrstu öldinni. Hann „lauk . . . upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar“. (Lúkas 24:45) Jehóva hefur gert slíkt hið sama nú á dögum. Með orði sínu, anda og skipulagi hefur hann gert milljónum manna um alla jörðina kleift að skilja það sem hann veit nú þegar — sannleikann.

6. Hvaða biblíusannindi skilur fólk Guðs nú á dögum?

6 Sem fólk Guðs skiljum við margt sem við hefðum annars ekki getað skilið. Við vitum svörin við spurningum sem veraldarvísir menn hafa glímt við um árþúsundir. Til dæmis vitum við hvers vegna við þjáumst og deyjum og hvers vegna menn geta ekki komið á friði og einingu á jörðinni. Okkur hefur einnig verið veitt innsýn í það sem framtíðin ber í skauti sér — Guðsríki, paradís á jörð, og eilíft líf í fullkomleika. Við höfum kynnst Jehóva, hinum hæsta. Við höfum lært um heillandi persónuleika hans ásamt því sem við þurfum að gera til að hljóta blessun hans. Að þekkja sannleikann gerir okkur kleift að bera kennsl á ósannindi. Og að tileinka okkur sannleikann verndar okkur gegn árangurslausum markmiðum, gerir okkur kleift að fá það besta út úr lífinu og gefur okkur stórkostlega framtíðarvon.

7. Hverjir hafa aðgang að biblíusannindum og hverjir ekki?

7 Skilur þú sannleikann í Biblíunni? Ef svo er nýturðu mikillar blessunar. Þegar rithöfundur skrifar bók reynir hann yfirleitt að höfða til ákveðins hóps. Sumar bækur eru skrifaðar fyrir hámenntað fólk, aðrar fyrir börn og enn aðrar fyrir fólk með einhverja sérkunnáttu. Þó að Biblían sé aðgengileg öllum er samt ákveðnum hópi fólks ætlað að skilja hana og njóta hennar. Jehóva skrifaði hana fyrir auðmjúka og hógværa menn. Þeir geta skilið inntak Biblíunnar og gildir þá einu hvaða menntun þeir hafa, frá hvaða menningarsamfélagi þeir koma, hver staða þeirra er í þjóðfélaginu eða af hvaða þjóðernishópi þeir eru. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Biblíusannindum er hins vega haldið frá þeim sem eru ekki réttsinnaðir, hversu gáfaðir eða menntaðir sem þeir kunna að vera. Hinir hrokafullu og stoltu geta ekki skilið þann dýrmæta sannleika sem orð Guðs hefur að geyma. (Matteus 13:11-15; Lúkas 10:21; Postulasagan 13:48) Það er aðeins Guð sem gat sett saman slíka bók.

Þjónar Jehóva eru sannorðir

8. Hvers vegna var Jesús persónugervingur sannleikans?

8 Vottar Jehóva eru sannorðir eins og hann. Jesús Kristur var framúrskarandi vottur Jehóva og hann staðfesti sannleikann með kennslu sinni, líferni og dauða. Hann hélt því á loft að orð Jehóva og loforð væru sönn. Jesús var þar af leiðandi persónugervingur sannleikans eins og hann sjálfur sagði. — Jóhannes 14:6; Opinberunarbókin 3:14; 19:10.

9. Hvað segir Ritningin um sannsögli?

9 Jesús var „fullur náðar og sannleika“ og ,svik voru ekki í munni hans‘. (Jóhannes 1:14; Jesaja 53:9) Hann var heiðarlegur við aðra og sannkristnir menn fylgja fordæmi hans. Páll ráðlagði trúsystkinum sínum: „Talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.“ (Efesusbréfið 4:25) Spámaðurinn Sakaría hafði áður skrifað: „Talið sannleika hver við annan.“ (Sakaría 8:16) Kristnir menn eru sannorðir af því að þá langar til að þóknast Guði. Jehóva er sannorður og hann veit að ósannindi eru skaðleg. Hann ætlast því réttilega til að þjónar sínir segi sannleikann.

10. Hvers vegna lýgur fólk og hvaða slæmar afleiðingar hefur það?

10 Í augum margra er lygi ef til vill vænlegur kostur til að koma sér áfram. Fólk lýgur til að komast hjá refsingu, hagnast á einhvern hátt eða til að fá lof annarra. En lygi er löstur. Og það sem meira er — lygari getur ekki öðlast velþóknun Guðs. (Opinberunarbókin 21:8, 27; 22:15) Þegar við erum þekkt fyrir heiðarleika trúa aðrir því sem við segjum — þeir treysta okkur. Hins vegar getur aðeins ein lygi orðið til þess að aðrir véfengi allt sem við segjum eftirleiðis. Afrískur málsháttur segir: „Ein lygi spillir þúsund sannindum.“ Annar málsháttur segir: „Lygara er ekki trúað, jafnvel þegar hann segir satt.“

11. Hvað er fólgið í því að vera sannorður?

11 Að vera sannorður felur meira í sér en aðeins að segja sannleikann. Það er lífsstíll. Það segir hver við erum. Við berum sannleikanum ekki aðeins vitni með því sem við segjum heldur líka með því sem við gerum. „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig?“ spurði Páll postuli. „Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór?“ (Rómverjabréfið 2:21, 22) Ef við ætlum að miðla öðrum sannleika verður líf okkar vissulega að vera sannleikanum samkvæmt á allan hátt. Ef við erum þekkt fyrir sannsögli og heiðarleika hefur það mikil áhrif á viðbrögð fólks við því sem við kennum.

12, 13. Hvað skrifaði ung stúlka um heiðarleika og hver var ástæðan fyrir háleitum siðferðisstöðlum hennar?

12 Ungir þjónar Jehóva skilja líka hversu mikilvægt það er að vera sannorðir. Þegar Jenny var 13 ára skrifaði hún í skólaritgerð: „Ég met heiðarleika mikils. Því miður eru fáir alveg heiðarlegir. Ég lofa sjálfri mér því að vera alltaf heiðarleg. Ég ætla að vera heiðarleg þó að það gagnist mér eða vinum mínum ekki strax að segja sannleikann. Ég geng líka úr skugga um að vinir mínir segi sannleikann og séu heiðarlegir.“

13 Kennari hennar sagði í umsögn um ritgerðina: „Það er sérstakt að ung stúlka eins og þú hafir þroskað með sér svona fastmótaðar siðferðisreglur. Ég veit að þú ert nógu staðföst til að víkja ekki frá siðferði þínu.“ Hver var skýringin á siðferðisstyrk þessarar skólastúlku? Í inngangi ritgerðarinnar tekur Jenny fram að trú hennar ,setji henni lífsstaðlana‘. Sjö ár eru liðin síðan Jenny skrifaði ritgerðina. Eins og kennari hennar gat sér til um hefur hún lifað í samræmi við háleita siðferðisstaðla sem vottur Jehóva.

Þjónar Jehóva opinbera sannleikann

14. Hvers vegna bera vottar Jehóva sérstaka ábyrgð á því að halda á loft því sem er satt og rétt?

14 Auðvitað eru margir auk votta Jehóva sem segja sannleikann og reyna að vera heiðarlegir. En sem þjónar Guðs berum við sérstaka ábyrgð á því að halda á loft því sem er satt og rétt. Okkur hefur verið treyst fyrir biblíusannindum — sannindum sem geta leitt til eilífs lífs. Við erum því skyldug að miðla þessari þekkingu til annarra. „Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn,“ sagði Jesús. (Lúkas 12:48) Það er sannarlega ,mikils krafist‘ af þeim sem hafa fengið hina dýrmætu þekkingu á Guði.

15. Segðu frá þeirri gleði sem þú hefur af því að miðla biblíusannindum til annarra.

15 Það er ánægjulegt að miðla biblíusannindum til annarra. Líkt og lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni kunngerum við fagnaðarerindið. Það er uppörvandi vonarboðskapur fyrir þá sem ,eru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa‘ og eru ráðvilltir og blindaðir vegna ,lærdóma illra anda‘. (Matteus 9:36; 1. Tímóteusarbréf 4:1) Jóhannes postuli skrifaði: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ (3. Jóhannesarbréf 4) Það veitti Jóhannesi mikla gleði að sjá trúfesti ,barna‘ sinna, og átti hann þar ef til vill við þá sem hann hafði kennt sannleikann. Okkur finnst ánægjulegt þegar fólk kann að meta orð Guðs og lætur það hafa áhrif á sig.

16, 17. (a) Hvers vegna meðtaka ekki allir sannleikann? (b) Hvaða gleði getur þú upplifað með því að kunngera sannleika Biblíunnar?

16 Auðvitað taka ekki allir við sannleikanum. Jesús talaði sannleikann um Guð, jafnvel þegar það var ekki vel liðið. Hann sagði við hina andsnúnu Gyðinga: „Hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ — Jóhannes 8:46, 47.

17 Líkt og Jesús veigrum við okkur ekki við því að segja frá hinum dýrmæta sannleika um Jehóva. Við ætlumst ekki til að allir meðtaki það sem við segjum þeim því að ekki meðtóku allir það sem Jesús sagði. En við erum samt glöð af því að við vitum að við erum að gera það sem rétt er. Í ást sinni og umhyggju vill Jehóva að sannleikurinn sé opinberaður öllu mannkyni. Og þar sem kristnir menn búa yfir sannleika eru þeir ljósberar í myrkum heimi. Við getum hjálpað öðrum að gefa himneskum föður okkar dýrðina með því að láta sannleiksljósið skína í orðum okkar og verkum. (Matteus 5:14, 16) Við kunngerum opinberlega að við höfnum rangsnúinni útgáfu Satans af sannleikanum og höfum hið hreina og ómengaða orð Guðs í hávegum. Sannleikurinn, sem við þekkjum og deilum með öðrum, getur veitt þeim raunverulegt frelsi sem þiggja hann. — Jóhannes 8:32.

Leggðu þig fram um að vera heiðarlegur

18. Hvers vegna hafði Jesús mætur á Natanael og hvað veitti hann honum?

18 Jesús elskaði sannleikann og talaði um hann við aðra. Hann hafði mætur á heiðarlegum mönnum. Hann sagði um Natanael: „Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.“ (Jóhannes 1:47) Fyrir vikið var Natanael, sem var líklega einnig kallaður Bartólómeus, valinn einn af postulunum 12. (Matteus 10:2-4) Hvílíkur heiður!

19-21. Hvernig var manni, sem hafði verið blindur, umbunað fyrir að segja óhræddur sannleikann?

19 Heill kafli í Jóhannesarguðspjalli fjallar um annan heiðarlegan mann sem hlaut blessun Jesú. Við vitum ekki hvað hann hét en við vitum að hann var betlari og hafði verið blindur frá fæðingu. Fólk undraðist þegar Jesús gaf honum sjónina. Fregnir af þessu kraftaverki bárust til eyrna sumra farísea. Þeir hötuðu sannleikann og höfðu komið sér saman um að gera alla sem trúðu á Jesú samkunduræka. Foreldrar mannsins vissu af þessu og voru hræddir. Þess vegna lugu þeir því að faríseunum að þeir vissu ekki hvernig sonur þeirra hefði fengið sjónina eða hver hefði veitt honum hana. — Jóhannes 9:1-23.

20 Maðurinn, sem hafði læknast, var aftur kallaður fyrir faríseana. Hann sagði hugrakkur sannleikann án þess að skeyta um afleiðingarnar. Hann skýrði út fyrir þeim að Jesús hefði læknað sig og hvernig hann fór að því. Maðurinn undraðist að þessir menntuðu framámenn skyldu ekki trúa að Jesús væri frá Guði. Hann hvatti þá óhræddur til að viðurkenna þessa augljósu staðreynd: „Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört.“ Farísearnir höfðu engin mótrök og sökuðu hann því um ósvífni og ráku hann út. — Jóhannes 9:24-34.

21 Jesús frétti af þessu og í kærleika sínum tók hann sér tíma til að leita mannsins. Er hann hafði fundið hann sagði hann honum opinskátt að hann væri Messías, og byggði þar á þeirri trú sem maðurinn hafði áður sýnt. Þessi maður hlaut mikla blessun fyrir að segja sannleikann. Já, Guð kann að meta þá sem segja sannleikann. — Jóhannes 9:35-37.

22. Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram um að vera sannorð?

22 Við ættum að taka það mjög alvarlega að iðka sannleika. Það er undirstaða þess að geta átt gott samband við annað fólk og við Guð. Ef við erum sannorð erum við hreinskilin, einlæg, viðmótsgóð og áreiðanleg og það er Jehóva þóknanlegt. (Sálmur 15:1, 2) Óheiðarlegur maður er svikull, óáreiðanlegur og falskur og hann kallar yfir sig vanþóknun Guðs. (Orðskviðirnir 6:16-19) Einsetjum okkur þess vegna að vera sannorð. Já, til að líkja eftir Guði sannleikans verðum við að þekkja sannleikann, tala sannleikann og lifa samkvæmt sannleikanum.

Hvernig svarar þú?

• Hvers vegna getum við verið þakklát fyrir að þekkja sannleikann?

• Hvernig getum við verið sannorð líkt og Jehóva?

• Hvernig er það öðrum til blessunar að við miðlum biblíusannindum?

• Hvers vegna er mikilvægt að vera sannorður?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 29]

Kristnum mönnum eru falin biblíusannindi og þeir segja öðrum kostgæfilega frá þeim.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Blindi maðurinn, sem Jesús læknaði, hlaut mikla blessun fyrir að segja sannleikann.