Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | HVERNIG KVIKNAÐI LÍFIÐ?

Tvær mikilvægar spurningar

Tvær mikilvægar spurningar

1 Hvernig varð lífið til?

ALGENG SKOÐUN. Lífið kviknaði sjálfkrafa af lífvana efni.

AF HVERJU FINNST SUMUM ÞESSI SKÝRING ÓFULLNÆGJANDI? Vísindamenn vita meira en nokkru sinni fyrr um efnasamsetningu og sameindabyggingu lífvera. Samt sem áður hafa þeir ekki enn getað skilgreint fullkomlega hvað líf er. Breið gjá skilur á milli einföldustu frumna og lífvana efnis.

Vísindamenn geta aðeins getið sér til um hvernig aðstæður voru á jörðinni fyrir milljörðum ára. Þeir hafa ólíkar skoðanir á því hvar lífið kviknaði. Sumir telja lífið hafa kviknað í eldfjalli og aðrir á botni úthafanna. Enn aðrir telja að byggingarefni lífsins hafi borist til jarðar með loftsteinum. En sú tilgáta svarar því ekki hvernig lífið kviknaði – það færir vandamálið bara fjær okkur.

Vísindamenn velta vöngum yfir því hvort erfðaefni lífvera hafi hugsanlega getað þróast úr sameindum sem gátu bæði orðið til af lífvana efni og fjölgað sér af sjálfsdáðum. En þeir hafa hvorki fundið nokkuð sem bendir til þess að slíkar sameindir hafi verið til né hafa þeir getað búið þær til á tilraunastofum.

Allar lífverur eru gæddar þeim einstaka eiginleika að geta geymt upplýsingar og unnið úr þeim. Frumur flytja og túlka upplýsingar úr erfðalyklinum og vinna eftir þeim. Sumir vísindamenn hafa líkt erfðalyklinum við hugbúnað í tölvu og efnasamsetningu frumunnar við vélbúnaðinn. En hvaðan koma upplýsingarnar sjálfar? Þróunarkenningin getur ekki svarað því.

Prótínsameindir eru nauðsynlegar til að fruma geti starfað. Í dæmigerðri prótínsameind eru hundruð amínósýra sem tengjast saman í vissri röð. Og prótínsameindin þarf þar að auki að hafa ákveðið þrívítt form til að geta komið að gagni. Sumir vísindamenn telja að líkurnar á því að jafnvel bara ein prótínsameind myndist af sjálfu sér séu stjarnfræðilega litlar. Eðlisfræðingurinn Paul Davies skrifar: „Fruma þarf þúsundir mismunandi prótína til að geta starfað. Því er afar langsótt að ætla að þau hafi myndast af hreinni tilviljun.“

NIÐURSTAÐA. Eftir áratugalangar rannsóknir, á nánast öllum sviðum vísindanna, er staðreyndin enn sú að líf getur aðeins komið af öðru lífi.

 2 Hvernig tók lífið á sig núverandi mynd?

ALGENG SKOÐUN. Lífið í allri sinni fjölbreytni, þar með talinn maðurinn, varð til við hægfara þróun fyrstu lífverunnar með náttúruvali og handahófskenndum stökkbreytingum.

AF HVERJU FINNST SUMUM ÞESSI SKÝRING ÓFULLNÆGJANDI? Frumur eru misflóknar að gerð. Samkvæmt uppsláttarriti hefur þróun einfaldari frumna í flóknari „oft verið kölluð önnur stærsta ráðgáta þróunarfræðinnar, næst á eftir uppruna lífsins“.

Vísindamenn hafa uppgötvað að í hverri frumu eru flóknar sameindavélar úr prótínsameindum sem vinna saman að því að leysa úr margsnúnum verkefnum. Þær flytja næringarefni og umbreyta þeim í orku, gera við ýmsa hluta frumunnar og flytja boð um hana svo eitthvað sé nefnt. Gætu handahófskenndar stökkbreytingar og náttúruval útskýrt hvernig svona flóknir íhlutir komu saman og byrjuðu að starfa? Mörgum finnst erfitt að sætta sig við þá skýringu.

Líf manna og dýra hefst í einu frjóvguðu eggi. Frumur í fósturvísinum skipta sér og með tímanum sérhæfa þær sig til að sinna ákveðnum störfum og mynda ólíka líkamshluta. Þróun getur ekki skýrt hvernig hver og ein fruma getur „vitað“ hvaða lögun hún á að taka á sig og hvar hún á að vera innan líkamans.

Vísindamönnum er orðið ljóst að til þess að dýr geti þróast úr einni tegund í aðra þurfa breytingar að eiga sér stað inni í frumunni – á sameindastiginu. Vísindamenn geta ekki einu sinni sýnt fram á hvernig „einföldustu“ frumur geti þróast. Er þá líklegt að hinar fjölmörgu tegundir dýra á jörðinni hafi orðið til við handahófskenndar stökkbreytingar og náttúruval? Michael Behe, prófessor í líffræði, segir rannsóknir hafa leitt í ljós að dýr séu „mun flóknari að gerð en áður var talið. Menn eru þó engu nær um hvernig svo flóknar lífverur gætu hafa þróast fyrir tilviljun.“

Mennirnir eru meðvitaðir um sjálfa sig og umhverfi sitt, eru færir um að rökhugsa og búa yfir eiginleikum á borð við örlæti, fórnfýsi og réttlætiskennd. Handahófskenndar stökkbreytingar og náttúruval geta ekki skýrt þessa einstöku hæfni mannshugans.

NIÐURSTAÐA. Mörgum þykir það óumdeilanleg staðreynd að lífið hafi orðið til við þróun. Öðrum finnst kenningin ekki gefa fullnægjandi svör um hvernig lífið kviknaði og hvernig það tók á sig núverandi mynd.