Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL | WENLONG HE

Tilraunaeðlisfræðingur skýrir frá trú sinni

Tilraunaeðlisfræðingur skýrir frá trú sinni

WENLONG HE hóf nám í eðlisfræði í borginni Suzhou í Jiangsu-héraði í Kína. Hann er einn af ritstjórum alþjóðlegs tímarits um tækni og eftir hann hafa birst tugir greina í vísindatímaritum. Um þessar mundir starfar Wenlong við Strathclyde-háskóla í Skotlandi. Á sínum yngri árum trúði hann á þróun en dró síðar þá ályktun að lífið væri skapað. Vaknið! spurði hann út í trú hans.

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér.

Ég fæddist í Kína árið 1963 og ólst upp í þorpi sunnan við Jangtsefljót í Jiangsu-héraði. Héraðið, sem er í heittempraða beltinu, er þekkt fyrir matarframleiðslu og er gjarnan kallað land fisks og hrísgrjóna. Sem barn var ég vanur að velta fyrir mér: „Af hverju gefur náttúran af sér svona fjölbreyttan og bragðgóðan mat? Er það bara tilviljun? Hvort kom á undan, hænan eða eggið?“ Í Kína er trúleysi ríkjandi og því lærði ég um þróun í skóla.

Hvað geturðu sagt okkur um fjölskyldu þína?

Foreldrar mínir voru trúlausir. Mamma sinnti bústörfum og pabbi vann sem arkitekt og kom á fót byggingarfyrirtæki. Ég er elstur af fimm bræðrum en því miður dóu tveir bræður mínir ungir. Ég tók það mjög nærri mér og fór að velta fyrir mér spurningum eins og: „Hvers vegna deyr fólk? Sé ég bræður mína einhvern tíma aftur?“

Hvers vegna lagðirðu fyrir þig raunvísindi?

Ég vildi læra eðlisfræði af því að ég var heillaður af efnisheiminum og vonaðist til að eðlisfræðin gæti svarað þeim spurningum sem höfðu leitað á mig frá æsku.

Hvers konar rannsóknir stundarðu?

Ég rannsaka hröðun rafhlaðinna einda og reyni að finna leiðir til að koma þeim sem næst ljóshraða.  Það er gert til að rannsaka uppbyggingu atóma. Ég skoða líka hvernig hægt er að framleiða háorkugeislun með tíðni á milli örbylgna og innrauðs ljóss. Þessar rannsóknir hafa hagnýtt gildi en eru líka notaðar til að reyna að skilja upphaf alheimsins.

Hvað vakti áhuga þinn á Biblíunni?

Tveir vottar Jehóva heimsóttu mig árið 1998 og buðust til að sýna mér svör Biblíunnar við spurningum mínum. Huabi, konan mín, tók þátt í umræðunum en hún vinnur líka við vísindarannsóknir. Þetta var í fyrsta sinn sem við sáum biblíu og hagnýt ráð hennar vöktu áhuga okkar. Við tókum eftir að meginreglur Biblíunnar höfðu góð áhrif á hjónin sem heimsóttu okkur. Þau lifðu einföldu lífi og voru hamingjusöm. En það sem Biblían hafði að segja um Guð vakti að nýju vangaveltur mínar um hvort heimurinn gæti verið skapaður. Sem eðlisfræðingur hef ég það verkefni að reyna að skilja eðli náttúrunnar. Ég ákvað því að hugsa málið upp á nýtt með hliðsjón af staðreyndum.

Sem eðlisfræðingur hef ég það verkefni að reyna að skilja eðli náttúrunnar. Ég ákvað því að hugsa málið upp á nýtt með hliðsjón af staðreyndum.

Hvaða staðreyndum veltirðu fyrir þér?

Ég vissi að samkvæmt öðru lögmáli varmafræðinnar getur skipulag í lokuðu kerfi hvorki haldist óbreytt né batnað nema vegna utanaðkomandi áhrifa. Þar sem alheimurinn og lífið á jörðinni er mjög skipulagt kerfi dró ég þá ályktun að utanaðkomandi áhrif hljóti að hafa komið þar við sögu – það er að segja skapari. Önnur staðreynd, sem ég velti fyrir mér, er að jörðin og alheimurinn virðast sérstaklega hönnuð til að viðhalda lífi.

Hvaða merki sástu um hönnun?

Svo til allt líf á jörðinni er háð orku frá sólinni. Orkan ferðast um geiminn til jarðar í formi geisla af mörgum mismunandi bylgjulengdum. Gammageislar hafa stystu bylgjulengdina en þeir eru lífshættulegir. Þar á eftir koma röntgengeislar, útfjólublátt ljós, sýnilegt ljós, innrautt ljós, örbylgjur og loks útvarpsbylgjur með lengstu bylgjulengdina. Það er merkilegt hvernig lofthjúpur jarðar ver hana fyrir stórum hluta skaðlegra geisla en hleypir í gegn þeim geislum sem við þörfnumst.

Af hverju vakti það áhuga þinn?

Ég hreifst af inngangsorðunum í sköpunarsögu Biblíunnar og því sem hún segir um ljós. Þar segir: „Þá sagði Guð: ,Verði ljós.‘ Og það varð ljós.“ * Sýnilegt ljós er ekki nema lítið brot af geislum sólarinnar en er undirstaða þess að líf geti þrifist. Plöntur þurfa á því að halda til að geta framleitt fæðuna sem við borðum og við þurfum ljós til að geta séð. Það getur ekki verið tilviljun hvernig lofthjúpurinn hleypir ljósi í gegnum sig. Jafnvel enn merkilegra er það örlitla magn útfjólublárra geisla sem nær til yfirborðs jarðar.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Útfjólubláir geislar eru nauðsynlegir í hæfilegu magni. Húðin okkar þarf örlítið af þeim til að framleiða D-vítamín en það er nauðsynlegt fyrir beinin og er sagt geta fyrirbyggt krabbamein og fleiri sjúkdóma. Of mikið af þessum geislum veldur hins vegar húðkrabbameini og skýi á auga. Þegar lofthjúpurinn starfar eðlilega hleypir hann aðeins litlu broti af útfjólubláu geislunum til jarðar og í nákvæmlega réttu magni. Það sannar fyrir mér að jörðin sé hönnuð til að viðhalda lífi.

Með tímanum sannfærðumst við Huabi um að til sé skapari og að Biblían sé innblásið orð hans. Við urðum vottar Jehóva árið 2005 og tökum nú þátt í að fræða aðra um Biblíuna.

^ gr. 19 1. Mósebók 1:3.