Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 VIÐTAL FENG-LING YANG

Örverufræðingur skýrir frá trú sinni

Örverufræðingur skýrir frá trú sinni

Feng-Ling Yang stundar rannsóknir við vísindaakademíuna í Taípei á Taívan. Greinar um rannsóknir hennar hafa verið birtar í vísindatímaritum. Hún trúði áður þróunarkenningunni en gerir það ekki lengur. Vaknið! spurði hana út í trú hennar og vísindastörf.

Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér.

Foreldrar mínir voru mjög fátækir. Mamma lærði til dæmis aldrei að lesa. Við vorum með svín og ræktuðum grænmeti á flóðasvæði nálægt Taípei. Foreldrar mínir kenndu mér að meta vinnusemi og þau kenndu mér að hjálpa öðrum.

Var fjölskyldan þín trúuð?

Við vorum taóistar og færðum fórnir til „himnaguðsins“ en vissum þó ekkert um hann. Ég velti oft fyrir mér hvers vegna fólk þjáist og hvers vegna margir eru svo sjálfselskir. Ég las mér til um taóisma, búddisma og sögu Austur- og Vesturlanda. Ég fór meira að segja í nokkrar kirkjur. En ég fékk ekki svör við spurningum mínum.

Hvers vegna lagðirðu raunvísindin fyrir þig?

Ég hafði gaman af stærðfræði og það heillaði mig hvernig lögmál efnis- og eðlisfræðinnar ráða uppbyggingu alls. Allt fylgir ákveðnum lögmálum, frá því gríðarstóra í alheiminum niður í agnarsmáar örverur. Mig langaði til að skilja þessi lögmál.

Hvers vegna varstu sannfærð um að lífið hefði þróast?

Mér var ekki kennt neitt annað. Þróunarkenningin var það eina sem ég fékk að heyra gegnum öll skólaárin. Og þar sem ég stundaði líffræðirannsóknir var gert ráð fyrir að ég tryði á þróun.

Þar sem ég stundaði líffræðirannsóknir var gert ráð fyrir að ég tryði á þróun.

Hvers vegna fórstu að lesa Biblíuna?

Ég flutti til Þýskalands árið 1996 til að fara í áframhaldandi nám. Árið eftir hitti ég konu að nafni Simone sem var vottur Jehóva. Hún bauðst til að sýna mér hvernig Biblían  gæti svarað spurningum mínum. Áhugi minn vaknaði þegar hún sagði mér að Biblían segði hver væri tilgangur lífsins. Ég fór á fætur klukkan hálffimm á hverjum morgni til að lesa í klukkustund í Biblíunni og fór síðan í göngutúr til að hugleiða efnið. Ég las alla Biblíuna á einu ári. Ég var hrifin af nákvæmni biblíuspádómanna. Smám saman sannfærðist ég um að Biblían væri orð Guðs.

Hverju veltirðu fyrir þér um upphaf lífsins?

Ég byrjaði að velta þessu fyrir mér fyrir alvöru seint á tíunda áratugnum. Þá voru sameindalíffræðingar byrjaðir að átta sig á að efnafræði lífsins er mun flóknari en menn höfðu haldið. Vísindamenn höfðu jú lengi vitað að prótín frumna eru flóknustu efnasamböndin sem fyrirfinnast. En nú voru þeir að uppgötva hvernig heilir prótínklasar vinna saman eins og smurð vél. Í svona sameindavél geta verið meira en 50 prótín. Og einföldustu frumur þurfa margar slíkar sameindavélar – til að framleiða orku, afrita upplýsingar og stýra aðgangi um frymishimnur.

Að hvaða niðurstöðu komstu?

Ég spurði mig hvernig þessar einstaklega vel hönnuðu sameindavélar hafi orðið til. Á þessu tímabili, þegar menn voru að uppgötva hversu flókin efnasamsetning frumunnar er, veltu fleiri vísindamenn þessari spurningu fyrir sér. Prófessor í lífefnafræði í Bandaríkjunum gaf út bók þar sem hann færði rök fyrir því að sameindavélar frumna séu svo flóknar að þær geti ekki hafa orðið til fyrir tilviljun. Ég var sammála því. Ég hugsaði að lífið hlyti að hafa verið skapað.

Ég spurði mig hvernig þessar einstaklega vel hönnuðu sameindavélar hefðu orðið til.

Hvers vegna ákvaðstu að verða vottur Jehóva?

Það hafði mikil áhrif á mig að Simone skyldi koma 56 kílómetra vegalengd í hverri viku til að fræða mig um Biblíuna þó að hún væri ekki heilsuhraust. Ég komst líka að raun um að sumir vottar voru settir í fangabúðir á nasistatímanum vegna hlutleysis síns. Hugrekki þeirra hafði sterk áhrif á mig. Mig langaði til að líkja eftir vottunum og kærleika þeirra til Guðs.

Hefurðu haft gagn af því að trúa á Guð?

Vinnufélagar mínir segja að ég sé glaðari núna. Áður var ég með minnimáttarkennd vegna þess að ég kem af fátæku fólki svo að ég sagði engum frá því hvar ég ólst upp og ég talaði aldrei um foreldra mína. Af biblíunámi mínu hef ég lært að Guð horfir ekki á stétt eða stöðu fólks. Jesús ólst meira að segja upp í fjölskyldu sem var líklega jafn fátæk og fjölskyldan mín. Núna sé ég um foreldra mína og mér finnst gaman að kynna þá fyrir vinum mínum.