Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Að hemja skapið

Að hemja skapið

VANDINN

„Ég gargaði á systur mína og slengdi hurðinni upp af slíkum krafti að snaginn aftan á henni fór inn í vegginn. Dældin minnti mig stöðugt á hversu barnalega ég hafði hagað mér.“ – Diane. *

„Ég öskraði: ,Þú ert ömurlegur pabbi!‘ og skellti hurðinni. En áður en hún skall aftur sá ég á svipnum á honum að ég hafði sært hann. Ég óskaði þess um leið að ég gæti spólað til baka og tekið aftur það sem ég sagði.“ – Lauren.

Hefurðu verið í sömu sporum og Lauren og Diane? Þá ættirðu að lesa þessa grein.

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Reiðiköst skaða mannorð þitt. „Ég hugsaði einu sinni að aðrir þyrftu bara að sætta sig við skapið í mér,“ segir Briana sem er núna 21 árs. „En svo fór ég að taka eftir að fólk lítur kjánalega út þegar það missir stjórn á sér. Og ég áttaði mig allt í einu á að þannig hlyti ég að líta út í augum annarra.“

Biblían segir: „Uppstökkur maður fremur fíflsku.“ – Orðskviðirnir 14:17, Biblían 1981.

Fólk flýr frá gjósandi eldfjalli. Eins flýr það frá skapvondu fólki.

Reiði fælir fólk frá þér. Daniel er 18 ára. Hann segir: „Þegar maður missir stjórn á sér gerir maður lítið úr sjálfum sér og fellur í áliti annarra.“ Elaine, sem er líka 18 ára, er sama sinnis. „Það er ekki aðlaðandi að vera reiðigjarn,“ segir hún. „Fólk verður bara hrætt við mann.“

Biblían segir: „Leggðu ekki lag þitt við reiðigjarnan mann og eigðu ekki samneyti við hinn skapbráða.“ – Orðskviðirnir 22:24.

Þú getur bætt þig. „Það er ekki alltaf hægt að stjórna því hvernig manni líður,“ segir Sara sem er 15 ára. „En það er hægt að stjórna því hvernig maður bregst við. Maður þarf ekki að tapa sér.“

Biblían segir: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.“ – Orðskviðirnir 16:32.

 HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Settu þér markmið. Ekki segja: „Svona er ég bara.“ Reyndu frekar að bæta þig og settu þér ákveðin tímamörk – til dæmis hálft ár. Fylgstu með framförum þínum á þessu tímabili. Í hvert skipti sem þú missir stjórn á þér skaltu skrifa niður þrennt: (1) hvað gerðist, (2) hvernig þú brást við og (3) hvernig hefði verið betra að bregðast við og hvers vegna. Einsettu þér síðan að bregðast betur við næst þegar þú finnur reiðina krauma. Mundu líka eftir að fylgjast með framförum þínum. Skrifaðu niður hvernig þér líður þegar þér tekst að hafa stjórn á skapinu. – Ráðlegging Biblíunnar: Kólossubréfið 3:8.

Teldu upp á tíu. Þegar einhver eða eitthvað kemur þér í uppnám skaltu ekki segja það fyrsta sem kemur upp í hugann heldur staldra aðeins við. Dragðu djúpt andann ef það hjálpar. Erik, sem er 15 ára, segir: „Að anda djúpt gefur mér tíma til að hugsa áður en ég segi eða geri eitthvað sem ég sé síðan eftir.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 21:23.

Sjáðu hlutina frá öðrum sjónarhóli. Stundum reiðistu ef til vill af því að þú sérð bara aðra hlið málsins – þína hlið. Reyndu að skilja hina hliðina á málinu. „Jafnvel þegar fólk er mjög ruddalegt er oftast ástæða fyrir því,“ segir ung kona að nafni Jessica. „Og þegar maður veit hver hún er getur maður sýnt smá skilning.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 19:11.

Gakktu í burtu ef nauðsyn krefur. Í Orðskviðunum 17:14 erum við hvött til að láta af deilu áður en rifrildi hefst. Stundum er best að ganga í burtu þegar aðstæður verða rafmagnaðar. Og í staðinn fyrir að velta sér upp úr málinu og leyfa reiðinni að krauma innra með sér er gott að gera eitthvað sem reynir á líkamann. „Mér finnst líkamleg hreyfing draga úr streitu og hjálpa mér að hafa stjórn á skapinu,“ segir ung kona sem heitir Danielle.

Lærðu að sleppa takinu. Biblían segir: „Skelfist en syndgið ekki, hugleiðið þetta ... og verið hljóðir.“ (Sálmur 4:5) Það er ekki rangt að finna til reiði. Spurningin er: Hvað gerist svo? „Ef þú leyfir öðrum að koma þér í uppnám fá þeir ákveðið vald yfir þér,“ segir ungur maður að nafni Richard. „Það er betra að sýna þroska og láta málið ekki á sig fá.“ Ef þú gerir það stjórnar þú reiðinni en lætur hana ekki stjórna þér.

^ gr. 4 Sumum nöfnum í greininni er breytt.