Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við hjálpað fólki með kvíðaraskanir?

Hvernig getum við hjálpað fólki með kvíðaraskanir?

Hvernig getum við hjálpað fólki með kvíðaraskanir?

„Ég fæ oft mjög hraðan hjartslátt, finn fyrir köldum svita og á erfitt með að ná andanum. Ég kemst í uppnám og verð ringluð og buguð af ótta og kvíða.“ – Isabella, kona á fimmtugsaldri sem þjáist af ofsakvíða.

HÆGT er að skýra kvíða á þann hátt að við finnum fyrir óöryggi eða áhyggjum. Hefur þú einhvern tíma lent í því að horfast í augu við grimman hund og verða taugatrekktur? Hvað gerist svo þegar hundurinn fer burt? Hverfur ekki óttinn og kvíðinn? En hvað er þá kvíðaröskun?

Þegar ótti og kvíði eru langvarandi og hverfa ekki þrátt fyrir að engu sé að kvíða getur orðið til ákveðin geðröskun. Haft er eftir Bandarísku geðheilsustofnuninni: „Ár hvert þjást 40 milljónir Bandaríkjamanna, 18 ára og eldri, af kvíðaröskunum.“ Tökum sem dæmi Mary sem vitnað var til í upphafi greinarinnar. Endalaus kvíði, eins og hún þjáist af, getur haft alvarlegar afleiðingar.

Ef einhver á við kvíðaraskanir að stríða getur það haft veruleg áhrif á aðra í fjölskyldunni. Það eru þó ekki öll sund lokuð. Í bæklingi gefnum út af Bandarísku geðheilsustofnuninni stendur: „Til eru árangursríkar meðferðir, og rannsóknir eru sífellt að leiða í ljós nýjar meðferðir sem geta hjálpað flestum sem þjást af kvíðaröskunum að lifa skapandi og innihaldsríku lífi.“

Fjölskylda og vinir geta líka hjálpað þeim sem þjást af kvíðaröskunum. Hvernig geta þeir gert það?

Hvernig geturðu hjálpað?

Veittu stuðning: Monica þjáist af almennri kvíðaröskun og áfallastreituröskun. Hún segir um vandann sem hún þarf að kljást við: „Flestir eiga erfitt með að skilja tilfinningaleg vandamál mín.“

Þeir sem þjást af kvíðaröskunum eru þess vegna oft hræddir um að aðrir misskilji þá og reyna því að fela vandann. Þetta getur valdið sektarkennd sem gerir þeim jafnvel enn erfiðara fyrir. Það skiptir þess vegna ákaflega miklu máli að fjölskylda og vinir veiti þeim stuðning.

Aflaðu þér upplýsinga um vandann: Þetta á sérstaklega við um þá sem eiga náin samskipti við einhvern sem þjáist af kvíðaröskun. Það gæti verið einhver úr fjölskyldunni eða mjög góður vinur.

Hughreystið hvert annað: Á fyrstu öld sagði trúboðinn Páll vinum sínum í grísku borginni Þessaloníku: „Hvetjið því og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ (1. Þessaloníkubréf 5:11) Við getum gert það bæði með orðum okkar og raddblæ. Vinir okkar þurfa að finna að okkur þyki innilega vænt um þá og við verðum að gæta þess að gefa ekki eitthvað í skyn sem særir þá.

Hugsaðu um hina þrjá svokölluðu vini Jobs. Söguna finnum við í biblíubók sem ber nafn hans. Eins og þú kannski manst gáfu þeir í skyn að Job væri að reyna að fela syndir sínar og það væri þess vegna sem hann þjáðist.

Verum heldur næm á tilfinningar þeirra sem þjást. Hlustaðu vel. Reyndu að sjá málin sömu augum og sá sem þjáist en ekki með þínum eigin augum. Ekki draga fljótfærnislegar ályktanir á meðan þú hlustar. Það gerðu „vinir“ Jobs en með hvaða afleiðingum? Þeir eru kallaðir „þreytandi huggarar“ og þeir gerðu bara illt verra. – Jobsbók 16:2.

Mundu að hlusta með athygli á þá sem þjást. Gefðu þeim tækifæri til þess að útskýra hvernig þeim líður. Það gefur þér kannski betri skilning á því sem þeir eru að ganga í gegnum. Og hugsaðu þér ávinninginn. Þú gætir ef til vill hjálpað þeim sem þjást að njóta innihaldsríkara lífi.

[Rammi/​Mynd á bls. 27]

Kvíðaraskanir af ýmsu tagi

Það er nauðsynlegt að skilja hvað kvíðaraskanir eru, sér í lagi ef einhver í fjölskyldunni eða náinn vinur þjáist af þeim. Við skulum líta á fimm slíkar raskanir.

Ofsakvíði Munum eftir Isabellu sem tjáði sig í upphafi greinarinnar. Henni finnst hún ekki bara eiga við vandamál að stríða þegar hún fær kvíðaköst. „Þeirra á milli er alltaf óttinn um að þau komi aftur,“ segir hún. Margir reyna þess vegna að forðast staði þar sem þeir hafa fengið kvíðakast. Sumir eru jafnvel svo langt leiddir að þeir fara ekki út úr húsi eða geta ekki tekist á við aðstæður sem þeir hræðast nema einhver sé með þeim sem þeir treysta vel. Isabella heldur áfram og segir: „Bara það að vera ein er nóg til þess að hrinda af stað kvíðakasti. Móðir mín veitir mér öryggi. Ég þoli ekki við ef hún er ekki nærri.“

Áráttu- og þráhyggjuröskun Sá sem hefur miklar áhyggjur af sýklum og óhreinindum getur myndað áráttu eins og þá að þurfa sífellt að þvo sér um hendurnar. Maður að nafni Renan segir um áráttu af svipuðu tagi: „Hugurinn er í endalausu uppnámi þar sem ég rifja sífellt upp mistök sem mér hafa orðið á og skoða þau ofan í kjölinn frá öllum mögulegum sjónarhornum.“ Þetta leiðir til áráttu sem snýst um að viðurkenna mistök sín margoft fyrir öðrum. Renan þarf stöðugt að fullvissa sig um að allt sé í lagi. En hann hefur þó náð að hafa stjórn á þessari árátturöskun með hjálp lyfja. *

Áfallastreituröskun Þetta hugtak hefur í seinni tíð verið notað um margvísleg geðræn einkenni sem fólk getur fundið fyrir eftir að hafa orðið fyrir alvarlegu áfalli samfara líkamstjóni eða hættu á líkamstjóni. Þeim sem þjást af áfallastreituröskun bregður auðveldlega, þeir verða skapstyggir, tilfinningalega dofnir, missa áhuga á því sem gladdi þá áður og eiga oft erfitt með að sýna ástúð, sérstaklega fólki sem var þeim nákomið. Sumir verða árásargjarnir eða ofbeldisfullir og reyna að forðast aðstæður sem minna þá á áfallið sem þeir upplifðu.

Félagsfælni eða félagskvíði Þessi hugtök lýsa einstaklingum sem eru óeðlilega kvíðnir og feimnir í daglegum samskiptum við aðra. Sumum þeirra finnst eins og aðrir séu að fylgjast með þeim og dæma þá og eru því haldnir ógurlegum ótta. Áður en þeir mæta til ákveðins viðburðar kvíða þeir kannski fyrir í marga daga eða vikur. Kvíðinn getur magnast svo að hann fer að koma niður á vinnunni, skólanum eða öðrum daglegum athöfnum. Þetta gerir þeim erfitt fyrir að eignast og eiga vini.

Almenn kvíðaröskun Monica, sem rætt var um fyrr í greininni, á við slíka röskun að glíma. Hún er óeðlilega áhyggjufull alla daga þrátt fyrir að það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir sem þjást af almennri kvíðaröskun eiga það til að sjá fyrir sér óhöpp og hafa óþarfa áhyggjur af heilsuvandamálum, peningum og erfiðleikum í fjölskyldunni eða vinnunni. Tilhugsunin um að þrauka út daginn getur hrint af stað kvíðakasti. *

[Neðanmáls]

^ Vaknið! mælir ekki sérstaklega með ákveðinni læknismeðferð.

^ Þetta efni er byggt á riti frá Bandarísku geðheilbrigðisstofnuninni sem heyrir undir Heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið þar í landi.

[Mynd á bls. 26]

„Hvetjið því og uppbyggið hvert annað.“