Samskiptasíður — fjórar spurningar sem þú ættir að spyrja um samskiptasíður
Samskiptasíður — fjórar spurningar sem þú ættir að spyrja um samskiptasíður
Ýmsar hættur felast í því að nota samskiptasíður, rétt eins og að nota Netið almennt. * Með það í huga skaltu velta eftirfarandi spurningum fyrir þér.
1 Hvernig hefur notkun á samskiptasíðum áhrif á einkamál mín?
„Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.“ – Orðskviðirnir 10:19.
Hvað ættirðu að vita? Ef þú ert ekki varkár gætirðu látið of mikið í ljós með persónuupplýsingum og myndum. Hið sama gæti gerst þegar þú uppfærir stöðuna (skrifar stutt skilaboð sem berast til allra á vinalistanum þínum) og gefur athugasemdir (svarar þeim sem hafa uppfært stöðuna hjá sér). Þannig gefurðu ef til vill til kynna hvar þú býrð, hvenær þú ert heima (og hvenær ekki), hvar þú vinnur eða hvar þú sækir skóla. Heimilisfang þitt og stutt athugasemd eins og: „Við skreppum í frí á morgun!“ er nóg til að segja þjófi hvert hann á að fara og hvenær.
Aðrar upplýsingar, eins og netfangið þitt, fæðingardagurinn eða símanúmerið, geta gert þig berskjalda fyrir áreitni, einelti og auðkennisþjófnaði. Samt gefa margir fúslega slíkar upplýsingar á samskiptasíðunum.
Fólk á það til að gleyma að þegar það setur eitthvað á Netið er það öllum aðgengilegt. Jafnvel þótt fólk tilgreini að eingöngu þeir sem eru á vinalistanum geti séð uppfærslur þess getur það ekki stjórnað því hvað vinirnir gera við þessar upplýsingar. Fólk ætti eiginlega að líta svo á að allt sem sett er inn á samskiptasíður sé á almannafæri eða geti auðveldlega orðið það.
Hvað geturðu gert? Kynntu þér vel friðhelgisstillingarnar á samskiptasíðunni og notaðu þær. Leyfðu aðeins þeim sem þú þekkir og treystir að hafa aðgang að uppfærslum þínum og myndum.
Þótt þú gerir það þarftu að hafa í huga að fleiri gætu séð það sem þú setur inn en þú hafðir ætlast til. Farðu reglulega yfir síðuna þína og veltu fyrir þér hvort óheiðarlegt fólk gæti notað einhverjar af upplýsingunum til að vita hvar þú ert eða til auðkennisþjófnaðar. Þú ættir ekki einu sinni að gefa vinum þínum upplýsingar sem gætu brotið gegn friðhelgi einkalífs þíns eða annarra. (Orðskviðirnir 11:13) Notaðu aðrar samskiptaleiðir ef þú þarft að gefa viðkvæmar upplýsingar. Kona, sem heitir Cameron, segir: „Það er mun persónulegra að tala í síma og býður ekki eins mörgum hættum heim.“
Kjarni málsins. Kona, sem heitir Kim, komst vel að orði þegar hún sagði: „Ef þú gætir þín þegar þú ert á samskiptasíðum geturðu haldið ákveðnum upplýsingum út af fyrir þig. Vandamál koma ekki upp nema þú leyfir það.“
2 Hvernig hefur notkun á samskipasíðum áhrif á tíma minn?
„Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – Filippíbréfið 1:10.
Hvað ættirðu að vita? Við getum eytt miklum tíma á samskiptasíðum og það getur dregið athyglina frá mikilvægari verkum. Ung kona, Kay að nafni, segir: „Því fleiri sem eru á vinalista þínum því meiri tíma eyðirðu á samskiptasíðum og þeim mun auðveldara er að ánetjast þeim.“ Sumum hefur liðið eins og þeir væru fastir í gildru. Skoðaðu það sem nokkrir þeirra segja.
„Jafnvel þó að manni finnist stundum ekkert gaman að vera á samskiptasíðunni er erfitt að hætta. Þetta er nánast eins og fíkn.“ – Elise.
„Það er svo margt hægt að gera, fara í leiki, taka sjálfspróf og fara inn á aðdáendasíður tónlistarmanna, svo ekki sé talað um að skoða síður allra vina sinna.“ – Blaine.
„Þú sogast inn í hringiðu og veist ekki einu sinni af því fyrr en mamma þín birtist í dyrunum og spyr hvers vegna þú sért ekki búin að vaska upp.“ – Analise.
„Ég var farin að flýta mér heim úr skólanum bara til að geta skoðað hverjir hefðu skrifað athugasemdir við það sem ég hafði sett inn. Síðan þurfti ég að svara þeim öllum og skoða allar myndir sem þeir höfðu sett inn. Ég komst í vont skap þegar ég var á Netinu og þoldi ekki að einhver truflaði mig. Sumir sem ég þekki eru nánast alltaf á samskiptasíðum, meira að segja þegar þeir eru í heimsókn hjá öðrum, og á undarlegustu tímum á nóttinni.“ – Megan.
Hvað geturðu gert? Tíminn er dýrmætur og þú hefur ekki efni á að sóa honum. Væri því ekki gott að ráðstafa honum vel, eins og þú myndir gera með peninga? Byrjaðu á því að skrifa niður hve mikinn tíma þér finnst eðlilegt að nota á samskiptasíðum. Fylgstu svo með notkun þinni í mánuð til að sjá hvort þú haldir þig við áætlunina. Breyttu venjum þínum ef þörf er á til að geta náð settu marki.
Ef þú átt börn á unglingsaldri, sem nota of mikinn tíma á samskiptasíðum, reyndu þá að komast að því hvort einhverjar ástæður liggi að baki. Nancy E. Willard bendir til dæmis á að of mikil notkun á samskiptasíðum geti tengst áhyggjum, streitu og lélegu sjálfsmati. „Mörgum unglingum er mjög umhugað um hvernig þeir standa félagslega,“ skrifar hún. „Ef unglingar meta félagslyndi sitt eftir því hversu virkir þeir eru í rafrænum samskiptum við vini er mun líklegra að þeir ánetjist.“ – Cyber-Safe Kids, Cyber-Savvy Teens.
Láttu aldrei samskiptasíður – eða nokkuð annað á Netinu ef út í það er farið – koma í veg fyrir að þú styrkir tengslin innan fjölskyldunnar. Don Tapscott skrifar í bók sinni Grown Up Digital: „Það er hálfdapurlegt til þess að hugsa að á sama tíma og netnotkun auðveldar samskipti við þá í fjölskyldunni, sem eru langt frá manni, getur hún skapað vissa fjarlægð innan veggja heimilisins.“
Kjarni málsins. Emily, sem er 17 ára, segir: „Mér finnst samskiptasíður vera frábær leið til að halda sambandi við fólk. En eins og í öllu öðru þarf maður að vita hvenær á að hætta.“
3 Hvernig hefur notkun á samskiptasíðum áhrif á mannorð mitt?
„Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður.“ – Orðskviðirnir 22:1.
Hvað ættirðu að vita? Það sem þú setur inn á samskiptasíðu gefur ákveðna mynd af þér og það getur verið erfitt að breyta henni. (Orðskviðirnir 20:11; Matteus 7:17) Þetta er hætta sem virðist fara fram hjá mörgum. „Það er eins og fólk hætti að hugsa skynsamlega þegar það er á samskiptasíðum,“ segir ung kona sem heitir Raquel. „Fólk segir hluti sem það myndi aldrei segja annars. Sumir skilja ekki að ein ógeðfelld athugasemd getur eyðilagt mannorð þeirra.“
Það getur haft langvarandi afleiðingar að fá flekkað mannorð á samskiptasíðu. Í bókinni Grown Up Digital stendur: „Ótal sögur fara af því að fólk missi vinnuna eða að atvinnuumsókn sé hafnað vegna þess sem það hefur sett inn á samskiptasíður.“
Hvað geturðu gert? Skoðaðu síðuna þína og hugsaðu um hvað öðrum myndi finnast ef þeir skoðuðu hana. Veltu þessum spurningum fyrir þér: Er það svona sem ég vil að aðrir líti á mig? Ef einhver skoðaði myndirnar á síðunni minni og ætti svo að lýsa mér út frá þeim, hvaða orð kæmu líklega fyrst upp í huga hans? „Daðrari“, „kynþokkafullur“ eða „skemmtanafíkill“? Ef svo er, er það myndin sem ég vil að aðrir fái af mér, til dæmis þegar ég sæki um vinnu og verðandi yfirmaður minn skoðar síðuna? Gefa þessar myndir til kynna hver séu raunveruleg gildi mín í lífinu?
Ef þú ert ungur að árum ættirðu að spyrja þig: Yrði ég vandræðalegur ef foreldrar mínir, kennari eða aðrir fullorðnir, sem ég ber virðingu fyrir, gætu séð síðuna mína?
Kjarni málsins. Þegar mannorð þitt á í hlut ættirðu að muna eftir orðum Páls postula: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ – Galatabréfið 6:7.
4 Hvernig hefur notkun á samskiptasíðum áhrif á val mitt á vinum?
„Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ – Orðskviðirnir 13:20.
Hvað ættirðu að vita? Vinir þínir hafa bæði áhrif á hvernig þú hugsar og hvað þú gerir. (1. Korintubréf 15:33) Það skiptir því augljóslega máli að þú vandir val þitt á vinum á samskiptasíðum. Sumir samþykkja tugi eða jafnvel hundruð vinabeiðna frá fólki sem það þekkir varla eða ekki neitt. Aðrir hafa uppgötvað að sumir á vinalista þeirra eru ekki góður félagsskapur. Skoðaðu það sem nokkrir hafa sagt.
„Ef maður samþykkir vinabeiðnir frá hvaða Pétri og Páli sem er mun það örugglega enda með vandræðum.“ – Analise.
„Margir sem ég þekki bæta við vinum sem þeir vildu eiginlega ekki hafa á vinalistanum, en þeir segjast ekki vilja særa þá með því að hafna vinabeiðninni.“ – Lianne.
„Þetta er alveg eins og þegar maður umgengst fólk. Maður þarf að vanda valið á vinum.“ – Alexis.
Hvað geturðu gert? Settu þér ákveðin mörk við val á vinum. Sumir sem hafa gert það hafa þetta að segja: *
„Ég leyfi bara fólki sem ég þekki vel að vera á vinalistanum mínum en ekki þeim sem ég bara kannast við.“ – Jean.
„Ég samþykki bara vini sem ég hef þekkt lengi og bæti aldrei ókunnugum á listann.“ – Monique.
„Ég bæti helst bara við vinum sem ég þekki frekar vel og hafa sömu lífsreglur og ég.“ – Rae.
„Ef ég fæ vinabeiðni frá einhverjum sem ég þekki ekki hunsa ég hana. Það er ekki flóknara en svo. Allir á vinalistanum er fólk sem ég þekki og hef kynnst annars staðar en á Netinu.“ – Marie.
„Ef vinur fer að senda mér myndir eða uppfærslur, sem mér líst ekki á, finnst mér ekki erfitt að eyða honum út af listanum. Þó að maður skoði bara það sem þeir setja inn er það slæmur félagsskapur.“ – Kim.
„Þegar ég var með samskiptasíðu takmarkaði ég mjög aðgang að síðunni minni með friðhelgisstillingum. Ég leyfði bara vinum mínum að sjá athugasemdir og myndir frá mér. Vinir þeirra gátu ekki séð þær. Þetta gerði ég vegna þess að mér fannst ég ekki geta treyst því að vinir vina minna væru góður félagsskapur fyrir mig. Ég þekkti þá ekki og vissi ekki hvaða orð þeir höfðu á sér.“ – Heather.
Kjarni málsins. Dr. Gwenn Schurgin O’Keeffe skrifar í bók sinni CyberSafe: „Það er góð regla að hafa einungis fólk á vinalistanum sem þú þekkir og hefur kynnst annars staðar en á Netinu.“ *
[Neðanmáls]
^ Vaknið! mælir hvorki með né fordæmir ákveðnar samskiptasíður. Kristnir einstaklingar ættu að ganga úr skugga um að þeir brjóti ekki gegn meginreglum Biblíunnar þegar þeir eru á Netinu. – 1. Tímóteusarbréf 1:5, 19.
^ Í þessari grein er rætt um vináttusambönd, ekki sambönd vegna viðskipta.
^ Finna má fleiri upplýsingar um samskiptasíður í Vaknið! október-desember 2011, bls. 12-15 og janúar-mars 2012, bls. 14-17.
[Rammi á bls. 8]
SKRÁÐU ÞIG ÚT!
Ef þú skráir þig ekki út þegar þú ferð frá tölvunni gætu aðrir sett eitthvað inn á síðuna þína. Lögfræðingurinn Robert Wilson heldur því fram að þetta sé „svipað og að skilja eftir veskið sitt eða farsímann á almannafæri. Hver sem er getur sest við tölvuna og skrifað á vegginn þinn.“ Hann hvetur því alla til að muna eftir að skrá sig út.
[Rammi á bls. 8]
ERTU AÐ BJÓÐA HÆTTUNNI HEIM?
Könnun, sem gerð var af blaðinu Consumer Reports, leiddi í ljós að margir sem nota samskiptasíður „taka áhættu sem gerir þá berskjalda fyrir innbrotum, auðkennisþjófnaði og að njósnað sé um þá. Fimmtán prósent höfðu skrifað á síðuna sína hvar þeir væru staddir eða hvert þeir ætluðu, 34 prósent höfðu gefið upp kennitöluna sína og 21 prósent þeirra sem áttu börn höfðu gefið upp nöfn þeirra og sett inn myndir af þeim.“