Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum ánægð með litarhátt okkar

Verum ánægð með litarhátt okkar

Verum ánægð með litarhátt okkar

● Í Afríku, Suður-Asíu, Austurlöndum nær og á Karíbaeyjum tengja sumir velmegun og tísku við ljósan litarhátt. Töluverður fjöldi karla og kvenna á þessum slóðum notar þar af leiðandi efni til að lýsa húðina. En stundum getur það orðið dýrkeypt fyrir heilsuna.

Sum húðlýsandi krem innihalda hydrókínón en það er bleikiefni sem bælir niður framleiðslu litarefnisins melaníns. Þar með dregur úr eðlilegri vörn húðarinnar gegn skaðlegri útfjólublárri geislun. Hydrókínón fer inn í húðina og getur valdið óbætanlegu tjóni á bandvef. Það leiðir til þess að húðin hrörnar um aldur fram. Efnið getur einnig valdið krabbameini. Önnur krem innihalda kvikasilfur sem er einnig eitrað.

Stöðug notkun á þessum vörum getur enn fremur haft í för með sér slæm útbrot og ljótar skellur, og húðin verður svo veikburða að ekki er hægt að sauma saman skurð. Komist efnin í sumum þessara snyrtivara inn í blóðrásina geta þau skaðað lifrina, nýrun eða heilann — jafnvel valdið líffærabilun.

Það er kaldhæðnislegt að suma, sem eru með dökkt hörund, skuli langa til að lýsa húðina, en margir með ljóst hörund skuli leggja mikið á sig til að verða sem sólbrúnastir. Það getur vissulega verið heilsusamlegt að njóta sólarljóssins í hófi. Það getur til dæmis auðveldað framleiðslu á D-vítamíni. En það getur verið skaðlegt að láta sólina skína á sig í langan tíma, sérstaklega þegar hún er hátt á lofti. Sólbrúnka bendir reyndar til þess að húðin hafi þegar beðið tjón og sé að reyna að verja sig fyrir frekari útfjólublárri geislun. En þeirri vörn eru takmörk sett. Dökk sólbrúnka á ljósri húð veitir til dæmis ekki meiri sólvörn en sólarkrem með varnarstuðli fjögur. Þótt það sé til bóta að nota sólvörn að staðaldri kemur það ekki fullkomlega í veg fyrir að húðin skemmist og hætta er á vissri tegund krabbameins, meðal annars sortuæxli.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur því til að menn „styrki þau boð að allir ættu að vera ánægðir með litarhátt sinn“. Þá „sé stigið mikilvægt skref í þá átt að verjast skaðlegum áhrifum sólar“. En þeir sem eru skynsamir beina athyglinni að því sem í Biblíunni er kallað „hinn huldi maður hjartans“. Hann getur nefnilega bætt sig með aldrinum, ólíkt hrörnandi húð. — 1. Pétursbréf 3:3, 4; Orðskviðirnir 16:31.