Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hamingjusamur þrátt fyrir alvarlega fötlun

Hamingjusamur þrátt fyrir alvarlega fötlun

Hamingjusamur þrátt fyrir alvarlega fötlun

José Godofredo Várguez segir frá

Ég fæddist heilbrigður og ólst upp við venjulegar aðstæður. Þegar ég var 17 ára fór ég að vinna sem iðnaðarmaður við málmsuðu. Tveim árum síðar var ég að vinna við málmsuðu á vinnupalli nálægt háspennulínum þegar fór að rigna. Skyndilega varð ég fyrir gríðarlega sterkum rafstraumi og féll við það 14 metra niður á jörðina. Ég missti meðvitund við höggið og lá í dái í þrjá mánuði. Ég var lamaður á höndum og fótum. Höfuðið var það eina sem ég gat hreyft. Ég var niðurbrotinn.

Í FYRSTU var ég reiður Guði og spurði hvers vegna hann léti mig lifa. Ég hugleiddi jafnvel að svipta mig lífi. Ég leitaði á náðir nokkurra trúfélaga en fann þar hvorki huggun né svör sem uppfylltu trúarþörf mína. Fólk var ekki einu sinni hvatt til að lifa í samræmi við kenningar Biblíunnar og meginreglur hennar. Þegar móðir mín lést árið 1981 fór ég að drekka og stunda fjárhættuspil. Mér fannst að Guð hlyti að sjá aumur á mér vegna ástands míns og fyrirgæfi mér drykkjuskapinn. Ég fór einnig að lifa siðlausu lífi og bjó með konu í óvígðri sambúð.

Viðhorf mín gerbreytast

Ég hitti votta Jehóva í fyrsta skipti þegar ég var 37 ára. Móðir mín hafði látið sögusagnir hafa áhrif á sig og alltaf sagt að Vottarnir væru verstir allra trúfélaga. Ég bauð þeim samt inn í þeim eina tilgangi að sanna að þeir hefðu rangt fyrir sér því að ég hélt mig þekkja heilmikið til Biblíunnar. En mér til undrunar komst ég að því að ég vissi frekar lítið. Það sem meira var komu gestirnir mér á óvart með því að þeir flettu upp í Biblíunni til að svara öllum spurningum mínum. Ég sannfærðist brátt um að ég hefði fundið sannleikann.

Sambýliskona mín hafnaði því miður sannleikanum sem ég hafði fundið og við hættum að búa saman. Ég hélt áfram að bæta líferni mitt og breyta hugsun minni og viðhorfum í samræmi við kenningar Biblíunnar. Með hjálp Guðs hef ég líka getað aðlagast, bæði andlega og tilfinningalega, þeim skaða sem hlaust af slysinu. Síðastliðin 20 ár hef ég notið þess að boða trúna í fullu starfi. Margir undrast að ég skuli ráða við það þegar litið er til fötlunar minnar. En ég er ekki einn. Ég bý með Ubaldo, yngri bróður mínum, sem er með Downs-heilkenni. Hann hefur líka tekið á móti sannleika Biblíunnar og þjónar Jehóva með mér.

Við vinnum vel saman og lítum hvor eftir öðrum. Þegar við förum í boðunarstarfið ekur hann hjólastólnum og ber að dyrum fyrir mig. Þegar ég ræði við húsráðendur heldur hann á Biblíunni og sýnir viðeigandi rit. Hann aðstoðar mig einnig við líkamlegar þarfir á öðrum sviðum. Aftur á móti sé ég fyrir okkur með því að selja snyrtivörur. Þar að auki fáum við hjálp frá trúsystkinum okkar í söfnuði Votta Jehóva með matreiðslu, húsverk og læknisheimsóknir. Við Ubaldo eru mjög þakklátir fyrir það.

Ég hef fengið það verkefni að þjóna sem öldungur í kristna söfnuðinum og trúbræður mínir eru alltaf fúsir til að hjálpa mér að rannsaka biblíuleg málefni. Ég get strikað undir mikilvæg atriði í biblíunámsritum með því að halda á blýanti í munninum.

Þegar fólk spyr mig hvort ég sé hamingjusamur svara ég alltaf játandi af öllu hjarta. Hvernig gæti ég annað? Ég hef fundið sannan tilgang í lífinu og ég hlakka til þess að hin dásamlega von rætist sem Guð veitir trúföstum tilbiðjendum sínum, að hljóta fullkomna heilsu í paradís á jörð. — Jesaja 35:5, 6; Lúkas 23:43.

[Mynd á bls. 16]

José þegar hann var 18 ára, einu ári fyrir slysið.

[Mynd á bls. 17]

Trúbróðir flettir í Biblíunni fyrir mig þegar ég held ræðu í ríkissalnum.

[Mynd á bls. 17]

Við Ubaldo, bróðir minn, vinnum vel saman í boðunarstarfinu í Mexíkó.

[Mynd á bls. 17]

Trúsystkini í söfnuðinum hjálpa til við matreiðslu og heimilisstörf.