Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Í umburðarbréfi Benedikts páfa sextánda segir: „Brýn þörf er talin . . . á umbótum hjá Sameinuðu þjóðunum og sömuleiðis hjá hagfræðistofnunum og fjármálakerfi heims til að alvara verði úr þeirri hugmynd að þjóðir heims séu ein fjölskylda.“ — L’OSSERVATORE ROMANO; leturbreyting þeirra.

„Þriðji hver Úkraínubúi reykir um einn pakka af sígarettum á dag.“ — EXPRESS, ÚKRAÍNU.

44 prósent unglingspilta í Bandaríkjunum, sem spurðir voru, sögðust hafa „séð nektarmynd af að minnsta kosti einni skólasystur á vefnum eða í farsíma“. — TIME, BANDARÍKJUNUM.

„Nöturlegur áfangi“

Stríð, þurrkar, pólitískur óstöðugleiki, hátt matvælaverð og fátækt hafa orðið til þess að mannkynið hefur náð „nöturlegum áfanga“, að sögn Associated Press. Hinir hungruðu í heiminum eru nú orðnir yfir einn milljarður talsins. „Hungraður heimur er hættulegur heimur,“ að sögn Josette Sheeran hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. „Án matar á fólk aðeins um þrennt að velja: Gera upphlaup, flytjast úr landi eða deyja. Enginn þessara valkosta er viðunandi.“ Þar við bætist að hungruðum fjölgar hraðar en jarðarbúum. Í þróuðum löndum hefur vannærðum meira að segja fjölgað um 15,4 prósent.

Gott að lesa eftir háttinn

Þegar foreldrar lesa fyrir börnin eftir að þau eru komin í háttinn er það ekki bara til að svæfa þau. Vísindamenn segja að lesturinn hraði málþroska barnsins, bæti minnisgáfuna og flýti hreyfiþroska þegar barnið lærir að taka á og fletta blaðsíðunum. „Mestu máli skiptir þó . . . að við upplesturinn eiga foreldri og barn ánægjulega samverustund,“ að því er segir í dagblaðinu The Guardian. „Það styrkir þá tilfinningu að lestur sé ánægjulegur.“ Og prófessor Barry Zuckerman, sem stóð fyrir rannsókninni, segir að „börnin læri með tímanum að hafa yndi af bókum vegna þess að þau lesi þær með manneskju sem þau elska“.

Ánægðar kýr mjólka betur

„Kýr með nafn mjólkar betur en nafnlaus kú,“ að sögn vísindamanna við Newcastle-háskóla á Englandi. Nytin getur aukist um næstum 280 lítra á ári ef kýrin fær einstaklingsbundna athygli. Hver er ástæðan? „Kýr eru ánægðari og afslappaðri ef þær fá svolítið persónulegri athygli, ekki ósvipað og mannfólkið,“ segir dr. Catherine Douglas við landbúnaðar- og matvælasvið háskólans. „Rannsóknir okkar hafa staðfest það sem margir góðir og umhyggjusamir bændur hafa lengi trúað,“ segir hún. „Með því að leggja meiri áherslu á einstaklinginn, til dæmis með því að gefa kúnni nafn eða með því að sinna skepnunni meira eftir því sem hún stækkar, er hægt að bæta velferð hennar og vitund um mennina, og jafnframt auka nytina.“