Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er rökrétt að trúa á Guð?

Er rökrétt að trúa á Guð?

Er rökrétt að trúa á Guð?

HEFURÐU einhvern tíma íhugað af hverju allir hlutir, allt frá öreindum til ógnarstórra vetrarbrauta, stjórnast af nákvæmum stærðfræðilegum lögmálum? Hefurðu velt fyrir þér hve lifandi verur eru fjölbreyttar, flóknar og ótrúlega vel hannaðar? Margir segja að alheimurinn og lífríkið hafi myndast af hreinni tilviljun og síðan þróast. Aðrir segja að stórsnjall skapari hafi verið að verki. Hvor hugmyndin finnst þér skynsamlegri?

Bæði sjónarmiðin byggjast auðvitað á trú. Staðreynd er að „enginn hefur nokkurn tíma séð Guð,“ eins og segir í Biblíunni. (Jóhannes 1:18) Enginn maður sá heldur alheiminn verða til eða lífið kvikna. Enginn hefur nokkurn tíma séð eina tegund lífveru þróast í æðri tegund eða bara aðra tegund. Steingervingarnir sýna að helstu flokkar dýra komu skyndilega fram á sjónarsviðið og hafa verið nánast óbreyttir síðan. * Stóra spurningin er því þessi: Hvor trúin hvílir á traustum grunni — trúin á þróun eða trúin á sköpun?

Er trú þín byggð á haldgóðum rökum?

Í Biblíunni er trú skilgreind sem „sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“. (Hebreabréfið 11:1) Í The New English Bible er talað um að trúin „veiti okkur vissu fyrir veruleika sem við sjáum ekki“. Þú getur eflaust nefnt margt sem þú hefur ekki séð en trúir samt staðfastlega að sé veruleiki.

Lítum á dæmi: Margir virtir sagnfræðingar trúa að Alexander mikli, Júlíus Sesar og Jesús Kristur hafi verið til. Byggja sagnfræðingar þessa trú sína á staðreyndum? Já, því að þeir geta bent á áreiðanlegar sögulegar sannanir.

Vísindamenn trúa líka á margt sem ekki er hægt er að sjá, vegna þess að það er hægt að sanna að það sé til. Rússneski efnafræðingurinn Dmítríj Mendelejev, sem var uppi á 19. öld, heillaðist af innbyrðis sambandi frumefnanna sem allur alheimurinn er gerður úr. Hann áttaði sig á því að frumefnin áttu ýmislegt sameiginlegt og hægt var að raða þeim niður eftir atómþunga og eiginleikum. Mendelejev var sannfærður um að frumefnin röðuðust niður í ákveðna flokka, og á þeim grunni setti hann fram lotukerfið og sagði réttilega fyrir um tilvist nokkurra frumefna sem voru óþekkt á þeim tíma.

Fornleifafræðingar glöggva sig oft á fornum menningarsamfélögum með því að draga ályktanir af munum sem hafa legið í jörð um þúsundir ára. Hugsum okkur til dæmis að fornleifafræðingur hafi komið niður á tugi tilhöggvinna steina. Þeir eru allir nákvæmlega jafn stórir, þeim er hlaðið snyrtilega hver ofan á annan og þeir mynda ákveðið mynstur sem er ekki venja að finnist í náttúrunni. Hvaða ályktun ætli fornleifafræðingurinn dragi? Hugsar hann sem svo að þetta sé hrein tilviljun? Sennilega ekki. Hann túlkar fundinn sem merki um mannlegar athafnir fyrr á öldum og það er líka skynsamleg ályktun.

Til að vera sjálfum okkur samkvæm ættum við þá ekki að hugsa eins um þá margvíslegu hönnun sem blasir við í náttúrunni? Margir hafa tekið þá afstöðu, meðal annars virtir vísindamenn.

Hrein tilviljun eða úthugsuð hönnun?

Fyrir mörgum árum sagði breskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur og stjörnufræðingur, Sir James Jeans að nafni, að í ljósi vaxandi vísindaþekkingar væri „alheimurinn farinn að líta meira út eins og stórfengleg fyrirætlun en stórfengleg vél“. Hann sagði einnig að „alheimurinn virðist hafa verið hannaður af ekta stærðfræðingi“ og að hann beri „merki um hönnun eða stjórnun sem á eitthvað sameiginlegt með okkar eigin hugarheimi“.

Fleiri vísindamenn hafa komist að svipaðri niðurstöðu síðan James Jeans skrifaði þetta. „Heildarskipulag alheimsins hefur vakið þá hugmynd hjá mörgum stjörnufræðingum okkar tíma að hönnun búi að baki,“ skrifar eðlisfræðingurinn Paul Davies. Einn frægasti eðlisfræðingur og stærðfræðingur sögunnar, Albert Einstein, skrifaði: „Að [heimur náttúrunnar] skuli vera skiljanlegur er kraftaverk.“ Í hugum margra er sjálft lífið hluti af þessu kraftaverki, allt frá grunneindum þess til hins undraverða mannsheila.

DNA og mannsheilinn

Kjarnsýran DNA er erfðaefnið í frumum allra lifandi vera og stýrir öllum arfgengum eiginleikum þeirra. * Þessari flóknu kjarnsýru hefur verið líkt við vinnuteikningar eða uppskrift því að hún inniheldur gríðarlega miklar upplýsingar sem eru skráðar með efnafræðilegum hætti og geymdar í sameindaumhverfi sem getur túlkað upplýsingarnar og hrint þeim í framkvæmd. Hve miklar upplýsingar eru geymdar í kjarnsýrunni? Ef grunneiningunum, sem kallast núkleótíð eða kirni, væri breytt í bókstafi myndu þær „fylla meira en milljón blaðsíður í venjulegri bókarstærð“, að sögn heimildarrits.

Í flestum lífverum er kjarnsýrunni DNA komið fyrir á þráðlaga frumulíffærum sem nefnast litningar en þeir eru í öruggu skjóli í kjarna frumunnar. Kjarninn sjálfur er að meðaltali um fimm míkrómetrar í þvermál. * Hugsaðu þér! Allar þær upplýsingar, sem þurfti til að mynda einstakan líkama þinn, eru geymdar í örsmáum knippum sem sjást ekki nema í smásjá. Eins og vísindamaður sagði réttilega hafa lifandi verur „langsamlega fyrirferðarminnsta kerfi til upplýsingageymslu og upplýsingaheimtar sem vitað er um“. Það er með ólíkindum þegar litið er á minnisgetu tölvukubba, mynddiska og þess háttar. Og kjarnsýran hefur trauðla opinberað alla leyndardóma sína enn sem komið er. „Hver ný uppgötvun opinberar nýjar víddir,“ segir í tímaritinu New Scientist. *

Er skynsamlegt og rökrétt að ætla að svona fullkomin hönnun og skipulagning hafi orðið til af hreinni tilviljun? Ef þú rækist á afar tæknilega handbók sem væri milljón blaðsíður og væri skrifuð með skilvirku og fáguðu táknrófi myndirðu varla láta þér detta í hug að hún hafi einhvern veginn skrifað sig sjálf. Og hvað þá ef bókin væri svo smágerð að það þyrfti öfluga smásjá til að lesa hana. Og segjum að hún hefði að geyma nákvæm fyrirmæli um það hvernig ætti að smíða viti borna vél sem gerði við sig sjálf og fjölgaði sér, og vélarhlutarnir skiptu milljörðum og það þyrfti að setja þá alla saman á nákvæmlega réttum tíma og réttan hátt. Engum dytti í hug að slík bók gæti orðið til af algerri tilviljun.

Breski heimspekingurinn Antony Flew var einu sinni ötull talsmaður trúleysis. Eftir að hafa kynnt sér nýjustu rannsóknir á innri starfsemi frumunnar sagði hann: „Það þarf ótrúlega flókið fyrirkomulag til að mynda líf, og það sýnir að vitsmunir hljóta að búa að baki.“ Flew er þeirrar skoðunar að það eigi að „fylgja röksemdunum hvert sem þær leiða mann“. Í hans tilfelli leiddu þær til þess að hann skipti algerlega um skoðun og trúir nú á Guð.

Mannsheilinn vekur líka lotningu margra vísindamanna. Heilinn hefur verið kallaður „flóknasti hluturinn í alheiminum“ og það er kjarnsýran sem stýrir vexti hans og þroska. Öflugustu ofurtölvur eru hreinlega frumstæðar í samanburði við þennan grábleika köggul sem vegur ekki nema um eitt og hálft kílógramm og er gerður úr taugungum og fleiru. Taugasérfræðingur telur að því fleira sem vísindamenn uppgötvi varðandi heilann og hugann „því stórfenglegri og óskiljanlegri verði hann“.

Hugsaðu málið: Heilinn gerir okkur kleift að anda, hlæja, gráta, leysa þrautir, smíða tölvur, hjóla, yrkja ljóð og horfa til himins að nóttu með djúpri lotningu. Er skynsamlegt og rökrétt að álíta að þessir hæfileikar hafi myndast við tilviljunarkennda þróun? Erum við sjálfum okkur samkvæm ef við höldum því fram?

Trú byggð á rökum

Til að skilja sjálf okkur, eigum við þá að horfa niður til apanna og annarra dýra eins og þróunarsinnar gera? Eða eigum við að horfa upp til Guðs í leit að svörum? Við eigum vissulega margt sameiginlegt með dýrunum. Við þurfum að borða, drekka og sofa, svo dæmi séu tekin, og við getum aukið kyn okkar. Við erum samt einstök á marga vegu. Heilbrigð skynsemi segir okkur að hin mannlegu einkenni séu ættuð frá veru sem er æðri en við, það er að segja frá Guði. Þetta er orðað stutt og laggott í Biblíunni þar sem segir að Guð hafi skapað manninn „eftir sinni mynd“ í andlegum og siðferðilegum skilningi. (1. Mósebók 1:27) Er ekki ástæða til að velta fyrir sér eiginleikum Guðs eins og þeim sem nefndir eru í 5. Mósebók 32:4, Jakobsbréfinu 3:17, 18 og 1. Jóhannesarbréfi 4:7, 8?

Skaparinn hefur gefið okkur skilning til að rannsaka umheiminn og finna fullnægjandi svör við spurningum okkar. (1. Jóhannesarbréf 5:20) Eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn William D. Phillips sagði um þetta: „Þegar ég skoða regluna í alheiminum, fegurð hans og það hve skiljanlegur hann er dreg ég þá ályktun að það sem ég horfi á sé hannað af æðri vitsmunaveru. Sem vísindamaður kann ég að meta samræmi og hrífandi einfaldleika eðlisfræðinnar og það styrkir trú mína á Guð.“

Fyrir um það bil tvö þúsund árum skrifaði glöggskyggn maður sem hafði virt fyrir sér heim náttúrunnar: „Ósýnilega veru [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ (Rómverjabréfið 1:20) Það var Páll postuli sem skrifaði þetta og hann var skynsamur maður og vel menntaður í lögum Móse. Hann byggði trú sína á rökum og Guð var honum raunverulegur. Hann hafði næma réttlætiskennd sem var honum hvöt til að gefa Guði viðeigandi heiður af sköpunarverkum hans.

Það er einlæg von okkar að þú áttir þig líka á að það sé alls ekki óskynsamlegt né órökrétt að trúa á Guð. Vonandi líkirðu eftir Páli postula og lætur þér ekki nægja að trúa bara að Guð sé til. Megir þú gera þér grein fyrir því, eins og milljónir manna hafa gert, að Jehóva Guð er lifandi vera gædd viðfelldnum eiginleikum sem snerta streng í hjörtum okkar og laða okkur að honum. — Sálmur 83:19; Jóhannes 6:44; Jakobsbréfið 4:8.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Er þróun staðreynd“ í Vaknið! október-desember 2006.

^ DNA stendur fyrir enska heitið deoxyribonucleic acid sem nefnist á íslensku deoxýríbósakjarnsýra.

^ Míkrómetri er einn þúsundasti úr millímetra.

^ Þegar Charles Darwin setti fram hugmyndir sínar um þróun hafði hann enga hugmynd um hve flókin fruman væri.

[Rammi á bls. 24]

ERU ILLVIRKI TRÚARBRAGÐANNA TILEFNI TIL AÐ TRÚA EKKI Á GUÐ?

Margir trúa ekki á skapara vegna þeirrar spillingar og svívirðinga sem hafa sett mark sitt á sögu margra trúarbragða. Er það gild ástæða til að afneita tilvist Guðs? Nei. Roy Abraham Varghese segir Í formála bókarinnar There Is a God eftir Antony Flew: „Ódæði og grimmdarverk stóru trúfélaganna eru algerlega óviðkomandi þeirri spurningu hvort Guð sé til, rétt eins og hættan á útbreiðslu kjarnavopna er óskyld þeirri spurningu hvort E=mc2.“ *

[Neðanmáls]

^ Orka er jafnt og massi sinnum ljóshraði í öðru veldi.

[Mynd á bls. 23]

Fyrst ævafornar byggingar eru taldar handaverk manna, hverjum eignum við þá hönnunina sem við sjáum í náttúrunni?

[Mynd á bls. 23]

Albert Einstein.

[Mynd á bls. 24, 25]

Kjarnsýran DNA er eins og smásæ bók sem hefur að geyma nákvæm fyrirmæli um gerð lifandi vitsmunavera.

[Mynd á bls. 25]

Mannsheilinn hefur verið kallaður „flóknasti hluturinn í alheiminum“.

[Rétthafi myndar á bls. 22]

© The Print Collector/age fotostock