Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geta matmálstímar styrkt fjölskylduböndin?

Geta matmálstímar styrkt fjölskylduböndin?

Geta matmálstímar styrkt fjölskylduböndin?

„Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Því fylgja líka sorgir og tár. En hvort sem við erum glöð eða sorgmædd þurfum við að borða. Góð máltíð getur verið hressandi fyrir fólk hvort sem það er ánægt eða dapurt.“ — Bandaríski rithöfundurinn Laurie Colwin.

ÁÐUR fyrr var sá siður í heiðri hafður hjá mörgum fjölskyldum á Vesturlöndum að setjast saman til að borða að minnsta kosti einu sinni á dag. Ekkert mátti trufla þessa stund. Þá horfði enginn á sjónvarpið, var með heyrnartól á eyrunum eða sendi textaskilaboð til vina sinna. Þetta var friðsæl stund sem bauð upp á tækifæri til að hlusta á viturleg orð, styrkja fjölskylduböndin og hlæja saman yfir atburðum dagsins jafnframt því að njóta þess að borða hollan mat.

Vera má að í eyrum margra hljómi svona fjölskyldumáltíð bara eins og gamaldags siðvenja. Á mörgum heimilum er það frekar undantekning en regla að fjölskyldan borði saman. Hvers vegna eiga fjölskyldur svona erfitt með að finna tíma til að borða saman? Er þessi gamli siður þess virði að halda í hann? Hvernig getur það gagnast hverjum og einum í fjölskyldunni að halda í þennan sið?

Fjölskyldur borða æ sjaldnar saman

„Það er staðreynd að á innan við einni kynslóð manna hafa æ fleiri fjölskyldur hætt að borða [kvöldmatinn] saman . . . og það er eftirtektarvert merki um það hversu hratt félagsleg tengsl okkar hafa breyst,“ segir Robert Putnam í bókinni Bowling Alone. Hvað hefur ýtt undir þessa breytingu? Í fyrsta lagi hefur aukinn framfærslukostnaður orðið til þess að bæði hjónin vinna lengri vinnudag. Einstæðir foreldrar, sem búa yfirleitt við verri kjör, hafa jafnvel enn minni tíma. Í öðru lagi ýtir hraðinn á öllu nú til dags undir það að fólk borðar skyndibita eða fljótgerðan mat. Og það er ekki aðeins fullorðna fólkið sem er upptekið. Börnin eru á kafi í íþróttum og fleiru eftir skóla.

Sumir feður koma heldur ekki heim fyrr en litlu krílin eru sofnuð til að losna við lætin í kvöldmatartímanum. Aðrir foreldrar, sem koma nógu snemma heim, kjósa að gefa börnunum fyrst að borða og senda þau í háttinn þannig að þau hjónin geti átt rólegan matartíma.

Þetta verður til þess að fjölskyldan borðar ekki saman. Minnismiðar á ísskápnum koma í staðinn fyrir spjall í matartímanum. Hver fjölskyldumeðlimur fyrir sig kemur heim, hitar upp matinn sinn og sest með hann fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða annað leiktæki. Þetta samfélagsmynstur virðist komið til að vera. Er það þá til einhvers að standa á móti því?

Kostir þess að halda í hefðina

Þegar fjölskyldan borðar saman skapast kjörið tækifæri fyrir foreldrana til að huga að tilfinningalegri vellíðan barnanna. Matarborðið er „augljóslega staður þar sem krakkarnir geta daglega átt greiðan aðgang að foreldrum sínum við afslappaðar aðstæður“, segir Miriam Weinstein í bók sinni The Surprising Power of Family Meals. „Það að fjölskyldan borði kvöldmat saman er kannski ekki lausn allra mála en það virðist frekar auðvelt í framkvæmd.“

Eduardo er sammála þessu. Hann er frá Spáni og er sjálfur faðir á miðjum aldri. Hann segir: „Meðan ég var í föðurhúsum sátu 11 við matarborðið á hverjum degi. Pabbi lagði mikið á sig til að mæta í mat svo að hann gæti borðað með fjölskyldunni í hádeginu. Þetta var í alla staði sérstök stund. Við fylgdumst með því hvað hinir í fjölskyldunni voru að fást við. Oft var hlegið og gert að gamni sínu. Þessar dýrmætu stundir sannfærðu mig um að ég ætti að fylgja fordæmi pabba.“

Þegar fjölskyldan borðar reglulega saman stuðlar það einnig að því að börnin séu í betra jafnvægi og lifi heilbrigðara lífi. Efnafíknamiðstöðin við Columbia-háskóla í New York í Bandaríkjunum komst að raun um að krakkar og unglingar, sem borða með fjölskyldunni um það bil fimm sinnum í viku, eiga síður við vandamál að stríða sökum kvíða, leiða eða áhugaleysis. Og þeim gengur betur í skólanum.

„Ég er viss um að það gefur börnum tilfinningalegt jafnvægi að fjölskyldan borði saman,“ segir Eduardo og bætir við: „Dætur mínar hafa ekki áhyggjur af því hvenær þær geti sagt okkur frá hlutunum. Daglegir matartímar fjölskyldunnar eru kjörinn tími til þess. Auk þess hjálpa matartímarnir mér sem föður þeirra að fylgjast með því sem þær eru að kljást við.“

Þegar fjölskyldur borða saman getur það líka hjálpað þeim að forðast slæmar matarvenjur. Navarre-háskólinn á Spáni skýrir frá því að það auki hættu á átröskunum að borða einn. Fólk getur þjáðst af átröskunum þó að það borði með öðrum en það er í meiri hættu ef það borðar aldrei með öðrum. „Þegar fjölskyldur venja sig á það að borða saman finna börnin fyrir því að vel sé um þau séð. Máltíðir fjölskyldunnar skapa hlýlegt og ástríkt andrúmsloft sem veitir þeim tilfinningalegt öryggi,“ segir Esmeralda en hún á tvær dætur.

Það gefur foreldrunum tækifæri til að huga að andlegum þörfum barna sinna þegar fjölskyldan borðar saman. Fyrir um það bil 3500 árum hvatti Guð Ísraelsmenn til að verja tíma með börnum sínum til að innprenta þeim trúarleg gildi. (5. Mósebók 6:6, 7) „Máltíðir fjölskyldunnar verða andlega uppbyggjandi þegar við biðjum saman og skoðum vers úr Biblíunni,“ segir Ángel sem er tveggja barna faðir. Þar sem það hefur svo marga kosti fyrir fjölskylduna að borða reglulega saman skulum við skoða hvernig sumar fjölskyldur hafa komið því í kring.

Að koma því í kring

„Vilji og skipulagning eru frumskilyrði,“ segir Esmeralda. „Það þarf að aðlaga stundaskrána eins vel og hægt er að þeim sem kemur síðastur heim.“ Maribel, sem á tvö börn, segir: „Við borðum kvöldmat saman á hverjum degi, hvað sem tautar og raular.“ Sumar fjölskyldur nota frítímann um helgar til að undirbúa matinn fyrir alla vikuna.

Það hjálpar líka að líta á það sem forgangsmál að borða með fjölskyldunni. „Ég þurfti að breyta vinnutímanum til að ná heim fyrir kvöldmatinn en það var vel þess virði,“ segir Eduardo. „Núna finnst mér ég vera betur inni í málefnum fjölskyldunnar. Ég þarf að einbeita mér að vinnunni í margar klukkustundir á dag og það væri tillitsleysi af mér að gefa ekki fjölskyldunni sömu athygli í matartímanum.“

En hvað með truflanir? „Það er ekkert sjónvarp þar sem við fjölskyldan borðum,“ segir David en hann er 16 ára gamall. „Við notum tækifærið og segjum mömmu og pabba frá deginum og þau gefa okkur oft góð ráð.“ „Unglingar tala ekki mikið við foreldra sína nú orðið,“ bætir hann við. „Jafnvel þegar allir eru heima borðar hver í sínu horni og horfir á sjónvarpið. Fólk hefur ekki hugmynd um hvað það fer á mis við.“ Sandra, sem er 17 ára, er sama sinnis: „Ég verð döpur þegar bekkjarfélagar mínir segja: ,Hvað skyldi mamma hafa skilið eftir handa mér í ísskápnum?‘ Í mínum huga snúast matartímar fjölskyldunnar ekki bara um að borða. Við notum tímann til að spjalla saman, hlæja og sýna hvað okkur þykir vænt hverju um annað.“

Matmálstímar fjölskyldunnar geta verið „vernd gegn þrýstingnum sem við verðum öll fyrir dags daglega“, segir í bókinni The Surprising Power of Family Meals. Geta matmálstímarnir hjálpað fjölskyldunni þinni að bindast nánari böndum? Þegar maður er önnum kafinn er matartíminn kjörið tækifæri til að slaka aðeins á og spjalla við þá sem manni þykir vænst um. Það er sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

[Rammi/mynd á bls. 13]

ÞEGAR FJÖLSKYLDAN BORÐAR SAMAN LÆRUM VIÐ AÐ . . .

ræða saman. Börnin geta lært að tala og hlusta með virðingu. Samtöl auka orðaforða þeirra og kenna þeim að tjá sig.

borða hollan mat og hafa reglu á matarvenjum okkar.

sýna góða borðsiði. Við lærum að sýna örlæti með því að deila matnum án þess að ætlast til þess að fá bestu bitana. Við lærum einnig að láta okkur umhugað um aðra í fjölskyldunni meðan við borðum.

vinna saman. Börnin geta hjálpað til með því að leggja á borð og taka af því, ganga frá eftir matinn og þjóna öðrum. Þegar þau eru orðin stærri geta þau líka hjálpað til við að matbúa.