Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver ræður framtíð jarðar?

Hver ræður framtíð jarðar?

Hver ræður framtíð jarðar?

„HLÝNUN JARÐAR er einhver mesta ögrun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir.“ Þetta var fullyrt í tímaritinu National Geographic í október 2007. Til að leysa vandann þurfum við, að sögn tímaritsins, að „bregðast við hratt og markvisst — og sýna af okkur þroska sem við höfum sjaldan sýnt sem samfélag eða tegund“.

Á mannkynið eftir að sýna af sér slíkan þroska? Margt mælir gegn því að svo verði, svo sem sinnuleysi, græðgi, fáfræði, sérhagsmunapot, velmegunarkapphlaup þróunarríkjanna og hugsunarháttur milljóna manna sem vill halda í orkufrekan lífsstíl.

Endur fyrir löngu brá spámaður Guðs upp raunhæfri sýn á það hvort við mennirnir séum færir um að leysa siðferðileg, þjóðfélagsleg og stjórnarfarsleg vandamál okkar. Hann skrifaði: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23, Biblían 1981) Sorgleg saga mannkyns staðfestir að spámaðurinn fór með rétt mál. Og þrátt fyrir miklar framfarir á sviði tækni og vísinda steðja nú að okkur hættur sem engan hafði órað fyrir. Hvernig er þá hægt að treysta því að framtíðin sé björt?

Mikið hefur verið skrifað og skrafað um það hvernig hægt sé að stemma stigu við loftslagbreytingum og öðrum hættum, en lítið aðhafst. Lítum á dæmi. Hvernig brugðust þjóðir heims við árið 2007 þegar norðvesturleiðin opnaðist í fyrsta sinn? Svarið er að finna í ritstjórnargrein í tímaritinu New Scientist: Þær „ruku upp til handa og fóta og gerðu kröfu til landgrunnsins, sem kom undan ísnum, svo að þær gætu borað eftir meiri olíu og gasi.“

Fyrir næstum 2000 árum var því spáð í Biblíunni að mennirnir myndu ganga svo langt að þeir væru að ‚eyða jörðina‘. (Opinberunarbókin 11:18) Ljóst er að heimurinn þarf á leiðtoga að halda sem er nógu vitur og voldugur til að ná tilsettum markmiðum, og hann þarf að eiga sér þegna sem fylgja forystu hans fúslega. Myndi heiðarlegur og snjall stjórnmálamaður eða vísindamaður vera vandanum vaxinn? Í Biblíunni er svarað: „Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — Sálmur 146:3.

Framtíð jarðar er í góðum höndum

Það er ekki til nema einn leiðtogi sem getur leyst þau vandamál sem steðja að jörðinni og mannkyninu. Spáð er um hann í Biblíunni: „Andi Drottins mun hvíla yfir honum: andi speki og skilnings, andi visku og máttar, andi þekkingar og guðsótta . . . Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og . . . deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.“ — Jesaja 11:2-5.

Þessi leiðtogi er Jesús Kristur sem sýndi mönnunum þann kærleika að leggja líf sitt í sölurnar fyrir þá. (Jóhannes 3:16) Núna er hann voldugur andi og Guð hefur gefið honum bæði vald og mátt til að ríkja yfir allri jörðinni. — Daníel 7:13, 14; Opinberunarbókin 11:15.

Jesús er vandanum vaxinn, meðal annars vegna þess að hann gerþekkir sköpunarverk Guðs. Þegar Guð skapaði alheiminn endur fyrir löngu vann Jesús með honum og var „með í ráðum við hlið honum“. (Orðskviðirnir 8:22-31) Það er traustvekjandi að Jesús, sem átti þátt í sköpun jarðarinnar og allra lifandi vera, skuli sjá um að bæta allt það tjón sem flónska mannanna hefur valdið.

Þegnar Jesú verða hógværir og réttlátir menn sem þekkja hinn sanna Guð, Jehóva, og hlýða Jesú Kristi sem konungi sínum. (Sálmur 37:11, 29; 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Jesús sagði að þeir myndu „jörðina erfa“ og þar er átt við jörð sem verður breytt í paradís. — Matteus 5:5; Jesaja 11:6-9; Lúkas 23:43.

Hvernig getum við átt þess kost að sjá fyrirheit Biblíunnar rætast? Jesús svarar því og segir: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Þó að jörðin virðist vera í hættu leikur enginn vafi á að hún verður heimili mannanna um ókomna framtíð. Þeir sem halda áfram að virða sköpunarverk Guðs einskis og vilja ekki hlýða Jesú Kristi stofna framtíð sinni hins vegar í voða. Vottar Jehóva hvetja þig þess vegna til að afla þér þeirrar þekkingar sem leiðir til eilífs lífs.

[Rammi á blaðsíðu 8]

UTAN SEILINGAR VÍSINDANNA

Milljónir manna skemma huga sinn og líkama með því að neyta fíkniefna, ofnota áfengi og reykja, þó að öllum sé fullkunnugt um áhættuna. Þeir sem gera það líta ekki á lífið sem heilaga gjöf frá Guði. (Sálmur 36:10; 2. Korintubréf 7:1) Því miður eru margir jafn skeytingarlausir gagnvart jörðinni og stuðla þannig að þeirri vá sem blasir við.

Hvernig er hægt að leysa vandann? Geta vísindi og almenn menntun stuðlað að lausn hans? Eiginlega ekki. Vandinn stafar fyrst og fremst af því að menn virða ekki sjónarmið Jehóva Guðs þannig að lausnin er fólgin í því að fólk kynnist honum. Þetta er viðurkennt í Biblíunni og þar er að finna eftirfarandi loforð: „Enginn mun gera illt, enginn valda skaða“ á jörðinni vegna þess að hún verður full af „þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið“. — Jesaja 11:9.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Undir stjórn Krists munu hinir réttlátu vinna að því að breyta jörðinni í paradís.