Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjónarmið Biblíunnar

Af hverju ættir þú að varast dulspeki?

Af hverju ættir þú að varast dulspeki?

Í LANDI einu í Asíu er hópur fólks að halda hátíð til að heiðra andana. Hátíðin nær hámarki þegar tvær konur eru valdar til að taka þátt í athöfn þar sem þær gefa sig öndunum á vald. Þær ranghvolfa augunum og byrja síðan að hristast og skjálfa, rétt eins og þær hefðu fengið raflost.

Í Púertóríkó stjórnar miðill (santero) miðilsfundi til að ná sambandi við anda sem nefnist Changó og er sagður ráða yfir þrumunum. Miðillinn lýsir sýnunum sem hann fær og allir í herberginu byrja að skjálfa eins og þeir væru andsetnir.

Í mörgum löndum tíðkast það að fólk leiti í dulræn öfl. Æ fleiri segjast trúa á hið yfirnáttúrulega og áhuginn á því fer vaxandi. Það er algengara nú en nokkru sinni að bækur, leikir, sjónvarpsþættir og kvikmyndir snúist um djöfla, galdra og dulræn fyrirbæri.

Biblían kennir hins vegar að þeir sem stunda dulspeki, í hvaða mynd sem er, eru í rauninni að setja sig í samband við andaheiminn. Slíkt samband er ekki saklaus eða skaðlaus skemmtun. Það er annað og meira en að svala forvitninni. Með dulspeki næst samband við illa anda, engla sem gerðu uppreisn gegn Guði. — Opinberunarbókin 12:9, 12.

Illu andarnir nota dulspeki líkt og veiðimenn nota agn. Stangaveiðimaður notar ólíka beitu eftir því hvers konar fisk hann ætlar sér að veiða. Illir andar nota sömuleiðis dulspeki í alls konar mynd til að ná tökum á alls konar fólki. Leiðtogi þessara anda er kallaður „guð þessarar [vondu] aldar“. Honum hefur tekist að blinda huga vantrúaðra svo að þeir skilja hvorki sannleikann í orði Guðs né fyrirætlun hans. — 2. Korintubréf 4:4.

Hvert beinir dulspekin fólki?

Markmið illra anda er einfalt. Þeir vilja hindra okkur í að byggja upp náið samband við skaparann og reyna því að trufla okkur eða blekkja. Þeir fá fólk til að brjóta réttlát boð Guðs annaðhvort viljandi eða óafvitandi. Þeir sem iðka dulspeki kalla því yfir sig vanþóknun Guðs, vonleysi og að lokum eyðingu. — Opinberunarbókin 21:8.

Luis er frá Púertóríkó og segir: „Fjölskylda mín var viðriðin dulspeki frá því að ég var barn. Hún var hluti af trú okkar og daglegu lífi. Ég hélt að það væri eðlilegt að geta séð inn í framtíðina og lesið tarotspil eins og ég gerði. Ég gat oft valið vinningstölurnar í lottói og þar með hjálpað öðrum að græða peninga. Þessi hæfileiki var til þess gerður að koma í veg fyrir að ég aflaði mér þekkingar á Biblíunni og byggði upp gott samband við Guð.“ — Jóhannes 17:3.

Margir telja kannski að það sé meinlaust og jafnvel gagnlegt að vera í sambandi við andaheiminn. Þeir tala ef til vill um „góða anda“ eða halda því fram að með því að iðka dulspeki sé hægt að öðlast meiri þekkingu, auðæfi eða hamingju. Þetta er fjarri öllum sanni. Luis segir: „Það kostar alltaf sitt.“

Ungur maður að nafni Chad fór að sjá skelfilegar sýnir og í hvert sinn sem hann lagðist til svefns var hann vakinn að nýju. „Illir andar byrjuðu að áreita mig og kvelja mig á hverri nóttu,“ segir hann. Hvernig er hægt að fá vernd gegn slíkum árásum?

Hvernig öðlumst við vernd?

Við verðum að forðast allt sem tengist dulspeki og spíritisma til að vernda okkur gegn illum öndum. (Galatabréfið 5:19-21) Jehóva Guð segir þjónum sínum því að forðast eftirfarandi: „Á meðal ykkar má enginn finnast . . . sem leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum. Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ — 5. Mósebók 18:10-12.

Margir hafa fylgt þessum ráðum og verndað sig með því að fleygja bókum og öðrum munum sem tengjast dulspeki. Ken tókst að slíta sig lausan frá dulspeki og segir: „Ég fór í gegnum allt sem ég átti og eyddi öllu sem mér fannst vera illt.“ — Sjá Postulasöguna 19:19, 20.

Öruggasta vörnin felst í því að byggja upp náið samband við Jehóva, hinn sanna Guð. Í Jakobsbréfinu 4:7, 8 er sagt hvað við eigum að gera: „Gefið ykkur því Guði á vald, standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur. Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur. Hreinsið hendur ykkar, þið syndarar, og gerið hjörtun flekklaus, þið tvílyndu.“

Jehóva Guð fræðir og verndar þá sem nálægja sig honum. Þeim er ekki ‚ókunnugt um vélráð Satans‘ og þeir láta ekki blekkjast af því sem sést aðeins á yfirborðinu. (2. Korintubréf 2:11; 11:14) Auk þess er Jehóva almáttugur. Þegar við áköllum hann í trú mun hann frelsa okkur undan árásum illra anda. Chad, sem vitnað var í áður, segir: „Þegar ég vissi að þetta voru illir andar sem höfðu ráðist á mig og þegar ég bað Jehóva Guð að vernda mig þá fóru þeir.“ — Sálmur 91:1, 2.

Hjartahreint fólk getur glaðst yfir þeirri vissu að Guð verndar það og að brátt muni illum öndum og öllum sem gefa sig á þeirra vald verða eytt. Ímyndaðu þér gleðina og friðinn sem mun ríkja á jörðinni þegar illir andar hafa ekki lengur áhrif á mennina. — Jesaja 11:9; Opinberunarbókin 22:15.