Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bresku skipaskurðirnir vekja enn hrifningu

Bresku skipaskurðirnir vekja enn hrifningu

Bresku skipaskurðirnir vekja enn hrifningu

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í BRETLANDI

Snemma á 19. öld var búið að grafa skipaskurði um þvert og endilangt England, Skotland og Wales. Samanlagt voru þeir um 6000 kílómetra langir. Af hverju voru þeir grafnir og hverjir nota þá á 21. öldinni?

IÐNBYLTINGIN í Bretlandi á 18. öld kallaði á ódýra og fljótlega leið til að flytja hráefni og vörur milli staða. Fyrir þann tíma höfðu hestar verið notaðir til að bera bagga eða draga vagna eftir vegum sem urðu oft ófærir á veturna sökum aurs og leðju. Á hinn bóginn gat einn hestur hæglega dregið allt að 30 tonna bát eftir skurði og verið fljótur í förum.

Árið 1761 lét hertoginn af Bridgewater grafa skipaskurð til að flytja kol frá námum, sem hann átti, til viðskiptavina í Manchester, um 16 kílómetra leið. Hertoginn hagnaðist ekki aðeins á þessu heldur lækkaði líka verðið á kolum í Manchester um helming. Árið 1790 var síðan lokið við enn viðameira verkefni sem tengdi saman fjórar mikilvægar ár. Þetta var net skipaskurða sem kallað var Grand Cross. Nú var hægt að sigla frá helsta iðnaðarsvæði landsins til ýmissa hafna. Öld skipaskurðanna var hafin í Bretlandi.

Hönnun og notkun

Færir verkfræðingar fundu snjallar aðferðir til að veita vatni langar leiðir eftir ólíku landslagi. Meðal þeirra var James Brindley sem var sjálflærður og vann starf sitt án þess að setja nokkurn tíma útreikninga eða teikningar á blað. Teymi verkamanna gróf síðan göng, lagði vatnsleiðslur og byggði skipastiga og brýr sem eru eftirtektarverð mannvirki enn þann dag í dag.

Opnir trébátar voru smíðaðir til að flytja varning eins og kol, kalk, kalkstein, postulínsleir, járngrýti, múrsteina og hveiti. Þeir voru kallaðir „mjóbátar“ og voru um 20 metra langir og 2 metra breiðir. Hestar gengu eftir dráttarstígum á skurðarbakkanum og drógu bátana. Aðrir bátar, kallaðir „flugbátar“, buðu upp á hraðsendingar á vörum sem hætta var á að skemmdust eða mikið lá á að koma til skila. Þessir bátar stoppuðu hvergi og áhafnirnar unnu alla nóttina.

Á sumum skipaskurðum sigldu straumlínulaga bátar sem tóku allt að 120 farþega. Þeir voru dregnir af hestum og meðalhraðinn var um 15 kílómetrar á klukkustund. Skipt var um hesta með reglulegu millibili. Þessir bátar höfðu, líkt og flugbátarnir, forgang yfir aðra báta og á Bridgewater-skurðinum voru þeir með stórt hnífblað á stafni bátsins sem skar á dráttarlínu annarra báta sem voru í veginum. Með tilkomu skipaskurðanna gat venjulegt fólk í fyrsta sinn fengið tækifæri til að ferðast langar vegalengdir á þægilegan og ódýran hátt.

Lífið um borð í mjóbát

Lífið á skurðinum, eins og bátsverjarnir kölluðu það, var annasamt og starf þeirra erfitt og oft hættulegt. Þar sem þeir voru alltaf á ferðinni höfðu þeir litla möguleika á að mennta sig og fjarlægðust sífellt annað fólk.

Þetta bátasamfélag myndaði sína eigin listhefð. Bátarnir voru skreyttir að utan með skærum landslagsmyndum, blómamynstri og rúmfræðiformum. Myndskreytingarnar náðu alla leið inn í káetuna í skutnum. Í þessum vistaverum, sem voru aðeins 3 metrar á lengd og 2 metrar á breidd, bjó bátsmaðurinn ásamt eiginkonu sinni og börnum. En bátsverjarnir bættu upp fyrir þrengslin og notuðu sniðugar innréttingar til að fela skápa og fellirúm svo dæmi sé tekið. Heklaðar blúndur héngu niður úr hillunum og fallegt postulínsleirtau og skrautmunir úr skínandi látúni endurvörpuðu ljósi í kringum eldavélina. Allt þetta stuðlaði að því að vistarverurnar voru hlýlegar og notalegar. Eiginkona bátsmannsins vann hörðum höndum og tókst að halda fjölskyldunni og bátnum tandurhreinum þrátt fyrir að skyldurnar væru margar og farmurinn hefði oft óhreinindi í för með sér. Fallega ofið reipi, sem var vafið um stýrissveifina, var meira að segja skrúbbað vandlega svo að það væri skínandi hvítt.

Hnignun og endurreisn skipaskurðanna

Skipaskurðanetið var nánast fullbúið árið 1825 þegar George Stephenson opnaði járnbraut milli Stockton og Darlington. Þetta var ein af fyrstu almenningsjárnbrautunum þar sem notuð var gufueimreið. Á innan við 20 árum voru járnbrautirnar búnar að leggja undir sig stóran hluta af öllum flutningum. Skipaskurðunum tók að hnigna og hætt var að nota marga þeirra. Sum járnbrautarfyrirtæki keyptu meira að segja skurði til að draga úr samkeppni. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar hélt þessi hnignun áfram þar sem nýir og betri vegir voru lagðir. Bjartsýnustu menn trúðu ekki einu sinni að skipaskurðirnir yrðu notaðir miklu lengur.

En sú varð hins vegar raunin, þökk sé ötulu starfi hópa og einstaklinga síðastliðin 50 ár. Þótt sumir bátar á skurðunum flytji enn vörur hefur öðrum verið breytt í heimili eða sumarleyfisbáta. Nú er hægt ferðast 3000 kílómetra eftir skurðunum og kanna margar fegurstu náttúruperlur Bretlands. Áhugamenn hafa líka endurlífgað gamlar hefðir og haldnar eru árlegar siglingahátíðir þar sem þessar hefðir eru kynntar fyrir fleirum. Já, sökum vinsælda þessara fagurlega skreyttu sumarleyfisbáta er nú meiri umferð um bresku skipaskurðina en á gullöld þeirra og skurðirnir eru lagfærðir á sama hraða og þeir voru grafnir fyrir 200 árum.

En þrátt fyrir það eru bátsverjar aðeins lítill hluti þeirra sem njóta góðs af skurðunum. Af hverju má segja það? Þegar siglingaleiðirnar voru endurgerðar varð til fjöldi langra og mjórra almenningsgarða sem liggja meðfram skurðunum. Þessir garðar veita fólki aðgang að áður lítt þekktum þorpum og sveitum, og göngugarpar, hjólreiðafólk og veiðimenn notfæra sér gömlu dráttarstígana. Uppistöðulón, sem gerð voru til að halda stöðugu vatnsyfirborði í skurðunum, eru nú orðin kjörlendi ýmissa dýra og skurðirnir sjálfir heimkynni fjölda planta, fugla og dýra.

Tilkoma bresku skipaskurðanna hrinti af stað miklum þjóðfélagsbreytingum. En það er broslegt að hugsa til þess að fólk skuli nota þá núna til að flýja álag hins iðnvædda heims sem þeir áttu þátt í að skapa.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 14]

AÐ SIGLA GEGNUM GÖNG

Mjög fá göng eru með dráttarstíg og fyrir tíma vélknúinna báta þurfti að nota mjög hættulega aðferð til að koma mjóbátum gegnum göngin. Tveir plankar voru lagðir þvert yfir stafn bátsins. Síðan lögðust menn á bakið á plankana, héldu í þá með höndunum og ýtu bátnum gegnum göngin með því að spyrna fótunum í vegginn. Mennirnir höfðu aðeins eitt kerti til að lýsa sér og í myrkrinu var auðvelt fyrir þá að missa fótanna og falla útbyrðis. Þetta gat orðið mönnum að bana ef þeir klemmdust milli báts og veggjar. Á bresku skipaskurðunum voru áður 68 kílómetrar af göngum og við þau lengstu voru ráðnir menn sem höfðu það starf að koma bátum í gegn. Lengstu göngin hafa verið opnuð á ný en þau eru við Standedge í Yorkshire og eru 5 kílómetra löng.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi British Waterways

[Rammi/myndir á blaðsíðu 15]

SKIPASTIGAR OG HUGVITSAMLEG BÁTALYFTA

Eins og við vitum getur vatn ekki streymt upp í móti. Hvað gerist þá þegar grafa þarf skipaskurð þar sem land hækkar? Hægt er fylgja sömu hæðarlínu og leggja krók á leiðina en þá lengist hún. Einnig er hægt að grafa göng í gegnum hindrunina. En þriðji möguleikinn er sá að hækka farveginn með skipastiga. Skipastigi er gerður úr einu eða fleiri hólfum sem tengja saman vatn í mismunandi hæð og beggja megin við hólfin eru hlið. Eftir að bátur fer inn í hólf er báðum hliðum lokað. Síðan er látið renna í hólfið til að lyfta bátnum upp á næsta þrep eða látið renna úr því til að láta hann síga, eftir því í hvora áttina hann er að fara.

En hvað er til ráða ef ekki er hægt að gera upp gamla skipastiga? Í Skotlandi stóðu menn frammi fyrir þessum vanda þegar tengja átti skurðina milli Glasgow og Edinborgar en þeir voru löngu komnir úr notkun. Ekki var gerlegt að endurbyggja ellefu hólfa skipastiga við Falkirk sem hafði áður tengt Union-skurðinn við Forth og Clyde-skurðinn en hann er elsti skipaskurður í heiminum sem liggur frá hafi til hafs. Lausnin var Falkirk-hjólið — snilldarlega hönnuð bátalyfta sem er 35 metrar í þvermál og snýst í hring. Hönnunin á sér engan sinn líka. Hjólið getur flutt 8 báta í einu, fjóra upp og fjóra niður, og hver ferð tekur aðeins 15 mínútur.

Hjólið endurspeglast í stórri tjörn sem hefur legupláss fyrir meira en 20 báta og í Lundúnarblaðinu The Times var því lýst sem „einstöku verkfræðiafreki“.

[Credit line]

Efst til hægri: Með góðfúslegu leyfi British Waterways

[Rammi/myndir á blaðsíðu 17]

VIÐ NJÓTUM ÞESS AÐ SIGLA Á SKURÐUNUM

Núna á efri árum höfum við hjónin haft gaman af því að fara í siglingar á skipaskurðum fjarri skarkala umheimsins. Þarna er friðsælt af því að við erum laus við hraðbrautir og bílaumferð. Á mjóbát má ekki sigla hraðar en 5 kílómetra á klukkustund. Af hverju svona hægt? Til að mynda ekki bylgjur á vatninu sem gætu skemmt skurðarbakkana. Þeir sem ganga með hundana sína eftir gömlu dráttarstígunum taka oft fram úr okkur.

Annar kostur þess að ferðast á þessum hraða er að við höfum tíma til að njóta útsýnisins og jafnvel heilsa vegfarendum. Og útsýnið getur verið alveg frábært. Yfirleitt leigjum við bát í Suður-Wales á skurðinum milli Monmouthshire og Brecon. Hann er 50 kílómetra langur og nær frá landamærum Wales upp að Brecon-fjöllunum sem eru 886 metra há. Annað slagið komum við að skipastiga og lyfta þarf bátnum á næsta þrep eða láta hann síga. Það finnst okkur svolítið spennandi. — Sjá rammagrein á bls. 15.

Bátarnir eru fullbúnir og einstaklega þægilegir. Í sumum eru meira að segja tvö hjónaherbergi með eigin sturtu og klósetti. Það er líka miðstöðvarhitun í bátunum ef það skyldi verða kalt á kvöldin. Venjulega sjáum við sjálf um matseldina en ef við viljum fá frí getum við stoppað og borðað gómsæta máltíð á einhverjum af veitingastöðunum meðfram skurðinum.

Þetta er friðsælt umhverfi, sérstaklega snemma á morgnana þegar trén og hæðirnar speglast í kyrru vatninu. Allt er svo hljótt að fuglasöngurinn verður mjög greinilegur. Hegrar fylgjast hljóðlega með á bökkunum og fikra sig hægt og rólega á undan okkur. — Aðsent.

[Credit lines]

Með góðfúslegu leyfi British Waterways

Efst til hægri: Með góðfúslegu leyfi Chris & Stelle on Belle (www.railwaybraking.com/belle)

[Mynd credit line á blaðsíðu13]

Með góðfúslegu leyfi British Waterways