Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lýðfræði, Biblían og framtíðin

Lýðfræði, Biblían og framtíðin

Lýðfræði, Biblían og framtíðin

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SVÍÞJÓÐ

FRÁ upphafi 20. aldarinnar hefur mannkyninu fjölgað úr 1,65 milljörðum í heila 6 milljarða við lok aldarinnar. Mun jarðarbúum halda áfram að fjölga svona ört? Verður fólksfjöldasprenging á þessu árþúsundi? Fræðimennirnir, sem leita svara við slíkum spurningum, heita lýðfræðingar og rannsóknarsvið þeirra kallast lýðfræði.

Lýðfræði er „vísindagrein sem fæst við tölfræðilegar rannsóknir á afmörkuðum mannfélögum, einkum með tilliti til stærðar, íbúafjölda, aldursskiptingar íbúa, heilsufars, breytinga á samsetningu, flutninga o.s.frv.“ (Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs) Fræðimennirnir rannsaka þrjá þætti sem hafa augljós áhrif á fólksfjölda, það er að segja fæðingartölu, dánartölu og fólksflutninga.

Söguleg lýðfræði er fræðigrein um vöxt og sveiflur á fólksfjölda í fortíðinni. Sögulegir lýðfræðingar reyna að komast að eins miklu og þeir geta um forn menningarsamfélög með því að grandskoða ritaðar heimildir, rústir, beinagrindur og aðra fornmuni. Söguleg lýðfræði er að hluta til byggð á getgátum og að hluta til á vísindum. Bókin Atlas of World Population History viðurkennir: „Ekki er enn hægt að sanna tilgátur sögulegra lýðfræðinga og frá tölfræðilegum sjónarhóli er því útilokað að segja að niðurstöður þeirra séu áreiðanlegar.“ Biblíunemendur hafa samt sem áður áhuga á ályktunum lýðfræðinga enda eru þær oft í góðu samræmi við frásögur Biblíunnar.

Fólksfjölgun eftir flóðið

Í Biblíunni stendur að aðeins átta manns hafi lifað af flóðið á dögum Nóa. Sumir lýðfræðingar hafa áætlað að íbúatala jarðarinnar hafi verið komin upp í 50 milljónir um það bil 1400 árum síðar. Er útilokað að mannkyninu hafi fjölgað úr átta manns í 50 milljónir á 1400 árum?

Í fyrsta lagi þarf að hafa hugfast að þessar 50 milljónir eru aðeins áætluð tala. Það er einnig áhugavert að lesa það sem Biblían segir í 1. Mósebók 9:1: „Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: ‚Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.‘“ Í 10. og 11. kafla lesum við síðan um 70 fjölskyldur sem komu af Sem, Kam og Jafet, sonum Nóa. Þegar við höldum lestrinum áfram finnum við ættartölur manna frá Sem til Abrahams sem ‚gátu sonu og dætur‘. Í samræmi við boð Guðs um að ‚uppfylla jörðina‘ gæti því fæðingartalan á þessum tíma hafa verið mjög há.

Hvað um dánartöluna? Í sömu köflum 1. Mósebókar kemur fram að mannsaldurinn hafi verið ákaflega hár fyrstu aldirnar eftir flóðið. * Þegar há fæðingartala og lág dánartala fara saman verður útkoman gífurleg fjölgun.

Dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi

Sumir fræðimenn efast um áreiðanleika frásögu Biblíunnar af þeirri miklu fjölgun sem átti sér stað meðal Ísraelsmanna þegar þeir voru í Egyptalandi. Biblían segir að auk tengdadætra Jakobs hafi ‚allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, verið sjötíu að tölu‘. (1. Mósebók 46:26, 27) En þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland 215 árum síðar voru þeir orðnir heilar „sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna“. (2. Mósebók 12:37) Þegar við teljum konurnar og börnin með gætu Ísraelsmenn hafa verið samanlagt allt að þrjár milljónir. Getur verið að þeim hafi fjölgað svona mikið?

Til að fá svar við þeirri spurningu er gott að hugsa um það sem Biblían segir um fjölgun Ísraelsmanna í Egyptalandi: „Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim.“ Fjölgun Ísraelsmanna á þeim tíma var einstök. — 2. Mósebók 1:7.

Athyglisvert er að svipuð fjölgun hefur átt sér stað hjá sumum þjóðum nú á tímum, eins og í Keníu á níunda áratug síðustu aldar. En það sem gerði fjölgun Ísraelsmanna einstaka var að aukningin hélt áfram um margra ára skeið.

Í Biblíunni er tilgreind önnur ástæða fyrir gríðarlegri fjölgun Ísraelsmanna. Nægur matur var fyrir hendi þegar þeir voru í Egyptalandi. Þegar hungursneyð geisar deyja vitanlega margir í blóma lífsins og þar af leiðandi fæðast færri börn. Biblían gefur hins vegar til kynna að Ísraelsmenn hafi haft nóg að bíta og brenna. Þegar fjölskylda Jósefs fluttist til Egyptalands sagði faraó við hann: „Lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi.“ (1. Mósebók 47:6) Jafnvel þegar Ísraelsmenn voru orðnir þrælar Egypta höfðu þeir samt sem áður nægan mat. Eftir að þeir höfðu verið frelsaðir úr ánauðinni minntust þeir þess að hafa haft brauð, fisk, agúrkur, melónur, graslauk, blómlauk, hvítlauk og kjötkatla á meðan þeir voru í þrælkun. — 2. Mósebók 16:3; 4. Mósebók 11:5.

Á fyrstu öldinni

Lýðfræði getur einnig auðgað skilning okkar á Grísku ritningunum. Þegar við lesum um að Jesús hafi sagt fylgjendum sínum að gera „allar þjóðir að lærisveinum“ gætum við til dæmis spurt okkur hve viðamikið þetta starf hafi verið. (Matteus 28:19) Hve margir íbúar voru í Rómaveldi á fyrstu öldinni? Sumir áætla að þeir hafi verið 50 til 60 milljónir. Ef svo er áttu þessir kristnu trúboðar gífurlega mikið starf fyrir höndum!

Þegar við höldum áfram lestrinum í Grísku ritningunum komumst við að því að Pétur postuli fór alla leið til Babýlonar til að boða fagnaðarerindið. (1. Pétursbréf 5:13) Hvers vegna valdi hann Babýlon? Alfræðiorðabókin The New Encyclopædia Britannica varpar ljósi á það: „Að Palestínu frátalinni bjuggu Gyðingar aðallega í Sýrlandi, Litlu-Asíu, Babýloníu og Egyptalandi og talið er að á hverju þessara svæða hafi búið að minnsta kosti ein milljón Gyðinga.“ Fyrst Pétri hafði verið falið að prédika sérstaklega fyrir Gyðingum var rökrétt að hann skyldi fara til Babýlonar þar sem var gyðingasamfélag. (Galatabréfið 2:9) Miðað við hve margir Gyðingar voru þar er ólíklegt að hann hafi orðið uppiskroppa með starfssvæði.

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Eins og við höfum komist að raun um hafa lýðfræðingar áhuga á ákveðnum þáttum mannkynssögunnar. En hvað hafa þeir að segja um framtíðina? Mikilvægar spurningar liggja í loftinu. Verður fólksfjöldasprenging á þessu árþúsundi? Enginn getur vitað það með vissu. Þar sem fæðingartalan hefur lækkað í mörgum löndum spá sumir fræðimenn því að íbúafjöldi jarðarinnar verði stöðugur.

Fræðimenn eru samt ekki allir á eitt sáttir. Tímaritið Population Today segir: „Nú á tímum skiptist fólksfjölgun í tvo hópa: Annars vegar má nefna lönd þar sem hjónum fæðast tvö börn eða færri og hins vegar lönd þar sem fæðingartalan er hærri. Í fyrrnefnda hópnum eru Evrópa, Bandaríkin, Kanada, Japan og nokkur lönd þar sem hröð iðnvæðing á sér stað . . . Í síðarnefnda hópnum eru hins vegar flest lönd í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku þar sem fæðingartalan er hærri en tvö börn á hjón. Í þessum löndum, þar sem rúmlega helmingur jarðarbúa býr, eignast hver kona að meðaltali fjögur börn.“

Við sjáum því að þótt dregið hafi úr fólksfjölgun í sumum löndum hefur hún aukist eða staðið í stað í öðrum. Tímaritið Population Today segir um framtíðina: „Í flestum þróunarlöndum er ör fólksfjölgun ekki á enda. Raunverulegur endir á ‚fólksfjöldasprengingunni‘ í heiminum ræðst af því hversu miklu fé lönd verja til þess að draga úr barnadauða, mennta konur og takmarka barneignir og hversu fljótt þau gera það.“

Verða jarðarbúar mun fleiri en sex milljarðar? Tíminn leiðir það í ljós. En við vitum að fyrirætlun Guðs er sú að jörðin verði uppfyllt en ekki yfirfyllt, og við getum treyst því að það verði að veruleika undir stjórn Guðsríkis. — 1. Mósebók 1:28; Jesaja 55:10, 11.

[Neðanmáls]

^ Síðar lækkaði mannsaldurinn niður í 70 til 80 ár eins og Móse benti á um árið 1500 f.o.t. — Sálmur 90:10.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Þeir sem lifðu af Nóaflóðið eignuðust afkomendur sem eru nú orðnir rúmlega sex milljarðar um alla jörð.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Fámennum hópi Ísraelsmanna í Egyptalandi fjölgaði á 215 árum upp í allt að þrjár milljónir.