Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna trúa margir þróunarkenningunni?

Hvers vegna trúa margir þróunarkenningunni?

15. kafli

Hvers vegna trúa margir þróunarkenningunni?

1, 2. Nefndu eina ástæðu fyrir því að margir trúa þróunarkenningunni.

 EINS og við höfum séð er gífurlega margt sem ber vitni um sköpun. Hvers vegna hafna þá svo margir sköpun og trúa þess í stað þróunarkenningunni? Ein ástæðan er sú kennsla sem þeir hljóta í skóla. Kennslubækur í raunvísindum eru nær alltaf málsvarar þróunarkenningarinnar. Nemendum er sjaldan eða aldrei bent á rök gegn kenningunni. Yfirleitt fá rök gegn þróunarkenningunni ekki að koma fram í kennslubókum skólanna.

2 Lífefnafræðingur sagði í tímaritinu American Laboratory um skólanám barna sinna: „Barninu er ekki kennd þróunarkenningin sem kenning. Lúmskum fullyrðingum er laumað inn í texta í vísindafögum strax í öðrum bekk (samkvæmt kennslubókum barna minna sem ég hef lesið). Þróun er lýst sem veruleika, ekki sem hugmynd er hægt sé að véfengja. Myndugleiki menntakerfisins þvingar síðan fram trú.“ Varðandi kennslu þróunarkenningarinnar í eldri bekkjum sagði hann: „Nemanda er ekki leyft að hafa sínar eigin skoðanir eða láta þær í ljós. Ef hann gerir það má hann þola háð og spott og gagnrýni kennara síns. Oft hættir nemandinn á að námsferill hans bíði tjón fyrir þá sök að skoðanir hans séu ekki ‚réttar‘ og að einkunnir hans verði lækkaðar.“⁠1

3. Hvernig eru sumir vandir á að trúa þróunarkenningunni?

3 Þróunarkenningin gagnsýrir ekki aðeins skólana heldur líka allar greinar náttúruvísinda og önnur fræðisvið, svo sem mannkynssögu og heimspeki. Bækur, tímarit, greinar, kvikmyndir og sjónvarpsþættir fjalla um hana eins og fullsannaða staðreynd. Oft heyrum við eða lesum þessu líkt: ‚Þegar maðurinn þróaðist af hinum óæðri dýrum,‘ eða: ‚Fyrir milljónum ára, þegar lífið þróaðist í höfunum.‘ Fólk er þannig vanið á að viðurkenna þróunarkenninguna sem staðreynd, og taka ekki eftir vitnisburði og röksemdum sem mæla gegn henni.

Áhrif myndugleikans

4. Hvernig er áhrifum myndugleikans beitt í þágu þróunarkenningarinnar?

4 Þegar frammámenn í menntamálum og vísindum fullyrða að þróunarkenningin sé staðreynd, og gefa í skyn að fáfræðingar einir trúi henni ekki, hversu margir leikmenn munu þá rísa upp og andmæla þeim? Þessi áhrif myndugleikans, sem snýst svo eindregið á sveif með þróunarkenningunni, er ein af meginástæðum þess hve margir aðhyllast hana.

5. (a) Hvaða dæmi sýna með hvaða hætti vísindamenn beita oft myndugleika sínum? (b) Hvers vegna eru slíkar fullyrðingar rangar?

5 Eftirfarandi staðhæfing Richards Dawkins er dæmigerð um þær skoðanir sem hræða kjarkinn úr leikmönnum: „Öll fáanleg gögn, sem máli skipta, styðja núna kenningu Darwins, og enginn alvarlega þenkjandi nútímalíffræðingur efast um að hún sé sönn.“⁠2 En er það sannleikanum samkvæmt? Hvergi nærri. Lítils háttar athugun leiðir í ljós að fjölmargir vísindamenn, þeirra á meðal ‚alvarlega þenkjandi nútímalíffræðingar,‘ ekki aðeins draga þróunarkenninguna í efa heldur hreinlega trúa henni ekki.⁠3 Þeir álíta rökin fyrir beinni sköpun margfalt sterkari. Þess vegna eru alhæfingar á borð við þær, sem Dawkins lætur sér um munn fara, rangar. Þær eru hins vegar dæmigerð tilraun til að kæfa andstöðu með stóryrtum fullyrðingum. Í lesandabréfi í tímaritinu New Scientist var þessa getið og spurt: „Hefur Richard Dawkins svona litla trú á rökunum fyrir þróunarkenningunni að hann þurfi að slá fram alhæfingum til að losna við þá sem eru trú hans ekki sammála?“⁠4

6. Með hvaða hætti er kreddufesta þróunarsinna gagnstæð hinni viðurkenndu aðferð vísindanna?

6 Í svipuðum stíl segir bókin A View of Life eftir þróunarsinnana Luria, Gould og Singer, að ‚þróunin sé staðreynd.‘ Síðan er fullyrt: „Við gætum alveg eins efast um að jörðin sé á braut um sól eða að vatn sé myndað úr vetni og súrefni.“⁠5 Þar segir einnig að þróunarkenningin sé jafnóvéfengjanleg staðreynd og þyngdaraflið. En hægt er að sýna fram á með tilraunum og athugunum að jörðin gengur um sól, vatn er myndað úr súrefni og vetni og að þyngdarlögmálið er staðreynd. Þróunarkenningin verður ekki sönnuð með tilraunum. Reyndar viðurkenna þessir sömu þróunarsinnar að enn séu „harðar deilur um mismunandi þróunarkenningar.“⁠6 En eru enn þá háðar harðar deilur um það hvort jörðin gangi um sól, vatn sé myndað úr súrefni og vetni og hvort þyngdarlögmálið sé staðreynd? Nei. Með hvaða rökum er þá hægt að segja að þróunin sé jafnáreiðanleg staðreynd og það?

7. Hvers vegna byggja vísindamenn niðurstöður sínar ekki alltaf á staðreyndum?

7 Í formálsorðum bókarinnar Missing Links eftir John Reader sýnir David Pilbeam fram á að vísindamenn byggi ályktanir sínar ekki alltaf á staðreyndum. Pilbeam segir eina ástæðuna þá að vísindamenn séu „líka menn og mikið sé í húfi, því að þeirra bíði glitrandi verðlaun í mynd frægðar og frama.“ Bókin nefnir að þróunarfræðin sé „vísindagrein knúin áfram af einstaklingsbundinni metnaðargirnd og því mjög móttækileg fyrir skoðunum sem menn hafa myndað sér fyrirfram.“ Sem dæmi nefnir bókin: „Þegar fyrirfram mótuðum hugmyndum er . . . jafnvel tekið og þær jafnlengi viðurkenndar og Piltdown-maðurinn, þá láta vísindin í ljós ískyggilega tilhneigingu til trúar að órannsökuðu máli.“ Höfundur bætir við: „[Þróunarsinnar] okkar tíma eru ekkert síður líklegir til að ríghalda í villandi gögn sem styðja fyrirfram ákveðnar hugmyndir þeirra en rannsóknarmenn fyrri tíma . . . [sem] tóku þær hugmyndir, sem þeir vildu trúa, fram yfir hlutlægt mat á staðreyndum.“⁠7 Úr því að vísindamenn hafa, sumir hverjir, gengið til fylgis við þróunarkenninguna og langar til að komast áfram í starfi, vilja þeir ekki viðurkenna að þeim kunni að hafa skjátlast. Þess í stað leggja þeir sig í líma við að réttlæta fyrirfram ákveðnar hugmyndir sínar, frekar en að viðurkenna staðreyndir sem geta spillt þeim hugmyndum.

8. Hvers vegna harmaði W. R. Thompson fjöldatrúhvarfið til þróunarkenningarinnar?

8 Árið 1956 var bók Darwins, Uppruni tegundanna, endurprentuð í tilefni þess að öld var liðin frá frumútgáfu hennar. Í formálsorðum bókarinnar lét W. R. Thompson getið þessara óvísindalegu viðhorfa og harmaði þau mjög. Hann sagði: „Ef rök standast ekki nákvæma greiningu skyldu þau ekki tekin góð og gild, og fjöldatrúhvarf byggt á ótraustum rökum hlýtur að teljast hörmulegt.“ Hann hélt áfram: „Þær staðreyndir og túlkanir, sem Darwin byggði á, eru hættar að vera sannfærandi. Hinar langvarandi rannsóknir á erfðum og afbrigðum hafa grafið undan viðhorfi Darwinismans.“⁠8

9. Hvað sagði Thompson um það að vísindamenn þögguðu niður gagnrýni á þróunarkenninguna?

9 Thompson sagði einnig: „Ein langvarandi og óæskileg afleiðing þess hve Uppruni tegundanna fékk góðar móttökur var að líffræðingar fóru að ánetjast getgátum sem ekki er unnt að sannprófa . . . Velgengni Darwinismans hafði í för með sér dvínandi heiðarleika í vísindum.“ Síðan sagði hann: „Vísindamenn flykkjast saman til varnar kennisetningu sem þeir geta ekki skilgreint vísindalega og þaðan af síður fært sönnur á með vísindalegri nákvæmni. Þeir reyna að viðhalda trúverðugleik hennar meðal almennings með því að þagga niður gagnrýni og breiða yfir vandkvæðin. Þessi staða er óeðlileg og óæskileg í vísindum.“⁠9

10. Hvers vegna meðtaka margir vísindamenn þróunarkenninguna sem „staðreynd“?

10 Í svipaðan streng tók Anthony Ostric, prófessor í mannfræði, er hann gagnrýndi starfsbræður sína fyrir að lýsa því yfir „sem staðreynd“ að maðurinn sé kominn af dýrum er líktust öpum. Hann sagði að það væri „í besta lagi tilgáta, og reyndar alls ekkert vel rökstudd sem slík.“ Hann nefndi að ‚alls engar sannanir væru fyrir því að maðurinn hafi ekki verið nánast óbreyttur allt frá fyrstu verksummerkjum um tilvist hans.‘ Mannfræðingurinn sagði að þorri sérfræðinga hefði fylkt liði að baki forsvarsmönnum þróunarkenningarinnar „af ótta við að vera ella ekki kallaðir alvöru vísindamenn eða vera ekki gjaldgengir meðal virðulegra menntamanna.“⁠10 Um þetta atriði segja Hoyle og Wickramasinghe einnig: „Annaðhvort trúa menn hugmyndunum eða eru óhjákvæmilega brennimerktir trúvillingar.“⁠11 Ein af afleiðingum þessa er sú að fjölmargir vísindamenn hafa verið tregir til að leggja til hliðar fordóma og rannsaka hinn möguleikann sem heitir sköpun. Um þetta sagði í lesandabréfi í tímaritinu Hospital Practice: „Vísindin hafa alltaf stært sig af hlutlægum viðhorfum sínum, en ég er smeykur um að við vísindamenn séum óðfluga að verða fórnarlömb þeirra fordóma og þröngsýni sem okkur hefur svo lengi hryllt við.“⁠12

Kirkjurnar hafa brugðist

11. Hvernig eiga trúarbrögðin þátt í fylgi þróunarkenningarinnar?

11 Önnur ástæða fyrir fylgi þróunarkenningarinnar er sú að hinar grónu kirkjudeildir hafa brugðist, bæði í því sem þær kenna og því sem þær gera, og hafa auk þess ekki gefið mönnum rétta mynd af sköpunarsögu Biblíunnar. Upplýst fólk þekkir vel kirkjusöguna sem greinir frá hræsni, kúgun og rannsóknarrétti. Það hefur orðið vitni að stuðningi klerkastéttarinnar við morðóða einræðisherra. Það veit að fólk sömu trúar hefur drepið hvert annað í milljónatali í styrjöldum og haft til þess stuðning presta sinna á báða bóga. Því finnst þar með engin ástæða til að gefa gaum þeim Guði sem þessi trúfélög eiga að vera fulltrúar fyrir. Þar við bætist að fáránlegar og óbiblíulegar kennisetningar ýta enn frekar undir slíka afstöðu til Guðs. Hugmyndir á borð við eilífar vítiskvalir — að Guð steiki fólk að eilífu í bókstaflegum vítiseldi — eru mjög ógeðfelldar hugsandi fólki.

12. Hvað sýnir það um kirkjufélögin hvernig þau hafa brugðist skyldu sinni?

12 En það er ekki aðeins hugsandi fólk sem hefur viðbjóð á slíkum trúarkenningum og hátterni. Af Biblíunni má glögglega sjá að Guð hefur líka viðbjóð á þeim. Satt að segja afhjúpar Biblían opinskátt hræsni ýmissa trúarleiðtoga. Til dæmis segir hún um þá: „Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ (Matteus 23:28) Jesús sagði alþýðunni að klerkar hennar væru „blindir“ leiðtogar og það sem þeir kenndu væri ekki frá Guði heldur þvert á móti „mannasetningar einar.“ (Matteus 15:9, 14) Á sama hátt fordæmir Biblían þá sem „segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ (Títusarbréfið 1:16) Gagnstætt fullyrðingum sínum eru þau trúfélög, sem hafa stuðlað að hræsni og blóðsúthellingum eða látið sér þær í léttu rúmi liggja, ekki frá Guði og ekki fulltrúar hans. Öllu heldur eru þau kölluð „falsspámenn“ og er líkt við tré er bera „vonda ávöxtu.“ — Matteus 7:15-20; Jóhannes 8:44; 13:35; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

13. Hvaða forystu hafa kirkjufélögin greinilega ekki veitt?

13 Þar að auki hafa mörg trúfélög látið undan þróunarkenningunni og gefa þar með áhangendum sínum ekki kost á neinu öðru. Sem dæmi má nefna að alfræðibók kaþólskra, New Catholic Encyclopedia, segir: „Almenn þróun, jafnvel mannslíkamans, virðist sennilegasta, vísindaleg skýring á uppruna lífsins.“⁠13 Á fundi í Páfagarði urðu 12 fræðimenn, sem mynda æðsta vísindaráð kaþólsku kirkjunnar, sammála um eftirfarandi yfirlýsingu: „Við erum sannfærðir um að ekki verði um það deilt að viðamikil sönnunargögn leyfi heimfærslu þróunarhugmyndarinnar á menn og önnur fremdardýr.“⁠14 Er líklegt að óupplýstir kirkjumeðlimir spyrni við fótum þegar kirkjan gefur út slíka stuðningsyfirlýsingu, jafnvel þótt „viðamikil sönnunargögn“ styðji ekki þróunarkenninguna heldur, þess í stað, styðji í reynd sköpunina?

14. Hvernig fylla menn oft það tómarúm sem fölsk trúarbrögð mynda?

14 Tómarúmið, sem myndast við þetta, er oft fyllt með efahyggju og guðsafneitun. Þegar fólk kastar guðstrúnni snýr það sér að þróunarkenningunni í staðinn. Í mörgum löndum er guðsafneitun byggð á þróunarkenningunni opinber stefna stjórnvalda. Verulegur hluti þessarar vantrúar er kirkjufélögunum sjálfum að kenna.

15. Hvaða aðrar trúarlegar ranghugmyndir fæla menn frá trú á Guð og Biblíuna?

15 Við þetta bætist að sumar trúarkenningar eru slíkar að fólk heldur Biblíuna kenna hluti sem ganga í berhögg við þekktar staðreyndir. Það hafnar því Guði Biblíunnar. Til dæmis halda sumir því ranglega fram, eins og getið er fyrr í þessari bók, að Biblían kenni að jörðin hafi verið sköpuð á sex bókstaflegum sólarhringum og sé aðeins 6000 ára gömul. En Biblían kennir það alls ekki.

‚Ég trúi aðeins því sem ég get séð‘

16. Hvers vegna neita sumir að trúa að til sé skapari?

16 Sumum finnst í einlægni að þeir geti ekki trúað á skapara því þeim finnst aðeins hægt að trúa því sem þeir geta séð. Ef ekki er hægt að sjá eitthvað eða mæla á einhvern hátt finnst sumum það ekki vera til. Að vísu viðurkenna þeir í daglegu lífi tilvist margs sem ekki verður séð, svo sem rafmagns, segulmagns, útvarpsbylgna og þyngdarafls. Það breytir samt engu um viðhorf þeirra, því að allt þetta er hægt að mæla eða skynja með einhverjum hætti. Hins vegar er engin leið að sjá eða mæla tilvist skapara eða Guðs.

17, 18. (a) Hvaða sönnunargögn, sem við sjáum, sýna fram á tilvist ósýnilegs skapara? (b) Hvers vegna ættum við ekki að búast við að sjá Guð?

17 Eins og við höfum séð í köflunum á undan er samt sem áður ærin ástæða til að trúa að til sé ósýnilegur skapari, vegna þess að við sjáum merkin um tilvist hans, handaverkin. Við sjáum þau í tæknilegum fullkomleika og flóknu eðli atómsins, mikilfenglegu skipulagi alheimsins, einstakri reikistjörnu okkar, jörðinni, undraverðri gerð lifandi vera og stórbrotnum heila mannsins. Allt eru þetta afleiðingar sem verða að eiga sér viðhlítandi orsök til að skýring sé á tilvist þeirra. Jafnvel efnishyggjumenn viðurkenna þetta orsakalögmál á öllum öðrum sviðum. Hvers vegna ekki líka í sambandi við sjálfan alheiminn?

18 Einföld rökfærsla Biblíunnar lýsir þessu best: „Hið ósýnilega eðli [skaparans], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Biblían leiðir með öðrum orðum rök að tilvist Guðs, orsökinni, með því að benda á afleiðinguna. Hin sýnilega sköpun, ‚verk hans‘ sem vekja lotningu okkar, er augljós afleiðing sem hlýtur að eiga sér skynsemigædda orsök. Þessi ósýnilega orsök er Guð. Sem skapari alheimsins ræður Guð án efa yfir slíku afli að menn af holdi og blóði mega ekki búast við að geta séð hann og haldið lífi. Eins og Biblían orðar það: „Enginn maður fær séð [Guð] og lífi haldið.“ — 2. Mósebók 33:20.

Önnur meginorsök vantrúar

19. Nefndu aðra meginástæðu fyrir því að margir aðhyllast þróunarkenninguna.

19 Þá er önnur meginorsök fyrir því að margir hafa horfið frá trú á Guð og snúist á sveif með þróunarkenningunni. Hún er sú þjáning og það böl sem finna má alls staðar í heiminum. Um aldaraðir hafa menn mátt þola magnað ranglæti, kúgun, glæpi, styrjaldir, sjúkdóma og dauða. Margir skilja ekki hvers vegna allar þessar þrengingar eru hlutskipti mannkyns. Þeim finnst að almáttugur skapari myndi ekki leyfa slíkt. Úr því að þetta ástand er staðreynd telja þeir að Guð geti ekki verið til. Þegar þróunarkenningunni er slegið fram grípa menn hana svo sem eina möguleikann, oft að lítt athuguðu máli.

20. Hvaða spurningum þarf að svara?

20 Hvaða ástæðu gæti almáttugur skapari haft fyrir því að leyfa svona miklar þjáningar? Mun þetta alltaf vera svona? Svörin við þessum spurningum gera okkur síðan kleift að skilja hina dýpri ástæðu fyrir því að þróunarkenningin hefur náð svona mikilli útbreiðslu á okkar tímum.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 179]

Nemandinn heyrir sjaldan rök gegn þróunarkenningunni.

[Rammi á blaðsíðu 180]

Þróunarkenningin gagnsýrir náttúruvísindi og önnur fræðisvið.

[Rammi á blaðsíðu 180]

Margir frammámenn í menntamálum og vísindum segja eða gefa í skyn að einungis fáfróðir neiti að trúa þróunarkenningunni.

[Rammi á blaðsíðu 182]

‚Þróunarvísindin láta í ljós ískyggilega tilhneigingu til trúar að órannsökuðu máli.‘

[Rammi á blaðsíðu 182]

„Þær staðreyndir og túlkanir sem Darwin byggði á, eru hættar að vera sannfærandi.“

[Rammi á blaðsíðu 183]

„Þeir . . . þagga niður gagnrýni . . . Þessi staða er óeðlileg og óæskileg í vísindum.“

[Rammi á blaðsíðu 185]

Tómarúmið, sem rangar kenningar og verk trúarbragðanna hafa í för með sér, leiðir oft til þess að þróunarkenningin er meðtekin.

[Rammi á blaðsíðu 187]

Hinar miklu þjáningar mannkynsins koma mörgum til að hverfa frá trú á Guð og snúast á sveif með þróunarkenningunni.

[Myndir á blaðsíðu 181]

Eru enn uppi harðar deilur um hvort jörðin gangi um sól, vatn sé myndað úr súrefni og vetni og hvort þyngdarlögmálið sé staðreynd?

Sporbaugur jarðar

Vatn

Þyngdaraflið

[Mynd á blaðsíðu 184]

Stuðningur presta við báða stríðsaðila, umburðarleysi og falskenningar svo sem um helvíti, gera marga fráhverfa trúnni á Guð.

[Mynd á blaðsíðu 186]

‚Verkin‘ bera vitni um tilvist skapara.