Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað voru „apamennirnir“?

Hvað voru „apamennirnir“?

7. kafli

Hvað voru „apamennirnir“?

1, 2. Hvað fullyrða þróunarfræðingar um ættfeður okkar?

 UM LANGT árabil hafa fjölmiðlar stöku sinnum sagt fréttir af því að fundist hafi steingerðar leifar manna er líktust öpum. Vísindarit eru full af teikningum af slíkum skepnum. Eru þetta hlekkir í þróunarkeðju frá dýrum til manna? Eru „apamennirnir“ forfeður okkar? Þróunarfræðingar staðhæfa það. Þess vegna er oft komist að orði líkt og í þessari fyrirsögn greinar í vísindatímariti: „Hvernig api varð að manni.“⁠1

2 Þróunarfræðingar segja reyndar sumir að ekki sé rétt að nefna þessa fræðilegu forfeður mannsins „apa,“ en ekki eru þeir þó allir svo strangir.⁠2 Stephen Jay Gould segir: „Mennirnir . . . þróuðust af forfeðrum sem líktust öpum.“⁠3 Og George Gaylord Simpson segir: „Hinn sameiginlegi forfaðir yrði áreiðanlega kallaður api í daglegu tali allra sem sæju hann. Með því að skilgreining hugtaksins api mótast af almennri notkun þess má með réttu segja að forfeður mannsins hafi verið apar.“⁠4

3. Hvers vegna er steingervingaskráin álitin þýðingarmikil til að ganga úr skugga um ætterni mannsins?

3 Hvers vegna gegna steingervingar svona þýðingarmiklu hlutverki í viðleitni manna til að sýna fram á að mannkynið eigi sér forfeður sem líktust öpum? Vegna þess að ekkert fyrirfinnst núna í lífheiminum sem styður þá hugmynd. Eins og sýnt var fram á í 6. kafla skilur gríðarmikið hyldýpi á milli manna og allra núlifandi dýra, þeirra á meðal apaættarinnar. Þar eð engir milliliðir apa og manna finnast á lífi bundu menn vonir við að steingervingar þeirra myndu finnast í jarðlögunum.

4. Hvers vegna er það undarlegt frá sjónarhóli þróunarkenningarinnar að engir lifandi „apamenn“ skuli vera til?

4 Frá sjónarhóli þróunarkenningarinnar er hið augljósa hyldýpi milli núlifandi manna og apa furðulegt. Þróunarkenningin gerir ráð fyrir að dýrin hafi sífellt orðið hæfari til að lifa eftir því sem þau klifu þróunarstigann. Hvers vegna er þá hin „óæðri“ apaætt enn þá til, en engar af millitegundunum sem áttu samkvæmt kenningunni að standa henni framar á þróunarbrautinni? Nú eru til simpansar, górillur og órangútanar en engir „apamenn.“ Er það trúlegt að allir þessir yngri og, að því er haldið er fram, æðri „hlekkir“ í þróunarkeðjunni milli dýra er líktust öpum og nútímamannsins, hafi dáið út en ekki hinir óæðri apar?

Hve mikið má lesa út úr steingervingunum?

5. Hvaða hugmynd fá menn um sannanirnar fyrir þróun mannsins af lýsingum safna, rita og fjölmiðla?

5 Af fullyrðingum vísindarita, útstillingum safna og lýsingum fræðsluþátta sjónvarps mætti ætla að kappnógar sannanir lægju fyrir því að maðurinn hafi þróast af dýrum sem líktust öpum. En eru þær fyrir hendi? Hvað mátti til dæmis lesa út úr steingervingunum á dögum Darwins? Fann hann þar vísbendingar sem urðu kveikjan að kenningu hans?

6. (a) Voru fyrstu kenningar um þróun mannsins byggðar á steingervingum? (b) Hvernig gat þróunarkenningin öðlast viðurkenningu án öruggra sannana?

6 The Bulletin of the Atomic Scientists fræðir okkur um þetta: „Fyrstu kenningarnar um þróun mannsins eru í raun og veru mjög kyndugar við nánari athugun. David Pilbeam hefur lýst elstu kenningunum sem ‚steingervingalausum.‘ Með því er átt við að á lofti voru kenningar um þróun mannsins sem ætla mætti að krefðust einhvers vitnisburðar steingervinga, en í rauninni voru annaðhvort til svo fáir steingervingar að þeir höfðu engin áhrif á kenninguna eða alls engir steingervingar voru til. Milli nákomnasta ættingja mannsins, sem talinn var, og elstu steingervinga af mönnum var ekkert nema hugarburður vísindamanna nítjándu aldar.“ Þetta vísindarit segir okkur ástæðuna: „Menn vildu trúa á þróun, þróun mannsins, og það hafði áhrif á niðurstöðurnar af starfi þeirra.“⁠5

7-9. Hversu rækileg gögn í mynd steingervinga liggja núna fyrir um þróun mannsins?

7 Hve margir steingervingar af „apamönnum“ hafa nú fundist eftir leit sem staðið hefur í meira en öld? Richard Leakey segir: „Þeir sem starfa á þessu sviði hafa svo fá sönnunargögn undir höndum, til að byggja niðurstöður sínar á, að þeir þurfa oft að breyta niðurstöðunum.“⁠6New Scientist segir: „Miðað við það gagnamagn, sem rannsóknir á steingerðum leifum mannsins byggjast á, verðskuldar sú fræðigrein tæplega að teljast meira en undirgrein í steingervingafræði eða mannfræði. . . . það er mesta kvalræði hve safnið er ófullkomið og sýnin sjálf oft samhengislaus og ófullnægjandi.“⁠7

8 Bókin Origins tekur í sama streng: „Því lengra sem við fetum okkur eftir þróunarbrautinni í átt til mannsins, þeim mun ógreinilegri verður hún. Enn sem fyrr er það hörgull á steingervingum sem veldur.“⁠8 Tímaritið Science bætir við: „Aðalsönnunargagn vísindanna er raunalega fátæklegt safn beina sem lesa verður þróunarsögu mannsins af. Mannfræðingur hefur sagt það vera sambærilegt við að endursegja söguþráðinn í Stríð og friður eftir 13 blaðsíðum völdum af handahófi.“⁠9

9 En hversu rýr er vitnisburður steingervinganna um „apamennina“? Veittu eftirfarandi tilvitnunum athygli. Newsweek: „‚Steingervingarnir kæmust allir fyrir ofan á einu skrifborði,‘ segir Elwyn Simons við Duke-háskóla.“⁠10The New York Times: „Þekktar, steingerðar leifar forfeðra mannsins kæmust fyrir á knattborði. Það er lélegur útsýnispallur til að rýna frá út í þokumuggu síðastliðinna ármilljóna.“⁠11Science Digest: „Hið athyglisverða er að öll áþreifanleg sönnunargögn, sem við höfum fyrir þróun mannsins, myndu enn komast fyrir í einni líkkistu og rúm væri fyrir meira! . . . Nútímaapar virðast til dæmis hafa stokkið utan úr tóminu. Þeir eiga sér enga fortíð, enga steingervingasögu. Og hinn raunverulegi uppruni nútímamannsins — uppréttrar, nakinnar veru með stóran heila, sem smíðar sér verkfæri — er jafnmikil ráðgáta ef við eigum að vera heiðarlegir við sjálfa okkur.“⁠12

10. Hvað sýna steingervingarnir um tilkomu nútímamannsins?

10 Nútímamaðurinn, með hæfni sína til að rökhugsa, áforma, finna upp, byggja á fyrri þekkingu og beita flóknum tungumálum, skýtur skyndilega upp kollinum í steingervingasögunni. Gould segir í bók sinni The Mismeasure of Man: „Við höfum engar sannanir fyrir líffræðilegum breytingum á stærð eða gerð heilans síðan Homo sapiens kom fram á sjónarsviðið í steingervingaskránni fyrir um það bil 50.000 árum.“⁠13 Í bókinni The Universe Within er því spurt: „Hvað kom þróuninni . . . til að búa til, eins og á einni nóttu, nútímamanninn með sínum einstæða heila?“⁠14 Þróunarkenningin á ekkert svar. Gæti svarið legið í því að þessi margbrotna og ólíka lífvera hafi verið sköpuð?

Hvar eru „hlekkirnir“?

11. Hvað er viðurkennt vera „regla“ í steingervingaskránni?

11 En hafa ekki vísindamenn fundið þá „hlekki“ sem færa sönnur á tengslin milli manna og dýra sem líktust öpum? Ekki sýna gögnin það. Science Digest talar um að „týndu hlekkirnir, sem geta varpað ljósi á fremur skyndilega tilurð nútímamannsins, séu ófundnir.“⁠15Newsweek segir: „Týndi hlekkurinn milli manna og apa . . . er einfaldlega sá sem mest heillar í langri, stigskiptri röð ímyndaðra vera. Í steingervingaskránni eru týndir hlekkir regla en ekki undantekning.“⁠16

12. Hvaða afleiðingar hefur vöntunin á milliliðum haft?

12 Úr því að engir hlekkir finnast þarf að spinna upp ‚ímyndaðar verur‘ eftir sáralitlum heimildum og gefa sér svo að þær hafi verið til. Það skýrir hvers vegna eftirfarandi mótsögn getur komið fram, samkvæmt frásögn vísindatímarits: „Mennirnir þróuðust skref fyrir skref af forfeðrum sínum, sem líktust öpum, en ekki, eins og sumir vísindamenn halda fram, í skyndilegum stökkum úr einni tegund í aðra. . . . En aðrir mannfræðingar, sem leggja til grundvallar hér um bil sömu gögnin, eru sagðir hafa komist að algerlega gagnstæðri niðurstöðu.“⁠17

13. Hvað hefur leitt af því að „týndu hlekkirnir“ skuli ekki hafa fundist?

13 Við fáum nú betur skilið athugasemd hins virta líffærafræðings Solly Zuckerman sem skrifaði í Journal of the Royal College of Surgeons of Edinburgh: „Leitin að hinum margumtalaða ‚týnda hlekk‘ í þróunarsögu mannsins, þessu heilaga grali hins lífseiga sértrúarflokks líffærafræðinga og líffræðinga, fær getgátur og goðsagnir til að blómgast jafnríkulega núna og þær gerðu fyrir meira en 50 árum.“⁠18 Hann lét þess getið að allt of oft væru staðreyndir að engu hafðar og því sem vinsælt væri þá stundina hampað, þrátt fyrir að sönnunargögnin sýndu annað.

„Þróunartré“ mannsins

14, 15. Hvaða áhrif hafa steingervingafundir haft á „þróunartré“ mannsins?

14 Afleiðingin er sú að „þróunartréð,“ sem oft er teiknað til að lýsa ímyndaðri þróun mannsins af hinum óæðri dýrum, tekur stöðugum breytingum. Til dæmis segir Richard Leakey að nýlegur steingervingafundur „leggi í rúst þá hugmynd að hægt sé að raða öllum fyrri steingervingum í skipulega þróunarröð.“⁠19 Og blaðagrein, sem fjallaði um sama steingervingafund, lýsti yfir: „Nú verður að henda í ruslið hverri einustu bók um mannfræði, hverri einustu grein um þróun mannsins og hverri einustu teikningu af þróunartré mannsins. Þær eru greinilega rangar.“⁠20

15 Afskorningar af hinu fræðilega þróunartré mannsins, er áður nutu viðurkenningar, liggja eins og hráviði í kringum það. Í ritstjórnargrein í The New York Times sagði einu sinni að „svo mikið rúm sé fyrir getgátur [innan þróunarvísindanna] um tilurð mannsins, að kenningarnar segi eiginlega meira um höfund sinn en um efnið sjálft. . . . Þeim sem finnur nýja höfuðskel virðist gjarnt að teikna þróunartré mannsins upp á nýtt og láta sinn eigin fund liggja á aðalstofninum er liggur til mannsins en höfuðskeljar allra hinna á hliðargreinum sem enda í blindgötu.“⁠21

16. Hvers vegna slepptu tveir vísindamenn þróunartrénu með öllu í bók sinni?

16 Í ritdómi tímaritsins Discover um bókina The Myths of Human Evolution, sem þróunarfræðingarnir Niles Eldredge og Ian Tattersall eru höfundar að, segir að höfundarnir hafi sleppt þróunartré mannsins með öllu. Hvers vegna? Eftir að hafa nefnt að „einungis sé hægt að geta sér til um hlekkina í þróunarkeðju mannkyns“ segir í ritdóminum: „Eldredge og Tattersall halda því stíft fram að leit mannsins að forfeðrum sínum sé tilgangslaus. . . . Ef sönnunargögnin væru til, segja þeir, ‚mætti með öruggri vissu búast við að þróunarsaga mannsins yrði gleggri eftir því sem fleiri steingervingar af mannætt fyndust. En hafi eitthvað gerst sé það hið gagnstæða.‘“

17, 18. (a) Hvernig er hægt að „finna“ það sem sumir þróunarfræðingar álíta „týnt“? (b) Hvernig staðfestir steingervingaskráin það?

17 Tímaritið lýkur ritdómi sínum svo: „Tegundin maður, og allar aðrar tegundir, munu halda áfram að vera nokkurs konar munaðarleysingjar, því að vitneskjan um foreldra þeirra er glötuð aftur í forneskju.“⁠22 Hún er ef til vill „glötuð“ frá sjónarmiði þróunarkenningarinnar, en hefur ekki hinn valkosturinn, sköpunarsaga Biblíunnar, „fundið“ foreldra okkar eins og þá er í raun að finna í steingervingaskránni — almennska eins og við erum?

18 Steingervingaskráin leiðir í ljós að apar og menn eiga sér hver sinn upprunann. Þess vegna finnast engir steingerðir milliliðir sem tengja menn og apa. Milliliðirnir hafa aldrei verið til.

Hvernig litu þeir út?

19, 20. Á hverju eru myndir af „apamönnum“ byggðar?

19 En hvers vegna eru til svona margar eftirmyndir og líkön af „apamönnum“ í vísindaritum og söfnum heims, ef forfeður mannsins líktust ekki öpum? Á hverju eru myndirnar byggðar? Bókin The Biology of Race svarar því: „Nota verður ímyndunaraflið til að klæða slíkar eftirmyndir holdi og hári.“ Hún bætir við: „Við vitum nákvæmlega ekkert um hörundslit, hárgerð, dreifingu þess eða lit ellegar andlitsdrætti nokkurra forsögulegra manna.“⁠23

20 Science Digest hefur þetta að segja: „Að langmestum hluta eru hugmyndir listamanna byggðar meira á ímyndun en gögnum. . . . Listamenn verða að skapa eitthvað á milli apa og manns; og því eldri sem líkamsleifarnar eru sagðar vera, þeim mun líkari apa verða myndirnar.“⁠24 Donald Johanson, sem fæst við steingervingaleit, viðurkennir: „Enginn getur vitað með vissu hvernig nokkurt útdautt dýr af mannætt leit út.“⁠25

21. Hvað eru teikningar af „apamönnum“ í reynd?

21 Tímaritið New Scientist segir berum orðum að ekki liggi fyrir „nægileg vitneskja frá steingervingunum til að flytja kenningasmíð okkar út úr heimi draumóranna.“⁠26Myndir og líkön af „apamönnum“ eru því, eins og þróunarfræðingur einn viðurkenndi, „hreinn uppspuni að langmestu leyti . . . alger tilbúningur.“⁠27 Af þeirri ástæðu segir Ivar Lissner í bók sinni Man, God and Magic: „Mönnum er hægt og hægt að lærast að frumstæðir menn þurfa ekki að vera villimenn, og á sama hátt verðum við að láta okkur skiljast að fyrstu ísaldarmennirnir voru hvorki skynlausar skepnur né að hálfu apar né kretíndvergar. Þar af leiðandi eru allar tilraunir til að endurgera Neanderdalsmanninn, eða jafnvel Pekingmanninn, ólýsanlega heimskulegar.“⁠28

22. Hvernig hafa margir áhangendur þróunarkenningarinnar látið blekkjast?

22 Sumir vísindamenn hafa látið blekkjast af hreinum og beinum fölsunum vegna löngunar sinnar til að finna sönnunargögn fyrir tilvist „apamanna.“ Piltdown-maðurinn frá árinu 1912 er dæmi um slíkt. Í um það bil 40 ár viðurkenndu flestir þróunarsinnar hann sem ósvikinn. Loksins, árið 1953, komust svikin upp þegar sýnt var fram á með nýrri tækni að sett höfðu verið saman bein úr apa og manni og meðhöndluð sérstaklega til að láta þau líta út fyrir að vera ævagömul. Í öðru tilviki var gerð teikning af „týndum hlekk“ er líktist apa og birt í dagblöðum. Síðar var hins vegar viðurkennt að „sönnunargagnið“ væri aðeins ein tönn úr svíni af útdauðri tegund.⁠29

Hvað voru þeir?

23. Af hvers konar dýrum eru sumir steingervinganna sem skákað hefur verið fram sem forfeðrum mannsins?

23 Ef eftirmyndir af „apamönnunum“ eru ekki góðar og gildar, hvað þá um þær lífverur fortíðarinnar sem fundist hafa steingerð bein úr? Eitt elsta spendýrið, sem á að vera hluti af þróunartré mannsins, er smávaxið dýr líkt nagdýri sem sagt er hafa lifað fyrir um það bil 70 milljónum ára. Í bók sinni Lucy: The Beginnings of Humankind segja höfundarnir Donald Johanson og Maitland Edey: „Þetta voru ferfættar skordýraætur, svipaðar íkorna að útliti og stærð.“⁠30 Richard Leakey kallar dýrið „fremdardýr líkt rottu.“⁠31 En eru einhver haldbær rök fyrir því að þetta smádýr sé forfaðir mannsins? Nei, aðeins getgátur og óskhyggja. Engar millitegundir hafa fundist sem tengja það nokkru öðru en því sem það í reyndinni var: smávaxið dýr líkt nagdýri.

24. Hvaða vandkvæði eru á því að tefla Egyptapa fram sem forföður manna?

24 Næstir á þeim lista sem almenn eining er um — eftir viðurkennda eyðu er nemur um það bil 40 milljónum ára — eru steingervingar sem fundust í Egyptalandi og nefndir hafa verið Aegyptopithecus — Egyptapi. Sú skepna er sögð hafa verið uppi fyrir um það bil 30 milljónum ára. Tímarit, dagblöð og bækur hafa birt myndir af þessu litla dýri með fyrirsögnum svo sem: „Dýr líkt apa var forfaðir okkar.“⁠32 „Afrískt fremdardýr líkt apa sagt sameiginlegur forfaðir manna og apa.“⁠33 „Egyptapi er sameiginlegur forfaðir okkar og núlifandi apa.“⁠34 En hvar eru hlekkirnir milli hans og nagdýrsins sem kemur á undan honum? Hvar eru hlekkirnir sem tengja hann því sem stillt er upp næst á eftir honum í þróunarkeðjunni? Þeir hafa aldrei fundist.

Uppgangur og fall „apamannanna“

25, 26. (a) Hverju var einu sinni haldið fram um Ramapann? (b) Eftir hvaða steingervingum var hann endurgerður til að líta út eins og „apamaður“?

25 Eftir enn eina risaeyðu í steingervingasögunni er stillt upp steingervingi af skepnu sem sögð er vera fyrsti apinn sem líktist manni. Hann er sagður hafa verið uppi fyrir um það bil 14 milljónum ára og er nefndur Ramapithecus — Ramapi (eftir goðsögulegum, indverskum prinsi er hét Rama). Steingervingar hans fundust á Indlandi fyrir um það bil hálfri öld og eftir þeim var gerð mynd af dýri er líktist apa. Það stóð upprétt á tveim fótum. Bókin Origins segir um það: „Að svo miklu leyti sem við getum sagt á þessu stigi er þetta fyrsti fulltrúi ættarinnar maður.“⁠35

26 Hvernig voru steingervingarnir sem lagðir voru til grundvallar þessari niðurstöðu? Í sömu bók segir: „Sönnunargögnin fyrir tilvist Ramapans eru töluverð — þótt þau séu ömurlega smávægileg í strangasta skilningi orðsins: brot úr efri og neðri kjálka að viðbættu nokkru safni tanna.“⁠36 Sýnast þér þessi „sönnunargögn“ vera svo „töluverð“ að gera megi eftir þeim mynd af uppréttum „apamanni“ sem vera á forfaðir mannsins? Samt voru þróunarfræðirit yfirfull af myndum listamanna af þessum ímyndaða „apamanni“ — og það eina sem lá til grundvallar voru brot úr kjálkabeinum og tennur! Eigi að síður „sat Ramapinn svo öruggum sessi sem mest mátti verða niðri við rætur þróunartrés mannsins“ um áratuga skeið, eins og The New York Times komst að orði.⁠37

27. Hvað leiddu síðari steingervingafundir í ljós í sambandi við Ramapann?

27 En svo er ekki lengur. Nýlegri og heillegri steingervingafundir hafa leitt í ljós að Ramapinn var nauðalíkur núlifandi apaætt. Tímaritið New Scientist segir því núna: „Ramapinn hefur ekki getað verið fyrsti liðurinn í ættlegg mannsins.“⁠38 Þessar nýju upplýsingar urðu tilefni eftirfarandi spurningar tímaritsins Natural History: „Hvernig gat Ramapinn, . . . endurgerður eftir aðeins tönnum og kjálkabeinum — án þess að mjaðmargrind, útlimabein eða höfuðskel væru þekkt — laumað sér inn í þessa skrúðgöngu í átt til mannsins?“⁠39 Auðsætt er að heilmikil óskhyggja hlýtur að liggja að baki slíkum tilraunum til að láta sönnunargögnin segja það sem þau segja ekki.

28, 29. Hvað var fullyrt um suðurapann?

28 Annað gríðarstórt gat aðskilur þessa skepnu og þá næstu sem teflt hefur verið fram sem „apamanni“ á þróunarbraut mannsins. Sú er nefnd Australopithecus — suðurapi. Steingerðar leifar suðurapans fundust í fyrsta sinn í suðurhluta Afríku á þriðja áratug aldarinnar. Hann var með lítið heilabú á stærð við apana, sterkleg kjálkabein og var á myndum látinn ganga lotinn á tveim fótum, loðinn og apalegur að sjá. Hann var sagður hafa komið fram fyrir um það bil þrem til fjórum milljónum ára. Smám saman öðlaðist hann viðurkenningu nálega allra þróunarfræðinga sem forfaðir mannsins.

29 Svo dæmi séu tekin sagði í bókinni The Social Contract: „Með einni eða tveim undantekningum viðurkenna nú allir dugandi rannsóknarmenn á þessu sviði að suðurapar . . . séu raunverulegir forfeður mannsins.“⁠40The New York Times sagði: „Það var Australopithecus . . . sem að lokum þróaðist upp í Homo sapiens eða nútímamanninn.“⁠41 Og þróunarfræðingurinn Ruth Moore sagði í bókinni Man, Time, and Fossils: „Eftir öllum gögnum að dæma höfðu menn nú loksins hitt hinn löngum óþekkta forföður sinn.“ Með áhersluþunga lýsti hún yfir: „Sönnunargögnin voru yfirþyrmandi . . . týndi hlekkurinn var loksins fundinn.“⁠42

30, 31. Hvað hafa ítarlegri rannsóknir sýnt í sambandi við suðurapann?

30 En þegar fullyrðingar eru byggðar á ótryggum sönnunargögnum eða alls engum, ellegar hreinum blekkingum, þá er þeim kollvarpað fyrr eða síðar. Það hefur orðið hlutskipti margra fullyrðinga liðinna ára um ímyndaða „apamenn.“

31 Þannig fór líka fyrir suðurapanum. Ítarlegri rannsóknir hafa leitt í ljós að höfuðkúpa hans „var ólík höfuðkúpu manna í fleiru en smærra heilarými.“⁠43Líffærafræðingurinn Zuckerman segir: „Þegar höfuðkúpa suðurapa er borin saman við höfuðkúpu manna og höfuðkúpu apa er hún áberandi apaleg — ekki mennsk. Að halda öðru fram mætti líkja við það að staðhæfa að svart sé hvítt.“⁠44 Hann bætir við: „Samkvæmt niðurstöðum okkar leikur lítill vafi á að . . . Australopithecus líkist ekki Homo sapiens heldur núlifandi öpum.“⁠45 Donald Johanson segir: „Suðurapar . . . voru ekki menn.“⁠46 Richard Leakey tekur í sama streng og segir „ólíklegt að beinir forfeður okkar hafi verið þróunarlegir afkomendur suðurapanna.“⁠47

32. Hvernig yrði litið á slíkar skepnur ef þær væru á lífi núna?

32 Ef einhverjir suðurapar fyndust á lífi núna yrði þeim komið fyrir í dýragörðum með öðrum öpum. Enginn myndi kalla þá „apamenn.“ Hið sama er að segja um annað „frændlið“ meðal steingervinganna sem líkist þeim, til dæmis smágerðan suðurapa sem kallaður er „Lucy.“ Robert Jastrow segir um hann: „Þessi heili var ekki stór; hann var þriðjungur af stærð mannsheila.“⁠48 Bersýnilega var „Lucy“ einfaldlega „api“ líka. New Scientist segir reyndar að höfuðkúpa „Lucyar“ hafi „líkst mjög höfuðkúpu simpansa.“⁠49

33. Hvaða steingervingar kunna að vera af mönnum?

33 Þá er til steingervingur tegundar sem kölluð hefur verið Homo erectus — hinn upprétti maður eða reismaður. Lögun og stærð heilans svarar til lægri markanna hjá nútímamanninum. Encyclopædia Britannica segir auk þess að „þau útlimabein, sem hafa fundist fram til þessa, hafa verið óþekkjanleg frá beinum Homo sapiens.“50 Á hinn bóginn er óljóst hvort þetta var maður eða ekki. Ef svo var, þá tilheyrði hann einfaldlega einni grein mannkynsins og dó út.

Ættin maður

34. Hvernig hafa hugmyndir um Neanderdalsmanninn breyst?

34 Neanderdalsmaðurinn (nefndur eftir Neanderdal í Þýskalandi þar sem fyrstu steingervingarnir fundust) var tvímælalaust maður. Í fyrstu var hann teiknaður hokinn, aulalegur, loðinn og líkur apa. Nú er vitað að hin steingerða beinagrind, sem þessi ranga mynd var byggð á, var illa afmynduð af sjúkdómi. Síðan hafa fundist margir steingervingar Neanderdalsmannsins sem staðfesta að hann var ekki mjög frábrugðinn nútímamanninum. Fred Hoyle segir í bók sinni Ice: „Engin gögn staðfesta það að Neanderdalsmaðurinn hafi staðið okkur neitt að baki.“⁠51 Þar af leiðandi hafa nýlegar teikningar af Neanderdalsmanninum gefið honum nútímalegra útlit.

35. Hvað var Cro-Magnonmaðurinn?

35 Önnur steingerð tegund, sem oft er getið í vísindaritum, er Cro-Magnonmaðurinn, nefndur eftir stað í Suður-Frakklandi þar sem bein hans voru fyrst grafin úr jörð. Þau bein voru „svo nauðalík beinum nútímamanna að jafnvel hinir efagjörnustu urðu að viðurkenna að þau væru mennsk,“ segir í bókinni Lucy.52

36. Hvað segja steingervingar um verur sem líktust öpum og verur sem líktust mönnum forðum daga?

36 Vitnisburður sönnunargagnanna er því greinilega sá að „apamennirnir“ eigi sér ekki stoð í veruleikanum. Mennirnir bera í staðinn öll merki þess að vera skapaðir — aðgreindir frá dýrunum. Menn tímgast aðeins eftir sinni tegund. Þannig er það núna og þannig hefur það alltaf verið. Dýr lík öpum, sem til voru í fyrndinni, voru apar og ekkert annað. Og steingervingar af mönnum fortíðarinnar, sem eru eilítið frábrugðnir nútímamönnum, vitna einungis um fjölbreytni mannsins, sömu fjölbreytni og við sjáum núna þegar menn með harla ólíkt sköpulag búa hlið við hlið. Til eru tveggja metra háir menn og til eru dvergar. Bæði stærð og lögun beinagrindar getur verið breytileg. En allir tilheyra sömu „tegundinni“ — tegundinni maður.

Hvað um aldursgreiningarnar?

37. Hve lengi hefur maðurinn verið á jörðinni samkvæmt tímatali Biblíunnar?

37 Tímatal Biblíunnar gefur til kynna að liðin séu um 6000 ár frá sköpun mannsins. Hvers vegna lesum við þá oft um margfalt lengri tíma í sambandi við steingervinga af mönnum?

38. Sanna aldursgreiningar byggðar á geislavirkri sundrun, sem stangast á við tímatal Biblíunnar, að Biblían fari með rangt mál?

38 Áður en sú ályktun er dregin að tímatal Biblíunnar sé rangt er rétt að minna á að aldursgreiningaraðferðir, byggðar á geislavirkum efnum, hafa sætt verulegri gagnrýni sumra vísindamanna. Vísindatímarit skýrði frá rannsóknum er sýndu að „aldursgreiningar, byggðar á geislavirkri sundrun, kunni að vera skakkar — ekki um fáein ár heldur nokkrar stærðargráður.“ Tímaritið sagði einnig: „Hugsanlegt er að maðurinn hafi ekki verið á jörðinni í 3,6 milljónir ára heldur aðeins nokkur þúsund ár.“⁠53

39. Er „kolefnisklukkan“ alltaf áreiðanleg?

39 Ein af aldursgreiningaraðferðunum er byggð á geislavirku kolefni með sætistöluna 14, stundum nefnd geislakolsaðferðin. Vísindamenn víða um heim unnu að þróun hennar um tveggja áratuga skeið. Henni var fagnað mjög sem nákvæmri aðferð til að aldursgreina fornar menjar tengdar sögu mannsins. En þá héldu helstu sérfræðingar heims, meðal annarra geislaefnafræðingar, fornleifafræðingar og jarðfræðingar, ráðstefnu í Uppsölum í Svíþjóð til að bera saman bækur sínar. Af skýrslum og fréttum af ráðstefnu þeirra mátti lesa að þær forsendur, sem mælingarnar voru byggðar á, hefðu reynst ótryggar að meira eða minna leyti. Til dæmis hafði komið í ljós að myndun geislavirks kolefnis í andrúmsloftinu hefur ekki alltaf verið jafnhröð og að þessi aðferð var ekki áreiðanleg til aldursgreiningar á hlutum frá því um það bil 2000 fyrir okkar tímatal eða eldri.⁠54

40. Hvernig styðja sögulegar heimildir upplýsingar Biblíunnar um aldur mannkynsins?

40 Hafa ber í huga að áreiðanleg vitneskja um veru mannsins á jörðinni telst ekki í milljónum ára heldur þúsundum. Til dæmis lesum við í bókinni The Fate of the Earth: „Fyrir aðeins sex eða sjö þúsund árum . . . kom siðmenningin fram á sjónarsviðið og gerði okkur kleift að byggja upp mennskan heim.“⁠55 Bókin The Last Two Million Years segir: „Í Gamla heiminum voru flest mikilvægustu skref landbúnaðarbyltingarinnar stigin á árabilinu 10.000 til 5000 f.Kr.“ Hún segir einnig: „Aðeins síðustu 5000 árin hefur maðurinn látið eftir sig ritaðar heimildir.“⁠56 Sú staðreynd að steingervingaskráin sýnir að nútímamaðurinn birtist skyndilega á jörðinni og að áreiðanlegar, skráðar heimildir eru óneitanlega ekki ýkja gamlar, kemur heim og saman við tímatal Biblíunnar tengt veru mannsins á jörðinni.

41. Hvað sagði brautryðjandi í aldursákvörðun með geislakolum um „forsögulega“ tíma?

41 Vert er í þessu sambandi að veita athygli því sem nóbelsverðlaunahafinn og kjarneðlisfræðingurinn W. F. Libby, einn af brautryðjendum aldursgreiningar með geislavirku kolefni, sagði í tímaritinu Science: „Vinnan við þróun aldursgreiningartækninnar fór fram í tvennu lagi — aldursgreiningu sýna annars vegar frá sagnatíma og hins vegar forsögulegum tíma. Við Arnold [samstarfsmaður hans] urðum fyrir fyrsta áfallinu þegar ráðgjafar okkar fræddu okkur um að skráð saga næði aðeins 5000 ár aftur í tímann. . . . Menn sjá á prenti fullyrðingar þess efnis að þetta og þetta þjóðfélag eða fornleifar séu 20.000 ára gamlar. Við uppgötvuðum fremur snögglega að þessar tölur, þessi fornu ártöl, eru ekki þekkt með vissu.“⁠57

42. Hvað segir enskur rithöfundur um muninn á þróunarkenningunni og sköpunarsögunni?

42 Í ritdómi um bók um þróunarkenninguna vakti enski rithöfundurinn Malcolm Muggeridge athygli á því að sannanir skorti fyrir þróunarkenningunni. Hann benti á að mjög óraunsæjar getgátur blómguðust engu að síður. Síðan sagði hann: „Frásaga 1. Mósebókar virðist, í samanburði við þær, nógu skynsamleg og hefur í það minnsta þann kost að vera sannanlega tengd því sem við vitum um menn og mannlega hætti.“ Hann sagði að órökstuddar fullyrðingar um margra milljóna ára þróun mannsins „og glæfraleg stökk frá einni hauskúpunni til annarrar geti ekki verkað öðruvísi á nokkurn þann, sem [þróunar]goðsögnin hefur ekki hlaupið uppi, en sem hreinræktaðir hugarórar.“ Hann lauk grein sinni þannig: „Komandi kynslóðir munu sannarlega verða furðu lostnar og mikillega skemmt, vona ég, yfir því að svona hroðvirknisleg og ósannfærandi kenningasmíð skuli hafa hertekið hugi tuttugustu aldar manna jafnauðveldlega og verið heimfærð jafnvíðtækt og glannalega.“⁠58

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 84]

Hvers vegna hafa hinir „óæðri“ apar lifað af en enginn einasti af hinum „æðri“ „apamönnum“?

[Rammi á blaðsíðu 85]

Fyrstu kenningarnar um þróun mannsins voru ekki annað en „hugarburður vísindamanna nítjándu aldar.“

[Rammi á blaðsíðu 85]

„Aðalsönnunargagn vísindanna er raunalega fátæklegt safn beina.“

[Rammi á blaðsíðu 87]

„Leitin að hinum margumtalaða ‚týnda hlekk‘ í þróunarsögu mannsins, . . . fær getgátur og goðsagnir til að blómgast.“

[Rammi á blaðsíðu 88]

„Nú verður að henda í ruslið . . . hverri einustu teikningu af þróunartré mannsins.“

[Rammi á blaðsíðu 90]

Ekki er „nægileg vitneskja frá steingervingunum til að flytja kenningasmíð okkar út úr heimi draumóranna.“

[Rammi á blaðsíðu 93]

„Ramapinn hefur ekki getað verið fyrsti liðurinn í ættlegg mannsins.“

[Rammi á blaðsíðu 95]

„Engin gögn staðfesta það að Neanderdalsmaðurinn hafi staðið okkur neitt að baki.“

[Rammi á blaðsíðu 98]

„Komandi kynslóðir munu sannarlega verða furðu lostnar . . . yfir því að svona hroðvirknisleg og ósannfærandi kenningasmíð skuli hafa hertekið hugi tuttugustu aldar manna.“

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 94]

Um tíma var suðurapi viðurkenndur sem forfaðir mannsins, „týndi hlekkurinn.“ Núna eru allmargir vísindamenn sammála um að höfuðkúpa hans hafi verið „áberandi apaleg — ekki mennsk.“

[Myndir]

Suðurapi

Simpansi

Maður

[Mynd á blaðsíðu 84]

Úr því að engir núlifandi hlekkir eru til milli manna og dýra vonuðust þróunarfræðingar til að finna þá meðal steingervinganna.

[Mynd á blaðsíðu 86]

Þróunarfræðingur viðurkennir: „Við höfum engar sannanir fyrir líffræðilegum breytingum á stærð eða gerð heilans síðan Homo sapiens kom fram á sjónarsviðið í steingervingaskránni.“

[Mynd á blaðsíðu 89]

Á hverju eru teikningar af „apamönnum“ byggðar? Þróunarfræðingar svara: ‚Ímyndunaraflinu,‘ ‚hreinum uppspuna að langmestu leyti,‘ ‚algerum tilbúningi.‘

[Mynd á blaðsíðu 91]

Nagdýr líkt snjáldurmús er sagt vera forfaðir mannsins. En engir steingervingar sýna fram á slíkt samband.

Þetta dýr, sem líkist apa, hefur verið kallað eitt af forfeðrum okkar. Engir steingervingar styðja þá fullyrðingu.

[Mynd á blaðsíðu 92]

Aðeins tennur og hlutar úr kjálkabeinum lágu að baki þeirri staðhæfingu að Ramapinn væri „fyrsti fulltrúi ættarinnar maður.“ Síðari steingervingafundir sýndu allt annað.

[Mynd á blaðsíðu 96]

Steingervingaskráin ber vitni um mikla fjölbreytni og eins er mikil fjölbreytni í stærð og beinabyggingu núlifandi manna. En allir tilheyra „tegundinni“ maður.

[Mynd á blaðsíðu 97]

Menn bera öll einkenni þess að vera skapaðir sem sérstök tegund, aðgreind frá öpunum.

[Mynd/Skyringarmynd á blaðsíðu 90]

Piltdown-maðurinn var viðurkenndur sem einn af „týndu hlekkjunum“ í fjóra áratugi þar til sýnt var fram á að hann væri falsaður. Settar höfðu verið saman tennur og hluti af kjálkabeini úr órangútan og brot úr höfuðskel af manni.

[Skyringarmynd]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

Dökku svæðin eru brot úr höfuðskel manns.

Allt ljósa svæðið er gert úr gifsi.

Dökku svæðin eru tennur og brot úr kjálkabeini órangútans.