Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gjárnar miklu — getur þróun brúað þær?

Gjárnar miklu — getur þróun brúað þær?

6. kafli

Gjárnar miklu — getur þróun brúað þær?

1. Hvað segir vísindamaður um gloppurnar í steingervingaskránni?

 STEINGERVINGAR eru áþreifanlegur vitnisburður þess fjölskrúðuga lífs sem var á jörðinni löngu áður en maðurinn kom til sögunnar. Þeir hafa þó ekki skotið þeim stoðum undir hugmyndir þróunarsinna um uppruna lífsins eða tilurð nýrra tegunda sem þeir höfðu vonast til. Engir steingervingar hafa fundist sem brúa hinar miklu gjár milli tegundanna. Francis Hitching segir þar að lútandi: „Hið einkennilega er að það er innra samræmi í eyðunum í steingervingaskránni: það vantar steingervinga á öllum mikilvægu stöðunum.“1

2. Hvernig staðfesta steingervingar fiskanna það?

2 Mikilvægu staðirnir, sem hann vísar til, eru gjárnar á milli helstu fylkinga dýraríkisins. Sem dæmi um þetta má nefna að þróunarkenningin gengur út frá því að fiskar hafi þróast af hryggleysingjum. „Fiskarnir stökkva á dularfullan hátt inn í steingervingaskrána,“ segir Hitching, „að því er virðist utan úr tóminu: skyndilega, fullmyndaðir.“⁠2 Dýrafræðingurinn N.J. Berrill lýsir sinni eigin skýringu á þróun fiskanna svo: „Í vissum skilningi er þessi frásaga vísindaskáldskapur.“⁠3

3. Hvað segir þróunarkenningin um tilurð helstu fylkinga dýraríkisins?

3 Þróunarkenningin gerir ráð fyrir því að froskdýr hafi komið af fiskum, skriðdýr af froskdýrum, bæði spendýr og fuglar af skriðdýrum og að sum spendýr hafi að síðustu breyst í menn. Í kaflanum á undan var sýnt fram á að steingervingarnir styðja ekki þessar fullyrðingar. Þessi kafli fjallar um hversu firnamiklar þær breytingar eru sem kenningin gerir ráð fyrir. Þegar þú nú lest áfram skaltu ígrunda líkurnar á því að slíkar breytingar hafi getað gerst af sjálfu sér og af hreinni tilviljun.

Gjáin milli fiska og froskdýra

4, 5. Lýstu meginmuni fiska og froskdýra.

4 Það var hryggurinn sem greindi fiska frá hryggleysingjum. Þessi hryggur hefði þurft að ummyndast til að breyta fiski í froskdýr sem lifa ýmist á landi eða í vatni. Til þess þurfti að bætast við mjaðmargrind. Engir steingerðir fiskar eru þekktir sem sýna hvernig mjaðmargrind froskdýranna þróaðist. Í sumum froskdýrum, svo sem froskum og körtum, hefði allur hryggurinn þurft að breytast í óþekkjanlega mynd. Höfuðbeinin eru einnig ólík. Til að búa til froskdýr hefði þróunin auk þess orðið að breyta uggum í limi með liðamótum, ökklum og tám, samhliða miklum breytingum á vöðvum og taugum. Tálkn þurftu að breytast í lungu og tvíhólfa hjarta fiskanna í þríhólfa hjarta froskdýranna.

5 Til að brúa bilið milli fiska og froskdýra hefði heyrnin þurft að breytast stórkostlega. Yfirleitt nema fiskar hljóð í gegnum líkamann en flestir froskar og körtur hafa hljóðhimnu. Tungan þurfti einnig að breytast. Engir fiskar geta rekið út úr sér tunguna en það gera froskdýr svo sem körtur. Froskdýr geta þar að auki blikkað augunum, því að þau hafa himnu sem þau geta dregið yfir augnknöttinn til að halda honum hreinum.

6. Hvaða dýr hafa verið talin tengiliðir milli fiska og froskdýra en hvers vegna eru þau það ekki?

6 Menn hafa lagt mikið á sig til að reyna að finna tengsl milli froskdýra og einhverra ættfeðra í ríki fiskanna, en án árangurs. Lungnafiskurinn hefur verið í miklu uppáhaldi meðal þróunarfræðinga sem hugsanlegur hlekkur, því að hann hefur, auk tálkna, sundblöðru sem hann getur notað til öndunar meðan hann er um stundar sakir á þurru landi. Bókin The Fishes segir: „Það er freistandi að ímynda sér að einhver bein tengsl kunni að vera á milli þeirra og froskdýranna, sem landhryggdýr hafa þróast af. En svo er ekki; þeir eru algerlega aðgreindur tegundarhópur.“⁠4 David Attenborough afskrifar bæði lungnafiskinn og fornaskúf „vegna þess að höfuðbein þeirra eru svo ólík höfuðbeinum elstu, steingerðu froskdýranna að þau geta ekki verið komin af þeim.“⁠5

Gjáin milli froskdýra og skriðdýra

7. Hvað er vandskýrðast við breytinguna frá fiskum til froskdýra?

7 Þegar reynt er að brúa bilið milli froskdýra og skriðdýra skjóta aðrar, torráðnar gátur upp kollinum. Ein sú erfiðasta er hvernig egg með skurn myndaðist. Þau dýr, sem komu á undan skriðdýrunum, gutu mjúkum, hlaupkenndum eggjum sínum í vatn þar sem ytri frjóvgun síðan átti sér stað. Skriðdýr lifa á landi og gjóta eggjum sínum á landi, en fóstrið í egginu þarf samt að vera í vökvakenndu umhverfi. Lausnin á því var egg með harðri skurn. En sú lausn krafðist meiri háttar breytingar á frjóvguninni. Nú þurfti að koma til skjalanna innri frjóvgun, áður en skurnin myndaðist um eggið. Til þess þurfti nýja gerð kynfæra, nýjar mökunaraðferðir og nýjar eðlishvatir — sem allt undirstrikar hina djúpu gjá á milli froskdýra og skriðdýra.

8, 9. Hvað annað er nauðsynlegt í sambandi við egg með skurn?

8 Að umlykja eggið skurn kallaði á ýmsar aðrar athyglisverðar breytingar til að skriðdýrsfóstrið gæti vaxið og þroskast og að síðustu brotist út úr skurninni. Til dæmis þurftu að vera ýmsar himnur og sekkir inni í egginu, svo sem líknarbelgurinn. Hann umlykur þann vökva sem fóstrið vex í. Bókin The Reptiles lýsir annarri fósturhimnu, sem nefnd er þvagbelgur, svo: „Þvagbelgurinn tekur við og geymir úrgangsefni fóstursins líkt og þvagblaðra. Hann er einnig búinn æðum er taka til sín súrefni, sem fer í gegnum skurnina, og flytur það til fóstursins.“⁠6

9 Þróunarkenningin hefur ekki megnað að skýra annan veigamikinn mun. Fóstur í fiskhrognum og froskdýraeggjum sleppa úrgangsefnum sínum út í vatnið umhverfis sem uppleysanlegu þvagefni. En þvagefni inni í skurn skriðdýrseggja myndi drepa fóstrið. Í eggi með harðri skurn er því gerð meiri háttar efnafræðileg breyting. Úrgangsefnunum er safnað fyrir sem óuppleysanlegri þvagsýru sem er síðan geymd í þvagbelgnum. Hugleiddu einnig þetta: Eggjarauðan er fæða hins vaxandi skriðdýrsfósturs sem getur þess vegna skriðið fullmyndað úr egginu, ólíkt froskdýrum sem klekjast ekki út í þeirri mynd sem fullvaxið dýr hefur. Og skriðdýrsfóstrið hefur sérstaka eggtönn eða skurnbrjót til að brjótast út úr fangelsi sínu, egginu, þegar tíminn er kominn.

10. Hvað sagði þróunarfræðingur í mæðutón?

10 Margt fleira þarf til að brúa bilið milli froskdýra og skriðdýra, en þessi dæmi ættu að nægja til að sýna að tilviljun ein er þess ekki megnug að valda þeim mörgu og flóknu breytingum sem þarf til að brúa þá breiðu gjá. Engan þarf því að undra mæðutóninn í þróunarfræðingnum Archie Carr þegar hann segir: „Eitt af hinum gremjulegu atriðum í steingervingasögu hryggdýra er það að hún segir svo lítið um þróun skriðdýra í árdaga þeirra þegar egg með skurn var að þróast.“⁠7

Gjáin milli skriðdýra og fugla

11, 12. Hver er meginmunur skriðdýra og fugla og hvernig reyna sumir að leysa gátuna?

11 Skriðdýr eru með misheitt blóð, það er að segja að líkamshiti þeirra er breytilegur eftir umhverfishita. Fuglar hafa hins vegar jafnheitt blóð sem merkir að líkamshiti þeirra helst næsta óbreyttur, óháð umhverfishita. Ýmsir þróunarfræðingar hafa nú gripið til þess ráðs að segja að sumar af forneðlunum (sem voru skriðdýr) hafi haft jafnheitt blóð, til að leysa þá ráðgátu hvernig fuglar með jafnheitt blóð gátu þróast af skriðdýrum með misheitt blóð. Hið almenna viðhorf er þó enn hið sama og Robert Jastrow lætur í ljós: „Forneðlur voru, líkt og öll skriðdýr, með misheitt blóð.“⁠8

12 Franskur þróunarfræðingur, Lecomte du Noüy, sagði um þá skoðun að fuglar með jafnheitt blóð hafi þróast af skriðdýrum með misheitt blóð: „Þetta sker sig núna úr sem ein af stærstu ráðgátum þróunarinnar.“ Hann viðurkenndi einnig að fuglar hefðu „alla hina ófullnægjandi eiginleika beinnar sköpunar“⁠9 — það er að segja ófullnægjandi fyrir þróunarkenninguna.

13. Hvað gera fuglar til að unga út eggjum sínum?

13 Þótt bæði skriðdýr og fuglar verpi eggjum eru það aðeins fuglar sem unga sjálfir út eggjum sínum. Þeir eru sérstaklega búnir til þess. Margar fuglategundir hafa útungunarblett á bringunni, fjaðralausan blett með þéttu æðaneti til að verma eggin. Sumar tegundir hafa ekki tilbúinn útungunarblett en búa hann þá til með því að reyta af sér bringufjaðrirnar. Ef þróun hefði gefið fuglunum þessa hæfni til að unga út eggjum sínum hefði hún einnig þurft að sjá þeim fyrir nýjum eðlishvötum — til hreiðurgerðar, álegu og aðdrátta handa ungunum — og allt er þetta mjög óeigingjörn, fórnfús og tillitssöm hegðun sem krefst færni, mikils dugnaðar og vísvitandi áhættu fyrir fuglana. Allt vitnar þetta um hina gríðarlegu gjá sem skilur á milli skriðdýra og fugla. Þó er enn af mörgu að taka.

14. Hvaða flókna gerð fjaðranna lætur það hljóma ótrúlega að þær hafi þróast af hreisturplötum skriðdýra?

14 Aðeins fuglar hafa fjaðrir. Því er haldið fram að hreisturflögur skriðdýra hafi af tilviljun breyst í þetta tæknilega furðuverk. Út úr fjaðurhryggnum standa tvær raðir af geislum. Út af hverjum geisla ganga síðan margir smágeislar sem hver er með hundruðum króka. Smásjárskoðun á dúfufjöður sýndi að hún hafði „nokkur hundruð þúsund smágeisla og milljónir króka.“⁠10 Þessir krókar halda öllu fjaðurkögrinu saman þannig að það myndar sléttar þekjur, nefndar fanir. Ekkert hefur svifeiginleika á við fuglsfjöður og fá efni hafa meira einangrunargildi en fiður. Fugl á stærð við álft er með um 25.000 fjaðrir.

15. Hvernig snyrta fuglar fjaðrirnar?

15 Ef geislarnir losna í sundur lagar fuglinn þá með nefinu. Um leið og hann rennir goggnum eftir fjöðrinni krækjast krókarnir á smágeislunum saman líkt og tennurnar í rennilási. Flestar fuglategundir hafa olíukirtil við stélrótina þangað sem fuglarnir sækja olíu til að smyrja fjaðrirnar. Í stað olíukirtils hafa einstaka tegundir svonefndan mjöldún en það eru sérstakar fjaðrir sem trosna í endana og mynda við það fínt duft sem fuglinn notar við snyrtingu fjaðranna. Og yfirleitt fella fuglarnir fjaðrir einu sinni á ári og endurnýja fjaðraskrúðið.

16. Hvað sagði þróunarfræðingur um uppruna fjaðranna?

16 Þegar við nú vitum allt þetta um fjöðrina skulum við skoða þessa kyndugu tilraun til að skýra tilurð hennar: „Hvernig þróaðist þetta furðuverk? Ekki þarf mikið hugarflug til að sjá fjöðrina fyrir sér sem lítið eitt breytta hreisturplötu, næstum eins og á skriðdýri — sem langa, fremur laustengda hreisturplötu er trosnaði í jaðrana og breiddi úr sér uns hún þróaðist í þann afarflókna smíðisgrip sem hún er núna.“⁠11 En finnst þér þessi skýring hljóma vísindalega — eða líkist hún meira vísindaskáldskap?

17. Hvernig eru bein fugla frábrugðin beinum skriðdýra?

17 Hugleiðum nánar hvernig fuglar eru úr garði gerðir með tilliti til flugs. Bein fugla eru grönn og hol að innan, ólíkt beinum skriðdýra sem eru þykk og rammger. Flug gerir þó kröfur til styrkleika og því eru bein fugla búin eins konar kraftsperrum hið innra líkt og skástífur eru í flugvélarvæng. Þessi beinagerð gegnir auk þess öðru hlutverki: Hún er mikilvægur þáttur í öndunarkerfi fuglanna — enn einu undrinu sem er einskorðað við fugla.

18. Hvaða kerfi sér fuglum fyrir kælingu á langflugi?

18 Þegar vöðvarnir blaka vængjunum svo klukkustundum eða jafnvel dögum skiptir myndast mikill varmi. Þó að fuglinn hafi ekki svitakirtla til að kæla sig tekst honum að tempra líkamshitann — hann er með loftkældan „hreyfil.“ Út um alla mikilvægustu líkamshlutana, meira að segja inni í holum beinunum, eru svonefndir loftpokar sem kæla líkamann með innri loftræstingu. Loftpokarnir gera fuglinum einnig kleift að vinna súrefni úr loftinu mun betur en nokkurt annað hryggdýr. Hvernig?

19. Hvernig geta fuglar andað í þunnu lofti?

19 Skriðdýr og spendýr draga loft inn í lungun og blása út á víxl líkt og smiðjubelgur. En hjá fuglum fer stöðugur straumur af fersku lofti um lungun, bæði þegar þeir anda að sér og frá. Í einfaldri mynd gerist það þannig: Þegar fuglinn dregur að sér andann fer loftið inn í ákveðna loftpoka. Þeir vinna eins og nokkurs konar smiðjubelgir og þrýsta loftinu inn í lungun. Frá lungunum heldur loftið áfram út í aðra loftpoka og þeir þrýsta því síðan út. Með þessu öndunarkerfi fer stöðugur einstefnustraumur af fersku lofti um lungun, ekki ósvipað og vatn rennur í gegnum svamp. Blóðið í háræðum lungnanna fer í gagnstæða átt við loftstreymið. Þetta gagnstreymi lofts og blóðs gerir öndunarkerfi fuglanna óvenjulegt. Það gerir að verkum að fuglar ná andanum uppi í háloftunum og geta flogið samfleytt svo dögum skiptir í meira en 6000 metra hæð á mörg þúsund kílómetra farflugi sínu.

20. Hvað annað breikkar enn gjána milli fugla og skriðdýra?

20 Það er fleira sem breikkar enn meir gjána milli fugla og skriðdýra. Eitt af því er sjónin. Allt frá erni til skríkju er að finna augu sem starfa líkt og sjónauki og augu sem starfa líkt og stækkunargler. Fuglsaugu eru búin fleiri sjónfrumum en þekkist hjá nokkrum öðrum lifandi verum. Fætur fuglanna eru einnig sérstæðir. Þegar fugl sest á grein læsa sinar tánum sjálfkrafa utan um hana. Og þeir hafa aðeins fjórar tær en skriðdýrin fimm. Þar að auki hafa fuglar engin raddbönd. Þeir hafa hins vegar neðra barkakýli þaðan sem kemur hinn ómfagri söngur fugla líkt og næturgala og hermikráku. Hugleiddu einnig þá staðreynd að skriðdýr eru með þríhólfa hjörtu en fuglar fjórhólfa. Goggurinn greinir fuglana einnig frá skriðdýrum. Sumir goggar eru hnetubrjótar, aðrir sía fæðu úr leðju og vatni, sumir höggva holur í tré og enn aðrir brjóta upp furuköngla — fjölbreytnin virðist endalaus. Og þó er fullyrt að fuglsnefið, sem er svona sérhæft verkfæri, hafi þróast af tilviljun af skriðdýrsskoltum! Þykir þér slík útskýring trúleg?

21. Á hverju sést að öglir getur ekki verið milliliður skriðdýra og fugla?

21 Einu sinni álitu þróunarfræðingar að eðlufugl eða öglir (á latínu Archaeopteryx sem merkir „fornivængur“ eða „fornifugl“) væri einn af hlekkjunum er tengdi saman skriðdýr og fugla. Núna hafa margir fallið frá þeirri skoðun. Steingerðar leifar öglis sýna fullmyndaðar fjaðrir er sátu á vængjum þannig gerðum að þeir voru hæfir til flugs. Beinin í vængjum og leggjum voru grönn og hol að innan. Skriðdýrseinkenni hans, sem svo voru sögð, má finna meðal núlifandi fugla. Og hann var ekki kominn fram á undan fuglunum því að fundist hafa steingervingar annarra fugla í berglögum frá sama tíma og steingervingar öglis.⁠12

Gjáin milli skriðdýra og spendýra

22. Hvaða munur er á skriðdýrum og spendýrum eins og nafnið „spendýr“ ber með sér?

22 Skriðdýr og spendýr eru harla ólík á margan hátt. Nafnið „spendýr“ vekur athygli á einum mun og það stórum, það er að segja spenum og mjólkurkirtlum sem sjá ungviðinu fyrir næringu. Spendýr fæða lifandi afkvæmi. Theodosius Dobzhansky hefur slegið því fram að mjólkurkirtlarnir „gætu verið aðhæfðir svitakirtlar.“⁠13 En skriðdýrin hafa ekki einu sinni svitakirtla. Auk þess gefa svitakirtlar frá sér úrgangsefni, ekki fæðu. Og ólíkt ungum skriðdýranna hefur ungviði spendýra bæði eðlishvöt og vöðva til að sjúga mjólk hjá móður sinni.

23, 24. Hvað annað hafa spendýr til að bera sem skriðdýr hafa ekki?

23 Fleira skilur á milli skriðdýra og spendýra. Spendýr hafa afskaplega margbrotna legköku sem nærir fóstrið meðan það er að vaxa og þroskast. Skriðdýr hafa enga slíka. Spendýr hafa þind sem aðskilur brjósthol og kviðarhol; skriðdýr enga. Cortilíffærið í eyrum spendýra er ekki að finna í eyrum skriðdýra. Þetta agnarsmáa, flókna skynfæri hefur 20.000 stafi og 30.000 taugaenda. Spendýr hafa jafnan líkamshita en skriðdýr ekki.

24 Spendýr hafa auk þess þrjú bein í eyranu en skriðdýr aðeins eitt. Hvaðan komu „aukabeinin“ tvö? Þróunarkenningin reynir að skýra það þannig: Skriðdýr eru með að minnsta kosti fjögur bein í neðri kjálka en spendýr aðeins eitt. Þegar skriðdýr breyttust í spendýr má ætla að beinin hafi stokkast upp; sum af neðri kjálkabeinunum fluttust upp í miðeyra og mynduðu þar beinin þrjú, en aðeins eitt bein varð eftir í neðri kjálka spendýra. Sá galli er þó á röksemdafærslu sem þessari að ekkert það sem steingervingarnir sýna styður hana á nokkurn hátt. Þetta er einungis getgáta byggð á óskhyggju.

25. Nefndu fleira sem er ólíkt með skriðdýrum og spendýrum.

25 Enn má nefna vanda er viðvíkur beinunum: Fætur skriðdýranna eru festir á hliðar búksins þannig að kviðurinn liggur niðri við jörð eða á henni. En spendýr eru með fæturna undir búknum og lyfta honum frá jörðinni. Um þennan mismun sagði Dobzhansky: „Þótt þessi breyting virðist smávægileg hefur hún kallað á umfangsmiklar breytingar á beinagrind og vöðvabyggingu.“ Síðan viðurkenndi hann annan veigamikinn mun á skriðdýrum og spendýrum: „Spendýr hafa mjög háþróaðar tennur. Í stað hinna einföldu tanna skriðdýranna, sem líkjast pinnum, hafa spendýr mjög fjölbreyttar tennur aðhæfðar til þess að bíta, grípa, stinga í gegn, skera, mylja og tyggja.“⁠14

26. Hvernig hefur þróunin orðið að snúast við í sambandi við losun úrgangsefna?

26 Eitt atriði að lokum: Þegar froskdýr eiga að hafa þróast upp í skriðdýr þurftu úrgangsefni þeirra að breytast frá þvagefni í þvagsýru. En þegar skriðdýr urðu að spendýrum snerist dæmið við á ný. Spendýrin hurfu aftur til þess háttarlags froskdýranna að losa sig við úrgangsefni í mynd þvagefnis. Þarna fór þróunin aftur á bak — sem átti ekki að gerast samkvæmt kenningunni.

Stærsta gjáin

27. Hvað sagði þróunarfræðingur myndu vera ‚hörmuleg mistök‘?

27 Líkamlega fellur maðurinn undir almenna skilgreiningu á spendýri. En þróunarfræðingur hefur sagt: „Ekki er hægt að gera hörmulegri mistök en þau að líta á manninn ‚aðeins sem dýr.‘ Maðurinn er einstakur; margvíslegir eiginleikar gera hann ólíkan öllum öðrum dýrum, svo sem mál, erfðavenjur, siðmenning og eins hve gríðarlega langan tíma vöxtur hans og umönnun foreldranna tekur.“⁠15

28. Hvernig veitir heili mannsins honum sérstöðu?

28 Heili mannsins veitir honum sérstöðu meðal allra sköpunarvera jarðarinnar. Upplýsingamagnið, sem geymt er í um 100 milljörðum taugafrumna mannsheilans, myndi fylla um 20 milljónir bóka! Hæfileikinn til óhlutbundinnar hugsunar, og til að tala, myndar skörp skil milli mannsins og allra dýra, og hæfileikinn til að safna og skrásetja þekkingu er einn af athyglisverðustu eiginleikum hans. Beiting þessarar þekkingar hefur gert honum kleift að skara langt fram úr öllum öðrum lífverum jarðar — jafnvel að ferðast til tunglsins og heim aftur. Eins og vísindamaður komst að orði er mannsheilinn „ólíkur öllu öðru í hinum þekkta alheimi og óendanlega flóknari en það allt.“⁠16

29. Hvað gerir gjána milli manna og dýra þá mestu í lífríkinu?

29 Siðferðilegt og andlegt gildismat mannsins á líka sinn þátt í að bilið milli manna og dýra er stærsta gjáin. Það má rekja til eiginleika svo sem kærleika, réttlætiskenndar, visku, máttar og miskunnsemi. Að þessu er vikið í 1. Mósebók þegar hún segir að maðurinn hafi verið skapaður ‚eftir Guðs mynd, líkur honum.‘ Gjáin milli manna og dýra er mesta hyldýpisgjá sem fyrirfinnst milli nokkurra lifandi vera. — 1. Mósebók 1:26.

30. Hvað segir steingervingaskráin í raun?

30 Það er því feiknamunur á helstu fylkingum lífríkisins. Breytilegt byggingarlag og líffæri, eðlishvatir og eiginleikar skilja í milli. Er rökrétt að ímynda sér að þessar ólíku lífverur hafi myndast við breytingar sem tilviljun ein réði? Eins og við höfum séð styður steingervingaskráin ekki það sjónarmið. Engir steingervingar finnast sem brúa bilin milli tegundanna. Eins og Hoyle og Wickramasinghe segja: „Millitegundirnar vantar í steingervingaskrána. Núna skiljum við ástæðuna: Það hafa hreint út sagt aldrei verið til neinar millitegundir.“⁠17 Fyrir þá sem eru með opin eyru er vitnisburður steingervinganna skýr og greinilegur: „Bein sköpun.“

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 72]

Engir steingerðir fiskar finnast sem sýna hvernig mjaðmargrind froskdýra hefur þróast.

[Rammi á blaðsíðu 81]

„Ekki er hægt að gera hörmulegri mistök en þau að líta á manninn ‚aðeins sem dýr.‘“

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 73]

Engir hlekkir hafa fundist milli helstu fylkinga lífríkisins. Vísindamaður segir: „Það vantar steingervinga á öllum mikilvægu stöðunum.“

[Myndir]

Þau tímgast öll „eftir sinni tegund“

Fiskur

Froskdýr

Skriðdýr

Fugl

Spendýr

Maður

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 76]

Þróunarfræðingar segja: „Ekki þarf mikið hugarflug til að sjá fjöðrina fyrir sér sem lítið eitt breytta hreisturplötu, næstum eins og á skriðdýri.“ Staðreyndirnar sýna annað.

[Myndir]

Páfagaukur

Paradísarfugl

Páfugl

[Skyringarmynd]

Hryggur

Geislar

Smágeislar

Krókar

[Mynd á blaðsíðu 71]

„Fiskarnir stökkva á dularfullan hátt inn í steingervingaskrána, að því er virðist utan úr tóminu.“

[Mynd á blaðsíðu 72]

Hryggur fiska er afar ólíkur hrygg froskdýra.

[Mynd á blaðsíðu 75]

Fuglar hafa „alla hina ófullnægjandi eiginleika beinnar sköpunar.“

[Mynd á blaðsíðu 78]

Auga arnarins starfar líkt og sjónauki en auga skríkjunnar líkt og stækkunargler.

[Mynd á blaðsíðu 79]

Öglir, Archaeopteryx, er enginn hlekkur í þróunarkeðju frá skriðdýri til fugls.

[Mynd á blaðsíðu 80]

Spendýr fæða lifandi afkvæmi sem næra sig á mjólk frá móðurinni.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 82]

„Millitegundirnar vantar í steingervingaskrána . . . Það hafa hreint út sagt aldrei verið til neinar millitegundir.“

Fiskur

Froskdýr

Skriðdýr

Fugl

Spendýr

Maður

[Myndir/Skyringarmynd á blaðsíðu 74]

Hlaupkennd egg froskdýranna hafa enga skurn.

Egg skriðdýra eru umlukin verndarskurn.

[Skýringarmynd]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Þverskurðarmynd af eggi með skurn.

þvagbelgur

fóstur

skurn

hvíta

líknarbelgur

æðabelgur

rauða

loftrúm

skjall