Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fögnum í voninni

Fögnum í voninni

Fögnum í voninni

„Þar er vonin um eilíft líf sem sá Guð, sem aldrei lýgur, hefur heitið frá eilífð.“ – TÍT. 1:2.

TIL UPPRIFJUNAR

Hvernig vitum við að það er fögnuður á himni þegar andasmurður þjónn Guðs er ráðvandur allt til dauða?

Hvernig er von annarra sauða tengd von hinna andasmurðu?

Hvað merkir það að lifa „heilögu og guðrækilegu lífi“ og af hverju er það nauðsynlegt ef við viljum sjá vonina rætast?

1. Hvernig getur vonin, sem Jehóva hefur gefið, gert okkur þolgóð?

JEHÓVA er „Guð vonarinnar“. Þannig komst Páll postuli að orði og bætti við að Jehóva gæti ,fyllt okkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að við verðum auðug að voninni í krafti heilags anda‘. (Rómv. 15:13) Ef við erum auðug að voninni getum við sýnt þolgæði með fögnuði og friði í hjarta við erfiðar aðstæður. Von hinna andasmurðu er eins og „akkeri fyrir sálina, traust og öruggt“, og það á líka við um aðra þjóna Guðs. (Hebr. 6:18, 19) Þegar stormar geisa í lífi okkar getum við haldið fast í vonina. Þá berumst við ekki afleiðis. Við förum hvorki að efast né missum trúna. – Lestu Hebreabréfið 2:1; 6:11.

2. Hvaða ólíku von eiga þjónar Guðs en af hverju hafa aðrir sauðir áhuga á von hinna andasmurðu?

2 Allir þjónar Guðs nú á tímum hafa von. Þeir sem eftir eru á jörðinni af ,lítilli hjörð‘ andasmurðra þjóna Guðs eiga von um ódauðleika á himnum og um að verða konungar og prestar með Kristi í ríki hans. (Lúk. 12:32; Opinb. 5:9, 10),Aðrir sauðir‘ eru mun fjölmennari. Þeir eru „mikill múgur“ og eiga von um að lifa að eilífu í paradís á jörð og verða þegnar Messíasarríkisins. (Opinb. 7:9, 10; Jóh. 10:16) Þeir mega aldrei gleyma að hjálpræði þeirra veltur á því að þeir styðji dyggilega andasmurða bræður Krists sem enn eru á jörðinni. (Matt. 25:34-40) Hinir andasmurðu öðlast laun sín, en von annarra sauða rætist jafn örugglega. (Lestu Hebreabréfið 11:39, 40.) Skoðum fyrst von hinna andasmurðu.

LIFANDI VON HINNA ANDASMURÐU

3, 4. Hvernig endurfæðast hinir andasmurðu „til lifandi vonar“ og hver er þessi von?

3 Pétur postuli skrifaði tvö bréf til andasmurðra þjóna Guðs og kallaði þá ,hina útvöldu‘. (1. Pét. 1:1) Hann lýsti í smáatriðum unaðslegri von litlu hjarðarinnar. Hann skrifaði í fyrra bréfinu: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum. Kraftur Guðs varðveitir yður sem trúið til þess að þér öðlist hjálpræðið sem albúið bíður þess að opinberast á efsta degi. Fagnið því.“ – 1. Pét. 1:3-6.

4 Jehóva hefur valið ákveðinn fjölda kristinna manna til að stjórna með Kristi á himnum. En fyrst þurfa þeir að endurfæðast sem andagetnir synir Guðs. Þeir eru smurðir heilögum anda til að verða konungar og prestar og ríkja með Kristi. (Opinb. 20:6) Pétur segir að við endurfæðinguna öðlist þeir lifandi von sem hann kallar „óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð“ og er geymd fyrir þá „á himnum“. Hinir andasmurðu hafa vissulega ástæðu til að fagna í þessari lifandi von. Hún rætist þó aðeins ef þeir eru trúfastir.

5, 6. Hvers vegna þurfa hinir andasmurðu að kosta kapps um að gera himneska köllun sína vissa?

5 Í síðara bréfi sínu hvatti Pétur hina andasmurðu til að ,kosta kapps um að gera köllun sína og útvalningu vissa‘. (2. Pét. 1:10) Þeir þurfa að leggja sig fram við að þroska með sér góða eiginleika eins og trú, guðrækni, bróðurelsku og kærleika. Pétur sagði: „Ef þið hafið þetta til að bera og vaxið í því verðið þið hvorki iðjulaus né . . . ávaxtalaus.“ – Lestu 2. Pétursbréf 1:5-8.

6 Andagetnir safnaðaröldungar í Fíladelfíu í Litlu-Asíu fengu eftirfarandi boð frá Kristi: „Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína.“ (Opinb. 3:10, 11) Andasmurðum þjónum Guðs, sem eru trúir allt til dauða, stendur til boða að „öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar“. En ef þeir reynast ótrúir öðlast þeir ekki þessa kórónu. – 1. Pét. 5:4; Opinb. 2:10.

INNGANGA Í GUÐSRÍKI

7. Á hvaða unaðslegu von minntist Júdas í bréfi sínu?

7 Um árið 65 skrifaði Júdas, hálfbróðir Jesú, bréf til þeirra „sem Guð . . . hefur kallað“, það er að segja til andasmurðra trúsystkina sinna. (Júd. 1; samanber Hebreabréfið 3:1.) Hann hafði ætlað sér að skrifa þeim bréf um hjálpræðisvonina sem allir andasmurðir þjónar Guðs hafa. (Júd. 3) Hann þurfti hins vegar að fjalla um önnur mikilvæg mál en í lok þessa stutta bréfs minntist hann á unaðslega von hinna andasmurðu. Hann skrifaði: „En Guði, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína lýtalaus í fögnuði, einum Guði sem frelsar oss fyrir Jesú Krist, Drottin vorn, sé dýrð, hátign, máttur og vald frá alda öðli, nú og um allar aldir.“ – Júd. 24, 25.

8. Hvað bendir til þess að það sé fögnuður á himni þegar einhver hinna andasmurðu er ráðvandur allt til dauða, samanber Júdasarbréfið 24?

8 Andasmurðir þjónar Guðs vilja vissulega að hann varðveiti þá hvern og einn frá „hrösun“ og tortímingu. Þeir hafa þá von að Jesús Kristur reisi þá upp frá dauðum og geri þeim kleift að koma fram fyrir Guð í fögnuði sem fullkomnar andaverur. Þegar einhver úr hópi hinna andasmurðu deyr trúfastur á hann örugga von um upprisu. Hann rís upp í ,andlegum líkama‘, óforgengilegur og „í vegsemd“. (1. Kor. 15:42-44) Fyrst það er mikill „fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum“, getum við rétt ímyndað okkur fögnuðinn þegar andagetinn bróðir Krists er ráðvandur allt til dauða. (Lúk. 15:7) Jehóva og trúar andaverur á himni gleðjast með hinum andasmurða þegar hann hlýtur laun sín „í fögnuði“. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:2.

9. Hvernig mun hinum andasmurðu „ríkulega veitast“ innganga í Guðsríki, og hvaða áhrif hefur þessi von á þá sem eru enn á jörðinni?

9 Pétur tók í sama streng og Júdas þegar hann skrifaði hinum andasmurðu. Ef þeir gerðu köllun sína vissa með því að vera trúfastir myndi þeim „ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists“. (2. Pét. 1:10, 11) Kristnir eiginleikar þeirra myndu skína skært þegar þeim ,veittist ríkulega‘ innganga í ríkið á himnum. Orðalagið „ríkulega veitast“ getur einnig gefið til kynna þær miklu blessanir sem bíða þeirra á himnum. Þeir geta verið þakklátir og glaðir þegar þeir horfa um öxl og hugsa til þess að þeir hafi verið trúfastir. Hinir andasmurðu, sem enn eru á jörðinni, sækja styrk í þessa von og gera „hugi [sína] viðbúna“ til verka. – 1. Pét. 1:13.

VONIN SEM AÐRIR SAUÐIR EIGA

10, 11. (a) Hvaða von eiga aðrir sauðir? (b) Hvernig er vonin um líf á jörð tengd Kristi og því að „Guðs börn verði opinber“?

10 Páll postuli skrifaði um þá unaðslegu von sem andagetin „Guðs börn“ eiga – að verða „samarfar Krists“. Síðan minntist hann á dýrmæta von sem Jehóva gefur ótakmörkuðum fjölda annarra sauða. Hann skrifaði: „Sköpunin [mannkynið] vonar og þráir að Guðs börn [hinir andasmurðu] verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.“ – Rómv. 8:14-21.

11 Jehóva gaf mannkyni von þegar hann hét því að frelsa það frá „hinum gamla höggormi“, Satan djöflinum, fyrir atbeina hins fyrirheitna „niðja“. (Opinb. 12:9; 1. Mós. 3:15) Aðalniðjinn var Jesús Kristur. (Gal. 3:16) Með dauða sínum og upprisu gerði Jesús mannkyni kleift að eiga von um frelsun undan áþján syndar og dauða. Þessi von er tengd því að „Guðs börn verði opinber“. Hinir andasmurðu á himnum eru aðrir ,niðjar‘ konunnar. Þeir ,opinberast‘ þegar þeir taka þátt í því með Kristi að eyða illu heimskerfi Satans. (Opinb. 2:26, 27) Það verður til hjálpræðis öðrum sauðum sem koma úr þrengingunni miklu. – Opinb. 7:9, 10, 14.

12. Hvernig er það mannkyni til blessunar að hinir andasmurðu opinberist?

12 Mannkynið öðlast loks hvíld undir þúsund ára stjórn Krists. Þá munu „Guðs börn“ verða „opinber“ með öðrum hætti. Þau verða prestar með Kristi og miðla áhrifum lausnarfórnar hans til mannanna. „Sköpunin“, það er að segja mannkynið, losnar undan áhrifum syndar og dauða þegar Guðsríki hefur tekið völd yfir jörðinni. Hlýðið mannkyn verður smám saman „leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum“. Ef mennirnir verða trúir Jehóva í þúsundáraríkinu og í lokaprófinu sem fylgir í kjölfarið verða nöfn þeirra skráð um eilífð í „lífsins bók“. Þeir öðlast „frelsið í dýrðinni með börnum Guðs“. (Opinb. 20:7, 8, 11, 12) Er það ekki unaðsleg framtíðarvon?

HÖLDUM VONINNI LIFANDI

13. Hverju er það að þakka að við eigum von og hvenær opinberast Kristur?

13 Bréfin tvö, sem Pétur skrifaði, eru hinum andasmurðu og öðrum sauðum hjálp til að halda voninni lifandi. Hann benti á að vonin, sem þeir ættu, væri náð Jehóva að þakka en ekki þeirra eigin verkum. Hann skrifaði: „Verið vakandi. Bindið alla von ykkar við þá náð sem ykkur mun veitast við opinberun Jesú Krists.“ (1. Pét. 1:13) Kristur opinberast þegar hann kemur til að launa trúföstum fylgjendum sínum og fullnægja dómi Jehóva yfir óguðlegum. – Lestu 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.

14, 15. (a) Hvað þurfum við að hafa hugfast ef við ætlum að halda voninni lifandi? (b) Hvaða leiðbeiningar gaf Pétur?

14 Ef við ætlum að halda voninni lifandi þurfum við að hafa hugfast að ,dagur Guðs‘ er nærri og það ætti að hafa áhrif á það hvernig við lifum. Jehóva fjarlægir núverandi stjórnir manna sem eru kallaðar „himnarnir“. Hann eyðir sömuleiðis illu samfélagi manna sem er kallað „jörðin“, ásamt ,frumefnum‘ þess. Pétur skrifaði: „Þannig ber ykkur að lifa . . . og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ – 2. Pét. 3:10-12.

15 Pétur talar um að síðan taki við ,nýr himinn og ný jörð‘, það er að segja stjórn Krists sem kemur í staðinn fyrir stjórnir manna, og nýtt mannfélag sem kemur í stað hins gamla. (2. Pét. 3:13) Pétur tekur síðan skýrt fram hvað við eigum að gera fyrst við væntum nýs himins og nýrrar jarðar. Hann bendir á hvernig við getum haldið voninni lifandi og segir: „Með því að þið nú, þið elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að lifa í friði frammi fyrir honum, flekklaus og vammlaus.“ – 2. Pét. 3:13, 14.

LIFUM Í SAMRÆMI VIÐ VONINA

16, 17. (a) Hvað þurfum við að gera til að lifa „heilögu og guðrækilegu lífi“? (b) Hvernig rætist von okkar?

16 Við þurfum bæði að halda voninni lifandi og lifa í samræmi við hana. Pétur benti á að við ættum að ganga úr skugga um að við lifum eins og Jehóva vill að við gerum. Að lifa „heilögu . . . lífi“ felur í sér að ,hegða sér vel meðal þjóðanna‘ með því að gera það sem er rétt í augum Guðs. (2. Pét. 3:11; 1. Pét. 2:12) Við verðum að ,bera elsku hvert til annars‘. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að varðveita eininguna innan bræðrafélagsins, líka innan heimasafnaðar okkar. (Jóh. 13:35) Að lifa „guðrækilegu lífi“ merkir að við leggjum okkur fram við að halda sambandinu við Jehóva sterku. Það útheimtir meðal annars að við berum fram innihaldsríkar bænir, lesum daglega í Biblíunni, rannsökum efni hennar af áhuga, bæði ein og með fjölskyldunni, og séum dugleg að prédika „fagnaðarerindið um ríkið“. – Matt. 24:14.

17 Við viljum öll lifa á þann hátt að Jehóva hafi velþóknun á okkur og bjargi okkur þegar þetta illa heimskerfi ,sundurleysist‘. Þá rætist loks von okkar, „vonin um eilíft líf sem sá Guð, sem aldrei lýgur, hefur heitið frá eilífð“. – Tít. 1:2.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 22]

Andasmurðir þjónar Guðs endurfæðast „til lifandi vonar“.

[Mynd á bls. 24]

Haldið voninni lifandi sem fjölskylda.