Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er einhver von um að barn, sem deyr í móðurkviði, hljóti upprisu?

Þeim sem hafa aldrei misst barn með þessum hætti getur reynst erfitt að setja sig í spor þeirra sem hafa gert það. Sumir foreldranna syrgja börn sín ákaflega. Móðir nokkur varð fyrir slíkum missi fimm sinnum. Seinna eignaðist hún tvo heilbrigða syni og gladdist innilega yfir því. En hún gleymdi aldrei hvernig það var að missa börnin. Allt til æviloka vissi hún nákvæmlega aldur barnanna hefðu þau lifað. Hafa þjónar Guðs, sem verða fyrir slíkum missi, ástæðu til að vona að þeir fái börnin sín aftur í upprisunni?

Einfaldasta svarið við þessari spurningu er að við vitum það ekki. Í Biblíunni er hvergi talað berum orðum um upprisu fósturs sem deyr eða barns sem fæðist andvana. Þar er þó að finna meginreglur sem varpa ljósi á þetta mál og geta veitt einhverja huggun.

Lítum á tvær spurningar sem tengjast þessu. Hvenær hefst líf mannsins í augum Jehóva — við getnað eða fæðingu? Og hvaða augum lítur Jehóva ófætt barn — sem einstakling eða sem samsafn af frumum og vefjum í móðurkviði? Finna má skýrt svar við báðum spurningunum í Biblíunni.

Í Móselögunum kom glöggt fram að lífið hefjist ekki við fæðingu heldur miklu fyrr. Þar var sagt að sá sem yrði fóstri að bana gæti kallað yfir sig dauðarefsingu. Í lögunum stóð: „Skaltu láta líf fyrir líf.“ * (2. Mós. 21:22, 23) Ófætt barn í móðurkviði er því lifandi einstaklingur. Milljónir þjóna Guðs hafa skilið þennan eilífa sannleika og hafnað því að láta eyða fóstri. Þeir vita að fóstureyðing er alvarleg synd gegn Guði.

Hið ófædda barn er því augljóslega lifandi vera en hvers virði er það í augum Jehóva? Lögmálið, sem vitnað var í hér á undan, krafðist þess að fullorðinn einstaklingur yrði tekinn af lífi ef hann yrði ófæddu barni að bana. Það er því ljóst að líf ófædds barns er mikils virði í augum Guðs. Fjölmörg vers í Biblíunni sýna auk þess fram á að Jehóva lítur á ófædd börn sem einstaklinga. Davíð konungi var til dæmis blásið í brjóst að segja um Jehóva: „Þú hefur . . . ofið mig í móðurlífi . . . Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni, ævidagar mínir voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína.“ — Sálm. 139:13-16; Job. 31:14, 15.

Jehóva sér einnig að ófædd börn hafa ólíka eiginleika og geta átt mikla möguleika. Þegar Rebekka, eiginkona Ísaks, gekk með tvíbura bar Jehóva fram spádóm um drengina tvo sem spörkuðust á í kviði hennar. Það gefur til kynna að Jehóva hafi þá þegar séð hjá drengjunum einkenni sem myndu hafa langvinn áhrif. — 1. Mós. 25:22, 23; Rómv. 9:10-13.

Frásagan af Jóhannesi skírara er líka athyglisverð. Í Lúkasarguðspjalli segir: „Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda.“ (Lúk. 1:41) Þegar læknirinn Lúkas lýsti þessu atviki notaði hann grískt orð sem getur bæði merkt fóstur og nýfætt barn. Hann notaði sama orð þegar hann talaði um Jesú sem ungbarn í jötu. — Lúk. 2:12, 16; 18:15.

Gefur Biblían okkur tilefni til að gera mikinn greinarmun á barni í móðurkviði og barni sem dregið hefur andann í fyrsta sinn? Svo virðist ekki vera. Og það er í samræmi við vísindarannsóknir. Vísindamenn hafa til dæmis uppgötvað að barn í móðurkviði getur skynjað og brugðist við því sem gerist fyrir utan. Því er ekki að furða að þunguð kona skuli mynda náin og sterk tengsl við barnið sem vex í kviði hennar.

Börn fæðast eftir mislanga dvöl í móðurkviði. Veltu fyrir þér eftirfarandi: Móðir fæðir lifandi barn fyrir tímann en barnið deyr eftir nokkra daga. Önnur móðir ber barn sitt undir belti allan meðgöngutímann en síðan deyr barnið rétt fyrir fæðingu. Hefur fyrri móðirin von um að barnið sitt hljóti upprisu eingöngu vegna þess að það fæddist af tilviljun fyrir tímann en seinni móðirin ekki?

Ef við drögum þetta saman sjáum við að Biblían kennir greinilega að lífið hefjist við getnað og að Jehóva líti á ófætt barn sem dýrmætan einstakling. Í ljósi þessara biblíusanninda gæti sumum fundist órökrétt að halda því fram að barn, sem deyr í móðurkviði, hljóti ekki upprisu. Þeim gæti jafnvel fundist slík rökfærsla veikja biblíulega afstöðu okkar til fóstureyðinga en hún byggist að mestu leyti á þessum sömu sannindum.

Á liðnum árum hafa í þessu tímariti birst spurningar um upprisu ófæddra barna og með hvaða hætti hún yrði framkvæmd. Í þeirri umræðu virðist hafa verið dregið í efa að slík upprisa gæti átt sér stað. Myndi Guð til dæmis flytja líf lítils fósturvísis í móðurkvið konu í paradís? En með frekari rannsókn, hugleiðingu og bæn hefur hið stjórnandi ráð komist að þeirri niðurstöðu að slíkar vangaveltur varða upprisuvonina ekki neitt. Jesús sagði: „Guði er ekkert um megn.“ (Mark. 10:27) Reynsla Jesú bar sannarlega vitni um það því að líf hans var flutt frá himnum inn í móðurkvið ungrar meyjar. Frá mannlegum bæjardyrum séð átti ekki að vera hægt að framkvæma slíka aðgerð.

Merkir þetta þá að Biblían kenni að börn, sem deyja fyrir fæðingu, hljóti upprisu? Við leggjum áherslu á að hvergi í Biblíunni er að finna afdráttarlaust svar við þessari spurningu og því er ástæðulaust að mynda sér fasta skoðun. Þetta mál er þess eðlis að það getur vakið upp ótal spurningar. Best er þó að forðast allar getgátur. Eitt vitum við fyrir víst: Málið er í höndum Jehóva Guðs sem er gæskuríkur og miskunnsamur. (Sálm. 86:15) Hann þráir heitt að gera að engu það tjón sem dauðinn hefur valdið og beitir til þess upprisunni. (Job. 14:14, 15) Við megum vera viss um að hann geri alltaf það sem er rétt. Þegar hann segir syni sínum að „brjóta niður verk djöfulsins“ mun hann græða öll þau sár sem við höfum hlotið í þessum illa heimi. — 1. Jóh. 3:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Þessi vers eru stundum þýdd þannig að ætla mætti að það væri eingöngu dauði móðurinnar sem kallaði á dauðarefsingu. En í hebreska frumtextanum má sjá að lagaákvæðið fjallaði um skaða sem olli dauða annaðhvort móðurinnar eða ófædda barnsins.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Jehóva á eftir að græða öll okkar sár.