Fyrsta Mósebók 25:1–34

25  Abraham tók sér aftur konu. Hún hét Ketúra.  Hún ól honum Simran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa.  Joksan eignaðist Séba og Dedan. Afkomendur Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar.  Synir Midíans voru Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir voru afkomendur Ketúru.  Abraham gaf Ísak allar eigur sínar  en sonunum sem hann átti með hjákonum sínum gaf hann gjafir. Síðan, meðan hann var enn á lífi, sendi hann þá austur á bóginn, til Austurlanda, burt frá Ísak syni sínum.  Ævidagar Abrahams urðu 175 ár.  Þá gaf Abraham upp andann. Hann dó í hárri elli eftir langa og góða ævi og safnaðist til fólks síns.*  Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli á landareign Hetítans Efrons Sóharssonar í nágrenni við Mamre, 10  landareigninni sem Abraham keypti af afkomendum Hets. Þar var Abraham jarðaður hjá Söru konu sinni. 11  Eftir dauða Abrahams blessaði Guð Ísak son hans en hann bjó í grennd við Beer Lahaj Róí. 12  Þetta er saga* Ísmaels Abrahamssonar sem Hagar, hin egypska þjónustustúlka Söru, ól Abraham: 13  Þetta eru synir Ísmaels eftir nöfnum þeirra og ættum: Frumburður Ísmaels var Nebajót. Síðan fæddust Kedar, Adbeel, Míbsam, 14  Misma, Dúma, Massa, 15  Hadad, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma. 16  Þetta voru synir Ísmaels og nöfn þeirra eftir byggðum þeirra og tjaldbúðum,* 12 höfðingjar 12 ættflokka. 17  Ísmael lifði í 137 ár. Þá gaf hann upp andann og safnaðist til fólks síns.* 18  Afkomendur hans tóku sér bólfestu á svæðinu frá Havíla skammt frá Súr, sem er nálægt Egyptalandi, og allt til Assýríu. Hann settist að nálægt öllum bræðrum sínum.* 19  Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar: Abraham eignaðist Ísak. 20  Ísak var fertugur þegar hann giftist Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan Aram, systur Labans hins arameíska. 21  Ísak bað oft og innilega til Jehóva fyrir konu sinni því að hún gat ekki eignast börn. Jehóva bænheyrði hann og Rebekka kona hans varð barnshafandi. 22  En synirnir tókust á í kviði hennar. Hún sagði þá: „Ef þetta verður svona, til hvers ætti ég þá að lifa?“ Og hún leitaði svars hjá Jehóva. 23  Jehóva svaraði henni: „Þú gengur með tvær þjóðir og tveir þjóðflokkar munu kvíslast úr kviði þínum. Annar verður sterkari en hinn og sá eldri mun þjóna þeim yngri.“ 24  Þegar tíminn kom að hún skyldi fæða kom í ljós að þetta voru vissulega tvíburar. 25  Sá fyrri kom í heiminn, allur rauður og loðinn eins og loðfeldur. Þess vegna var hann nefndur Esaú.* 26  Síðan kom bróðir hans í ljós og hann hélt um hælinn á Esaú. Hann fékk því nafnið Jakob.* Ísak var sextugur þegar þeir fæddust. 27  Drengirnir uxu úr grasi. Esaú varð fær veiðimaður og naut þess að vera úti á veiðum en Jakob var rólyndur og ljúfur* og hélt sig við tjöldin. 28  Ísak elskaði Esaú því að hann færði honum villibráð í matinn en Rebekka elskaði Jakob. 29  Eitt sinn, þegar Jakob var að sjóða baunarétt, kom Esaú heim af veiðum og var dauðþreyttur. 30  Esaú sagði þá við Jakob: „Gefðu mér undireins af rauðu kássunni þarna* því að ég er dauðþreyttur.“* Þess vegna var hann kallaður Edóm.* 31  „Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn,“ svaraði Jakob. 32  „Ég er að dauða kominn!“ sagði Esaú. „Hvaða gagn hef ég þá af frumburðarréttinum?“ 33  „Sverðu mér fyrst eið,“ sagði Jakob. Esaú sór honum þá eið og seldi Jakobi frumburðarrétt sinn. 34  Jakob gaf Esaú brauð og linsubaunakássu og hann át og drakk, stóð upp og fór. Þannig vanvirti Esaú frumburðarréttinn.

Neðanmáls

Ljóðræn lýsing á dauðanum.
Eða „ættartala“.
Eða „víggirtum búðum“.
Ljóðræn lýsing á dauðanum.
Eða hugsanl. „Hann átti í fjandskap við alla bræður sína“.
Sem þýðir ‚loðinn‘.
Sem þýðir ‚sá sem grípur um hælinn; sá sem tekur stöðu annars‘.
Eða „var óaðfinnanlegur“.
Orðrétt „þessu rauða, þessu rauða þarna“.
Eða „banhungraður“.
Sem þýðir ‚rauður‘.