Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnar útfarir virðulegar, látlausar og Guði þóknanlegar

Kristnar útfarir virðulegar, látlausar og Guði þóknanlegar

Kristnar útfarir virðulegar, látlausar og Guði þóknanlegar

SORGARHLJÓÐ heyrast alls staðar. Syrgjendur, klæddir sérstökum svörtum flíkum, kveina hástöfum og kasta sér í jörðina. Dansarar vagga við taktfasta tónlist. Aðrir borða og fagna með hlátrasköllum og glaðværð. Ofgnótt er af pálmavíni og bjór og nokkrir liggja í vímu á jörðinni. Hvert er tilefnið? Í sumum heimshlutum er þetta einkennandi fyrir útfarir þar sem hundruð manna safnast saman til að kveðja hinn látna.

Margir vottar Jehóva búa í samfélögum þar sem ættingjar og nágrannar eru mjög hjátrúarfullir og hræddir við hina dánu. Milljónir manna trúa því að þegar einhver deyr verði hann að forfeðraanda sem geti haft áhrif á hina lifandi, annaðhvort til góðs eða ills. Þessi trú er samofin alls konar útfararsiðum. Að sjálfsögðu er eðlilegt að syrgja látinn einstakling. Jesús og lærisveinar hans syrgðu ástvini sína. (Jóh. 11:33-35, 38; Post. 8:2; 9:39) En þeir sýndu aldrei þau ýktu sorgarviðbrögð sem algeng voru á þeirra dögum. (Lúk. 23:27, 28; 1. Þess. 4:13) Af hverju ekki? Ein ástæðan er sú að þeir þekktu sannleikann um dauðann.

Biblían segir skýrt og skorinort: „Þeir sem lifa vita að þeir eiga að deyja en hinir dauðu vita ekki neitt . . . Bæði ást þeirra, hatur og öfund, það er fyrir löngu farið . . . í dánarheimum [sameiginlegri gröf mannkyns], þangað sem þú ferð, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Préd. 9:5, 6, 10) Í þessum innblásnu biblíuversum kemur skýrt fram að hinir dánu hafa enga meðvitund. Þeir geta ekki hugsað, fundið til, tjáð sig eða skilið neitt. Hvaða áhrif ættu þessi mikilvægu biblíusannindi að hafa á kristnar útfarir?

„Snertið ekki neitt óhreint“

Vottar Jehóva taka alls ekki þátt í neinum siðvenjum sem tengjast þeirri trú að hinir dánu hafi meðvitund og geti haft áhrif á hina lifandi. Þetta gera þeir óháð þjóðerni sínu eða menningarlegum uppruna. Siðir á borð við líkvökur, útfarargleðskap, útfararafmæli og fórnargjafir handa dánum eru allir óhreinir og Guði vanþóknanlegir því að þeir tengjast þeirri óbiblíulegu kenningu Satans að sálin eða andinn deyi ekki. (Esek. 18:4, Biblían 1981) Hið sama er að segja um ýmsa siði sem ætlast er til að maki hins látna fylgi. Sannkristnir menn geta ekki „tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda“ og því koma þeir ekki nálægt þessum siðvenjum. (1. Kor. 10:21) Þeir fylgja hvatningunni: „Skiljið ykkur frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“ (2. Kor. 6:17) En það er ekki alltaf auðvelt að taka slíka afstöðu.

Í Afríku og víðar er sú trú útbreidd að andar forfeðranna móðgist ef vissum siðvenjum er ekki fylgt. Það er álitið alvarlegt brot sem gæti kallað bölvun eða ógæfu yfir allt samfélagið. Margir þjónar Jehóva hafa verið gagnrýndir, smánaðir og þeim útskúfað úr samfélaginu eða stórfjölskyldunni vegna þess að þeir neituðu að taka þátt í óbiblíulegum útfararsiðum. Sumir hafa verið sakaðir um að vera andfélagslegir og sýna hinum dánu óvirðingu. Stundum hefur fólk fyrir utan söfnuðinn tekið útförina í sínar hendur með valdi. En hvernig er hægt forðast árekstra við þá sem heimta að fylgt sé útfararsiðum sem eru Guði vanþóknanlegir? Og það sem mikilvægara er, hvernig er hægt að halda sér frá óhreinum siðum og venjum sem geta skaðað samband manns við Jehóva?

Útskýrðu afstöðu þína

Í sumum heimshlutum er hefð fyrir því að fjarskyldir ættingjar og ættarhöfðingjar eigi þátt í að skipuleggja útför. Trúfastir kristnir menn verða að koma því skýrt á framfæri að útförin verði skipulögð og haldin af vottum Jehóva og í samræmi við meginreglur Biblíunnar. (2. Kor. 6:14-16) Það sem á sér stað við kristna útför ætti ekki að særa samvisku trúsystkina eða hneyksla þá sem vita hverju við trúum og hvað við kennum um ástand hinna dánu.

Þegar fulltrúi safnaðar Votta Jehóva er beðinn að sjá um útför geta safnaðaröldungar komið með gagnlegar tillögur og veitt aðstoð til að tryggja að allar ráðstafanir séu í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Ef einhverjir fyrir utan söfnuðinn vilja viðhafa óhreinar siðvenjur við útförina er mikilvægt að vera ákveðinn og hugrakkur og útskýra kristna afstöðu okkar á vingjarnlegan og nærgætinn hátt. (1. Pét. 3:15) En hvað ef ættingjar fyrir utan söfnuðinn heimta samt að viðhafðar séu óhreinar siðvenjur við útförina? Þá gætu þeir sem eru í söfnuðinum ákveðið að draga sig í hlé og vera ekki viðstaddir jarðarförina. (1. Kor. 10:20) Við slíkar aðstæður mætti halda einfalda minningarathöfn í ríkissalnum eða á öðrum hentugum stað til að þeir sem syrgja látinn ástvin geti notið þeirrar „uppörvunar sem ritningarnar gefa“. (Rómv. 15:4) Þótt lík hins látna sé ekki á staðnum er þessi ráðstöfun virðuleg og fyllilega viðeigandi. (5. Mós. 34:5, 6, 8) Afskipti þeirra sem eru fyrir utan söfnuðinn geta valdið aðstandendum meiri streitu og sorg en ella. En það er hughreystandi að vita að Guð getur gefið okkur ‚kraftinn mikla‘. Það fer ekki fram hjá honum ef við erum staðráðin í því að gera það sem er rétt. — 2. Kor. 4:7.

Gerðu skriflega grein fyrir afstöðu þinni

Þegar einstaklingur er búinn að skrifa niður hvernig hann vilji að útför sinni verði háttað er mun auðveldara að rökræða við ættingja utan safnaðarins. Líklegt er að þeir virði óskir hins látna. Mikilvægt er að taka fram skriflega hvernig útförinni verði háttað, hvar hún verði haldin og hverjir einir hafi umboð til að skipuleggja hana og halda. (1. Mós. 50:5) Undirritað og vottfest skjal er áhrifaríkast. Þeir sem sýna fyrirhyggju og visku byggða á meginreglum Biblíunnar vita að þeir þurfa ekki að bíða með að gera slíkar ráðstafanir þar til þeir eru orðnir mjög gamlir eða komnir með banvænan sjúkdóm. — Orðskv. 22:3; Préd. 9:12.

Sumum hefur fundist óþægilegt að setja slík fyrirmæli niður á blað. En það er merki um kristinn þroska og umhyggju fyrir öðrum. (Fil. 2:4) Það er mun betra að ganga frá þessum málum sjálfur en að láta það hvíla á sorgmæddum ættingjum sem gætu vegna þrýstings samþykkt óhreinar siðvenjur sem hinn látni trúði hvorki á né hefði sætt sig við.

Hafðu útförina látlausa

Víða í Afríku er það útbreidd trú að jarðarför verði að vera fjölmenn og tilkomumikil svo að andar forfeðranna reiðist ekki. Aðrir nota útfarir til að stæra sig af þjóðfélags- eða fjárhagsstöðu sinni. (1. Jóh. 2:16) Miklum tíma, kröftum og fjármunum er varið til að tryggja að hinn látni fái „almennilega“ útför. Útförin er auglýst opinberlega til að laða að eins marga og hægt er og stór veggspjöld með myndum af hinum látna eru hengd upp hér og þar. Búnir eru til stuttermabolir með mynd af hinum látna og þeim er dreift svo að syrgjendur geti klæðst þeim. Íburðarmiklar og dýrar líkkistur eru keyptar til að vekja hrifningu annarra. Í einu Afríkulandi ganga sumir svo langt að búa til líkkistur sem líkjast bílum, flugvélum, bátum og öðrum hlutum. Þetta á að lýsa auðlegð, tign og munaði. Líkið er stundum tekið úr kistunni og lagt á rúm sem búið er að skreyta. Kona gæti verið klædd í hvítan brúðarkjól, líkið farðað óhóflega og hlaðið skartgripum og perlufestum. Væri við hæfi fyrir þjóna Guðs að taka þátt í nokkrum slíkum siðvenjum?

Þroskaðir kristnir menn sjá viskuna í því að fara ekki út í sömu öfgar og þeir sem þekkja hvorki meginreglur Guðs né láta sig þær varða. Við vitum vel að óhóf og óbiblíulegar venjur eru „ekki frá föðurnum heldur frá heiminum“ sem líður brátt undir lok. (1. Jóh. 2:15-17) Við þurfum að gæta þess vel að dragast ekki út í ókristilegan samkeppnisanda með því að keppast við að gera betur en aðrir. (Gal. 5:26) Reynslan sýnir að þegar ótti við hina dánu er ríkjandi í menningunni og þjóðlífinu verða útfarir oft fjölmennar, erfitt er að hafa umsjón með þeim og þær fara fljótt úr böndunum. Þegar hinir dánu eru tilbeðnir getur það hæglega ýtt undir óhreina siði. Við slíkar útfarir gæti verið hávær og taumlaus grátur, líkið faðmað, talað beint til þess eins og það væri lifandi og peningar og aðrir hlutir hengdir utan á það. Ef slíkt gerðist við kristna útför myndi það kasta rýrð á nafn Jehóva og þjóna hans. — 1. Pét. 1:14-16.

Þegar við þekkjum sannleikann um ástand hinna dánu gefur það okkur hugrekki til að forðast veraldlega útfararsiði með öllu. (Ef. 4:17-19) Þótt Jesús hafi verið mesti og mikilvægasti maður allra tíma var hann jarðaður á látlausan og einfaldan hátt. (Jóh. 19:40-42) Þeim sem hafa „huga Krists“ finnst engin skömm að því að halda látlausa útför. (1. Kor. 2:16) Einföld og látlaus útför er besta leiðin til að forðast það sem Biblían segir vera óhreint og tryggja að útförin verði virðuleg, smekkleg og sæmandi þeim sem elska Guð.

Er gleðskapur viðeigandi?

Eftir greftrunina gæti verið hefð fyrir því að mikill fjöldi ættingja, nágranna og annarra safnist saman til að halda veislu og dansa við háværa tónlist. Slíkum útfaragleðskap fylgir oft mikil drykkja og siðleysi. Sumir segja að þetta hjálpi þeim að losna við sorgina sem dauðinn veldur. Öðrum finnst þetta bara vera hluti af menningu sinni. Margir trúa því hins vegar að slíkur gleðskapur sé nauðsynlegur útfararsiður sem verði að halda í heiðri til að virða og lofa hinn látna og til að sál hans losni úr fjötrum og sameinist forfeðrum sínum.

Sannkristnir menn sjá viskuna í þessum orðum Biblíunnar: „Betri er hryggð en hlátur því að þegar andlitið er dapurt líður hjartanu vel.“ (Préd. 7:3) Auk þess vita þeir að það er gagnlegt að minna sig á hverfulleika lífsins og upprisuvonina. Og þeir sem eiga náið einkasamband við Jehóva geta sagt: „Betri er dauðadagur en fæðingardagur.“ (Préd. 7:1) Fyrir sannkristna menn er algerlega óviðeigandi að skipuleggja eða vera viðstaddir útfarargleðskap þegar þeir vita að hann tengist andatrú og siðleysi. Auk þess bæri það vott um virðingarleysi fyrir Guði og samvisku trúsystkina að vera í félagsskap þeirra sem taka þátt í slíkum gleðskap.

Leyfðu öðrum að sjá muninn

Við erum innilega þakklát fyrir að þurfa ekki að óttast hina dánu eins og svo margir gera í þessum andlega myrka heimi. (Jóh. 8:32) Þegar við sem erum „börn ljóssins“ tjáum sorg okkar gerum við það á smekklegan og virðulegan hátt sem ber vott um að við séum andlega upplýst. Og upprisuvonin er örugg og mildar sorgina. (Ef. 5:8; Jóh. 5:28, 29) Slík von kemur í veg fyrir ýkt sorgarviðbrögð eins og algeng eru meðal þeirra sem „ekki eiga von“. (1. Þess. 4:13) Hún gefur okkur hugrekki til að taka einbeitta afstöðu með sannri tilbeiðslu og láta ekki ótta við menn ná tökum á okkur. — 1. Pét. 3:13, 14.

Ef við fylgjum meginreglum Biblíunnar trúfastlega gefur það fólki kost á að „sjá muninn á . . . þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. (Mal. 3:18) Því er lofað í Biblíunni að sá tími komi að dauðinn verði ekki framar til. (Opinb. 21:4) Á meðan við bíðum eftir að sjá þetta stórkostlega loforð rætast skulum við kappkosta að vera flekklaus og vammlaus frammi fyrir Jehóva, algerlega aðgreind frá þessum illa heimi og venjum hans sem kasta rýrð á Jehóva. — 2. Pét. 3:14.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Það er viturlegt að setja á blað hvernig við viljum að útför okkar verði háttað.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Útfarir kristinna manna ættu að vera látlausar og virðulegar.